Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er líf eftir dauðann?

Er líf eftir dauðann?

Já, hvernig spyrðu? Auðvitað er líf eftir dauðann.

Í hverju felst slíkt líf?

Við förum til himnaríkis.

En þeir sem ekki eru kristnir, ættu þeir ekki að fara á einhverja aðra staði samkvæmt sínum trúarbrögðum? Ættu búddistar þá ekki að sameinast alheimssálinni? Er það rökrétt að allir fari á sinn hvorn staðinn einvörðungu eftir trúarbrögðum sínum?

Nei, það er rétt hjá þér. Þetta fer líklegast ekki eftir trúarbrögðunum. En við förum örugglega samt öll til einhvers annars heims.

Hvar er sá heimur?

Hugsanlega annars staðar í vetrarbrautinni.

Brýtur það ekki gegn þekktum eðlislögmálum heimsins að ferðast efnislaus um í geimnum til annarrar plánetu?

Jú, reyndar. En þá hljótum við að fara til annarrar víddar eftir dauðann, víddar samhliða okkar eigin.

Bendir eitthvað til þess að þessi vídd sé til?

Nei. En sálin er svo merkileg að hún hlýtur að vera eilíf.

Var þá líf fyrir fæðingu?

Nei. Það er óhugsandi.

Af hverju var ekki líf fyrir fæðingu?

Því við vitum hvernig við urðum til, við samruna tveggja kynfruma foreldra okkar.

Einhvern veginn hlýtur sálin samt að hafa orðið til, er það ekki?

Jú, auðvitað.

Varla hefur hún klofnað úr sálum foreldra okkar?

Nei. Hún hefur annaðhvort orðið til við getnað eða fæðingu.

Úr hverju varð hún til?

Jah, hún virðist hafa orðið til úr engu.

Víst að sálin spratt upp úr engu við fæðingu, af hverju verður hún þá ekki aftur að engu þegar við deyjum? Er það líklegt að hún verði til um eilífð eftir að við deyjum en hafi ekki verið til áður en við fæddumst?

Sko, þú verður að athuga að dauðinn er allt öðruvísi en fæðingin. Við vitum hvernig við verðum til en ekki hvað verður um okkur þegar við deyjum. Við dauðann er sálin orðin til og hún getur auðvitað ekki bara horfið sisvona.

En núna taka rannsóknir vísindamanna á heilanum stöðugum framförum. Menn gera sér betur og betur grein fyrir mismunandi hlutverki heilastöðvanna og vísindamenn telja sig jafnvel hafa fundið vísbendingar um staðsetningu sjálfsmeðvitundarinnar í heilanum. Er sálin ekki bara hluti af hinum gífurlega flóknu efnaskiptum sem fram fara í mannsheilanum og stöðvast þegar við deyjum?

Jú, það er kannski rétt hjá þér. En þetta snýst í rauninni ekki um það. Það hlýtur einfaldlega að vera líf eftir dauðann því annars væri lífið tilgangslaust.

En er ekki frumtilgangur lífs mannanna, eins og annarra dýra hér á jörð, að fjölga sér?

Jú, það er frumtilgangurinn. En það hlýtur að vera einhver æðri tilgangur með tilveru okkar.

Er eitthvað æðra við tilveru okkar en tilveru annarra dýra?

Nei.

Hljóta þá ekki önnur dýr líka að eiga líf eftir dauðann i vændum?

Jú, ef við eigum líf eftir dauðann í vændum hljóta önnur dýr líka að eiga það.

Ættu þá ekki öll dýr sem lifað hafa hér á jörð að hafa öðlast líf eftir dauðann?

Jú.

Veistu hversu margar lífverur það eru? Er einhver möguleiki að geta sér til um það?

Nei, það veit ég ekki. Ef taldar eru lífverur allra tegunda sem einhvern tímann hafa lifað á jörðinni, má ef til vill hugsa sér að samanlagður fjöldi þeirra hlaupi á milljörðum milljarða. En það er vissulega afar erfitt að gera sér slíkan fjölda í hugarlund.

Er einhver möguleiki á að slík mergð komist fyrir á jörðinni, jafnvel þótt í annarri vídd sé? Er hægt að gera sér í hugarlund stað þótt þar væru aðeins sálir allra þessara dýra?

Nei, þetta er alveg rétt hjá þér. Þetta er allt saman rétt. Vandamálið er bara að það er svo hræðileg tilhugsun að maðurinn deyi bara og það gerist ekkert meira eftir það.

Er það svo hræðileg tilhugsun þegar við höfum lifað giftusamlegu og hamingjusömu lífi og deyjum södd lífdaga? Bíður dauðinn hvort eð er ekki allra?

Jú, en það er svo hræðilegt að geta dáið skyndilega, án alls fyrirvara og að allt sem einstaklingurinn hafi áorkað í lífinu gufi upp.

En víst erfitt er að ráða við dauðann, hjálpar það þá eitthvað að vera hræddur við hann? Ættum við ekki frekar að haga lífinu skynsamlega og setja okkur það markmið að lifa þannig að við verðum hamingjusöm með ævistarfið þegar dauðann loks ber að garði? Snýst lífið nú ekki einu sinni um það sem gerist fyrir dauðann en ekki það sem gerist eftir hann?

Snæbjörn Guðmundsson 25.02.2004
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Kalli - 25/02/04 10:30 #

Svar við þessum spurningum og fleirum er að finna í Sálinni eftir Aristóteles og Faídon eftir Platón ;) Góð grein


Róbert Atli Clausen - 28/02/04 12:11 #

Er eitthvað æðra við tilveru okkar en tilveru annarra dýra?

Já. Skv. 1. Mósebók. 1.27 "Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. 2.7 Þá myndaði Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál." Sem sagt: Maðurinn er fyrst og fremst andi,´hefur sál og býr í líkama. Fyrir anda sinn á maðurinn, umfram annað líf á jörðinni, möguleika á sambandi við Guð, heilagan anda, og einnig aðrar andaverur en skildi þó varast að hafa samband við framliðna skv. 5. Mósebók.18.11 Ég bendi á að margir frægir og virtir eðlisfræðingar, t.d. Newton, Einstein ofl. voru sköpunarsinnar. Þeir efuðust ekki um tilvist Guðs, og að hugsun, æðri okkar skilningi, stæði á bak við sköpun alheimsins.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 28/02/04 13:02 #

Róbert, við höfum aftur og aftur bent á að sögur um trú Einsteins eru lygi, hann neitaði þeim sjálfur. Hann var ekki sköpunarsinni enda leit hann á stóra hvells kenninguna sem algera snilld.

Hvað Newton varðar þá væri ég ekkert hissa þó hann hafi líklega verið sköpunarsinni enda lifði hann nú á allt öðrum tímum en við. Ef hann hefði hins vegar haft okkar þekkingu og okkar tækni þá hefði hann án efa verið með staðreyndirnar á hreinu.


Róbert Atli Clausen - 28/02/04 13:34 #

Óli Gneisti. Snilld hvers.?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 28/02/04 19:24 #

Mér skilst að maður að nafni George Gamow hafi verið sá sem var helsti smiður þeirrar kenningar, það er samt snilld hans. Ég held samt að þú hafir verið að misskilja eitthvað.


Jón - 17/03/04 09:28 #

"Er líf eftir dauðann?"

Já.

"Í hverju felst slíkt líf?"

Við förum ekki til himnraríkis þar sem það er ekki til. Hvert við förum ætla ég ekki að ræða hér þar sem þið getið bara kynnt ykkur það sjálf.

"Hvar er sá heimur?

Hugsanlega annars staðar í vetrarbrautinni.

Brýtur það ekki gegn þekktum eðlislögmálum heimsins að ferðast efnislaus um í geimnum til annarrar plánetu?"

Heimurinn er allsekki annars staðar í vetrabrautinni, hvaðan þú fékkst þá hugmynd veit ég ekki. Ef þetta var viðtal við einstakling, þá stórlega efa ég að hann sé mikið eldri en 6.

Í nýlegu lifandi vísindi blaði, sem oft eru mjög merkileg var sagt frá kenningu eins vísindamans um hliðlæga veruleika. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta var hjá honum en já, mörgum vísindamönnum fannst mikið til þessarar kenningar koma. Quantum Mechanics eða skammtafræði brjóta nú líka gegn hinum venjulegu eðlislögmálum sem kennd eru í skólum, þrátt fyrir það útskýra þau hluti sem venjuleg vísindi geta ekki.

"Var þá líf fyrir fæðingu?"

Já. Það var líf fyrir fæðingu.

"Hljóta þá ekki önnur dýr líka að eiga líf eftir dauðann i vændum?"

Já, það gera þau nefnilega.

"Veistu hversu margar lífverur það eru? Er einhver möguleiki að geta sér til um það?"

Nei.

"Er einhver möguleiki á að slík mergð komist fyrir á jörðinni, jafnvel þótt í annarri vídd sé? Er hægt að gera sér í hugarlund stað þótt þar væru aðeins sálir allra þessara dýra?"

Staðirnir, eða víddirnar eru mun fleiri en þér grunar, og já, það er greinilega til staður fyrir allar þessar sálir.

"Vandamálið er bara að það er svo hræðileg tilhugsun að maðurinn deyi bara og það gerist ekkert meira eftir það."

Í rauninni er það ekkert hræðileg tilhugsun þó svo væri, en svo er ekki.

Þar sem ég hafði lítinn tíma þá svaraði ég ekki öllu og útskýrði ekki allt, en ég geri það eflaust þegar ég hef tíma. Ég er ekki kristinn.


maður - 30/03/04 13:15 #

óli gneisti...ég ætla að benda þér á það að vísindamenn hvort sem þeir eru trúaðir eður ei eru í auknum mæli að gera sér grein fyrir því að heimurinn lítur meira og meira út fyrir það að vera skapaður til þess að líf gæti verið á honum...og varðandi þróunarkenninguna þá þarf þróun að fara eftir vissum reglum svo að hún geti gengið upp...lögmál náttúrunnar virðast vera fyrirfram ákveðin...tjékkaðu á http://www.counterbalance.net góður vefur um ýmislegt!


jogus (meðlimur í Vantrú) - 30/03/04 22:06 #

Góði maður, ef þú heldur í alvörunni að vísindasamfélagið sé að sveigjast í þá átt að alheimurinn hafi skapara, þá ættirðu aðeins að taka hausinn á þér upp úr sandinum og líta betur í kringum þig.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.