Í fyrrasumar birtist þessi frétt í Fréttablaðinu:
Fjandinn virðist vera hlaupinn í Dani. Prestar dönsku kirkjunnar fá sífellt fleiri fyrirspurnir frá fólki sem óskar eftir því að þeir reki burt djöfla eða illa anda sem hafa tekið sér bólfestu í manneskjum. Þetta kemur fram í grein sem Jens Ejsing skrifar nýverið í danska blaðið Berlingske Tidende.
Það kemur svo fram í greininni að sumir prestar dönsku kirkjunnar taki beinlínis að sér að reka burtu þetta andahyski í stað þess að reyna að fræða og upplýsa fólk um að hér sé aðeins um gamlar ranghugmyndir að ræða.
Það er sorglegt að sjá hvernig miðaldaleg hjátrúin virðist vera byrjuð aftur að smita upplýst samfélag okkar. Og mikil er ábyrgð prestanna að reyna að viðhalda þeirri villu og miðaldamyrkri sem þjakaði Evrópu í aldaraðir. Þessir menn teljast háskólamenntaðir fræðimenn og ættu að vita betur.
Er það nema von að maður berjist hörðum höndum við að uppræta afgamlar ranghugmyndir fortíðar og benda á hvert hið sanna er í málinu? Trúmálaþvarg er svo sannarlega engin innantóm skemmtun til að iðka í frístundum, heldur grafalvarlegt mál. Nú ríður á að forða því að ríkisreknir fræðimenn séu að toga samfélag okkar aftur í villuhugmyndir fortíðar, ýta undir hjátrú og forheimskun.
Þetta er mál sem við verðum öll að taka á og útrýma þessum ömurlegu hindurvitnum úr samfélagi okkar. Niður með þjóðkirkjuna!
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.