Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Friðarhöfðinginn Kristur

Árið 312 var orrustan við Milvian-brú yfir Tíberfljót. Konstantínus sótti til Rómar en Maxentíus var til varnar. Áður en orrustan hófst sá Konstantínus teikn á himni: Eldlegan kross, sumir segja fangamark Krists, og orðin "IN HOC SIGNO VINCES" - "Undir þessu merki muntu sigra". Í skyndingu var krossmörkum roðið á herklæði og skildi og prímsigndur her Konstantínusar vann orrustuna og varð hann í kjölfarið keisari Rómverja. Minnugur vitrunarinnar lögleiddi Konstantínus kristni sem ríkistrú.

Kristnir menn voru geysimargir og á þeim tæpu 300 árum sem liðin voru frá dauða Jesú hafði þeim fjölgað og fjölgað þrátt fyrir ofsóknir. Hvers vegna voru þeir ofsóttir? Þeir voru ógn við hið ríkjandi skipulag, ógnuðu jafnvægi valdastrúktúrsins. Þeir neituðu að fallast á kné og tilbiðja keisarann og ekki þjónuðu þeir í hernum. Þar sem þeir undirgengust ekki sömu skyldur og aðrir voru þeir ógn við átorítet ríkisvaldsins. Ofsóknirnar dugðu ekki til að kæfa þessa hreyfingu og svo slett sé úr ensku: "if you can't beat 'em, join 'em", þegar ríkisvaldið getur ekki yfirbugað eitthvað innlimar það frekar og aðlagar að valdastrúktúrnum. Það má örugglega nefna 700 dæmi úr sögunni um slíkt. Valdastéttin deilir frekar völdum með öðrum en að láta þau af hendi. Þetta er í raun eitt meginstefið í stéttabaráttunni, ef út í það er farið.

Kristur hafði boðskap sem valdamönnum þóknaðist ekki, hvorki rómverskum né hebreskum. Hann ógnaði klerkavaldinu og valdboðinu, hann barði meira að segja víxlarana með lurki og stökkti þeim út úr musterinu. Hann var krossfestur af því að hann var hættulegur. Það átti eins við þá og nú, sem Gandhi sagði: "Fyrst hunsa þeir þig, síðan hlæja þeir að þér, síðan berjast þeir við þig og síðan vinnur þú." Næstsíðasta atriðið "baráttan" kostaði Jesú reyndar lífið. Sumir segja að hann hafi risið upp á þriðja degi en ég legg nú takmarkaðan trúnað á það. Hitt er annað mál, að fylgismenn hans, uppveðraðir og innblásnir, dreifðu vissulega boðskap hans og því verður ekki neitað, að kristni hefur átt býsna miklu fylgi að fagna síðastliðin 2000 ár.

Ef Jesús hefði ekki verið krossfestur, þá hefði varla verið hægt að segja að hann hefði verið veruleg ógn við ríkið. Krossfestingin var því um leið staðfesting og undirstrikun á því að Jesús meinti það sem hann sagði, að menn trúðu honum til að standa við orð sín, og að boðskapurinn var eldfimur. Í stríðslandi stendur ógn af friðarhöfðingja. Tal spámanna um hershöfðingjann sem mundi koma, um konung gyðinga (sbr. áletrunina "I.N.R.I.") og meira að segja yfirlýsingar Jesú sjálfs, dæmi: ,,Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð." (Matteus, 10:34, sjá Biblíuna). Þetta eru orð sem auðvelt er að misskilja.

Kristnin var ógn við valdastéttir Rómarveldis. Þegar þær gátu ekki yfirbugað kristnina með valdi var hún innlimuð í valdið og jafnvel mætti segja að valdastéttin hafi þá einfaldlega yfirbugað hana innanfrá. Þegar kristni var orðin ríkistrú í Rómarveldi gat hún að sjálfsögðu ekki lengur verið að boða skilyrðislausan frið eða mannkærleika. Sem ríkistrú varð kristni að vera "ábyrgt" trúarbragð, styðja keisarann þegar á þurfti að halda, auk þess sem keisarinn gat farið að berja á heiðingjum í nafni kristninnar og svo framvegis. Kirkjan, sem stofnun, var svipt þyrnikórónu friðarhöfðingjans.

Í Þriðja ríkinu sést glöggt dæmi. Prestar Þriðja ríkisins spiluðu með nasistastjórninni, almennt séð. Altént eru ekki margir þeirra andspyrnumanna sem enn er minnst úr klerkastétt; -- og því rótgrónari sem kirkjudeildin er, þess ólíklegra að viðkomandi klerkur sé heiftúðugur andstæðingur stjórnarinnar. Kaþólska kirkjan er eitthvert afturhaldssamasta afl sem ég þekki til (ég get vottað það á eigin skinni; ég var í kaþólskum barnaskóla!) og starfaði með Mússólíní (sem m.a. veitti Vatíkaninu fullveldi sem ríki og uppskar á móti viðurkenningu hennar), Franco og Hitler; -- ef hún starfaði ekki beint með þeim þá sá hún í gegn um fingur með sitthvað sem þessir menn hefðu betur látið ógert. Með þögninni var hún samsek. Hún veitti þegjandi samþykki sitt. Kaþólskir klerkar fasistaríkja deyja gjarnan á sóttarsæng.

Jesús dó hins vegar ekki á sóttarsæng. Dirfska hans og eldfimar hugmyndir, leiðtogahæfileikar og róttækur boðskapur gerðu hann eð hetju sem menn fylgdu og fórnuðu jafnvel lífinu fyrir. Starf hetjunnar er ekki auðvelt, fáar hetjur hafa tíma til að safna spiki og fáar deyja á sóttarsæng.

Vésteinn Valgarðsson 15.03.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Guðjón Ólafur Eiríksson Öfjörð - 29/03/04 18:55 #

Það má segja að Kaþólksa kirkjan og Þriðja ríkið hafi verið í samstarfi. Nasistarnir notuðu margar áróðurs upplýsingar sem Kaþólikar höfðu notað í gegnum aldirnar gegn gyðingum.


Eva - 15/07/04 00:20 #

Þetta er góð grein hjá þér Vésteinn. Ég mun örugglega fylgjast með þínum skrifum á næstu vikum og mánuðum.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 28/09/04 16:01 #

Nasistarnir notuðu margar áróðurs upplýsingar sem Kaþólikar höfðu notað í gegnum aldirnar gegn gyðingum.

Jamm, það má segja. Kirkjan kvartaði ekki hátt þótt verið væri að slátra gyðingum. Annars held ég að nasistarnir hafi bara verið að spila á aldagamalt hatur og tortryggni kristinna Ev´ropumanna gegn gyðingum. Auðveld bráð, kannski.


Lárus Páll Birgisson - 29/09/04 06:24 #

Mjög góður pistill.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 29/09/04 13:42 #

Takk fyrir það.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.