Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Verður stuð hjá guði?

Eitt af því sem að er sameiginlegt hjá flestum trúarbrögðum er loforðið um hamingjusamt líf eftir dauðann. Víkingunum var lofað endalausri mjaðardrykkju, svínakjötsáti og daglegum bardaga. Múslímum er lofað allnokkrum hreinum meyjum og heitu loftslagi. Kristnum er lofað himnaríkisvist en það eru bara engar nákvæmar lýsingar til á því hvernig ástandið verður þar. En eitt er víst að í Himnaríki á allt að vera eins gott og það getur orðið, engin þjáning, ekkert ofbeldi… sem sagt hinn besti mögulegi heimur.

Hvernig verður málunum þá virkilega háttað í himnaríki? Ef að svo ólíklega vil til að ég vakni í Himnaríki mætti ég þá segja viðkvæmu kristnu fólki brandara þar sem ég geri góðlátlegt grín að guðinum þeirra, og valda þeim þannig þjáningu? Mun fólk hafa frjálsan vilja í himnaríki?

Allt það kristna fólk sem að ég hef spurt finnst það fráleitt að það sé ekki frjáls vilji í himnaríki. Því að ef svo væri myndum við þurfa að eyða eilífð, sem að er ansi langur tími, sem viljalaus vélmenni og það eru örlög sem að fáir geta sætt sig við. Það sem gerir þennan möguleika en verri er sú staðreynd að frjáls vilji á að vera það sem að guð kristinna telur hið besta sem að til er.

Ef að það er frjáls vilji í himnaríki hvað kemur þá í veg fyrir það að ég segi öðrum brandarana mína og valdi þeim þannig þjáningu? Eða það sem að er mikilvægara; Hvað kemur í veg fyrir það að maður óhlýðnist guði og valdi því að synd komi aftur í heiminn? Ef að ekkert kemur í veg fyrir það þá hefur guði mistekist, reyndar í annað sinn, að útrýma syndinni og himnaríki verður ekkert endilega svo frábær staður og guð myrti Jesús til einskis. Þannig að það er óhugsandi fyrir kristið fólk að það sé synd í himnaríki, nema þá að í himnaríki sé logið, drepið og guð ekki tilbeðinn.

Hvað getur þá stöðvað mig í að óhlýðnast guði? Sumir stinga upp á því að fólk verði orðið svo viturt af öllum syndunum sem það framdi á Jörðinni að það vilji eða langi ekki syndga. Margir telja að okkur muni bara ekki detta í hug að syndga. Enn aðrir halda því fram að um leið og að einhver syndgar þá sé honum annað hvort eytt eða þá hent í helvíti, en þá myndi fækka í himnaríki með tímanum og að lokum yrði enginn eftir.

En hvað svo sem það er sem að á að koma í veg fyrir að fólk syndgi án þess að skerða frjálsa viljann þeirra, hvort sem það er viska, hugmyndasnauð, helvítisvist eða hvað sem er, þá er stóra spurningin þessi: Hvers vegna í ósköpunum gat guð þá ekki skapað þetta þannig til að byrja með? Fyrst að guð getur skapað heim án syndar og með frjálsan vilja, hvers vegna gat hann ekki náð því rétt í fyrstu tilraun?

Ef að frjáls vilji leiðir ekki endilega til syndar (sbr. Himnaríki), þá er synd ekki nauðsynleg afleiðing frjáls vilja, sem að eyðileggur einu útskýringu kristinna guðfræðinga fyrir tilvist hins illa/þjáningu.

Hjalti Rúnar Ómarsson 24.02.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 24/02/04 10:11 #

Hjalti, þetta er snjallt hjá þér. Trúarnöttarar eiga þó mjög auðvelt með að svara þessu. Þeir segja að þetta sé allt Satan að kenna. Guðsi hafi í raun skapað fólk án syndar og með frjálsan vilja en helvítið hann Satan hafi komið og eyðilagt allt. Síðan hafi Krosslafur komið og reddað því sem reddað varð.

Spurning mín er því sú afhverju guðsi var að skapa Satan? Það er dálítið twisted. Sérlega í ljósi þess að ef guðsi er alvitur hefði honum átt strax að verða ljóst við sköpun Satans hver yrðu örlög mannfólks en hann grípur ekki inní (sem setur spurningarmerki við það að hann sé algóður). Nema guðsi hafi snemma ákveðið að galdra burt þann hæfileika sinn að geta séð framtíðina svo hægt væri að tala um alvöru frjálsan vilja. Vá hvað hann er góður gæi. EN ef hann hafði þennan hæfileika í byrjun þá bendir það til þess að allt sé fyrirfram ákveðið hvort sem er og þá erum við aftur á byrjunarreit. hmmmm. Niðurstaðan hlýtur að vera sú að guðsi sé ekki til (eða ekki alvitur :o).

93


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/04 23:55 #

Mér finnst nú Satan ekki redda neinu. Það eina sem að gerir er að flytja spurninguna einu skrefi aftar. Á það ekki líka að vera frjáls vilji sem gerði Satani/Lúsíferi kleyft að syndga.

"Fyrst að guð getur skapað heim án syndar og með frjálsan vilja, hvers vegna gat hann ekki náð því rétt í fyrstu tilraun?"

Fyrsta tilraunin gæti alveg eins verið Satan. Ef að einhver ástæða kemur í veg fyrir að fólk með frjálsan vilja syndgi í himnaríki hvers vegna gat ekki sama ástæða komið í veg fyrir fall Satans til að byrja með?

Annars er vandamálið/mótsögnin með alvisku guðs og frjálsan vilja efni í nokkrar greinar.

En ég bíð spenntur eftir því að guðstrúarmenn svari þessu vandamáli.


Hlín Stefánsdóttir - 25/02/04 23:26 #

Ég held að það verði ekki endilega svo mikill frjáls vilji í himnaríki og hef aldrei gert! Það verður allavega ekki lýðræði, því Guð ræður! við munum ekki hafa viljann til að syndga. Við munum lofa Guð ALLTAF. Og það er stórkostlegra en nokkur getur ímyndað sér, mér sjálfri finnst það stundum hljóma leiðinlega, en ég treysti Guði fyrir því að Hann viti hvað sé gott...


Hlín Stefánsdóttir - 25/02/04 23:27 #

Eitt sem ég vil bæta við, í viðbrögðunum hérna á undan þá eru þetta að sjálfsögðu bara mínar skoðanir. Mjög ólíklegt að allir kristnir séu 100% sammála mér!


jogus (meðlimur í Vantrú) - 26/02/04 00:04 #

Heppilegt fyrir mig


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 26/02/04 00:31 #

Já, það verður örugglega ekkert lýðræði í himnaríki, svo mikið er víst. En Hlín fyrst að frjáls vilji er ekki til staðar í himnaríki(hinum besta mögulega heimi), hvers vegna var þá guðinn þinn að gefa fólki frjálsan vilja til að byrja með? En ertu sátt við það að vera viljalaust vélmenni í himnaríki?


Cappel - 26/02/04 23:08 #

Mín spurning er, af hverju ættu menn að þjást í Helvíti. Ætti Satan ekki að þakka þeim sem fylgdu hans boðum og vera góður við þá? Þá ætti Guð alveg eins að vera vondur við góða fólkið og pynta það.


Hlín Stefánsdóttir - 27/02/04 19:32 #

Ég náttúrulega í fyrsta lagi skil ekki himnaríki og mun ekki skilja það fyrr en ég kemst þangað, ég bara treysti Guði. Og ég er svo sem alveg sátt við að hafa ekki frjálsan vilja í himnaríki svo framarlega sem þar er ekkert illt.

Guð skapaði manninn til að ríkja á jörðinni, ef maðurinn á að ríkja þá verður hann að hafa frjálsan vilja.

Satan er í eðli sínu vondur og þar af leiðandi getur hann ekki verið góður við þá sem þjóna honum. Helvíti er fyrst og fremst slæmur staður af því að þar er ekki nálægð Guðs, Guð er upphaf hins góða og þar sem Guð er ekki þar er þjáning.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 27/02/04 19:48 #

Af hverju treystirðu guði? Bara að ganni?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 28/02/04 07:13 #

"Guð skapaði manninn til að ríkja á jörðinni, ef maðurinn á að ríkja þá verður hann að hafa frjálsan vilja."

Hvers vegna er frjáls vilji nauðsynlegur til þess?

"Satan er í eðli sínu vondur .."

Skapaði guð Satan illan? Hvers vegna var hann að því?


Hlín Stefánsdóttir - 04/03/04 12:06 #

Ef að þú hefur ekki frjálsan vilja þar sem þú stjórnar þá er það sá sem stjórnar þér sem stjórnar. við vorum líka sköpuð til samfélags við Guð, þú hefur ekki hæfileikann til að elska án frjáls vilja, til þess þarf sannar tilfinningar, sem eru ekki til án frjáls vilja.

Satan er í eðli sínu vondur af því að hann er fjarlægur Guði. Þar sem Guð er ekki, þar er ekkert gott.


Bjoddn - 04/03/04 12:53 #

Ég hef semsagt frjálsan vilja og hef notað hann til að komast að því að guð sé ekki til. Líklega er guð þá ekki hjá mér, ég hef allavegana ekki áhugann á því að hafa hann hjá mér. Er ég þá vondur maður?

Ef svona skrif eru ekki æpandi dæmi um tilgang trúarinnar, þ.e að upphefja fyrstu persónuna, þá veit ég ekki hvað.

Mamma fer aldrei í kirkju og mun seint teljast sérstaklega trúuð, hún er samt ægilega næs eitthvað. Ég trúi ekki á guð en er samt þokkalega góður gaur. Mín börn þekkja ekki guð en eru samt skemmtileg og góð börn. Hinsvegar horfi ég á vont fólk á Omega hvetja til útskúfunar, upphefja sjálfa sig, telja sig vera einhvern master-race, hlakka til dauða minna líka og kalla slíkt fagnaðarerindi og fleira í þeim dúr.

Þú ættir að prófa að sættast við sjálfa þig og hætta að hlusta á menn sem segja þér að þú sért ekki nógu góð nema þú gefir tíund eða frjál$t framlag, guði til dýrðar.

Til þess að fá fólk á sitt band er oftast notast við sameiginlegan óvin til að hata, ótta og græðgi. Ef þú ert kristin, þá færðu að hata Satan, þú færð að óttast helvíti og þú færð von um eilíft líf í verðlaun ef þú stendur þig vel. Til hamingju. Þínir verstu lestir eru notaðir gegn þér til styrktar trúarleiðtogum og/eða amerískum fyrirtækjum.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 05/03/04 03:27 #

Hlín: Allt í lagi, en hvers vegna var guð að láta manninn ráða yfir Jörðinni?

"við vorum líka sköpuð til samfélags við Guð, þú hefur ekki hæfileikann til að elska án frjáls vilja, til þess þarf sannar tilfinningar, sem eru ekki til án frjáls vilja."

En ef að það verður enginn frjáls vilji í himnaríki þá verður skv. þessu engin ást og engar tilfinningar. Ertu sátt við það?

"Satan er í eðli sínu vondur af því að hann er fjarlægur Guði. Þar sem Guð er ekki, þar er ekkert gott."

Þegar guð skapaði Satan var hann þá vondur?


Diddi - 28/10/04 03:01 #

Persónulega finnst mér þægilegra að vita að þegar ég dey slökknar allt og allt er búið Síðan gráta börnin mín mig og halda áfram með lífið.

mér líst ekki á þá hugmynd að eyða eilífðinni á himnum án þess að hafa vilja og möguleika til að ráða mér sjálfur


Lárus Páll Birgisson - 31/10/04 05:50 #

Hjalti, af hverju spyrðu ekki Guð að þessu? Hvernig á nokkur að vita ALLT um Guð?....kjánalegt, ekki satt?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 31/10/04 06:29 #

Hjalti, af hverju spyrðu ekki Guð að þessu? Hvernig á nokkur að vita ALLT um Guð?....kjánalegt, ekki satt?

Ég spyr ekki guð að þessu af sömu ástæðu og ég spyr ekki systur mína að þessu, hann/hún er ekki til. Ef að þú heldur að svarið við þessari spurningu sé einhver andleg sannfæring sem að maður fær [u]eingöngu[/u] við "samræður" við guð þá finnst mér að þú ættir að hætta að reyna að sannfæra fólk um það að þetta svar sé til.

En hefur þú eitthvað við greinina að athuga? Eittthvað sem að tengist henni hugsanlega?


Lárus Páll Birgisson - 01/11/04 02:54 #

Ég var ekki að segja að þú fengir svar við þessum spurningum þínum. Ég var bara að benda á að þú ert að spyrja ranga aðila. Ef þú trúir að trúað fólk hafi öll svörin við eðli Guðs... jah þá ertu nú á villigötum.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 07/11/04 09:23 #

Ég er ekki að biðja þig að vita allt um guð (þó að trúað fólk er það eina sem að segist vita eitthvað um hann). Það væri samt fínt ef að þú gætir sagt mér það hvort að þú munir ekki hafa frjálsan vilja í himnaríki eða ekki, í kristinni hugmyndafræði.


Lárus Páll Birgisson - 08/11/04 00:06 #

Kristin hugmyndarfræði er nú margbreytileg og eflaust til báðar túlkanirnar einhverstaðar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.