Nítíu og fjögur prósent háskólaprófessora telja að þeir séu hæfari en kollegar þeirra.Tuttugu og fimm prósent háskólanema halda að þeir hafi betri samskiptahæfileika en 99% háskólanema.
Sjötíu prósent háskólanema telja að þeir séu stjórnendur yfir meðallagi. Einungis tvö prósent telja að þeir séu undir meðallagi.
--Thomas Gilovich How We Know What Isn’t So
Fólk hefur tilhneigingu til að hafa of mikið álit á hæfileikum sínum á ýmsum félagslegum og andlegum sviðum. Þetta ofmat kemur til, að vissu leyti, vegna þess að fólk sem skortir þekkingu á þessum sviðum ber tvöfalda byrði: Það er ekki nóg með að það komist að rangri niðurstöðu og taki óheppilegar ákvarðanir, heldur rænir þekkingarskorturinn það getunni til að gera sér grein fyrir því.
--"Unskilled and Unaware of It: How Difficulties in Recognizing One's Own Incompetence Lead to Inflated Self-Assessments," eftir Justin Kruger and David Dunning Sálfræðideild Cornell Háskóla Journal of Personality and Social Psychology December 1999 Vol. 77, No. 6, 1121-1134.
Sjálfsblekking er aðferð sem við notum til að sannfæra okkur um að eitthvað sé satt eða gilt sem er það ekki. Sjálfsblekking er í stuttu máli aðferðin sem við notum til að réttlæta rangar skoðanir fyrir sjálfum okkur.
Þegar heimspekingar og sálfræðingar ræða um sjálfsblekkingu einbeita þér sér yfirleitt að ómeðvituðum hvötum og ætlunum. Þeir líta líka yfirleitt á sjálfsblekkingu sem neikvætt atferli sem fólk ætti að reyna að forðast. Til að útskýra hvernig sjálfsblekking virkar skoða þeir sjálfshagsmuni, fordóma, þrár, óöryggi og aðra sálfræðilega þætti sem ómeðvitað hafa neikvæð áhrif á það hvernig við myndum okkur skoðanir. Gott dæmi er af foreldri sem trúir því að barnið sé að segja satt þrátt fyrir að sönnunargögn bendi til að barnið sé að ljúga. Sagt er að foreldrið sé að blekkja sjálft sig til að trúa barninu vegna þess að það þráir að barnið sé að segja sannleikann. Skoðun sem byggir á slíkum hvötum er yfirleitt talin verri en skoðun sem byggir á vangetu til að greina viðeigandi gögn. Sú fyrri er talin nokkurs konar siðferðisbrestur, órökrétt og óheiðarleg en sú síðari er sögð óumflýjanleg: sumt fólk er einfaldlega ekki nógu hæfileikaríkt til að draga réttar ályktanir út frá skynjunum og reynslu.
Það er hinsvegar mögulegt að foreldrið í dæminu hér fyrir ofan trúi barninu sínu vegna þess að það hefur gott samband við barnið en ekki þá sem saka barnið um græsku. Vel getur verið að foreldrið látið ekki stjórnast af ómeðvitaðri þrá heldur sé að rökstyðja skoðun sína með þekkingu sinni á barninu og því að sem það veit ekki um aðra aðila málsins. Foreldrið getur haft mjög góðar ástæður til að treysta barninu en ekki hinum. Í stuttu máli, það sem virðist vera sjálfsblekking getur verið hægt að útskýra með vitrænum hætti án nokkurra tilvísana til ómeðvitaðra hvata eða órökvísi. Sjálfblekking þarf hvorki að vera siðferðilegur eða röklegur brestur. Hún getur verið óhjákvæmileg afleiðing þess að þegar heiðarleg og rökvís manneskja, sem þekkir barnið sitt mjög vel, ásakendur þess illa eða ekki neitt og veit að hlutirnir eru ekki alltaf eins og þeir virðast vera, telur sig því ekki hafa nægilegar forsendur til þess að trúa barninu sínu ekki. Óháður aðili gæti skoðað málið og komist að þeirri niðurstöðu að sönnunargögnin bendi til þess að barnið sé að ljúga, en ef hann hefði rangt fyrir sér myndum við segja að hann hefði gert mistök, ekki að hann hefði blekkt sjálfan sig. Við lítum svo á að foreldrið sé að blekkja sjálft sig vegna þess að við gerum ráð fyrir að hann hafi ekki bara rangt fyrir sér heldur sé ófær um rökrétta hugsun í þessu tilviki. Hvernig getum við verið viss?
Áhugaverðara dæmi væri ef (1) foreldri hefur góða ástæðu til að trúa því að barnið segi satt í öllum tilvikum, (2) sönnunargögnin benda til sakleysis, (3) foreldrið hefur enga ástæðu til að treysta ásakendum barnsins sérstaklega, en (4) foreldrið trúir ásakendum samt. Slíkt væri erfitt að skilgreina án þess að gera ráð fyrir einhverjum ómeðvituðum og órökréttum ástæðum (eða heilabilun) hjá foreldrinu. Ef við hinsvegar leyfum okkur að nota vitsmunalega vangetu sem skýringu fyrir því sem virðist vera órökrétt skoðun þurfum við ekki að vísa til ómeðvitaðra sálfræðilegra þátta til að útskýra málið.
Sem betur fer þurfum við ekki að vita hvort sjálfblekking er sprottin af ómeðvituðum hvötum eða ekki til að vita að það eru vissar aðstæður þar sem sjálfsblekking er svo algeng að við þurfum að temja okkur markvissar aðferðir til að forðast hana. Það er einmitt málið með trú á yfirskilvitleg og dulræn fyrirbæri eins og hugsanaflutning, draumsýnir, spákvista, heilun og ýmis önnur fyrirbæri sem tekin eru fyrir á Vantrú.
Í bókinni How We Know What Isn't So segir Thomas Gilovich frá rannsóknum sem gera okkur ljóst að við verðum að vera á varðbergi gegn tilhneigingum til að
Margir telja hinsvegar nóg sé að forðast óskhyggju og þá séu þeir ólíklegir til að blekkja sjálfa sig. Raunin er sú að ef maður trúir því að það eina sem þurfi að forðast sé óskhyggja getur verið að maður sé jafnvel líklegri til að blekkja sjálfan sig. Til dæmis hefur margt skynsamt fólk fjárfest í svikamyllum sem áttu að spara pening, bjarga umhverfinu eða bæta lífið á einhvern hátt. Þetta gerir fólk ekki vegna óskhyggju heldur þrátt fyrir hana. Þar sem þau eru að eigin mati sannarlega ekki haldin óskhyggju finnst þeim öruggt að þau hafi rétt fyrir sér. Þau sjá strax vanbugi á allri gagnrýni. Finna strax alla veikleika í málflutningi efahyggjumanna. Stundum eru þau stórkostleg þegar þau verja gagnlausa vöru. Villur þeirra eru vitsmunalegar, ekki sálfræðilegar. Þau mistúlka gögn, einblína á það sem styður mál þeirra en hunsa eða er alveg sama um það sem gerir það ekki. Þau eru ekki meðvituð um að aðferðin sem þau nota til að velja gögn gerir það að verkum að ómögulegt er að eitthvað komi fram sem getur hnekkt þeim. Þau eru leikin í að túlka hluti sér í hag þegar annað hvort gögnin eða málstaðinn er óljós. Oft standa þau sig frábærlega í að færa rök fyrir ósamræmanlegum gögnum með vísun til sértilfella. En ef þau myndu gefa sér tíma til að hanna góð próf með almennilegum samanburði, gætu þau sparað sér mikinn pening og niðurlægingu. Þátttakendur í píramídaskemum eru ekki endilega drifnir áfram af þrá sinni til að trúa á töfratæki. Það getur verið að þau séu einfaldlega fórnarlömb ósköp einfaldra vitsmunalegra takmarkana á rökrænni hugsun. Það sama gildir um hjúkrunarfólkið sem trúir á heilun og þá sem verja hugsanaflutning, stjörnuspeki, bíóriþma, mátt kristalla og allskonar önnur fyrirbæri sem virðast hafa verið löngu afsönnuð með vísindalegum aðferðum. Í stuttu máli má segja að sjálfsblekkingin sé ekki endilega dæmi um skort á viljastyrk heldur spurning um fáfræði, leti eða takmörk á rökvísi.
Hinsvegar má færa rök fyrir því að sjálfsblekking sé ekki alltaf löstur og geti jafnvel verið gagnleg í vissum tilfellum. Ef við værum alltaf heiðarleg og hlutlaus varðandi okkar eigin getu og lífið almennt er hætta á því að við sykkjum í þunglyndi.
Upphaflega útgáfan af greininni og ítarefni.
Greinin er þýdd og birt með leyfi höfundar Skeptic's Dictionary.