Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hugvekja: Glansmyndir

Ég var duglegur að stunda sunnudagaskóla á tímabili í æsku minni. Við systir mín mættum galvösk í söngsalinn í Kársnesskóla hvern einasta sunnudag heila tvo vetur og hlustuðum á sóknarprestinn okkar rambla um náð Jesú Krists og segja spennandi sögur úr Biblíunni. Og það var mikið sungið.

Það sem var þó mest spennandi, og gerði það að verkum að maður vildi helst ekki missa úr nokkurn einasta sunnudag, var að í upphafi hverrar samkomu var úthlutað glansmynd sem maður samviskusamlega límdi inn í þar til gerða bók, eins konar sparimerkjabók barnanna. Ef maður missti úr sunnudag var alveg undir hælinn lagt hvort manni tækist síðar að bjarga sér um myndina frá þeim degi, fyrir nú utan það að vera búinn að missa af sögunni á bak við hana.

Þessa glansmyndasöfnun má reyndar færa yfir í víðara samhengi. Trúin sem boðuð er í kirkjum landsins hefur lítið sem ekkert með andstyggilegt innihald Biblíunnar að gera, heldur er glansmyndum haldið þar á lofti. Og guðfræði nútímans gengur einnig út á þetta og teflir fram glansmyndaskýringum. Ritningin skal vera falleg og góð, hvað sem úrtölumenn tauta og raula. Jesús skal boða mönnum kærleika og birtu, hvað svo sem guðspjallamennirnir sídera í hann beint um hatur á foreldrum sínum, útskúfun í helvíti og þar fram eftir götum.

Glansmynd neyslunnar

Ég kemst með hverju árinu æ meira á þá skoðun að höfuð okkar séu full af svona glansmyndum. Sú er til dæmis mynd þeirra sem hallir eru undir áfengisneyslu að þar sé á ferðinni notaleg iðja sem gefur lífinu gildi. Menn safna dýrum rauðvínstegundum í kjallara og finnst dýrmætt að geta boðið vinum upp á hið rómaða Chateau Gonelsdohjwgaux, stöðugt horfandi fram hjá þeirri staðreynd að innihald flöskunnar er einungis gerjaður berjasafi þar sem mikið fer fyrir eiturefninu etanóli.

Með neyslu þessara dýru tegunda eru menn því eingöngu að koma sér í skammvinnt blizz og níðast um leið á taugakerfi sínu, svo að þeir verða illa upplagðir lengi á eftir, þurfa að búa við pirring, ljósfælni og viðkvæmni fyrir hávaða meðan líkaminn er að jafna sig eftir eitrunina. Það þarf ekki einu sinni mikið til, því einn bjór dugir til að ræna menn hvíld nætursvefnsins, hann veður laus og órólegur.

Það sem þarna er á ferðinni, kalt mat, er snobb fyrir fíkniefni. Menn hjúpa þessa dópneyslu sína glansmyndarumbúðum, sem þeim tekst að gera svo girnilegar að ómissandi verður að upplifa þá rómantík sem allra oftast.

Glansmynd starfsframans

Hver laug því að fólki á framabraut að hlutskipti þess væri eftirsóknarvert? Það sjálft sennilega, því glansmyndin í hausnum heldur fólki helteknu. Til að glöggva sig betur á þessu mætti draga upp mynd af ráðstefnu þar sem fólk úr einhverjum tilteknum bransa hittist og ber saman bækur sínar.

Þessir með glansmyndirnar í hausnum sjá í kringum sig samherja, þrautreynt fólk í bransanum sem bundist hefur vináttuböndum og þeir hlakka til að setjast niður með því og súpa á glasi. Þannig eflir maður viðskiptaböndin við þennan glaðværa félagsskap í notalegu umhverfi með góðan drykk við hendina.

Hver sá sem þarna er staddur án þess að vera upptekinn af starfsframa sínum býr að þeim nöturlega lúxus að sjá hlutina eins og þeir eru, því það sem raunverulega er hér á ferðinni er sundurlaus hópur fólks þar sem menn baktala hver annan, fá útrás fyrir fýsnir sínar í framhjáhaldi frá maka sínum, með beibinu eða hönkinu sem búið er að fantasera með síðan síðast, milli þess sem reynt er í desperasjón að halda andlitinu gagnvart fólki sem er leiðinlegt, því viðskiptasamböndin eru í húfi. Fyrirlitningin skín gegnum gervibrosin sem sett eru upp við komu og ekki tekin niður fyrr en komið er í öruggt skjól.

Fjölskyldufronturinn

Þessa hlið glansmyndarinnar ættum við öll að þekkja mætavel, svo mikið sem fjallað hefur verið um þetta í bókmenntum okkar og leikritun. Á tímabili var varla sýnt svo sjónvarpsleikrit á Íslandi að það fjallaði ekki um ormagryfjuna á bak við fallega fjölskylduframhliðina. Allir alltaf að halda andlitinu.

Ég er ekki frá því að stór partur ormagryfjunnar sé tilkominn einmitt vegna þessarar glansmyndar. Þannig getur verið að höfuð fjölskyldunnar sé svo upptekið við að ríghalda í glansmyndina sem dregin hefur verið upp af fjölskyldunni að lagðar eru óheyrilegar kröfur á aðra innan hennar að hegða sér í samræmi við hana. Ef það gengur ekki eftir þurfa allir að búa við skammir og kýting, því brestir hafa komið í fallega fjölskyldumálverkið hið innra.

Slíkt ástand getur jafnvel í verstu tilfellum kostað ofbeldi, ef einstaklingur glansmyndanna er líka í helgreipum fíkniefnasnobbsins og þar með búinn að fökka upp í sér taugakerfinu.

Hvað er til ráða?

Eins mikið og öll þessi glansmyndagerð nær að plaga heilu þjóðfélögin, þar sem lygi, fals, ofdrykkja, öskur, garg og sorg verða afleiðingarnar, jafnt inni á heimilinu sem og úti í atvinnulífinu þá sýnist mér að aðeins ein lausn sé til - að læra að þekkja glansmyndirnar í eigin haus og uppræta þær. Í þessu felst reyndar fádæma hetjuskapur, svo mjög sem þessar myndir hafa náð að móta allt hugarstarf. Það eru lítil þægindi fólgin í því að þurfa allt í einu að kannast við sjálfan sig eins og maður er, sjá fjölskyldu sína sem það sundurlausa samansafn hræddra einstaklinga sem hún er og vinnufélagana búa að þeim illgirnis-, baknags- og fyrirlitningareiginleikum sem þeir sýna aldrei þegar maður er nálægur.

Eins og guðfræðingarnir munu vakna upp við vondan draum þegar þeir loks leyfa sér að sjá gegnum blekkingarhulu túlkunarfræða sinna munt þú standa frammi fyrir nöturlegum raunveruleika um leið og þér tekst að stilla hlutum eins og rauðvínssötri og ráðstefnuhaldi upp í sitt rétta samhengi. En það er þess virði.

Vísindamenn hafa fundið aðferð til að bæta sjón mannsins úr 100% í 150% með leysiskurðaðgerð. Sá sem lítur veröldina eftir slíka meðferð má búast við að sjá skítuga heim, fullan af ryki, kámi og rispum, töluvert ljótari heim en blekking 100% sjónarinnar veitir okkur. En ef sá heimur er sannari en hinn, skiptir engu máli hve fagur hinn var, heldur ætti að vera kappsmál að sjá hið sanna en um leið að koma auga á fegurðina í ljótleikanum.


Þessi grein birtist áður á bloggi mínu í örlítið annarri mynd og þar spunnust í kjölfarið áhugaverðar umræður.

Birgir Baldursson 04.04.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Ólafur Tryggvi - 04/04/04 17:51 #

Aumasti hégómi, allt er hégómi! Hvaða ávinning hefir maðurinn af öllu striti sínu, er hann streitist við undir sólinni? Ég sagði við sjálfan mig: Jæja þá, reyndu gleðina og njóttu gæða lífsins! En sjá, einnig það er hégómi. Um hláturinn sagði ég: hann er vitlaus! og um gleðina: hverju fær hún til vegar komið? Mér kom til hugar að gæða líkama mínum á víni en hjarta mitt skyldi stjórna öllu viturlega og að halda fast við heimskuna, uns ég sæi, hvað gott væri fyrir mennina að gjöra undir himninum alla ævidaga þeirra. Ég gjörði stórvirki: Ég reisti mér hús, ég plantaði mér víngarða, ég gjörði mér jurtagarða og aldingarða og gróðursetti þar alls konar aldintré, ég bjó mér til vatnstjarnir til þess að vökva með vaxandi viðarskóg, ég keypti þræla og ambáttir, og ég átti heimafædd hjú. Ég átti og meiri hjarðir nauta og sauða en allir þeir, sem verið höfðu á undan mér í Jerúsalem. Ég safnaði mér og silfri og gulli og fjársjóðum frá konungum og löndum, ég fékk mér söngmenn og söngkonur og það sem er yndi karlmannanna: fjölda kvenna. Og ég varð mikill og meiri öllum þeim, er verið höfðu í Jerúsalem á undan mér. Einnig speki mín var kyrr hjá mér. Og allt það sem augu mín girntust, það lét ég eftir þeim. Ég neitaði ekki hjarta mínu um nokkra gleði, því að hjarta mitt hafði ánægju af allri fyrirhöfn minni, og þetta var hlutdeild mín af allri fyrirhöfn minni. En er ég leit á öll verk mín, þau er hendur mínar höfðu unnið, og á þá fyrirhöfn, er ég hafði haft fyrir að gjöra þau, þá sá ég, að allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi, og að enginn ávinningur er til undir sólinni. Ég sneri mér að því að virða fyrir mér speki og flónsku og heimsku, því að hvað mun sá maður gjöra, er kemur eftir konunginn? Hann gjörir það sem menn hafa gjört fyrir löngu. Þá sá ég, að spekin hefir yfirburði yfir heimskuna eins og ljósið hefir yfirburði yfir myrkrið. Vitur maður hefir augun í höfðinu, en heimskinginn gengur í myrkri. Jafnframt tók ég eftir því, að eitt og hið sama kemur fram við alla. Og ég sagði við sjálfan mig: Hið sama sem kemur fram við heimskingjann, það kemur og fram við mig, og til hvers hefi ég þá orðið svo frábærlega vitur? Þá hugsaði ég í hjarta mínu, að einnig það væri hégómi. Því að menn minnast ekki hins vitra að eilífu, frekar en heimskingjans, því að allir verða þeir löngu gleymdir á komandi tímum, og deyr ekki jafnt vitur sem heimskur? Þá varð mér illa við lífið, því að mér mislíkaði það, er gjörist undir sólinni, því að allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi. Og mér varð illa við allt mitt strit, er ég streittist við undir sólinni, með því að ég verð að eftirskilja það þeim manni, er kemur eftir mig. Og hver veit, hvort hann verður spekingur eða heimskingi? Og þó á hann að ráða yfir öllu striti mínu, er ég hefi streitst við og viturlega með farið undir sólinni einnig það er hégómi. Þá hvarf ég að því að láta hjarta mitt örvænta yfir allri þeirri mæðu, er ég hafði átt í undir sólinni. Því að hafi einhver unnið starf sitt með hyggindum, þekking og dugnaði, verður hann að selja það öðrum í hendur til eignar, sem ekkert hefir fyrir því haft. Einnig það er hégómi og mikið böl. Hvað fær þá maðurinn fyrir allt strit sitt og ástundun hjarta síns, er hann mæðist í undir sólinni?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 04/04/04 19:59 #

Það er til siðs að vísa til heimilda þegar maður birtir texta sem ekki er manns eigin. Það gerir Ólafur Tryggvi ekki hér og því spurning hvort þessi athugasemd eigi að fá að standa. Engu máli skiptir þó trúarnöttarar haldi að þessi texti sé á hvers manns vörum, heimilda skal geta.

Það þykir heldur ekki kurteisi að afrita langan texta í athugasemd. Frekar skal taka útdrátt úr textanum og vísa svo á frumgerð textans. Hér hefði Ólafur Tryggvi getað tekið saman kjarna textans og vísað svo á afganginn. Þannig hefði hann bætt einhverju við umræðuna í stað þessa að spamma eins og bjáni án þess að bæta við einu orði.


Ólafur Tryggvi - 04/04/04 21:47 #

Þetta er úr Predikarnum (Gamla testamentið). Annars er þetta rétt hjá þér Matti. Passa mig á þessu næst. Mér fannst svo skemmtilega líkur tónn í þessu og hjá Birgi. Ég tek það fram að ég er sammála mörgu af því sem Birgir segir. Þetta var vel meint.


Bjoddn - 04/04/04 23:05 #

Er Matti á mála hjá Helgu Kress?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 05/04/04 00:23 #

Það skyldi þó aldrei vera :-)

Ég hefði ekki haft neitt út á athugasemd Ólafs Trygga að setja ef hann hefði skellt síðari athugasemd sinni með þeirri fyrri, þ.e.a.s. tekið fram hvaðan textinn kemur og hvernig hann tengist greininni.


Dídí - 08/04/04 01:52 #

ekkert rosalega áhrifaríkt þarna þegar þið segið "Kirst" mætti halda að þið farið ekkert yfir greinarnar.. mér er spurn


Dídí - 08/04/04 02:00 #

ekkert rosalega áhrifaríkt þarna þegar þið segið "Kirst" mætti halda að þið farið ekkert yfir greinarnar.. mér er spurn.

Hvað eiga þessar greinar og spekúleringar annars að gera? Sanna heimsku okkar trúaðra og gera grín að okkur? Lítur þannig út allavega.. þið ættuð að gera svona flokk sem heitir; Af hverju við hötum Kristið fólk.. Það væri flott og myndi örugglega koma vel út.. sammála?


dídí - 08/04/04 02:26 #

afsakið þetta, tölvan var eitthvað að tjá sig hérna.. væntanlega um hatur sitt á Krist hver veit? neinei segi svona


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/04/04 03:59 #

Dídí, hvar kemur fram að við hötum kristið fólk? Dæmi takk!

En takk fyrir ábendinguna um stafaruglið, ég leiðrétti þetta strax. En ef þetta er eina innsláttarvillan þarna þá kalla ég mig góðan :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/04/04 04:06 #

Svo máttu kíkja á þetta.


joi stori - 15/04/04 17:30 #

þið hatið ekki kristið fólk en þið lítið niðrá það og ekki reyna að neita því...


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 15/04/04 18:15 #

Ég játa að ég lít niður á þig...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/04/04 19:05 #

Ég lít ekki niður á trúmenn, öðru nær. Til þess að ég fáist til að líta niður á nokkurn mann verður hann að gera mér eitthvað illt, líkt og göfugi söngvarinn í blogginu mínu :)


Árni Árnason - 04/04/05 13:31 #

þetta er ein af ástæðum þess að ég hef ekki áhuga á að ganga í Vantrú.

Hvað hefur þessi pistill um skelfilegar afleiðingar áfengis ( sem gæti verið eftir Árna Helgason bindindispostula í Stykkishólmi) að gera með Vantrú ? Mér er spurn.

Einu sinni hugleiddi ég að ganga í SARK en þegar forsprakkarnir voru farnir að blanda skoðunum sínum um hvalveiðar inn í skrif sín á heimasíðunni ákvað ég að gera það ekki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/04/05 16:52 #

Ertu ekki eitthvað að misskilja þessa grein? Hún er ekki bindindissiðaboðskapur, ef þú heldur það. Ég er með þessu dæmi aðeins að reyna að fletta hulunni af öllum þeim glansmyndum sem við göngum með í kollinum. Rauðvínsflaska með fallegum miða og smökkunin og seremóníurnar í kringum neysluna verður frekar hjákátlegt atferli þegar maður áttar sig á því að þarna er aðeins um að ræða gerjaðan berjasafa sem inniheldur fíkniefni.

Það er ekkert verið að predika bindindi hérna, heldur aðeins bent á staðreyndirnar bak við glansmyndina.


Árni Árnason - 05/04/05 10:36 #

Hvað með eftirfarandi, úr grein þinni ?

".....stöðugt horfandi fram hjá þeirri staðreynd að innihald flöskunnar er einungis gerjaður berjasafi þar sem mikið fer fyrir eiturefninu etanóli.

Með neyslu þessara dýru tegunda eru menn því eingöngu að koma sér í skammvinnt blizz og níðast um leið á taugakerfi sínu, svo að þeir verða illa upplagðir lengi á eftir, þurfa að búa við pirring, ljósfælni og viðkvæmni fyrir hávaða meðan líkaminn er að jafna sig eftir eitrunina. Það þarf ekki einu sinni mikið til, því einn bjór dugir til að ræna menn hvíld nætursvefnsins, hann veður laus og órólegur."

og "smökkunin og seremóníurnar í kringum neysluna verður frekar hjákátlegt atferli þegar maður áttar sig á því að þarna er aðeins um að ræða gerjaðan berjasafa sem inniheldur fíkniefni."

Ekki bindindissiðaboðskapur ? Þá er ég illa svikinn. Það er álíka sannfærandi og þegar því er haldið fram að ekki sé stunduð trúarítroðsla í skólum.

Það má vel vera að vínsnobbið sé farið að keyra úr hófi fram þegar "Chatóin" eru farin að kosta milljón flaskan, en ég sé bara ekki hvað þetta kemur málinu við.

Heimur hinna veraldlegu gæða er fullur af glansmyndum. Gildir þá einu hvort um er að ræða vín, fatnað, bíla eða hvað sem er annað. Þú tekur vínið út úr og gerir hausverk ofdrykkumannsins að sýnidæmi. Samhengið er óljóst og líkist mest bindindispredikun, í mínum huga.

Með kærri kveðju Árni


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 05/04/05 10:50 #

Ef höfundur greinarinnar væri bindindismaður væri hugsanlega hægt að rangtúlka hana á þann hátt sem Árni leggur sig fram við að gera.

Mér finnst Árni vera að rembast við að finna eitthvað til að vera ósammála.


Árni Árnason - 05/04/05 12:34 #

"Mér finnst Árni vera að rembast við að finna eitthvað til að vera ósammála."

Vel má vera að þetta líti þannig út, sérstaklega þar sem umfjallað atriði er í sjálfu sér aukatriði i grein Birgis.

Kjarni málsins er hins vegar sá samtök sem stofnuð eru um ákveðinn kjarna, verða að gæta sín sérstaklega að halda sig við þann kjarna. Slíkum samtökum er gjarna mikið í mun að afla sér styrks í fjölda fylgjenda, og styrkur þeirra felst í því að eindreginn stuðningur við kjarnamálefnið sé algerlega ótengdur skoðunum manna á öðrum málefnum. Um leið og farið er að draga óskyld málefni,eins og áfengisbindindi, hvalveiðar eða framtíð Reykjavíkurflugvallar inn í umræðuna og reyna að búa til einhverja tengingu við þau, er hætt við að fylgjendur fari að týna tölunni. Ég nefndi að ég hefði alvarlega íhugað að ganga í SARK. Skýr og einföld stefnuskrá var eitthvað sem ég var tilbúinn að skrifa undir. En þegar einhver af höfuðpaurunum fór að nota aðstöðu sína á heimasíðu til að viðra skoðanir sínar á hvalveiðum sá ég að ég hefði ekkert um það að segja sem sett er fram í nafni samtakanna og ákvað að láta það róa. Annað var það nú ekki.

Með vinarkveðju, Árni


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/04/05 15:35 #

Árni, ég geri mér far um að reyna að sjá hlutina fyrir það sem þeir eru, í stað þess að hjúpa þá glossi. Þessi grein snýst um það og þar með um púra efahyggju. Það er ekki rétt hjá þér að ég taki áfengið út úr og hampi því sérstaklega. Það er bara eitt dæmi af nokkrum í greininni.


Árni Árnason - 05/04/05 18:02 #

Efahyggjumenn setja alltaf spurningarmerki við allt sem öðrum finnst sjálfsagt og eðlilegt. Konunni minni finnst ég heimsmeistari í efahyggju sem telur ekkert hafa það verðgildi sem á verðmiðanum stendur. Nú er maður farinn að efa efahyggjumennina.

En þetta er ekki illa meint.

Kveðja Árni


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/04/05 19:21 #

Nú er maður farinn að efa efahyggjumennina.

Hvað ástæðu hefur þú til þess? Var það eitthvað sem ég sagði?


Árni Árnason - 06/04/05 11:52 #

Fyrirgefðu mér Birgir, en þetta síðasta átti nú eiginlega að lýsa mér frekar en þér. Ég er kannski farinn að taka efahyggjuna út í öfgar, a.m.k. segir konan mín það.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.