Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvers vegna ertu í söfnuði?

Við vantrúaðir látum engan segja okkur hvernig við eigum að hugsa. Við kjósum að vega og meta líkindi og rök fyrir hverjum hlut og föllumst svo á það sem skynsamlegt og rökrétt getur talist. Sumir frelsaðir halda því reyndar fram að trú þeirra sé fengin út með sama hætti, að þeir hafi ekki látið neinn segja sér hverju á að trúa, heldur komist að því sjálfir við eigin upplifanir. En er það rétt?

Við Óli Gneisti sátum í dag ágætt málþing á vegum KSS þar sem til umræðu voru spurningar um hvort kristin trú væri úrelt og kirkjan dauð. Framsögumaður trúlausra á staðnum var Sigurður Hólm Gunnarsson og í einu svari sínu kom hann inn á þessa hluti.

Í kjölfarið reis á fætur ungur maður sem fullyrti að það væri rangfærsla að ætla það að hinir trúuðu létu aðra segja sér hvort þeir ættu að trúa. Hann hefði sjálfur fundið frelsara sinni af eigin rammleik og ætti ekkert undir því hvað aðrir hefðu að segja um málið.

Ég gat ekki að mér gert að gjamma á hann: "Af hverju ertu þá í söfnuði?", en fékk auðvitað ekki orðið í framhaldinu, enda rakalaus ókurteisi. Sigurður svaraði svo spurningu mannsins með miklum ágætum og menn sneru sér að öðru.

En spurning mín er reyndar grundvallarspurning, þótt menn komi kannski ekki auga á það í fyrstu. Ég fullyrði að þessi ungi maður hafi rangt fyrir sér, hafi hann átt við að hann léti engan segja sér hverju hann ætti að trúa. Allt safnaðarstarf gengur nefnilega út á einmitt það.

Leyfið mér að útskýra: Það er vonlaust að ætla það að einhver sem aldrei hefur heyrt minnst á Jesú, frelsist til kristinnar trúar. Slíkt væri absúrd, því til að frelsast til hans þarf að þekkja til hans.

Maður sem frelsast til kristinnar trúar hlýtur að gera það eftir langvarandi undangengna kynningu á því sem um ræðir. Hann hefur án efa átt langar og djúpar samræður við frelsaða vini sína, hlustað eftir boðun "orðsins" og loks leitast við að fá Jesú inn í hjarta sitt. Öðruvísi getur þetta ekki gerst.

Og það er einmitt málið. Allt hið kristilega áreiti sem á undan er nefnt, djúpu samræðurnar og allt hitt, eru einmitt ekkert annað en áróður fyrir því hvernig menn eigi að hugsa. Og því er það engin tilviljun að sá sem tekur trú eftir langvarandi slíkt áreiti hafni í þeim flokki sem þeir, sem við hann töluðu, agiteruðu fyrir, þótt viljaákvörðunin sjálf um að taka trú sé algerlega sjálfstæð. Þess vegna spurði ég "Af hverju ertu þá í söfnuði?"

Sá sem allt í einu tæki trú á Krist, án nokkurs undangengins áreitis myndi aldrei hafna í nokkrum söfnuði, því hann hefði aldrei á sér neina utanaðkomandi kröfu um hvernig hann skuli hugsa. Ungi maðurinn á málþinginu hafði rétt fyrir sér með það að það skiptir sér enginn að því hvort aðrir trúa (eða hvað?), en boðun hinna kristnu beinist þess í stað afdráttarlaust að því að segja mönnum hvernig hugsa skuli.

Og sá ungi er fullkomlega fórnarlamb slíks áreitis, enda í söfnuði.

Birgir Baldursson 21.02.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Ragnar Gunnarsson - 23/02/04 11:37 #

Sæll Birgir. Ég þakka gott málþing sem var að mestu málefnalegt og upplýsandi. Ég fellst á að forsenda trúarinnar er boðunin. Ég felst hins vegar ekki á að trúleysinginn sé algjörlega laus við annars konar áreiti og áhrif en skynsemina eina. Hann mætir kröfu um hvernig hann skuli hugsa og álykta og hefur afmarkaðar forsendur. Enda koma menn saman til að styrkja og efla hvern annan í þeirri hugsun. Þetta snýst allt um hvaða forsendur menn gefa sér og ganga út frá þegar lagt er af stað. Ef menn gefa sér þá forsendu að Guð sé ekki til þá er ekki reiknað með honum í einu eða neinu. Að baki liggur trú á að heimsmynd vísindanna sé endanleg og birti okkur allan sanleikann. Sterk trú það!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/02/04 11:48 #

Ekki trú. Rökstudd sannfæring. Sjá t.d. þetta og þetta.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/02/04 12:00 #

"Hann [trúleysinginn] mætir kröfu um hvernig hann skuli hugsa og álykta og hefur afmarkaðar forsendur."

Þetta er misskilningur. Hvaðan ætti þessi krafa að koma? Það sem þú áttar þig ekki á er að menn verða trúleysingjar vegna þess að þeir hafa tamið sér skeptík (sem er hið þveröfuga við að mæta kröfu um hvernig hugsa skuli). Það er aftur rétt að menn hafa takmarkaðar forsendur. Þær takmarkast nefnilega við alheiminn :)

"Enda koma menn saman til að styrkja og efla hvern annan í þeirri hugsun."

Hvað meinarðu? Ekki koma vísindamenn saman hvern sunnudag til að sannfæra sjálfa sig með hópefli um að vísindakenningarnar séu réttar. Þeir krækja ekki saman höndum, rugga sér í lendum og syngja:

Þyngdar lögmál lögmál göfugt er
lof og dýrð sé Newton fyrir það
Niður kemur allt sem uppupp fer
öll við skulum trúa því með hrað

Ef þeir þyrftu að gera þetta myndi það benda til þess að þeir væru ekkert mjög vissir í sinni sök.

Nei, þegar trúleysingjar koma saman er það helst til þess að pústa út um allan þann ranghugmynda- og ruglvaðal sem þeir hafa orðið áskynja hjá trúmönnum. Í kreðsum trúleysingja er í lagi að menn séu ósammála. Við fögnum slíku, því þá er hægt að byrja að vega og meta rök.


Þráinn Haraldsson - 24/02/04 11:13 #

Ég þakka athyglisverð umæli um sjálfan mig og mínar skoðanir.(ungi maðurinn á málþinginu) Ég vil árétta það að sjálfsögðu er boðun grundvöllur trúarinnar. Ég hafna því þó algjörlega að ég sé kristinn út af því að einhver sagði mér að vera það. Ég er kristinn út af því að ég tók upplýsta ákvörðun (byggða á vitsmunnum mínum og upplifun) eftir að hafa fræðst um trúnna. Ákvörðun sem enginn getur tekið fyrir mig eða sagt mér að taka. Kristinn trú gengur einmitt út á þetta, eða einstaklingurinn sjálfur verði að ákveða hvort hann vill fylgja Jesú eða ekki, það getur enginn sagt fyrir hann. Ég leyfi mér að gera ráð fyrir að ákvörðun þin um trúleysi sé byggt á samskonar ferli. Þ.e.s. ákvörðun sem tekinn er eftir að þú hafir fræðst um trúmál og trúleysi. Ef ég er fórnarlamb áreitis trúaðra og það hafi verið undirrót ákvörðunar minnar því skyldir þú ekki vera fórnarlamb samskonar áreitist trúleysingja? (t.d bækur eða samtöl), og hvað er þessi heimasíða annað en áróður og boðun um trúleysi? Eru þá þeir sem lesa þessa síða ekki fórnarlömb áreitist trúleysingja? Áreitist sem þeir geta síðan byggt ákvörðum sína um trúleysi á? Hér er það spurning hvor okkar sé fórnarlamb?


Bjoddn - 24/02/04 21:57 #

Hér er það spurning hvor okkar sé fórnarlamb?

Sá sem borgar ???


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/02/04 22:46 #

"Ég hafna því þó algjörlega að ég sé kristinn út af því að einhver sagði mér að vera það."

Nákvæmlega það sem ég var að segja. Enginn ákveður fyrir þig HVORT þú trúir, en menn gera sér í staðinn far um að móta það HVERNIG þú hugsar.

Þú tókst upplýsta ákvörðun um að verða kristinn og m.a.s. fylgja þeirri túlkun sem sá söfnuður sem þú ert í fylgir. Þessa upplýstu ákvörðun tekurðu eftir að vera búinn að kynna þér það hugmyndakerfi, eða kynnast því fyrir áróður annarra.

Það er þessi kynning sem ég er að tala um. Það eru meiningar annarra um það hvernig hugsa skuli sem þú ákvaðst sjálfur að fylgja í einu og öllu.

Sérðu hvað ég er að fara?

"Ég leyfi mér að gera ráð fyrir að ákvörðun þin um trúleysi sé byggt á samskonar ferli."

Til hálfs já. Í trúleysi segir enginn þér hvernig hugsa skuli, heldur gengur allt út á sjálfstæða gagnrýna hugsun og efahyggju.

Að trúa er að hugsa ekki sjálfstætt. Að trúa ekki er að hugsa sjálfstætt. Þessi vefur gengur út á að ýta við fólki og hvetja það til sjálfstæðrar hugsunar, en ekki að kaupa eitthvert hugmyndakerfi í blindni.

Þú átt heila. Notaðu hann!


Ragnar Gunnarsson - 25/02/04 13:59 #

Hver er sæll í sinni trú og sínu trúleysi. Ég á erfitt með að fallast á það að sá sem trúir hugsi ekki sjálfstætt og sá sem ekki trúir hugsi sjálfstætt. Öll hugsun hefur sínar forsendur og megnið af þeirri vitneskju sem við tileinkum okkur, einnig frá svokölluðum hlutlausum aðilum, byggir á trú. Öll teystum við á heimildir, upplýsingar og annað slíkt sem er forsenda þess að við köllum okkur upplýst. Og stundum erum við blekkt því við höfum ekki tækifæri til að sannreyna allt og þá treystum við og trúum.

Áttu við að trú sé ákveðið hugmyndakerfi en trúleysið ekki? „Sjálfstæði“ og „hlutleysi“ eru trúlega hvergi til í hreinu formi, einmitt vegna þess að ekki verður allt sannreynt og að öll höfum við okkar forsendur, meðvitaðar og ómeðvitaðar.

Allir nota heilann, eða áttu við að verðum við öll að nota hann eins og þú notar hann? Og ef svo er, ertu þá ekki að segja okkur hvernig við eigum að hugsa...


Þráinn Haraldsson - 25/02/04 15:41 #

Ég tel mig nú bara nota heilann ágætlega þakka þér fyrir. Skrif þín um söfnuði einkennst af vanþekkingu, það er ekki rétt að allir í söfnuði hugsi eins. Ég er t.d alls ekki sammála vinum mínum um alla hluti sem varða trúnna. Sigurður Hólm sagði hins vegar á málþinginu að í siðmennt væru allir sammála, og mér virtist að þið væruð samála um flesta hluti. Hversu mikill sjálfstæð hugsun er það.......


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/02/04 20:26 #

"Ég á erfitt með að fallast á það að sá sem trúir hugsi ekki sjálfstætt og sá sem ekki trúir hugsi sjálfstætt."

Ástundar þú gagnrýna hugsun þegar kemur að trúarbrögðum þínum? Spyrðu þig reglulega hvort þetta geti allt staðist og beitir svo rökum til að leiða það út?

Eða er það eins og mig grunar, að gagnrýnin hugsun þín virki fínt allt þar til kemur að trú þinni, þá er eins og slökkt sé á henni og aldrei spurt út í "sannleikann eina".


Hlín Stefánsdóttir - 25/02/04 23:18 #

Vitiði það að ég er kristin, og ég stunda oft gagnrýna hugsun þegar kemur að trúarbrögðum mínum. Það er ýmislegt sem flækist fyrir mér í Biblíunni og það sem hinir og þessir segja mér hvernig eigi að túlka þetta... notabene ekki allir sammála þó þeir séu í sama söfnuði. Ég hef samt alltaf komist að þeirri niðurstöðu að Jesús sé frelsari minn... mótuð af hinum og þessum já, en við erum öll mótuð félagslega. Svo bara eitt í lokin, ég fann ekki Jesú, Jesú fann mig, bankaði og bankaði þar til ég ákvað að hleypa Honum inn...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/02/04 00:05 #

"...hinir og þessir segja mér hvernig eigi að túlka þetta..."

Mæ poínt eggsaggtlí!


Þráinn Haraldsson - 26/02/04 13:46 #

Já svona svipað og þú segir þeim sem þessa síðu lesa hvernig þeir eiga að hugsa. Þegar við rökræðum hlustum við á skoðanir annara, hugsum sjálf um hlutina og mótum loks okkar eigin ákvörðun, þannig gerist þetta líka í söfnuði. Ég er ekki sammála öllu sem ræðumaður segir, jafnvel þótt við tilheyrum sama söfnuðu og séum sammála um mörg atriði. Svipað og að allir í Vinstri grænum eru ekki sammála um alla hluti þótt þeir kjósi sama flokkin og þar af leiðandi samála um marga hluti. Ertu að reyna að segja að ef ég sé sammála einhverjum þá sé ég ekki að hugsa sjálfstætt!!!!! Og eitt, allir verða fyrir áhrifum......meiri segja þú!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/02/04 18:46 #

Vertu ekki að gera mér eða þessari síðu upp skoðanir og athafnir. Hér er engum sagt hvernig hann skuli hugsa, heldur eru menn hvattir til að ástunda sjálfstæða gagnrýna hugsun.


Sigurður Hólm Gunnarsson - 27/02/04 13:33 #

"Sigurður Hólm sagði hins vegar á málþinginu að í siðmennt væru allir sammála."

Ég var auðvitað að grínast. Tókst meira að segja ágætlega því flestir hlógu. :) Annars erum við trúleysingjar alls ekki sammála um allt, erum alltaf að rökræða, eins og Birgir og aðrir Vantrúarpennar geta vitnað um :)

Vildi bara koma þessu á framfæri :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/02/04 14:44 #

Alla vega: Það er þá bara hið besta mál ef ég hef hér haft rangt fyrir mér og allir séu voða skeff innan söfnuðanna. Ég bara hvet ykkur til að gera enn meira af þvi að hugsa gagnrýnið og láta ekki nokkurn mann segja ykkur að hann sé handhafi sannleikans. Hvað þá að sannleikann megi finna í einni gamalli skruddu.


Hlín Stefánsdóttir - 27/02/04 19:36 #

Það sem ég átti við hér á undan er að sjálfsögðu að þó að einhverjir reyni að segja mér hvernig eigi að túlka hlutina þá túlka ég þá ekki endilega eins... með öðrum orðum ég hugsa sjálfstætt, læt engann segja mér fyrir verkum. En verð að sjálfsögðu fyrir áhrifum eins og allir aðrir...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.