Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Efnishyggjumaðurinn ég

Efnishyggja: 1) Sú heimspekikenning að efnið sé undirstaða og upphaf alls og sál eða vitund hafi þróast af því 2) það að leggja aðaláherslu á veraldleg gæði. (Íslensk orðabók fyrir skóla og skrifstofur)

Ég er efnishyggjumaður, allavega ef við notum fyrri skilgreininguna. Seinni skilgreiningin gefur til kynna að efnishyggjumaðurinn ég hugsi einungis um peninga og eignir, það er ekki slík efnishyggja sem ég aðhyllist.

Reyndar er mjög auðvelt að benda á að seinni skilgreiningin sem fjallar um veraldleg gæði þarf ekki að vera neikvæð þó flestir myndu álykta það. Ég hugsa einungis um veraldleg gæði, ekki endilega peninga og eignir (þó ég hafi ekkert á móti slíku) heldur allt sem fylgir þeim veruleika sem við hrærumst í. Mín veraldlegu gæði eru til dæmis konan mín, vinir mínir og ættingjar, allt þetta fólk er af holdi og blóði en ekki úr einhverju ótilgreindu andlegu efni.

Þegar ég les bók þá er ég að njóta veraldlegra gæða, höfundurinn sem skrifaði bókina kemur úr sama heimi og ég, hugmyndir höfundarins eru jarðneskar þó þær fjalli kannski um yfirnáttúruleg fyrirbrigði. Tónlist er veraldleg, án hennar væri lífið mistök sagði efnishyggjumaðurinn Nietzsche og hafði alveg rétt fyrir sér. Listin er mennsk og dásamlega jarðnesk, menning er ekki kominn frá guði heldur samfélagi manna.

Eru efnishyggjumenn, trúleysingjar, kaldlyndir? Hvort er kaldlyndara að einbeita sér að heiminum sem við lifum öll í eða að andlegum heimi sem enginn veit hvort sé til? Ef mig langar að hjálpa einhverjum þá geri ég það með að auðvelda líf hans hér og nú í stað þess að lofa honum að framtíðin verði betri í öðrum heimi (svo lengi sem skipunum sé fylgt).

Kaldlyndi er að bjóða lausnir sem ekki verða sannreyndar og verðlaun sem ekki er hægt að innheimta. Vandamál okkar eiga sér rætur í þessum heimi og krefjast raunverulegra lausna en ekki falskra.

Hinn stórkostlegi trúleysingi Douglas Adams spurði í einni bók sinni hvort það væri ekki nóg að garðurinn sé fallegur án þess að trúa að þar sé að finna álfa. Ef þú leitar fegurðar þá er hún allt í kring, raunveruleg en ekki uppdiktuð, ekki í framtíðinni heldur núna. Ef þú leitar skapara líttu þá til náttúrunnar í öllum sínum mætti, hún er magnaðri en nokkur ímyndaður guð.

Ég heiti Óli Gneisti Sóleyjarson, ég er efnishyggjumaður vegna þess að einu raunverulegu gæðin er að finna í þessum heimi.

Óli Gneisti Sóleyjarson 15.02.2004
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Bjoddn - 16/02/04 16:32 #

Talandi um efnishyggju í merkingu 2. Ætli heittrúaðir setji eitthvað samasemmerki á milli þess að árið 1990 var amerískum trúsöfnuðum gert skylt að greiða skatt af sölu trúarrita og þeirri staðreynd að árið 1990 fóru allir að gefa trúarrit gegn framlagi. Hare Krishna, Vottarnir, Benny Hinn, Jimmy Swaggart og þvíumlíkir.

Gjaldið keisaranum það sem keisarans er (nema ef þú ert formaður trúsafnaðar)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.