Hugvekjan er hluti af æsku minni, minnir á Húsið á Sléttunni og Táknmálsfréttir. Ég veit ekki hvenær hún hvarf, ég man í raun ekkert eftir henni, bara að þarna var prestur að tala.
Af hverju í ósköpunum var lagið úr Deer Hunter spilað undir Sunnudagshugvekjum í Ríkissjónvarpinu hér áður fyrr? Þar til ég sá myndina mörgum árum seinna þá datt mér bara Hugvekja í hug þegar ég heyrði lagið og enn hugsa ég til Hugvekjunnar þegar ég heyri það. Ég hefði haldið að það væru til nægilega mörg lög um guð sem hefði mátt spila þarna. Kannski skipti bara ekki máli hvort lag sé samið til dýrðar guði eða til að tjá tilfinningar í kvikmyndum.
Ég veit ekki hvenær hugvekjan hvarf af dagskrá, held að það hafi verið áður en ég var orðinn nógu gamall til að finnast hún verulega leiðinleg, það var allavega áður en ég gat áttað mig á hve undarlegt það væri að ríkistrúin hefði sérsamning við Ríkisútvarpið. Það er gott að sá tími er liðinn? Reyndar er sá tími ekki liðinn þó hugvekjan sé farin. Hver man ekki eftir geysiskemmtilegum þáttum þar sem Ólafur Skúlason þáverandi biskup ferðaðist um á Biblíuslóðum? Reyndar man ég aðallega eftir að hafa skipt um stöð þegar kallinn birtist. RÚV virðist enn þann dag í dag vera tilbúið að hjálpa þjóðkirkjunni og það er bara ekki eðlilegt.
Sunnudagshugvekjan er horfin af RÚV en hún er rétt að fæðast á Vantrú því í framíðinni verða vonandi birtar hugvekjur á hverjum sunnudegi héðan í frá, njótið vel.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
eva bjork isaksd - 16/02/04 11:55 #
sæll og blessaður ertu ekki með neitt netfang ef svo er get ég fengið það þarf að biðja þig um smá greiða kveðja Eva