Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gussi kredithirðir

Drottinn er minn hirðir segir einhversstaðar. Vel má vera að í hugum fjölmargra sé hann eitthvað slíkt átorítet, en í mínum huga eru einu hirðisstörf hans þau að hirða heiðurinn af sköpun lífsins, án þess að koma þar nokkuð nálægt.

Almáttugur Guð hefði getað skapað manninn einni svipan hefði honum sýnst svo. Reyndar segir fyrsta Mósebók að það hafi hann einmitt gert. En er sú raunin?

Neibb, allar niðurstöður rannsókna á uppruna mannsins, lífsins og heimsins sýna okkur að maðurinn er aðeins ein grein af lífheiminum og tekið hafi hann ármilljarða að þróast frá fyrstu lífverunum, forfeðrum okkar allra.

Hvað vakti fyrir Guði að taka sér allan þennan tíma í sköpunina? Og hvernig stendur á að hægt er að útskýra allt þetta ferli, frá fyrstu kjarnsýrunni til þessa heilastóra fjölfrumungs með fullkomlega mekanískum hætti, ef þessi Guð hefur eitthvað komið þarna nálægt?

Allar niðurstöður benda eindregið til þess að í heiminum gerist hlutirnir í röð eftir því sem aðstæður leyfa. Slíkt útilokar ekki Guð, en sníður þessum hugsanlega guði þann þrönga stakk að geta ekki skapað manninn í einni svipan, heldur með því að breyta aðstæðum fram og til baka á ógnarlöngum tíma. En til þess þarf ekki Guð, því náttúruvalið skýrir þetta fullkomlega. Stöðugar breytingar á aðstæðum kalla fram ótal afbrigði hverrar tegundar og misjafnt genetískt upplag sér svo til þess að þær lífverur sem hentugasta arfgerð hafa komast áfram við nýjar aðstæður.

Hvar er þörfin fyrir Guð í slíku samhengi? Hún er ekki til staðar ef menn aðhyllast orsakahyggju í þessum efnum. En um leið og menn fara að gefa sér að tilgangur liggi þarna að baki, að á bak við þróunina sé einhver áætlun um að kalla fram mannskepnuna, þá horfir málið öðruvísi við.

Vísindin leiða það ekki út sem slík að heimurinn sé án tilgangs, en þau leiða það hins vegar út að hann lúti lögmálum orsaka. Og slík útleiðsla er strangvísindaleg.

Guð hefur greinilega bara legið í leti meðan þróunin vann fyrir hann við að koma mannskepnu á fót. Þessu má líkja við það að ég ætli mér að rækta myglusvepp á brauðsneið og láti svo sneiðina bara liggja úti í gluggakistu. Eftir viku eða tvær er væntanlega komin myndarlegasta skán með ótal grænum og fallegum blettum, ilmurinn eins og af fínasta peniselíni.

Ætli ég mér að halda því fram að ég hafi skapað þessa myglu eða séð til þess að blettirnir í henni væru á þeim stöðum sem þeir eru þá væri það ekki satt. Ég væri með því að hirða kredit fyrir að gera ekki neitt.

Trúmenn eigna goðaveru þeirri sem þeir aðhyllast nákvæmlega sambærilega hluti. Í það minnsta hefur þessi guð þeirra ekki með nokkrum hætti sýnt fram á að íhlutun hans hafi borið að ofar og handan náttúrulögmálanna.

Birgir Baldursson 06.02.2004
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Daníel - 06/02/04 09:20 #

Þessi guðshugmynd sem þú ræðir um þarna nefnist Deismi og er þekkt innan trúarsögunnar. Það er hugmyndin um Guð sem skapara sem kom öllu af stað en hefur svo ekki skipt sér frekar af heiminum. Deistar tilbiðja því ekki Guð sinn en eigna honum sköpun heimsins. Hann er eiginlega bara yfirnáttúruleg útgáfa á "The Big Bang". Ég aðhylltist sjálfur þessa skoðun á unglingsárum þegar ég var að réttlæta fyrir sjálfum mér að láta ferma mig. Daginn eftir ferminguna áttaði ég mig svo náttúrulega á því að ég gerði það bara fyrir gjafirnar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/02/04 15:54 #

Það má nú vera búið að hrekja guðsgreyið ansi mikið út í horn ef honum er aðeins gert það upp að hafa startað öllu draslinu og farið svo í kaffi. Þurfti þá semsagt að verða til ofurgáfuð og ofurmáttug vera til að koma þessu öllu á laggirnar og svo úreltist hún um leið og hún var búin að því?

Absúrd hugmynd.


Dr. Jörgen Halldórsson - 06/02/04 19:04 #

Viltu gjöra svo vel að bera rök fyrir máli þínu. Sem að eru ekki bara kenningar heldur staðreyndir t.d það er ekki búið að sanna aldur jarðarinnar.


jogus - 06/02/04 20:18 #

Bwahahaha!

Sorry, var þetta ekki örugglega brandari?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/02/04 20:48 #

Það lítur út fyrir að hér hafi alvöru sköpunarsinni tekið til máls. Áður en lengra er haldið bendi ég honum á að lesa þetta og þetta.

Hlakka til frekari skoðanaskipta við doktor Jörgen í kjölfarið.


Árni - 18/02/04 00:29 #

"allar niðurstöður rannsókna á uppruna mannsins, lífsins og heimsins sýna okkur að maðurinn er aðeins ein grein af lífheiminum og tekið hafi hann ármilljarða að þróast frá fyrstu lífverunum, forfeðrum okkar allra."

ALLAR niðurstöður rannsókna ?!?!

Þetta er ekkert nema lygi og þú ættir virkilega að kynna þér málin áður en þú kemur með svona tóma dellu. Mér varð illt af því að lesa þetta raus í þér.


Árni - 18/02/04 00:30 #

"allar niðurstöður rannsókna á uppruna mannsins, lífsins og heimsins sýna okkur að maðurinn er aðeins ein grein af lífheiminum og tekið hafi hann ármilljarða að þróast frá fyrstu lífverunum, forfeðrum okkar allra."

ALLAR niðurstöður rannsókna ?!?!

Þetta er ekkert nema lygi og þú ættir virkilega að kynna þér málin áður en þú kemur með svona tóma dellu. Mér varð illt af því að lesa þetta raus í þér.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/02/04 07:22 #

Árni, nefndu dæmi til stuðnings máli þínu í stað þess að koma með svona upphrópanir. Reyndar er staðreyndin að þú getur ekki komið með dæmi af því þú veist ekkert hvað þú ert að tala um.

Hvar eru svör þín um DNA og steingervinga? Ég kom með spurningar til á öðrum stað á þessum vef um þetta en þú flýrð bara eitthvað annað. Játaðu bara að þú hefur engan skilning á því sem þú ert að tala um.


Árni - 19/02/04 22:47 #

Óli Gneisti, ekki voru nú þetta merkileg rök hjá þér verð ég að segja. Ræðst bara að mér í staðinn án þess að vita neitt um mig.

Ég viðurkenni að ég veit ekki mikið um DNA né steingervinga, en það þýðir ekki að ég hafi ekki kynnt mér þessi mál.

Kíktu á þessar síður: http://www.christiancourier.com/penpoints/evolutionaryProblems.htm

http://www.creationscience.com/

Skoðaðu þær vel og hvað þær segja, það eru margar fleiri góðar síður þarna um þessi mál sem ég gæti bent þér á.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 19/02/04 23:36 #

Mikið kemur mér á óvart að þú veist ekki mikið um DNA eða steingervinga. Hvers vegna vandarðu þig á að finna kristileg vísindi í stað þess að skoða niðurstöður vísindamanna sem eru nota bene þónokkrir kristnir? Heldurðu að það sé almennt stórkostlegt samsæri í gangi gegn þínum trúarskoðunum? Síðan er gaman að fá slóðir á þessar síður, það er einmitt planið mitt að fá líffræðing sem hefur vit á DNA til að skrifa grein um "sköpunarvísindi" og ég efast ekki um að hann getur skemmt sér við að rífa þær í sig. Ég mun sjálfur örugglega kíkja á þetta þegar ég hef tíma.


Árni - 19/02/04 23:51 #

Þessi hæðni þín er þér nú ekki mikið til framdráttar þykir mér.


Árni - 19/02/04 23:53 #

Síðan langar mig líka að spyrja um eitt. Hvað kemur það málinu eiginlega við hvort að ég persónulega hef vit á DNA eða ekki, varla stendur og fellur þróunarKENNINGIN með því ?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 20/02/04 00:09 #

Það er bara varla hægt að bregðast við svona fáránlegum málflutningi öðruvísi en með hæðni. Ég reyndi fyrst að spyrja þig spurninga um efnið en þú slepptir því að svara þeim og komst þess í stað með innihaldslaust þvaður sem ekkert tengist efninu.

Þróunarkenningin stendur ekki og fellur eftir því hvort þú hafir vit á DNA eða steingervingum, það er málflutningur þinn sem féll á þekkingarleysi þínu (fáránleiki kenningana sem þú aðhyllist hjálpaði náttúrulega töluvert).

Ég bendi þér enn og aftur á að lesa eitthvað eftir vísindamenn sem hafa haft aðgang að nútímatækni í rannsóknum sínum í stað þess að einblína á fornar kenningar bara af því það styður trú þína. Vísindavefurinn er góður staður til að byrja ef þú vilt gera eitthvað annað heldur en staðfesta vitleysuna sem þér hefur verið kennd af fáfróðu fólki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.