Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Líf eftir líf eftir líf eftir dauðann

Ég lenti um daginn, eins og svo oft áður, í samræðum um trúarbrögð. Niðurstaða eins þátttakanda í þessari umræðu var sú að allir hefðu sína sérstaka trú, en þó ættu það allir sameiginlegt að trúa á líf eftir dauðann.

Þessu var ég ekki sammála, staðan verandi sú að ég trúi ekki á líf eftir dauðann. Fólki finnst það oft undarlegt, þá sérstaklega í ljósi þess að þeim þykir þetta líf okkar vera tilgangsminna ef ekki væri fyrir eftirlíf, þau neita að trúa því að allt sé bara búið.

Aftur á móti neita ég að trúa því ekki, ég vill ekki framhaldslíf. Þegar ég dey vill ég halda áfram að vera dauður, ég get ekki ímyndað mér betri örlög heldur en að deyja; allar áhyggjur heimsins farnar að eilífu, með því vonda fer hið góða en það er þó ekki áhyggjuefni þar sem áhyggjur eru þá horfnar.

Það kemur inn í að ég er ungur og skynja kannski ekki minn dauðleika jafn vel og margir mér eldri og vitrari en ég held að það muni lítið breytast.

Þegar ég hugsa um látna ástvini þá vildi ég stundum geta ímyndað mér að þau væru á betri stað, en því trúi ég ekki, þau verða þó alltaf í hjarta mínu og það er mér nóg.

Sumir vilja meina að lífið hafi æðri tilgang og það geti ekki verið að við söfnum að okkur kunnáttu og upplýsingum allt lífið og síðan hverfur það allt með sálinni og því góða í okkur. En lærdómur okkar er ekki bara fyrir okkur, hann er fyrir alla sem læra af okkur, alla í kringum okkur og börn okkar og barnabörn, hann hverfur ekki bara heldur lifir í þeim.

Mér finnst það vitleysa að halda að þetta líf sé undirbúningur fyrir eitthvað meira, allavega ef það kemur í veg fyrir að við lifum lífi okkar til fullnustu þess vegna.

Mér líður vel í þeirri vitneskju að einhvern daginn mun ég loka augunum og hætta að vera til í þeirra mynd sem ég sé í augum mínum þegar ég horfi í spegil og ég vona að mér líði vel með hvað ég hafi skilað heiminum þegar kemur að þessari stundu.

Karl Jóhann 29.01.2004
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.