Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vottar Jehóva - bann við blóðgjöfum

Það sem fólk veit um votta jehóva samanstendur yfirleitt af því að þeir eru söfnuðurinn sem bankar upp á hjá fólki og býður því blöð til aflestrar sem og að þeir eru á móti blóðgjöfum.

Clayton Woodworth hét maðurinn sem er að mestu leyti ábyrgur fyrir þessu blóðgjafabanni, en hann, ásamt leiðtoga safnaðarins á þeim tíma, Nathan Homer Knorr, sem og maður að nafni Frederick William Franz sem síðar tók við af Knorr sem leiðtogi, settu þetta bann á árið 1945.

Clayton var nokkurs konar heilsuráðgjafi vottanna á þessum tíma. Hann hafði fundið upp vél sem læknaði alla sjúkdóma, hann hafði komist að þeirri niðurstöðu að sjúkdómar orsökuðust af ójafnvægi í rafbylgjum líkamans og að sýklar væru afleiðing sjúkdóma. Í hans augum voru læknar handbendi djöfulsins, áhöld úr áli bar að varast, menn áttu ekki að borða morgunmat því það var óhollt og útfjólubláir geislar sólarinnar voru allra meina bót.

Árið 1931 ákvað Clayton að bólusetningar væru af hinu illa og notaðist hann við biblíuna til að rökstyðja það. Samkvæmt hans skilningi voru bólusetningar bannaðar þar sem Genesis 9:3-6, Leviticus 17:10-16 og Postulasagan 15:19-21 sögðu mönnum að halda sig frá blóði.

Bann gegn bólusetningum hélt allt til ársins 1952 og eins og áður gat, þá datt mönnum í hug að banna blóðgjafir í millitíðinni, á sömu forsendum og bólusetningabannið var sett á.
Hófst á þessum tíma mikill áróður sem innihélt m.a. gullkorn á við að menn fengju persónuleika þess sem blóðið var komið frá, blóðgjafir og bólusetningar voru bara plat til þess að græða á, þú varðst pervert ef þú þáðir blóðgjafir eða bólusetningar, menn fengu sýfillis, krabbamein, holdsveiki og fleira ljótt ef þeir þáðu bólusetningar og margt fleira í þessum dúr.
Eftir andlát Woodworths árið 1951 var bólusetningabannið afnumið.

Með afnámi bólusetningabanns hefði maður haldið að blóðgjafabannið færi sömu leið enda er þarna um sama hlutinn að ræða. Ef allt í einu má fá blóð af einum stað sem áður var bannað, hví má þá ekki fá það frá öðrum þar sem um sama dæmið er að ræða? Þar sem sömu ritningastaðir voru notaðir til að rökstyðja bæði bönnin, þá hefðu þau bæði átt að falla út en ekki annað þeirra. En vegir guðs (lesist Varðturnsfélagsins) eru órannsakanlegir.

Blóðgjafabannið hélt sínu striki og fátt gerðist í svona heilbrigðismálum hjá vottunum þar til árið 1967 að þeir bönnuðu líffæraflutninga á þeirri forsendu að slíkt svipaði til mannáts.
Nú veit ég ekki hvernig bækur líffræðinema voru á þessum árum en býst þó við að á þessum tíma hafi menn verið búnir að fatta það að blóðið væri nokkurs konar vefur í líkamanum, þannig að með líffæraflutningabanni voru komin enn frekari rök fyrir því að banna blóðgjafir en áður. Þessa skoðun tóku vottarnir upp árið 1977, þ.e. í þeirra augum varð blóðið líffæri.

Líffæraflutningabann hélt allt til ársins 1980 er það var afnumið og eins og áður, þá hefði maður séð þarna tilefni til þess að afnema blóðgjafabann í leiðinni þar sem blóðgjöf er jú líffæraflutningur. Það er ekki verið að neyta blóðs þó svo að þú fáir það í æð heldur er verið að halda í þér lífinu. En það var þó ekki gert frekar en fyrri daginn og menn bjuggu til fínar klausur til að útskýra fyrir almúganum hversu rökrétt það væri að þiggja ekki né gefa blóð.
?Ef alkahólisti má ekki drekka áfengi, má hann þá eitthvað frekar fá það í æð?? sögðu þeir og fleira í þessum dúr.

Blóðgjafabannið hélt áfram og er að því er ég best veit ennþá í gangi hjá vottum jehóva.
Á þeim tíma sem blóðgjafabann hefur verið í gangi, þá hefur það tekið breytingum.
Árið 1963 birtist grein í Varðturninum sem segir að allir hlutar blóðs séu bannaðir.
Árið 1978 máttu blæðarar þiggja ákveðna hluta blóðs.
Árið 1982 mátti þiggja Albúmín og glóbúlín úr blóði.

Einhver börn deyja af völdum þessa banns, börn sem kannski síðar meir hefðu ekkert viljað kenna sig við þessa trú. Árið 1994 gáfu vottarnir út blað með fyrirsögninni ?Börn sem settu guð í fyrsta sætið? og var þar fjallað um nokkur börn sem hafa dáið af völdum þessa banns. Öll voru þau staðföst í trúnni og koma til með að hitta foreldra sína í paradís á jörð eftir að jehóva hefur murkað lífið úr mér og mínum líkum.

Þegar ég spjallaði við vottana, þá notuðu menn frasa eins og ?Blóð táknar líf? og hef ég aldrei skilið þau rökin fyrir því að táknið sé mikilvægara en það sem það stendur fyrir.
Fyrir trúleysingja eins og mig mætti líkja því við að ekki megi stöðva við stöðvunarskyldu því slíkt merki táknar að þú eigir að stöðva.
Ef ég væri trúaður mundi ég líta til sögu Jesú um sauðkindina sem bjargað var á hvíldardegi sem finna má í Matteusi 12:11.
Sú dæmisaga segir mér að þó svo að til séu reglur, þá eru þær ekki svo strangar að fylgja þurfi þeim út í opinn dauðann.

Í huga manns sem ekki skilur þörfina fyrir trú, þá lítur blóðgjafabann vottanna út sem dæmi um hversu langt menn geta látið teyma sig í trúnni. Að til sé fólk sem er tilbúið til þess að fórna sínum börnum vegna reglna trúfélags sem sífellt taka breytingum hvort eð er, er eitthvað sem menn eins og ég skilja ekki og líklega skilur hinn venjulegi þjóðkirkjuþegn með sína barnatrú það ekki heldur.
Kannski vita einhverjir vottar ekki af öllum þeim breytingum á reglum sem hafa átt sér stað í gegnum tíðina og halda bara að boðskapur vottanna sé sannleikurinn.

Ef svo er, þá vekur það upp spurningar um skyldu slíkra félaga að upplýsa sína meðlimi um söguna sem að baki söfnuðinum liggur. Sjálfur fór ég á biblíunámskeið hjá þessum söfnuði en fékk þar ekkert að vita um sögu félagsins, ekki las ég neitt í biblíunni heldur. Þetta var námskeið í svona 100 blaðsíðna bók þar sem farið var óeðlilega nákvæmlega yfir hvert smáatriði eins og maður væri svona gaur sem sæti bara heima hjá sér á daginn og slefaði í bolla.

Það sem ég helst lærði á þessu námskeiði var að vottarnir eru alveg tilbúnir til þess að búa sér til eigin sannleika þegar það hentar þeim og kynna hann sem eitthvað rétt óháð því hvort einhver annar sé sammála eður ei. Fólk sem ekki hefur mikla þekkingu á biblíunni trúir því bara þegar vottarnir tala um hluti eins og að Nebúkadnessar hafi hertekið Jerúsalem árið 607 fyrir Krist og aldrei er bent á að enginn annar er á sömu skoðun. Kannski ómerkilegur hlutur segja menn en þó ekki þar sem þetta ártal er í raun grundvöllurinn fyrir allri trú vottanna.

Fæstir þeir vottar sem ég hef talað við vissu að eitt sinn voru bólusetningar bannaðar, að eitt sinn voru líffæraígræðslur bannaðar og að sá maður sem kom blóðgjafabanni á í upphafi hafi verið jafn mikill spekingur og raun ber vitni.

Kannski er trúin eins og áfengið. Flestum finnst ágætt að fá sér stundum einn og einn bjór en alltaf eru til menn sem ganga of langt. Flestir í samfélaginu vilja bara að allir séu í góðum fíling og reyna að hafa gaman af lífinu. Svo eru til aðrir sem líta á veröldina sem nasískar fangabúðir þar sem aðeins einn kynstofn rétttrúaðra mun lifa af og þeir kalla það fagnaðarerindi.

Björn 17.02.2004
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Davíð - 17/02/04 23:04 #

Vottar Jehóva eru sérstæður söfnuður, segjast trúa Biblíunni, en lesa hana ekki nema örfá vers! Blóðið er vitanlega eins og rauður þráður í gegnum allar ritningarinnar, en það er til lífs en ekki dauða. Vá þetta skilst ekki hér svo hefði getað sleppt þessu :) Hef átt athygglisverða umræður við Votta Jehóva, er eru erfiðari en þið trúleysingjarnir að því leyti að þeir vita í raun og veru ekki hverju þeir trúa, það er ákveðið í USA og framhald kemur í næstu viku. Ert þú sá Björn sem gerðir ritgerð um Krossinn á sínum tíma? Kveðja Davíð


Björn - 17/02/04 23:26 #

Ég veit ekkert um krossinn og hef aldrei skrifað neitt um hann.


Davíð - 17/02/04 23:58 #

Ok en hann hét Björn og ég las ritgerðina hans, hef líka lesið vefinn þinn um Vottanna þú vandar til verka.


Atli Viðar - 18/02/04 00:48 #

maður verður að mixa upp svona 'topp tíu hlutir til að spyrja Vottann að þegar hann poppar upp við dyrnar þínar' lista.

Besta svar sem ég hef séð við Votta var þegar einn slíkur bankaði upp á í þættinum Kid's In The Hall og strákur um 8 ára aldurinn svarar.

Votti - "We were wondering if we could speak to you about the lord... " (félagi hans bergmálar "the lord.. the lord...")

Krakki - "Yes I will eat your bible. But it will take me weeks of munching and snacking..."

vandræðaleg þögn fylgdi


sþór - 26/02/04 01:14 #

Það stendur þarna fyrir ofan slepptu öllum ærumeiðingum nú það sem ég las á undan var fullt af ærumeiðingum í garð ákveðins trúarhóps eða hópa. Hvað eru þið þá að biðja okkur hin um að sleppa ærumeiðingum? Ef þetta flokkast ekki undir tvískinnung hvað gerir það þá?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 26/02/04 08:04 #

Þú gleymir veigamiklu atriði, sannleikanum. Þessi grein er sönn og í því liggur munurinn. Enginn tvískinnungur, bara skilningsleysi hjá þér.


Bjoddn - 26/02/04 08:44 #

Ég lít ekki á þetta sem ærumeiðingar. Þetta er unnið upp úr blöðum vottanna sjálfra þannig að kannski eru þeir sjálfir þá að ærumeiða sig?

Nú veit ég ekki hvort að þú sért vottur, en hafir þú lesið þeirra blöð, þá mundirðu vita að þessi grein er ósköp sakleysisleg miðað við greinar þeirra um önnur trúarbrögð, þá kannski sérstaklega kaþólsku kirkjuna. Ég geri ekkert sem þeir hafa ekki gert sjálfir.

Ég er ekki að segja eitthvað sem ekki hefur komið fram áður en er hinsvegar að draga fram hluti sem eru ekki auglýstir. Sjálfur skil ég ekki hvernig söfnuður með slíka sögu getur verið ennþá starfandi, ég dreg þá ályktun að sú sé raunin þar sem svona upplýsingar koma hvergi fram og nú hef ég bætt úr því.

Það er því enginn tvískinnungur, það eru engar ærumeiðingar, aðeins útdráttur úr blöðum votta jehóva. Það er merkilegt að sannleikurinn skuli ekki standa traustari fótum en svo að ekki megi gagnrýna hann.


Úlfurinn - 27/02/04 15:06 #

Æ,þeir eru sjálfum sér verstir greyin,en ég vorkenni börnunum þeirra.Reyndar tekst fólki úr öllum trúarhópum að eyðileggja líf barna sinna. Kannski gera einhverjir trúleysingjar það líka.


Sindri - 24/06/04 18:42 #

Björn, hvers vegna forst þu a namskeið hja Vottunum?


Bjoddn - 25/06/04 00:31 #

Af sömu hvötum og fólk fer í dýragarða þegar það hefur tækifæri til. Ég fatta bara ekki fólk sem trúir og vildi skoða það nánar. Mér fannst gaman að ræða um trúmál á sínum tíma og þeir voru til í að rövla við mig. Ég hékk hjá þeim í hálft ár eða svo þar sem svo mikill skítur grefst upp þegar maður skoðar félagið pínku pons.
Ætli áhugi minn á trú hafi ekki bara komið mér á staðinn en "Séð&Heyrt syndrome" haldið mér þar svona lengi ;)


Gestur - 04/09/04 04:15 #

Sæll björn. Var að klára að lesa vefinn þinn þar sem þú fjallar um Votta Jehóva. Fyrir mér var þetta mjög áhugavert þar sem ég var eitt sinn Vottur. Vottar Jehóva hafa einstakt lag á að heilaþvo einstaklinga með mjög mjúkum höndum. Áróðurinn frá yfirbákninu í USA er oft mjög dulinn og undirliggjandi. En eins og með flest ungt fólk þá kemur sjálfstæð hugsun með árunum! Ég tók sem betur fer þá ákvörðun að yfirgefa söfnuðinn (=rekinn) og sannfærðist enn meir um réttmæi ákvörðunar minnar við lesturinn!

Þakka kærlega fyrir þessar upplýsingar!


Paul - 06/11/04 04:40 #

Það hefur reynst mér mikil bölvun að vera kurteis og ekki vilja gera lítið úr skoðunum annarra þegar kemur. Ef þeir bönkuðu upp á þá bara hlustaði maður á röflið í þeim þangað til maður fékk nóg af vitleysunni og rak þá í burtu. Svo þegar maður er orðinn aðeins eldri og vottarnir eru að banka upp á og spyrja: "Trúir þú á guð" (þótt þetta hljómi frekar eins og "má ég þröngva mér upp á þig í nokkrar mínútur sem þú færð ALDREI aftur") Ákvað ég að svara: "Nei, ég trúi því að annaðhvort sé allt fyrirfram ákveðið, semsagt heimurinn samkvæmt afstæðiskenningu, eða að allt er óvíst, sama hvað þú ert viss. Semsagt heimurinn samkvæmt skammtafræðinni." Hún svarar: "Já, þetta þarna fyrra er einmitt svolítið svipað því og ég ætla að tala um." svo um leið og ég spurði um einhver rök..... Þið getið allavega ímyndað ykkur hvernig það endaði. Þau einfaldlega virðast ekki vita betur.


Lilja - 14/05/05 20:57 #

sammála Gesti ...þeir hafa einstakt lag að heilaþvo fólk...þetta með blóðgjöfinna er náttúrlega alveg fáránlegt,ég ólst upp sem vottur Jéhóva en hætti sjálf fyrir nokkrum árum síðan ...mörg börn og unglingar sem alast upp í vottunum eru þarna fyrir foreldra sína og þar að leiðandi verða þau að lúta þeim reglum sem þar segja m.a að neita blóðgjöf annars ertu rekin með úr söfnuðinum ef þú fylgir því ekki og ef það gerist mega (vinir og fjölskylda sem eru vottar ekki tala við þig) held að flestum finnist það mjög erfitt að fæðast inní svoleiðis trúfélag þegar þú veist að ef þú hættir er þér ekki boðið í neinar veislur né neitt ekki einu sinni brúðkaup hjá nánustu fjölskyldu meðlimi.. en þetta fullorðna fólk verður náttúrlega að taka sínar eigin ákvarðanir um líf sitt en geta ekki tekið svona stóra ákvörðun fyrir börn sín þegar um blóðgjöf er að ræða sem gæti bjargað lífi þeirra...........

megi þið öll vel lifa....

kveðja Lilja


T. - 27/09/05 14:12 #

Ber okkur ekki að virða rétt þeirra til þess haga sínum málum eins og þeim þykir best, á meðan þeir eru ekki að valda sjálfum sér eða öðrum skaða?, Er það að þyggja blóðgjöf og lifa, ekki í raun verra en að deyja án blóðgjafar í þeirra samfélagi? Hvernig getum við horft á þetta hlutlausum augum og sagt að þetta sé rangt..


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/09/05 15:15 #

Úr greininni:

Einhver börn deyja af völdum þessa banns, börn sem kannski síðar meir hefðu ekkert viljað kenna sig við þessa trú. Árið 1994 gáfu vottarnir út blað með fyrirsögninni ?Börn sem settu guð í fyrsta sætið? og var þar fjallað um nokkur börn sem hafa dáið af völdum þessa banns. Öll voru þau staðföst í trúnni og koma til með að hitta foreldra sína í paradís á jörð eftir að jehóva hefur murkað lífið úr mér og mínum líkum.

Þetta er rangt.


Tommi - 02/10/05 21:10 #

Sjálfur á ég skólabróður sem að er alinn upp af vottum og telur sig vera votta..Við rökræddum og hann sagði mér eitt sem að hann taldi vera sönnun fyrir tilveru Satans og Guðs, ,,það stendur í biblíunni að árið 1914 þá hafi guð hent Satan í helvíti, og hvað gerðist þá? seinni heimstyrjöldin kom''....

Þarf ég að segja meira?...Aumingja drengurinn hefur algjörlega orðið fyrir heilaþvotti...


comment - 16/03/10 11:00 #

Þetta er linkur á athyglisverða frétt

http://www.digitaljournal.com/article/287219

Vottar Jehóva eru langt frá því að vera þeir einu sem vilja ekki blóðgjafir. Ótal margir hafa komist að því að skurðaðgerðir án blóðgjafa eru ein öruggasta og vandaðasta læknismeðferð sem völ er á.

Björn, það væri gaman að fá lista yfir þær heimildir sem þú byggir þessa grein á og hvort þær eru í raun frá Vottum Jehóva eða ekki.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 16/03/10 11:05 #

Ótal margir hafa komist að því að skurðaðgerðir án blóðgjafa eru ein öruggasta og vandaðasta læknismeðferð sem völ er á.

Áttu þá við skurðaðgerðir þar sem tekst að koma í veg fyrir mikla blæðingu?

Hvað gera menn þá þegar mikið blæðir þrátt fyrir að það hafi ekki verið ætlunin? Nota menn þá ekki blóð eða plasma?

Mér finnst það undarleg setning hjá þér að kalla það vandaða og örugga læknismeðferð að nota ekki blóð. Hefurðu eitthvað fyrir þér í því?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 16/03/10 11:14 #

Hér er átt við nýja hátækniaðferð við skurðaðgerðir þar sem sjúklingnum er í raun gefin blóðgjöf með eigin blóði.

Það blóð sem sjúklingurinn missir við skurðaðgerðina er hreinsað og því veitt aftur inn í líkamann.

Eða það sýnist mér af þessari grein sem vísað var á og meðfylgjandi myndbandi.

Ég skil hins vegar ekki hvernig þetta sýnir fram á ágæti kredda Vottanna ...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.