Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er tómhyggja slæm?

Trúmenn grípa gjarna til þess, þegar þeir gagnrýna trúleysi, að segja það leiða til tómhyggju. Þar með eru þeir búnir að afgreiða þetta lífsviðhorf sem ónýtt drasl og geta hróðugir snúið sér að næstu bænastund með Jesú.

Trúmennirnir hafa í mörgum tilfellum alveg rétt fyrir sér með tómhyggjuna. Þeir sem missa trúna þurfa oftar en ekki að gaumgæfa tilvist sína í heimi án nokkurs sjáanlegs tilgangs. En er tómhyggjan svona slæm?

Án þess að ég hafi kannað það sérstaklega get ég mér þess til að flestir trúleysingjar þurfi annað slagið að dansa á barmi tómhyggjunnar. En er það ekki bara gott? Er ekki trúmaðurinn, með því að forðast sína eigin skeptík og leita undir verndarvæng guðs síns með allan efa sinn, sjálfur að missa af mjög þroskandi ferli?

Líkjum þessu við reykingar. Þorgrímur Þráinsson vanreykingapostuli hefur sagt þau fleygu orð að hvaða heimskingi sem er geti byrjað að reykja en það þurfi hetju til að hætta því. Þetta kemur frá manni sem aldrei hefur sjálfur gengið í gengum þá raun sem felst í því að láta af reykingum. En hann skilur að sá sem hættir að reykja þarf að glíma við uppbrot vanans og fráhvörf, þessa hliðstæðu tómhyggjunnar. Auðvitað fær sá nýhætti tóbakslöngunarkveisur annað slagið, en baráttuaðferðirnar sem hann hefur þegar lært í fráhvarfsátökunum við sjálfan sig hjálpa honum að yfirstíga þá þraut.

Og það verður léttara og léttara í hvert sinn.

Eins er það með trúleysingjann sem horfir ofan í ómælisdjúp tómhyggjunnar. Hann þarf að heyja þessa baráttu við sjálfan sig, en eftir því sem lífssýnin mótast, húmanísk eða undir merkjum fagurhyggju, því léttara verður að lifa án trúar.

Á sama hátt og reykingamaðurinn hefur ekki enn hugmynd um hvernig það er að hætta að reykja, þá fer trúmaðurinn á mis við þá innri glímu og þann andlega þroska sem felst í því að lifa í tilgangssnauðum heimi.

Það getur hvaða fáráðlingur sem er byrjað að trúa en sennilega þarf hetju til að hætta því. Og að hafna trúleysi á þeim forsendum einum að það leiði til tómhyggju er eins og að segja að það borgi sig ekki að hætta að reykja, því það leiði til fráhvarfa.

Birgir Baldursson 07.03.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Skúli - 07/03/04 02:08 #

Líkar þér andblær hins kalda tóms?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/03/04 02:48 #

Skúli, þetta er ekki spurning um að manni líki eitthvað eða ekki, þetta er spurning um hvernig veröldin er. Það er ekki hægt að velja eða hafna raunveruleikanum eftir geðþótta. Eða er það kannski nákvæmlega það sem trúaðir menn gera? Hafna raunveruleikanum í stað þess að horfast í augu við hann.

Annars þá hljómar tómið dásamlega miðað við þá lýsingu á Himnaríki sem ég var að lesa, meira um það síðar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/03/04 11:08 #

"Líkar þér andblær hins kalda tóms?"

Ég er ekki tómhyggjumaður frekar en fyrrum reykingamaður er "fráhvarfamaður". Reykingamaðurinn getur hins vegar fagnað því að finna til fráhvarfa, því þá veit hann að honum er að batna af hættulegum ávana.

Þegar tómhyggjan hellist yfir kallar það á innri rökræðu og afraksturinn er sá að maður stælist andlega. Ég fagna því.


Skúli - 07/03/04 13:55 #

Ekki er nú föstutíminn heppilegur til þess að bauna því að kristnum mönnum að þeir ekki leggi í naflaskoðun og innri baráttu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/03/04 14:57 #

Þú fagnar semsagt tómhyggjunni sem læðist að þér? Þar með tekurðu frá sjálfum þér þann möguleika að afgreiða trúleysið sem ómögulegt af því einu að það leiði til tómhyggju (ég man reyndar ekki hvort þú hélst því fram sjálfur, en einhver ánnálistinn gerði það).


Skúli - 07/03/04 23:39 #

"Þú fagnar semsagt tómhyggjunni sem læðist að þér? Þar með tekurðu frá sjálfum þér þann möguleika að afgreiða trúleysið sem ómögulegt af því einu að það leiði til tómhyggju"

Botna ekki alveg í þessari ályktun - en fasta fylgir hátíðum í kirkjunni einmitt vegna þess að gleðin er lítils virði ef menn hafa ekki stælt líkama og sálu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/03/04 00:11 #

Stælt með hverju ef ekki efasemdum og jafnvel tómhyggju? Kannski bara með sjálfsniðurlægingu og bænakjökri eins og kristnin kennir?


Úlfurinn - 13/03/04 13:44 #

Ég tel mig ekki sárþjáðan af tómhyggju,en mér líður afskaplega vel með mitt trúleysi

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.