Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þjáning og þjáningar

Passía Mel Gibson hefur hleypt nýju lífi í viðhorf sem eru gömul og ný, nefnilega hluttekningu fólks með pínu Krists. Mér finnst þessi ógurlega samúð með hinum meinta frelsara svolítið sjúk, sérlega í ljósi þess mikill fjöldi manns hefur í gegnum tíðina þurft að kveljast í nafni hans.

Krossfesting er auðvitað viðbjóðsleg aftökuaðferð. Menn sem staursettir voru þurftu jafnvel að hanga þarna sólarhringum saman áður en þeir drápust. Sennilega hafa menn smám saman farið úr liði á báðum öxlum og þyngdaraflið hjálpað til við að gera dvölina á prikinu að viðbjóðslegri kvöl. Í ofanálag hefur líkamsstarfsemin smám saman gengið úr skorðum, þorstinn þjakað og hungrið sverft að.

En Jesús, sem var handtekinn að kvöldi skírdags, var í bítið morguninn eftir sendur frá Heródesi til Pílatusar og í kjölfarið látinn axla krossinn. Svo var hann negldur upp og var dauður á hádegi.

Ansi fljótur að deyja, miðað við flesta aðra.

Og þessa kvalarfulla en skjóta dauðdaga minnast menn með hluttekningu. Halda þessu á lofti sem einhverju svo stórfenglegu að varði allt mannkyn.

En hvað er svona hræðilegt við þetta? Var ekki Kristur sjálfur Guð? Var hann ekki með þessu að taka á sig syndir mannanna? Hefði ekki verið meiri stíll yfir því að gera þetta almennilega, með vikuhangsi á staurnum?

Nei, hann stimplaði sig út eftir tvo tíma og fór í heimsókn til myrkrahöfðingjans. Þar dvaldi hann raunar ekki nema einn og hálfan sólarhring, en reis svo upp í holdinu til að taka að sér æðsta embætti alheimsins.

Hversu mikil fórn er það?

Og vissi hann ekki að í krafti þeirra trúarbragða sem fundin voru upp í kjölfarið yrðu milljónir og aftur milljónir manna pyntaðar, sum fórnarlömbin dögum og vikum saman, og/eða drepnar? Er sú kvöl ekkert umhugsunarefni þeim sem endalaust geta kjökrað yfir pínu Krists, ort um hana kvæðabálka og jarmað um hana í bergmáli guðshúsanna? Hvað t.d. með þessa konu? Á hún ekki mun fremur skilið sorg okkar og samúð, heldur en sá sem dagstund fékk að kenna líkamlegs sársauka fyrir ævilangt djobb í æðstu stöðu?

Dauði Krists var engin dauði, og pína hans var pínött á mælikvarða þjáninga heimsins. Við ættum að eyða föstudeginum langa í að hugleiða hvort okkur sé ekki best að stemma stigu við öllu tilgangslausu ofbeldi og drápum á alvöru fólki, fólki sem á allt sitt undir líkamlegri velferð og hlýtur engar vegtyllur fyrir langvarandi eymd og pínu.

Hættið að væla yfir þessu eina stutta kvalræði og reynið að gera heiminn þannig úr garði að kvöl og eymd séu víðsfjarri. Og þar gildir að betri er sú hönd sem hjálpar en tvær sem spenna greipar í bæn.

Birgir Baldursson 09.04.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Ólafur Tryggvi - 09/04/04 10:23 #

Ég get tekið undir margt af því sem þú segir, Birgir. Fyrir 2000 árum "dó enn eitt góðmennið fyrir góðan málstað", eins og einhver orðaði það. Á hverjum degi gerist eitthvað svipað. Fólk deyr fyrir minni sakir og á hrottalegri máta. Ég tek sérstaklega undir orðin: "Við ættum að eyða föstudeginum langa í að hugleiða hvort okkur sé ekki best að stemma stigu við öllu tilgangslausu ofbeldi og drápum á alvöru fólki, fólki sem á allt sitt undir líkamlegri velferð og hlýtur engar vegtyllur fyrir langvarandi eymd og pínu." Mannskepnan á til ótrúlega grimmd, það ætti ekki að fara fram hjá neinum. Hin hliðin á ljótleikanum er svo fegurðin sem blómstrar á ólíklegustu stöðum, einsog þú hefur réttilega bent á. Hjá utangarðsmönnum í myndum snillingsins John Waters, neðst í viskíglasi Charles Bukowskis eða í hrjúfum ballöðum Nick Caves. Takk fyrir ágætis hugvekjur. Þú bendir á margt sem betur má fara. Þegar þú minnist þeirra sem liggja óbættir hjá garði, tek ég heilshugar undir orð þín. En við verðum þó sennilega seint sammála um krossfestinguna fyrir 2000 árum. Fyrir mér táknar hún miklu meira en fórnardauða.(Það er þó ekki meiningin að ræða það hér.)


balli - 09/04/04 15:55 #

eða kannski að eyða föstudeginum langa í það að krossfesta þig og sjá hversu lengi þú myndir vera lifandi á honum...gleðilega páska!


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 09/04/04 17:36 #

Mér finnst ærin ástæða til að kenna í brjósti um þessa konu. Ég hefði líklega verið lagður á hjól og steglu líka þar sem ég ét ekki venjulegt alisvínakjöt. Pyndingar og píslir sem fólk hefur þurft að þola í gegn um tíðina í nafni trúarinnar eru samt ekki trúnni að kenna og þótt maður kenni í brjósti um Jesú fyrir hans píslir, þá þýðir það ekki að maður eigi ekki eftir neina meðaumkvun fyrir fólk eins og þessa konu. Meðaumkvun er ekki eitthvað sem minnkar eftir því sem maður lætur hana í ljós; það að sýna einum meðaumkvun skerðir ekki meðaumkvunina sem er eftir handa næsta manni sem á hana skilda. Þeir sem ábyrgir eru fyrir pyndingum í katakombum dómkirkna miðalda, eða fyrir blóði drifnum krossferðum, eða fyrir grimmúðlegu "trúboði" eða nornabrennum, eru ekki Jesús og lærisveinarnir. Þeir sem framkvæma verknaðinn eru þeir sem eru sekir; rannsóknarrétturinn og glæpir hans eru ekki glæpir Jesú heldur rannsóknardómaranna og hinnar stofnanavæddu, kaþólsku kirkju. Mér þykir vafasamt að sverta boðskap Jesú með því að spyrða hann saman við glæpamenn og níðinga. Jesús hafði nú þrátt fyrir allt boðskap sem nokkuð er til í, þótt hann hafi ekkert einkaleyfi á honum. Það er til fjöldinn allur af trúarbrögðum sem boðar mannkærleik, fyrirgefningu og svo framvegis, en Jesús er ekkert síðri en aðrir sem halda því fram. Þótt ritningin blandi saman við það þvaðri um guð, má vel hugsa sér að það sé útúrsnúningur, líkingamál eða jafnvel einföldun svo fólk skilji það betur. Þannig að, mín meðaumkvun er með Jesú þótt hann hafi ekki verið sonur guðs, með Elvíru þessari, og með öðrum sem þjást saklausir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/04/04 19:48 #

Mér finnst poíntið í greininni minni alveg fara fram hjá þér. Allur almenningur er daufur fyrir öllum þeim hörmungum og eymd sem dynur yfir heimsbyggðina, telur hana í sumum tilfellum nauðsynlega, t.d. ef koma þarf harðstjóra frá völdum. Á skala alls þessa kvalræðis verður tveggja stunda krosshangs Guðssonarins hreinasti brandari, sér í lagi þar sem hann dó svo ekki heldur fékk æðsta embætti í úniversinum að launum.

Því þykir mér sjúkleg öll þessi tilbeiðsla á örstuttri kvöl hans, þegar menn eru svo alveg til í að afgreiða blákalt fregnir af ómældum hörmungum sem eitthvað nauðsynlegt.

En ég er líka að setja þetta upp eins og hann hafi verið guð en ekki bara maður. Um leið og gengið er út frá hinu síðara verður samúð í garð hans auðvitað eðlileg líka.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 09/04/04 20:20 #

Ef pointið í greininni fór framhjá mér getur verið að það hafi eitthvað með greinina að gera líka en ekki bara mig...

Þess má líka minnast að í dag er ekki bara föstudagurinn langi, heldur er einnig 9. apríl. Þann dag 1948 urðu aðrir og voveiflegri atburðir á svipuðum slóðum, eða rétt sunnan við Jerúsalem: Irgun-hryðjuverkasamtök zíonista myrtu um 350 Palestínumenn, karla, konur og börn, með köldu blóði. Það var gert til að skelfa saklausa Palestínumenn svo þeir flýðu átthaga sína til að forðast sömu örlög. Þessi þjóðernishreinsun, þessi stríðsglæpur, er ljóslifandi í minningu Palestínumanna og annarra araba enn í dag og ennþá eru milljónir flóttamanna í nágrannalöndunum, sem eru afkomendur fólksins sem skelfingu lostið flýði land.


Ólafur Tryggvi - 09/04/04 21:36 #

Ef þú setur þetta upp... "eins og hann hafi verið guð", þá er áherslan á upprisuna, ekki pyntingar og dauða.


Embla - 09/04/04 22:22 #

Mér finnst nú óþarfi að vera að dissa aumingja Jesú og hans pínu þó að það sé fullt af fólki í heiminum sem hefur þjáðst meira og gerir enn. Mér finnst ekki að það eigi að gera lítið úr þjáningum neins bara af því að einhver annar hefur það meira skítt, þá verðum við á endanum bara að finna þann sem hefur það mest skítt af öllum og gefa skít í alla hina. Og ef þú hefur rétt fyrir þér og það er enginn guð þá var Jesú bara góður og saklaus maður sem leið miklar þjáningar fyrir málstað sem hann var ekkert alveg svo viss um sjálfur, og fékk ekkert fyrir það, hvorki heimsókn til himna né hásæti, og í þokkabót hefur fullt af fólki þjáðst í hans nafni sem er örugglega það síðasta sem hann óskaði sér. Gleðilega páska.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/04/04 00:00 #

Enn virðist mér fólk vera að misskilja það hvað ég er að fara. Kannski greinin sé bara svona illa skrifuð :)

Embla: Jesús er sagður hafa komið sem guð til jarðarinnar beinlínis til að láta krossfesta sig. Og ef áherslan á að vera á upprisunni en ekki dauðdaganum, eins og Ólafur Tryggvi bendir á, hví þá allt þetta vol út af dauðdaganum.

Ég byrjaði grein mína á því að vísa til myndar Mel Gibson og nefni einnig óbeint Passíusálmana og annan kveðskap, einmitt til að benda á hve mikil áhersla er lögð á þjáningar þessa guðs, sem einungis var að vinna vinnuna sína. Menn byrja á hverju ári að mæra þessa pínu og kvöl eins guðlegs manns, þegar miklu meiri ástæða ætti að vera til þess að minnast pínu allra hinna.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/04/04 00:05 #

"Og ef þú hefur rétt fyrir þér og það er enginn guð þá var Jesú bara góður og saklaus maður sem leið miklar þjáningar fyrir málstað sem hann var ekkert alveg svo viss um sjálfur, og fékk ekkert fyrir það, hvorki heimsókn til himna né hásæti..."

Einmitt. Hins vegar gráta menn sífellt pínu hans sem sonar Guðs, þegar engin ástæða ætti að vera til þess.

Menn ættu aðeins að sjá ástæðu til að minnast pínu Krists ef þeir ganga út frá því að hann hafi ekki verið guð. En þannig er því einmitt ekki farið.


Ólafur Tryggvi - 10/04/04 02:21 #

Ég geri ráð fyrir að við séum að tala um innri lógik sögunnar...ekki um sannfræði. Að því sögðu:

Það sem mér finnst merkilegast við þessa frásögn er að Guð tók þátt í þeim þjáningum sem menn þurfa að þola. Hann gerðist maður og tók sér stöðu með hinum þjáðu og þeim sem eru utangarðs. Fólki sem Birgir hefur einmitt bent á að gleymist alltof oft. (Samanber greinina um Divine. Ég finn hana ekki. Hvað heitir greinin?) Þannig er Guð ekki hátt upp hafinn, heldur tekur afstöðu...og fyrirgefur. Ef Guð hefði komið, og tekið sér stöðu með þeim sem krossfesta einstaklinga á hverjum degi væri annar fílingur yfir þessu, ekki satt? ;-) (Note bene: Nú erum við að tala um innri lógík sögunnar. Ég læt liggja milli hluta hvort hún sé sönn eða ekki.) Þegar uppi er staðið leynist í mönnum bæði..."sá sem krossfestir" og "sá sem er krossfestur". Innri lógik sögunnar virkar þannig á mig að ég verð að gera mér grein fyrir því að ég er stundum í fyrra hlutverkinu. Föstudagurinn langi er þannig ekki til að vorkenna einhverjum sem hefur verið beyttur rangindum, heldur til áminningar að maður er sjálfur oft í hlutverki gerandans.

Það hefur komið fyrir að maður upplifi þjáningu. Þá segir innri lógik sögunnar að Guð tekur sér stöðu við hlið manns.

Þannig á sagan alltaf að vera spegill, ekki ásökun á hendur einhverjum öðrum. (Note bene aftur: Nú erum við að tala um innri lógík sögunnar. Ég læt liggja milli hluta hvort hún sé sönn eða ekki.)

Upprisan tengist þessu órjúfanlegum böndum. Innri lógik þeirrar sögu veltir maður síðan fyrir sér á sunnudaginn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/04/04 04:11 #

Ætli þetta sé ekki greinin sem þú ert að leita að. Ég tala reyndar ekki um myndir Waters fyrr en í viðbótunum. Eða kannski ertu að meina þessa hér um akróbatrassgatið í Pink Flamingos.

Þetta er ansi falleg og bókmenntaleg skilgreining sem þú kemur þarna með, að kannski sé upprisa Jesú bara táknræn skilaboð um sýnda hluttekningu yfirnáttúruveru á þjáningum mannanna. En sá guð sem þú dregur upp mynd af með slíkri túlkun er í raun valdalaus guð sem hefur þau skilaboð ein til mannanna að sætta sig við eymdina. Þórbergur kallaði þann hugsunarhátt eymdardýrkun í bréfaskriftum sínum til indversks guðspekigúrús sem ég man ekki hvað hét.

En bréfin má finna í Ritgerðum 1 og heitir hið fyrra Heimspeki eymdarinar. Kannski best sé að leggja það til grundvallar í umræðunni hér. Þú ættir að finna þetta á bókasafninu ef þú átt ekki bókina, Ólafur Tryggvi.

Þessi heimsmynd og heimspeki kristninar, að mæra eymdina og gangast upp í henni, hugnast mér ekki. Og allt þetta tilstand í kringum örstutta kvöl guðsins ykkar á fornu aftökutæki er alveg jafn sjúkt í mínum huga þótt þessi fagra Biblíuskýring þín sé tekin inn í dæmið.


Ólafur Tryggvi - 10/04/04 05:02 #

Jú, það hafa ýmsir kallað þetta aumingjadýrkun og ég veit ekki hvað og hvað. Ég ætla ekki út í þá sálma hér. Ég hef þó grun um að meistari Þorbergur hafi viljað hafa kristnina ögn pólítískari. Á móti bendi ég á að kristni hefur stundum fengið pólítíska slagsíðu í höndum velmeinandi manna, bæði til hægri og vinstri. Það hefur yfirleitt endað með hryllingi. p.s. Það sem þú kallar "..að mæra eymdina", kalla ég að sýna hluttekningu. Það hljómar betur. :-)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/04/04 06:48 #

Hluttekning og eymdardekur eru ekki sama fyrirbærið. Sá sem sýnir hluttekningu getur verið fullur af vilja til að reyna að bæta úr eymdinni sem hann horfir upp á. Sá sem ástundar eymdardýrkun hefur ekkert slíkt markmið og sýnist mér á öllu að guðinn þinn sé einn slíkur.

En endilega lestu Þórberg!


Ólafur Tryggvi - 10/04/04 11:22 #

Bendi á ágætis pistil Andra Snæs á baksíðu Fréttablaðsins. Pistillinn má skoða sem innlegg inní þetta spjall okkar. Og já, ég ætla að rifja upp kynni mín af Þorbergi á næstu árum. Kominn tími til.


Ingvar - 26/04/04 21:39 #

þegar þér segið: ,,Vér skulum ofsækja hann, rót ógæfunnar er hjá honum sjálfum að finna!" þá hræðist ógn sverðsins, því að sverðið er refsing syndar. Þá munuð þér komast að raun um, að til er dómur.

Jobsbók. 19.kafli. 28. og 29. vers.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/04/04 21:49 #

Éttann sjálfur, Ingvar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.