Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Áhrifamáttur hins "önnkúla"

Í Morgunblaðinu á laugardag getur að líta fréttatilkynningu um að Kristileg skólasamtök standi um þessar mundir fyrir kynningu á starfsemi sinni í efstu bekkjardeild grunnskólanna. Markmiðið segja samtökin vera benda á valkost þar sem allir geti verið óhultir fyrir vímuefnaneyslu:

Í tengslum við kynningarátakið er dreift margmiðlunardiskinum Líf án vímu sem samtökin hafa útbúið o fjölfaldað með styrk frá Forvarnarsjóði og Ungu fólki í Evrópu.

Ég er ekki viss um að þessi tenging sem samtökin eru hér að reyna að setja á milli heitrar kristinnar trúar og vímuefnaleysi hrífi eins og til er ætlast. Reyndar þykir mér ekki ólíklegt að þetta muni hafa þveröfug áhrif. Ég minnist sjálfur þess álits sem flestir samnemendur mínir í Menntaskólanum við Hamrahlíð höfðu á fólkinu sem kom saman í herbergiskompu undir aðaltröppunum nokkrum sinnum í viku. Þetta KáEssEss-lið þótti einfaldlega frekar svona nöttað og gantast var með það á svipaðan hátt og gert var með Ungt fólk með hlutverk, sem aldrei var kallað nokkuð annað en Ungt fólk með hausverk.

Samtök á borð við KSS verða að gæta sín í framgöngu sinni þegar reynt er að smita trúarvírusnum með zombískum hætti meðal skólakrakka. Því þótt flestir þeirra hafi fermst og margir trúi á Guð er ekki þar með sagt að þau líti upp til allra annarra sem það gera. Þvert á móti er nokkuð ljóst að ekkert í heiminum er fyrir þessu fólki hallærislegra og vitleysislegra en einmitt fólk sem gefur sig opinberlega út fyrir að vera sérlegar Jesúsleikjur.

Því það er eins með Kristileg skólasamtök og "reyklausa liðið" sem auglýst var á plakötum í stórfelldu átaki Landlæknisembættisins fyrir allmörgum árum: Það kæra sig fæstir við að kenna sig við slíkan önnkúl hallærisgang. Í þá daga var mikið atriði fyrir hvern sæmilega helbrigðan ungling að vera ekki í reyklausa liðinu. Í ljósi þess óttast ég nú að með þessu framtaki sínu séu KSS-ingarnir, í framgöngu sinni svolítið eins og sullaveikar kindur, að hrekja ungt og eðlilegt fólk út í vímuefnaneyslu, nú þegar búið er að smíða þessa tengingu á milli bindindis og ofurtrúar á Jesú og Biblíuna.

Birgir Baldursson 03.02.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


árni - 03/02/04 01:05 #

Trú þín á guðleysi er blind. Það þarf meiri trú til að trúa ekki á Skapara, heldur en að trúa á hann. Er það ekki alveg morgunljóst?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/02/04 01:33 #

Í fyrsta lagi þá kemur þetta þessari grein ekkert við.

Í öðru lagi þá er þetta einmitt ekki "morgunljóst" enda er þetta bara kolrangt hjá þér.

Þegar við tölum um trú á þessum vef þá er það trú á yfirnáttúruleg fyrirbrigði, það er á ekki sambærilegt við þá "trú" sem þú segir að Birgir hafi á guðleysi. Ef þú átt í vandræðum með að skilja að orðið trú hefur margfalda merkingu þá mæli ég með orðabók.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 03/02/04 09:56 #

Árni, Við getum þá verið sammála um það að það þarf meiri trú til að trúa ekki á Skapara skapandi Ofur-Skapara heldur en bara Skapara. Enda hvernig ætti blessaður Skaparinn að hafa orðið til nema fyrir tilstilli Skapara skapandi Ofur-Skapara?

93


Már - 03/02/04 22:26 #

Gagntu í KSS og "Bob's your Önnkúl"

...Það tók mig annars ekkert smá langan tíma að parsa þetta orð "önnkúl" þannig að það fengi einhverja vitræna merkinu. :-)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/02/04 18:09 #

Til Árna:

Ég hef rökstudda sannfæringu. Það er eins langt frá blindri trú og hægt er að komast. Og aktívismi minn gengur út á að hvetja til sjálfstæðrar, gagnrýninnar hugsunar en ekki að trúa á orð mín eða annarra í blindni.

"Hugsi hver fyrir sig" gæti þess vegna verið mottó mitt :)


Gísli - 06/02/04 09:34 #

Þetta eru nú frekar máttlaus cogito-ergo-sum röksemdarfærsla hjá Birgir. Lagt er út með eftirfarandi:

"Markmiðið segja samtökin vera benda á valkost þar sem allir geti verið óhultir fyrir vímuefnaneyslu"

Síðan koma nokkrar huglægar athugasemdir a la "nöttað", "zombískum" og "hallærislegra og vitleysislegra" áður en klykkt er út með 180 gráðu turn-a-round hundalógík:

"Í ljósi þess óttast ég nú að með þessu framtaki sínu séu KSS-ingarnir .... að hrekja ungt og eðlilegt fólk út í vímuefnaneyslu"

Ekki nóg að þekkja verkfærin. Maður verður líka að kunna að nýta sér þau :-)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/02/04 15:44 #

Gísli minn, ég er ekki að setja á borð neina sérstaka röksemdafærslu, heldur lýsi aðeins yfir ótta mínum við að það sama gerist og ég varð áþreifanlega var við að átti sér stað þegar "reyklausa liðið" var kynnt til sögunnar. Sá aldur sem verið er að höfða til er súpernæmur fyrir því hvað er heitt og hvað ekki, og KSS mun svo sannarlega ekki hvetja neinn til bindindis með þessu athæfi sínu, nema kannski þá önnkúlustu. En þeir hefðu sennilega orðið ódrykkfelldir hvort eð er.

Ég sé að þú hnýtur um orðalag. Ég nota gjarna svona orð til að lífga upp á skrif mín og á ekki að vera neinn vandi að skera þau burt án þess að innihaldið breytist nokkuð við það. Prófaðu bara að lesa framhjá þeim ef þau fara svona í þig :)


Guðbjartur Nilsson - 10/02/04 12:10 #

Sæll Birgir, leitt hvað þú þarft að agnúast út í þessi ágætu samtök með ekki betri grundvöll en ofangreinda histeríu.

Það getur vel verið að þú upplifir að þessar reykleysis-auglýsingar hafi ýtt þér eða öðrum út í reykingar sem unglingur, þá harma ég það. En þær höfðu ekki sömu áhrif á mig eða meirihluta unglinga ef því er að skipta. Einhverra hluta vegna þá bar þessi herferð mælanlegan árangur þegar hún stóð yfir en eftir að hún lognaðist útaf jukust jafn og þétt reykingar í skólum aftur. Nú á síðustu árum hefur aftur verið hert á baráttunni og hefur það borið einhvern árangur.

Þetta er nú ekkert margra þorskígilda röksemdarfærsla, að segja að "önnkúl" baráttufólk valdi því að allir sem vilji vera "kúl" leiðist í öfuga átt. Það mætti með sömu tilfinningarökum segja að baráttufólk gegn dauðarefsingum stuðlaði að fleiri dauðarefsingum (ef það eru ekki nógu hipp og kúl), eða að barátta gegn mannréttindabrotum í kína stuðli að því að þarlend stjórnvöld fremji fleiri mannréttindabrot (enda finnist þeim amnesty frekar unnkúl samtök).

Það getur alveg hugsast að svo sé í einhverjum tilvikum en ég er nokkuð viss um að heildartölfræðinn gefi annað til kynna. Það hlýtur að vera jákvætt að bjóða upp á annan og betri kost, jafnvel þó sá kostur kunni að vera óaðlaðandi í augum einhverra.

Það er ennfremur ekki hægt að segja að reykleysis-átak hversu "önnkúl" sem það er leiði einhvern í neyslu tóbaks, það gerir hópþrýstingur og minnimáttarkend fórnarlambsins alveg án allra utan að komandi íhlutunar.

Ég átti satt best að segja von á meiru af þér sem trúleysingja, enda gefa þeir sig sem slíkir gjarnan út fyrir að vera ekki hallir undir tilfinningarrök, en þú mátt svo sem trúa því sem þú vilt og kalla þig því sem þér sýnist.

Guð blessi þig og hafðu það sem allra best,

Guðbjartur Nilsson

Ps. Afhverju tekur þú ekki upp baráttu gegn vímuefnum á forsendum trúleysis? Væri það ekki kúl?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/02/04 14:43 #

Aftur: Ég er ekkert að reyna að rökstyðja þetta, heldur lýsi bara ugg þeim sem grunsemdir mínar valda.

Grunur minn á sér forsendur í áhrifagirni unglinga. Ef Kínastjórn samanstæði af unglinum væri meira en líklegt að þetta sem þú nefnir yrði raunin, ef þeim finnst Amnesty önnkúl. Mér finnast þau samtök reyndar geðveikt kúl.

Kannski ég taki þig á orðinu með baráttuna. Vantrú gæti þess vegna orðið slíkur læonsklúbbur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/05/06 14:26 #

Ætli það sé ekki nákvæmlega þetta sem ég er að tala um í greininni.


Erlendur Antonsson - 20/05/06 22:52 #

Svo skemmtilega vill til að það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las greinina var South Park þáttinn sem Birgir vísar í í athugasemdinni hér fyrir ofan.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.