Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tvær stjörnur

Ég átti því láni að fagna um síðustu helgi að sitja til borðs með þjóðskáldinu Megasi á öldurhúsi. Af einhverjum ástæðum fann ég mig knúinn til að fara að ræða um drifkraft sköpunarinnar. Við vorum sammála um að best gengi mönnum í sköpun sinni ef ómeðvitaðir prósessorar heilastarfseminnar fengju að sitja við stjórnvölinn, en að hvers kyns meðvitaðir tilburðir með vitrænum hætti væru oftar en ekki dæmdir til dauða.

Skáldið sagðist í þessum efnum búa að þeirri reynslu að detta í eins konar leiðsluástand þegar hann skrifar. Eftir að hann vaknar svo úr slíku blakkáti blasir textinn við honum án þess endilega að merkingin sé honum ljós. Hann er því oftar en ekki í sömu aðstöðu og hver annar hlustandi/lesandi, að þurfa að hafa fyrir að ráða í merkingu textans sér til gagns.

Fljótlega beindist svo talið að þeirri staðreynd að iðulega stendur upp á neytendur listarinnar að leggja henni til jafn mikinn sköpunarkraft og höfundurinn gerði í upphafi, því óneitanlega krefjist túlkun listaverka skapandi innsæis. Og ganga má út frá því sem gefnu að merking sú sem njótandi listarinnar fær út sé ekki í neinu samræmi við það sem var höfundi verksins í huga.

Megas tók undir þetta og tók sem dæmi texta sinn Tvær stjörnur af hinni ágætu plötu Bláir draumar. Þetta hugverk er samið um söknuð eftir lifandi manneskju og vonina um að fá að hitta hana aftur síðar og endurtaka ástarævintýrið. En svo virðist sem þeir sem misst hafa börn sín nái að bindast þessum texta meira en aðrir og höfundurinn er stöðugt að heyra frá slíku fólki og af því hve verðmætt þetta lag/ljóð er í hugum þess.

Þarna er galdur listarinnar lifandi kominn: Ljóðskáldið, þjakað í eymd sinni eftir elskunni sinni er, án þess að hafa hugmynd um það, farinn að hughreysta þá sem séð hafa eftir börnum sínum í dauðann.

Og það er reyndar rétt að þegar maður skiptir út holdlegri ást fyrir foreldraást og landfræðilegum fjarlægðum út fyrir dauðann, þá fyrst hefur þessi texti sig upp fyrir flest annað í fegurð:

Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
en ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer
en ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.

Ég gaf þér forðum keðju úr gulli um hálsinn þinn
svo gleymdir þú mér ekki í dagsins amstri nokkurt sinn
í augunum þínum svörtu horfði ég á sjálfan mig um hríð
og ég vonaði að ég fengi bara að vera þar alla tíð.

Það er margt sem angrar, en ekki er það þó biðin
því ég sé það fyrst á rykinu hve langur tími er liðinn
og ég skrifa þar eitthvað, með fingrinum, sem skiptir öllu máli
því að nóttin mín er dimm og ein, og dagurinn á báli.

Já, og andlitið þitt málað, hve ég man það alltaf skýrt
augnlínur og bleikar varir, brosið svo hýrt
jú, ég veit vel að ókeypis er allt það sem er best,
en svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst.

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn, þegar sólin brosir við mér
og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á
en ég sakna þín mest á nóttunni, þegar svipirnir fara á stjá.

Svo lít ég upp og sé við erum saman þarna tvær
stjörnur á blárri festingunni sem færast nær og nær
ég man þig þegar augu mín eru opin hverja stund
en þegar ég nú legg þau aftur fer ég á þinn fund

(hripað hér niður eftir minni - með fyrirvara um misminni)

Um leið og maður hefur sett þennan texta í þetta dauðasamhengi rennur upp fyrir manni hve þjakandi trú manna á framhaldslíf getur verið þeim sem ekki hafa náð tökum á missi sínum og sorg. Þessi von um endurfundi, eins falleg og kærleiksþrungin og hún er í eðli sínu, nær að ræna allri ró og hugarfriði, líf þess sem ekki kann að sleppa hendinni af hinum látnu verður að langri óþreyjufullri bið í stað þess að einkennast af sátt og notalegum endurminningum.

Einhverju sinni tók ég að mér að svara fyrirspurn um hvaða augum trúleysinginn liti dauðann. Ég gat auðvitað ekki svarað þessu fyrir alla trúleysingja, enda lífsviðhorf þeirra eflaust ólík þegar kemur að þessum málum. En svar mitt hljóðaði upp á þetta:

Nú er það svo að fátt tengir trúleysingja saman annað en trúleysið sjálft. Þeir koma af öllum sviðum þjóðlífsins og hafa allskonar skoðanir á mönnum og málefnum.

Svar mitt um endalokin ber því að skoða með tilliti til þessa. Verið getur að margir trúleysingjar séu afar ósáttir við það tilgangsleysi sem felst í lífi okkar, samkvæmt heimsmynd hins trúlausa. En mín afstaða er þessi:

Lífið er náttúrlegt ferli þar sem einstaklingurinn er hlekkur í keðju. Hlutverki hvers einstakling lýkur því í raun þegar hann hefur komið upp afkvæmum sínum. Því hlýtur "tilgangur lífsins", ef hægt er að kalla hann því nafni, að vera sá einn að geta afkvæmi og fóstra þau allt þar til þau geta tekið við keflinu.

Við höfum engan "æðri" tilgang en þennan. Við erum bara gáfaðar skepnur.

Um leið og maður hefur fallist á þessa lífssýn verður dauðinn fáránlega léttvægur, samanborðið við áhyggjurnar sem maður hafði af honum áður. Og dauði ástvina verður einfaldlega eitthvað sem við má búast hvenær sem er. Besta leiðin til að kljást við hann er í raun sú að ganga ekki útfrá tilvist manna sem sjálfsögðum hlut, heldur vera viðbúinn því öllum stundum að menn og skepnur deyi. Hver dagur í félagsskap vina og ættingja fær með þessu aukið vægi. Og hvatinn til að njóta samvistanna til hins ýtrasta verður enn meiri en ella, því allt gæti þetta verið farið forgörðum á morgun.

Og þegar það gerist er lítið annað hægt en yppta öxlum og laga sig að nýjum aðstæðum. Sorgarferlið verður því styttra og bærilegra en hjá þeim sem hágrátandi spyrja "af hverju, af hverju hún/hann?" í fullkomnu skilningsleysi á eðli náttúrunnar.

Í mínu tilfelli veitir trúleysið aðlögunarhæfni og skjótari sátt við aðstæður en ella. Maður áttar sig enda á því að gæfa hvers og eins er ekkert sem æðri máttarvöld úthluta heldur bera menn sjálfir ábyrgð á velferð sinni og hamingju.

Trúleysi er því í raun frelsi með ábyrgð. Frelsi, því engum guðum þarf að lúta, engum bókstaf þarf að hlýða í blindni. Ábyrgð, því það er enginn þarna uppi sem tekur í taumana þegar allt er á leið í vaskinn.

Þar hafið þið það. Stór partur af hamingju okkar á leiðinni gegnum lífið felst í því að hætta að sveipa dauðann þessum bannhelgishjúp og taka honum sem sjálfsögðum hlut. Þetta hvetur okkur til að njóta lífsins núna, að vera dugleg að leggja rækt við þá sem okkur þykir vænt um.

Og þegar dauðinn hrifsar hina nákomnu frá okkur er einfaldlega hægt að sækja í sjóði minninganna og ilja sér í þeim ljóma sem stafaði af hinum látna meðan hann lifði, í stað þess að gera afganginn af ævinni að einhverri nöturlegri biðstöð þar sem hímt er í óþreyju eftir því að vagninn að handan komi og frelsi okkur undan hinum sára söknuði.

Því huggunin ætti ekki að felast í tálvon um endurfundi, heldur öllu því góða sem hinn dáni skildi eftir sig í hugum okkar.

Birgir Baldursson 22.02.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Karl - 23/02/04 20:08 #

Fín grein. Ég sé ekki betur en að þetta sé kjarni existensíalismans. Ég, Kierkegaard, Spinoza og fleiri getum alveg skrifað undir margt af þessu. Við viljum þó gera smávægilegar breytingar og kalla keðjuna, og þar með hlekkina, Guð, en þér finnst eflaust óþarfi að kalla hana annað en náttúru. Ég held líka að fólk geti verið mismeðvitað um stöðu sína sem hlekkur í keðjunni og keðjuna sem heild, og með "dulrænni" innri reynslu öðlast "skýrari" vitund. Kannski notar Megas sér slíkt shamanískt ástand þegar hann töfrar fram textana sína, sem þrátt fyrir fjarveru hins röklega hluta hugans hitta í mark og bera vott um djúpt innsæi. Með þessum formerkjum held ég að Búdda og Krishna (þ.e. hindúar) væru alveg sáttir líka. Þetta "live and let die" viðhorf til dauðans, og að "lifa í núinu", er líka kjarninn í jógaspeki og búddisma.

Til hvers þá að vera að bölsóttast þetta út í trúarbrögð? Kunnið þið ekki að lesa úr myndlíkingum? Voðalega takið þið hlutunum bókstaflega. Já ég veit að fólk trúir yfirleitt bókstaflega á framhaldslíf, en mér er alveg sama þótt ég eigi mér aðeins framhaldslíf í börnunum mínum eða örverunum í moldinni, ég veit að orkan mun skila sér aftur í hringrásina, og ég ber meiri virðingu fyrir alheiminum en svo að ég vilji kalla hann "bara náttúru" eða "köld vélræn lögmál". Mér finnst alheimurinn fínn eins og hann er, og ég er sáttur við að vera bara einn vatnsdropi í hafinu sem er Allt, en ég kalla þetta allt Guð, sama hvað hverjum sýnist. Ég veit að þetta er ekki viðhorf hins almenna bókstafstrúarmanns eða manns með innprentaða barnatrú, en öll trúarbrögð eiga sér fámennari hópa manna sem rýna á bak við yfirborð textans, á bak við myndlíkingar og goðsagnir, og finna einhvern sannleika sem hittir þá í hjartastað en er í fullu samræmi við skynsemi þeirra.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/02/04 20:41 #

"...og ég ber meiri virðingu fyrir alheiminum en svo að ég vilji kalla hann "bara náttúru" eða "köld vélræn lögmál"."

Maður er nú bara að burðast við að reyna að lýsa heiminum eins og hann er :)


Karl - 23/02/04 21:14 #

En af hverju þessi neikvæðu blæbrigði í málinu? Af hverju ekki að hefja náttúruna og lögmálin upp á stall? Ég hef orðið var við það hjá mörgum guðleysingjum að þeim finnst guðlausi heimurinn dauður og tómur, og það er mikið átak að takast á við hann. Staðreyndin er að heimurinn er sprelllifandi en ekki kaldur og vélrænn. Ég hef lesið töluvert af bókum guðleysingja, og maður finnur varla eins svartsýna og neikvæða höfunda og Freud, Nietzsche, Sartre, Camus o.fl. Af hverju ekki að taka fagnandi á móti heiminum nákvæmlega eins og hann er og upphefja hann í allri sinni dýrð? Við þekkjum ekkert stærra. Af hverju ekki að kalla hann Guð?

Hmm ... mér sýnist ég eiga skoðanabróður sem er fastur greinahöfundur hérna á síðunni og heitir sama nafni og ég. Merkilegt, en ég vil taka það fram að ég er annar maður.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/02/04 21:53 #

Ég er hræddur um að ef við förum að kalla þetta guð séum við að bjóða heim ansi miklum ruglingi. Við lítum á guði sem eitthvað yfirnáttúrlegt (og m.a.s. ekki til í alvörunni). Af hverju ættum við að kalla náttúrulögmálin "guð"?


Hetjan - 02/06/05 21:20 #

Eruði yfir höfuð búnir að lesa Kierkegaard eitthvað?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/06/05 23:16 #

Ég las Ugg og ótta í heimspekilegum forspjallsvísindum á sínum tíma. Sannfærðist um það að Søren hafi skrifað hana sem háðsádeilu á trúmenn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.