Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Elsta gerviþörfin

Ég hef valið mér það að hugsjónastarfi að benda fólki á hve afkáralegt og óþarft það hugmyndakerfi er sem klerkar og aðrir Kristsmenn boða okkur. Þessi hugsjónabarátta helgast fyrst og síðast af réttlætiskennd, því ekki er nóg með að frjálsir söfnuðir hafi fé af þægum og óttaslegnum sauðum, heldur liggur þjóðkirkjan eins og mara á öllu þjóðfélaginu. Þessi umfangsmikla stofnun sýgur meira en þrjá milljarða út úr ríkiskassanum á hverju einasta ári. Fé þetta fer síðan í það að halda uppi elítu manna sem hafa kosið sér það að ævistarfi að klæða sig upp í hvíta kjóla og delara uppi á sviði frammi fyrir fólki, engum til gagns.

Já, ég sagði engum til gagns. Nú kann einhver að mótmæla harðlega og benda á hve mikilvæg trúin sé augum margra, að ekki megi vanmeta það. Skoðum það nánar:

Við vantrúuð vitum það betur en aðrir að enginn vandi er að lifa góðu og innihaldsríku lífi án þess að fullnægja trúarþörf, enda engri slíkri til að dreifa í hugarstarfinu. Hún er einfaldlega ekki ein af grundvallarþörfum mannskepnunnar, heldur áunnin gerviþörf sem meðal annars smitast líkt og veirusjúkdómur frá einni kynslóð til annarrar. Eitt helsta starf kirkjunnar er einmitt að planta þessari ónauðsynlegu gerviþörf* í fólk, jafnvel meðan það er enn á unga aldri, og bjóða síðan upp á þjónustu við að uppfylla hana.

Þetta hljómar hrottalega líkt athæfi fíkniefnabaróna. Betri samlíking er þó þessi sem segir boðunarstarfinu svipa til þess að fótbrjóta mann til að geta síðan selt honum gips og læknisþjónustu, nema hvað hér er passað upp á að brotið grói aldrei, heldur þurfi króníska aðhlynningu.

Við vantrúuð höfum einfaldlega aldrei brotið þessa löpp, eða þá að við höfum náð að láta hana gróa. Og meðan við gætum okkar á að verða ekki fyrir þessari "beinasleggju" klerkanna (aftur) fyllumst við óbeit við það að sjá þá limlesta börn og fullorðna með henni út um allar trissur.

Því guðstrúin er einfaldlega fötlun, ekki meðfædd heldur áunnin. Og ef allt er skoðað, allur sá tími sem fer í þá sjúkraþjálfun sem hjálpræði kirkjunnar er, allur sá aur sem fer í að halda þessu kerfi gangandi að ógleymdu öllu því fráhvarfi frá heilbrigðum efa og gagnrýninni hugsun sem þessi fötlun kostar, þá er hægur vandi að líta á þetta sem heilbera glæpastarfsemi. Verst er að þeir sem boða trú geta ómögulega séð verk sín í því ljósi, heldur eru þeirrar skoðunar að fótbrot hvers og eins sé nauðsyn.

Nei, við þurfum ekki á því að halda. Og margir milljarðar er of há greiðsla fyrir ófyndið deleríum á hvítum kjólum. Megum við þá frekar biðja um að alvöru trönsur að flytja lög með The Ronnettes!

---

*) Eða af hverju ætli þurfi að boða mönnum trú og jafnvel leggja það á sig að flakka á milli leikskóla í þeim tilgangi? Ef þetta væri raunveruleg þörf sem eiginleg væri öllum mönnum ættu þeir sjálfkrafa að leita á náðir kirkjunnar með náttúrlegum hætti. Öll þessi fyrirhöfn við að ná sér í framtíðarkúnna rökstyður fullkomlega þá staðhæfingu að þarna sé gerviþörf á ferðinni.

Birgir Baldursson 21.01.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Ormurinn - 21/01/04 17:10 #

Ég get ekki verið sammála þér um að trú á guð(i) sé endilega gerfiþörf. Trú virðist hafa fylgt manninum frá því að hann fór að hugsa og velta fyrir sér hvað gerist eftir dauðann. Því verður ekki neitað að það er mikil huggun í því að trúa að lífið haldi áfram annarstaðar (á betri stað n.b.) eftir að maður deyr. Trú er alveg jafn mikil þörf fyrir manneskjuna og ást og hamingja. Hvort trú á yfirnáttúruleg fyrirbrigði er rökrétt er hinsvegar allt annar handleggur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/01/04 17:17 #

Hefurðu velt fyrir þér hvernig þessari þægilegu hugmynd er viðhaldið?


Úlfr - 22/01/04 00:22 #

Trú er hluti af manninum. Þörfin að trúa á eitthvað. Á meðan þetta gengur ekki útí öfgar þá ætti það að vera val hvers manns hvað hann trúir á. - Úlfr.


Bjoddn - 22/01/04 01:57 #

Ég hef ekki þörf á að trúa á neitt þannig að ég er þá ekki mannlegur líklega. Vissulega á það að vera val manns hvað og þá hvort hann trúi á eitthvað en ekki skylda.

Ef ég kýs að eiga ekki sjónvarp eða útvarp, þá fara afnotagjöldin ekki upp í háskóla bara heldur falla þau niður. Það sama á að eiga við um þjóðkirkjuna. Ekki hef ég viljann til að greiða mitt fé til guðfræðideildar háskólans.

Ef mitt barn hefur búið í Svíþjóð, þá fær það að læra sænsku í stað dönsku. Ef mitt barn trúir á Búdda, þá fær það samt að læra kristinfræði í skóla. Það finnst mér alveg pípandi furðulegt bara. Er ekki alveg eins hægt að halda úti kennurum í öðrum trúarbrögðum eins og kennurum í öðrum tungumálum? Eða kannski bara sleppa þessu og leyfa fólki bara að innræta sínum börnum þá trú sem það kýs án afskipta ríkisin?

Það ætti bara að afskrá alla úr þjóðkirkjunni og leyfa fólki sem áhugann hefur að skrá sig þangað inn aftur. Hvers vegna ég er þar og mín þrjú börn er mér hulin ráðgáta... ekki er það vegna góðrar mætingar í messu eða vegna þess að ég hef svo mikinn áhuga á að hafa okkur þarna.

Á öðrum nótum, þá ætti að stofna hér sértrúarsöfnuð trúlausra sem heldur eina hátíð á ári þar sem hann endurgreiðir meðlimum sínum sóknargjöldin. Ég mundi skrá mig í þann söfnuð.


Daníel - 22/01/04 11:58 #

Frá upphafi hefur þörfin fyrir að skilja umhverfi sitt fylgt manninum. Trúin var ákveðin aðferð til að uppfylla þá þörf. Í dag höfum við mun betri og raunhæfari aðferðir til að skilja umhverfi okkar og trúin er því í raun ónauðsynleg. Trúin var þannig aldrei þörf heldur viðbragð við þörf. Þessu tvennu má ekki rugla saman. Hins vegar finnst mér ekkert athugavert við það að hver sem er trúi hverju því sem hann vill. Trúboð er hins vegar eitur í mínum beinum og mannvonska hin mesta. Mér finnst líkingin við það að fótbrjóta menn til að geta selt þeim gips og læknisþjónustu nokkuð glúrin. Það hlýtur að vera hlutverk foreldra að ala börn sín upp og uppfylla þarfir þeirra (gerfiþarfir sem aðrar). Það er algerlega óásættanlegt að opinberar stofnanir (s.s. leik- og grunnskólar) taki þátt í því.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/01/04 18:19 #

"Trú er hluti af manninum. Þörfin að trúa á eitthvað."

Daníel er búinn að svara þessu ágætlega, en það er dulítil grein um þetta atriði hér.


Skúli - 02/02/04 16:40 #

"Betri samlíking er þó þessi sem segir boðunarstarfinu svipa til þess að fótbrjóta mann til að geta síðan selt honum gips og læknisþjónustu, nema hvað hér er passað upp á að brotið grói aldrei, heldur þurfi króníska aðhlynningu."

Úff, hvar skal byrja..?

Tökum dæmi: Prestur kemur í leikskóla: segir börnunum söguna af miskunnsama Samverjanum. Hann engir hana við þá kristnu afstöðu að hver manneskja sé dýrmæt sköpun Guðs og þótt öllu fólki verði á mistök geti það alltaf fengið fyrirgefningu hjá Guði.

  1. Þarna fá börnin tiltekna skýran boðskap um það hvernig beri að koma við þann sem minna má sín. =Fótbrot?

  2. Þarna er börnunum bent á skýra siðferðislega fyrirmynd í heimi sem (sumir segja að) einkennist af yfirborðsmennsku og afstæðishyggju . =Fótbrot?

  3. Börnin fá jafnframt frásögn af því að þau séu ekki metin eingöngu vegna verkanna heldur séu þau dýrmæt í sjálfum sér. Mistökin séu mannleg og alltaf megi fyrir þau bæta. =Fótbrot?

Eftir 40 mín. heimsókn fer presturinn og hvað skilur hann eftir hjá börnunum? Þá þörf að þau þurfi króníska aðhlynningu? Þá tilfinningu að þau séu limlest og geti ekki gengið óstudd? Eða þá tilfinningu að þau séu dýrmæt og sérstök - og eigi að bera kærleika og hlýju hvert til annars?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 02/02/04 16:49 #

Eftir 40 mín. heimsókn fer presturinn og hvað skilur hann eftir hjá börnunum?

Þá trú að Jesú og Gvuð séu raunveruleg fyrirbæri en ekki einfaldlega eitthvað sem sumt fólk trúir að sé til.

Hvað af því sem þú taldir upp er menntuðu starfsfólki Leikskólanna ofviða?

Trúir þú virkilega að fóstrur sé ekki færar um að (1) kenna krökkunum muninn á réttu og röngu, (2) geti verið þeim siðferðisleg fyrirmynd og (3)komi þeirri hugmynd á færi til krakkanna að þau sé metin að eigin verðleikum.

Ert þú virkilega þeirrar skoðunar að til að koma þessu og öðru álíka á framfæri þurfti yfirnáttúrufræðing?


Skúli - 02/02/04 16:55 #

"Trúir þú virkilega að fóstrur sé ekki færar um að (1) kenna krökkunum muninn á réttu og röngu, (2) geti verið þeim siðferðisleg fyrirmynd og (3)komi þeirri hugmynd á færi til krakkanna að þau sé metin að eigin verðleikum.

Ert þú virkilega þeirrar skoðunar að til að koma þessu og öðru álíka á framfæri þurfti yfirnáttúrufræðing?"

1.Nei. 2.Nei 3.Nei

Nei. Ert þú virkilega þeirrar skoðunar að lýsingin sem ég gaf (og er raunhæf) réttlæti þá samlíkingu að börnin séu "fótbrotin" og svo talin trú um að þau þurfi "ævilangrar aðhlynnningar við"?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 02/02/04 17:01 #

Nei. Ert þú virkilega þeirrar skoðunar að lýsingin sem ég gaf (og er raunhæf) réttlæti þá samlíkingu að börnin séu "fótbrotin" og svo talin trú um að þau þurfi "ævilangrar aðhlynnningar við"?

Ég tel þessa myndlíkingu nokkuð góða í þessu samhengi. Auk þess tel ég engan vafa á að heimsóknir presta í leikskóla hafa fyrst og fremst þann tilgang að stuðla að því að fleiri trúi og verði þar með þegnar Kirkjunnar. Ef þetta væri ekki markmiðið, heldur einungis það sem þú telur upp, væri alveg eins hægt að ná því með að því styrkja kennslu sem færi fram án nokkurra vísana í himnafeðgana.

Eins og þú veist hef ég ákveðna skoðun á því að prestar stundi trúboð í leikskólum og hjó hér eftir því að þú virðist verja þá starfsemi.


Skúli - 02/02/04 17:25 #

"Eins og þú veist hef ég ákveðna skoðun á því að prestar stundi trúboð í leikskólum og hjó hér eftir því að þú virðist verja þá starfsemi."

Einhvern tímann tjáði ég mig nú um það mál - en það skiptir ekki máli í þessu samhengi.

Aðalspurningin sem ég legg fyrir ykkur er með hvaða hætti sú samlíking sem Birgir notar í greininni á við þetta dæmigerða ferli sem fram fer við slíkar heimsóknir.

Hvort jákvæðri boðun og hollum fyrirmyndum megi miðla með öðrum hætti er ekki heldur viðfagnsefnið.

Vandinn við þessa grein er sá að settar eru fram stórar fullyrðingar og ljótar samlíkingar án þess að hirt sé um að benda á konkret dæmi þeim til stuðnings. Ég bendi á hversdagslegt dæmi og bið menn um að benda mér á þessa tengingu sem ég get ekki með nokkru móti fundið:

x=FÓTBROT OG ÆVILÖNG BÆKLUN?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/04 17:53 #

Er ekki samlíkingin augljós?

Barn sem elst upp án þess að vera innrætt að einhver Guð stjórni heiminum og að nauðsynlegt sé að friða hann reglulega með bænaástundun, fermingu, safnaðarstarfi o.s.frv. er ekki líklegt til að finna upp á því hjá sjálfu sér að taka upp slíka siði. Það verður einfaldlega "klín" í þessu tilliti.

Það er sýnileiki kirkjunnar og stöðugt áreiti sem gerir samborgara okkar trúaða. Það eru lygar um syndabyrði og friðþægingu sem verða til þess að fólk leggst á bæn og biðst vægðar þessa ímyndaða guðs sem búið er að planta í hausinn á því.

Kirkjan stundar boðun, heldur "fíkniefninu" að fjöldanum. Ef þörfin fyrir náð Krists og blessun væri innbyggð í mannskapinn þyrfti ekkert boðunarbatterí. Kemurðu ekki auga á þessa staðreynd, Skúli?


Skúli - 02/02/04 19:03 #

"(Barn) er ekki líklegt til að finna upp á því hjá sjálfu sér að taka upp slíka siði. Það verður einfaldlega "klín" í þessu tilliti"

Já, hér gengurðu út frá goðsögninni um ekkert utanaðkomandi áreiti. Sú hugmynd er, held ég, jarðvegurinn sem hin pólitíska rétthugsun sprettur upp úr.

Ég lít h.v. á það sem eina af vísbendingum þess hversu rík trúarþörfin er í þorra mannkyns hversu mjög er til hennar höfðað á sviði markaðarins: Vörumerkin, fyrirsæturnar, stjörnurnar, fyrirheitin og paradísirnar - menn höfða til þessarar þarfar hvar sem niður er borið.

Spurningin er ekki hvort slík boðun á sér stað (og þá hvort einhver geti verið "klín") heldur hver boðskapurinn er.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/04 19:12 #

"Ég lít h.v. á það sem eina af vísbendingum þess hversu rík trúarþörfin er í þorra mannkyns hversu mjög er til hennar höfðað á sviði markaðarins..."

Já, eftir að þið prestar eruð búnir að troða henni í fólk til að byrja með. Þarna afhjúparðu sjálfur eina af skuggahliðunum sem afleiðingar trúboðs hafa ;)

Frelsum fólk undan markaðnum og oki skrumsins, hættum að innræta því trú!


Skúli - 02/02/04 19:55 #

"Frelsum fólk undan markaðnum og oki skrumsins, hættum að innræta því trú!"

Frelsum fólk undan oki skrumsins: Innrætum því kristna trú! ;)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/04 20:00 #

Boðun kristinnar trúar er markaðsskrum, auk þess sem hún plantar trúarþörfinni í fólk, gerir það móttækilegt fyrir öðru skrumi. Kennum fólki gagnrýna hugsun en ekki hugsunarlausa tilbeiðslu á handhöfum töfralausna!


Skúli - 03/02/04 08:17 #

Og ég svara um hæl. ;)


Oskar - 17/04/04 20:20 #

Hér einu sinni sagði maður að trúarbrögð væru ópíum fjöldans, eða álíka.... (þessi maður mun reyndar vera mest þekktur varðandi pólitík en ég tek fram að ég er ekki að beina umræðunni á þær brautir)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.