Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bakaraofninn

Á Annál.is var nýlega rætt um hugmyndir kristinna um eftirlífið. Sá sem hér ritar lýsti þeirri skoðun sinni að það væri viðbjóðslegt að hverjum þeim sem ekki féllist á hugmyndir kristninnar um heiminn væri innan trúarkerfisins boðið upp á það eitt að kveljast til eilífðar í eldsofni við grát og gnístran tanna. Annálseigandinn sá ástæðu til að strika yfir orðið viðbjóðslegt en lokaði svo fyrir athugasemdakerfið eftir þetta svar sitt:

Ekki kannast ég við að við Skúli, sem erum hér sem dæmi um fulltrúa kristinnar trúar, guðfræði og kirkju, höfum rætt mikið um þennan bakarofn. Raunar virðast mér það einna helst vera guðleysingjarnir sem halda þeirri hugmynd á lofti í samræðum okkar. Við Skúli keppumst aftur á móti við að benda ykkur á að hægt er að nálgast þessa spurningu út frá öðru sjónarhorni, s.s. nálægð við og fjarlægð frá Guði.

Og raunar einnig að ef um bakarofn væri að ræða þá væri það ykkar eigið val að gista þar en ekki í gistihúsinu og taka þátt í afmælisveislunni sem ykkur væri boðið til.

Við trúleysingjarnir tölum fullum fetum um þennan bakaraofn af þeirri einföldu ástæðu að frelsarinn sjálfur talar um hann í hinni heilögu bók. Þetta er ekkert léttvægt málefni sem hægt er að leiða hjá sér, eins og þeir trúbræður gera þarna, heldur snertir þessi bakaraofn grundvöll kristinnar trúar.

Veltið fyrir ykkur þessari uppstillingu: "Boðið" er til veislu í eilífðarríkinu, en ef þið afþakkið munuð þið kveljast til eilífðarnóns í eldsofni. Jesús segir það sjálfur, þetta er engin mistúlkun á hinu heilaga orði. Þetta heimboð í himnaríki er semsagt borið upp meðan byssu er haldið að gagnauganu á fólki. Það getur ekki neitað.

Maður sér fyrir sér fantana á skólalóðinni.

Og um leið og það hefur játað heimboðið hefst einelti fautanna Guðs og Jesú, því nú eiga menn fram að afmælinu að bera fyrir þá skólatöskurnar alla daga. Og menn mega ekki þreytast í því að dásama þessa tvo fanta og auðmýkja sig frammi fyrir þeim, því annars fá þeir kannski ekki að koma inn fyrir þegar boðið er haldið, heldur verða þeir leiddir að ofninum.

Kannski þessi fáránlega lygaþvæla einhverra prestafauta aftan í forneskju hafi virkað vel á óuppdreginn og illa upplýstan lýðinn, en í dag ættum við að hafa fengið nógu mikinn smjörþef að upplýstu og réttlátu samfélagi, þar sem mannréttindi eru hafin til vegs og virðingar, til að láta svona viðbjóð hræða okkur.

Heyrið það þarna prestar. Þetta tilboð ykkar er úr öllum takti við nútímann. Þið standið fyrir aldagömlum fautaskap og einelti sem upplýstu nútímafólki er ekki sæmandi.

Hættið því að boða þennan fíflaskap og breytið kirkjunni í hugþjónustustofnun. Aðeins þannig getið þið verið vissir um að ykkar verði í framtíðinni minnst með virðingu.

Birgir Baldursson 13.03.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Árni Svanur - 13/03/04 10:47 #

Mikið af þessari umræðu í ummælunum við færsluna sem þú vitnar til hér að ofan gekk nú út á að reyna að leiða það í ljós að ekki væri nauðsynlegt að skilja þetta orð "bakarofn" bókstaflegum skilningi - eins og þú gerir hér í færslunni.

Það er greinilega þörf á frekari umræðu um efnið. Í henni verður að greina á milli:

(1) ritskýringar á einstökum textum og versum Biblíunnar og

(2) notkunar þessara texta í kenningum kristinna kirkna og kirkjudeilda.

Sú kirkjudeild sem við Skúli stöndum fyrir gengur ekki út frá bókstafstrúarskilningi á Biblíunni. Og þú þarft að setja fram þyngri rök en þau að þetta séu orð Jesú til að sýna fram á að þessi skilningur þinn á bakarofninum endurspegli grundvöll kristinnar trúar.

Þú mátt einnig tiltaka það þegar þú ræðir þetta hvaða kristnu kirkjur/kirkjudeildir/guðfræðiáherslur þú átt við frekar en að tala almennt um "hugmyndir kristinna um eftirlífið" af því að sú túlkun sem þú setur fram á þessum versum á alls ekki við allan kristindóm.


Bjoddn - 13/03/04 14:14 #

Ef orð Jesú endurspegla ekki grundvöll kristinnar trúar,hvers orð gera það þá? Ef ekki er hægt að taka biblíuna bókstaflega, til hvers þá að taka mark á henni yfir höfuð? Er hún punt sem prestar lyfta upp og lesa síðan nokkur vers svona þegar hentar en síðan þarf ekki að fara eftir orðinu góða, nema kannski upp að því marki sem þú ákveður?

Málið er bara að biblían var tekin bókstaflega þar til að slíkt hentaði ekki meir. Þegar menn fóru að koma fram með aðrar hugmyndir um lífið og tilveruna, þá smám saman varð biblían bók túlkunar í stað bókstafsins.

Í dag þarf ég semsagt ekki að hlusta á guð lengur heldur útsendara hans sem fá greitt fyrir að boða sinn heimatilbúna boðskap, studdann að einhverju leyti á orði guðs.

Orð eins og guðfræðiáherslur er eitthvað sem fræðimenn nota. Þeir sem borga brúsann hafa yfirleitt einfalda hugmynd um himnaríki og helvíti.

Ef menn þurfa virkilega að setja fram þyngri rök en orð Jesú þegar kemur að trúnni, þau rök að ákveðin kirkjkudeild samþykki einhverja ákveðna túlkun, þá er trúin búin að missa marks því annaðhvort er hún orðin að samansulli hugmynda manna sem allir höfðu hagsmuna að gæta þegar þeir settu þær fram, eða þá að orð Jesú er einfaldlega ekki eitthvað sem taka þarf mark á.

Ég hef gaman af mönnum sem segja að biblían hafi staðist tímans tönn, að hún sé enn rétt í dag eins og fyrr á öldum. Ég efast svosem ekkert um að sömu stafirnir fylla bókina í sömu röð og þeir voru áður... það þýðir samt ekki að um sömu bók sé að ræða eftir að hún hefur farið í gegnum nálarauga túlkunar hagsmunaaðila. Biblían sagði einfaldlega ekki það sama í gær og hún segir í dag. Það eigum við að þakka meiri skilningi manna á tilverunni og breytingum annarra manna á meiningu orðs guðs eftir því hvað hentar á hverjum tíma.

Orð mín munu halda um aldir alda, að eilífu, amen.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.