Hvað er fegurð og hvernig skynjum við hana? Hvers vegna er fegurðarskyn okkar mismunandi milli manna og tímabila í sögunni?
Oft hef ég heyrt þau rök trúmanna fyrir heimsmynd sinni að sköpunarverkið sé einfaldlega of glæsilegt til að geta verið nokkuð annað en smíðað af smekkvísum höfundi. Þetta var t.d. eina ástæðan sem Davíð Þór Jónsson grínari og fyrrum guðfræðinemi bar við þegar ég rökræddi við hann um guðstrú á Ísafirði fyrir margt löngu. En skyldi vera eitthvað vit í þessu viðhorfi?
Ég hallast að því að fegurðarskyn okkar taki alfarið mið af því hver við erum, partur af náttúru sem byggir á ákveðnum eðlis- og efnafræðilegum lögmálum. Ég skal skýra þetta nánar:
Hafa menn einhverntíma heyrt talað um fraktala? Þegar ég átti Atari tölvuna mína í den komst ég yfir eins konar teikniforrit sem dró upp ægifagrar myndir af einhverju sem líktist landslagi, gróðri og jafnvel kristöllum án nokkurs vitræns innígrips frá mannshöndinni. Þetta einfalda en áhrifamikla forrit byggði á fraktalaferlum, endurtekningum á einföldum formum. Fraktalar eru ríkjandi í náttúrunni og okkar eigið sköpulag er hægt að rekja þangað. Er nokkur furða að við fraktalskar lífverur skulum hafa auga fyrir svona formum í náttúrunni?
Ég held að það sé engin tilviljun.
Í nýlegu hefti af Lifandi vísindum var útlistað hvernig hlutfall gullinsniðs* kemur stöðugt fyrir í náttúrunni, jafnt í kuðungum sem heilu vetrarbrautunum. Og margir muna eftir heimildarmynd í sjónvarpi þar sem útskýrt var hvers vegna fögur blóm hafa þá lögun sem þau hafa og af hverju glæstir innviðir býflugnabús eru eins og þeir eru.
Engin hönnun þar, bara eðlis- og efnafræðileg lögmál að verki.
Lögun sameinda ræðst af eiginleikum frumeindanna sem liggja til grundvallar. Og á stærra plani taka heilu klumparnir mið af þeim efnasamböndum sem þeir innihalda. Saltkorn hefur ákveðna teningslögun og demantur verður fallegastur ef hann er slípaður í samræmi við kolefnisgrindina sem hann samanstendur af.
Og við, samhverfu fjölfrumungarnir, föllum í stafi yfir þessu öllu og heimtum í heimsku okkar að sjá smiðinn laghenta sem allt þetta skóp.
Við getum verið svo vitlaus. En svona liggur þá í forsendu fegurðarinnar. Þetta er allt bara físík og kemí, eins og Nóbelsskáldið orðaði það einhverntíma, ef ég man rétt.
En það eru reyndar fleiri hliðar á þessu máli og þær útskýra mismunandi fegurðarskyn frá einu tímabili til annars og jafnvel milli einstaklinga. Ég bendi mönnum á að lesa þessa grein hér til að átta sig á því hve áhrifagjörn við erum í þessum efnum. Svarið felst í stuttu máli í því sem kalla mætti tískustrauma í hugsun og skoðanamyndun.
Læt ég svo lokið fegurðartali að sinni. Munið bara að allt á sér náttúrlegar skýringar þegar upp er staðið
---
*) gullin·snið HK FT
• þau hlutföll milli tveggja mislangra lína að sú styttri sé jafnmikill hluti hinnar lengri og sú lengri er stór hluti af þeim báðum samanlögðum, hlutfallið (ónákvæmt) 19:31 eða 0,6180
[Tölvuorðabókin]
já halló, ég datt inná síðuna þína þegar ég var að leita að fraktölum. Ég er nefnilega nemi í fatahönnun í listaháskólanum og er að leita að upplýsingum hvernig maður "býr" til fraktala. Ég ætla að athuga hvort ég geti notast við það í sníðagerð. Veistu hvert ég á að leita. Kannski einhverjar bækur?
Eygló
Eygló, ég hef því miður alla mína þekkingu á fraktölum upp úr 15 ára gömlu Atari-tölvunördatímariti. En ég efast ekki um að hið stórkostlega Internet sé stútfullt af upplýsingum um þetta heillandi viðfangsefni.
Vona að þú náir að umbylta fatahönnuninni með fraktölum og gullinsniði :)
Takk fyrir leiðréttinguna. Hin talan kemur beint upp úr Tölvuorðabókinni.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
thor - 08/02/04 10:25 #
Bókin "The survival of the prettiest" rökstyður þá kenningu að fólk sem talið er aðlaðandi af ákveðnum hóp hafi tilhneigingu til að vera "meðaltalið" af sínu kyni í þeim hóp. Þ.e. eins og allir meðlimir hópsins af því kyni hafi verið "morfaðir" í eina manneskju. Athyglisverð kenning sem ætti að vera hægt að prófa. Það er heldur engin vafi á að það sem við teljum fallegt er að jafnaði það sem stuðlar að velferð okkar og það sem er ljótt er það sem vinnur gegn henni, t.d. úldin matur eða yfirdrifin sjálfelska (annarra). Maður þarf að vera vel mettur til að meta fegurð eyðimarka og lifa í góðu öryggi til að geta dáðst af týröntum eins og Machiavelli gerði.