Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vítalismi og mekanismi

Sá sem er trúleysingi er ekki alltaf bara guðleysingi. Ég trúi til dæmis ekki á drauga eða álfa eða nokkuð annað yfirnáttúrlegt. Hugtakið guðleysingi nær ekki almennilega utan um trúleysi mitt.

Það er í raun undarlegt hve erfitt er að fá menn til að fallast á hugtökin trúleysi/trúleysingi í allri umræðu um yfirnáttúrleg efni. Sem dæmi er hún orðin langvinn og þreytt, rimman um það hvort trúleysi sé trú. Í ofanálag fór mikið af síðasta ári í hina biskuplegu útgáfu af þessari þvermóðsku gegn hugtakinu, þegar trúleysi var allt í einu skilgreint sem skortur á trausti, ást og virðingu.

Fyrir nú utan það að öll þessi skilgreiningamanía á hugtakinu trúleysi dregur umræðuna í burtu frá því sem máli skiptir, málefnunum sjálfum.

En þar sem trúmenn hafa löngum haft þessa tilhneigingu til að perverta upp hugtakið trúleysi hefur mér stundum reynst það happadrýgst að fá menn til að leggja hugtökunum trú og trúleysi í umræðunni og taka þess í stað til við að nota hugtökin vítalismi og mekanismi*.

Vítalisminn er kenningin um hið yfirnáttúrulega. WordWeb orðabókin skýrir það svona:

"vitalism: A doctrine that life is a vital principle distinct from physics and chemistry" (tiltrú þess að lífið sé andlegt lögmál, óháð eðlis- og efnafræðilegum lögmálum). Þessi tiltrú skapar farveg fyrir verur hvers konar sem ekki hafa efnislegan líkama, drauga, guði og Heilagan anda, svo eitthvað sé nefnt.

Mekanisminn er kenningin um hið náttúrulega, að allt í heiminum lúti vélgengum náttúrulögmálum og þau nægi til að skýra allt sem er. Innifalið í þessu er sú krafa að allar lífverur hafi efniskenndan líkama sem samræmist genamengi foreldranna og að án réttrar gerðar af heilabúi fái engin mannleg meðvitund þrifist.

Þegar spurt er hvort við trúleysingjarnir trúum á drauga þótt við gerum ekki ráð fyrir guðum er spurningin í raun þessi: "Eruð þið vítalistar?" Það sjá allir í hendi sér sjálfgefna mótsögnina þegar búið er að skipta út hugtakinu trúleysingi fyrir hugtakið mekanisti í þessu dæmi.

Og þegar sköpunarsinnar klína á okkur trúarstimpli fyrir það eitt að við göngum út frá því að maðurinn og hinir aparnir eigi sameiginlegan forföður, getum við svarað því að ekki þurfi trú til, því hægt sé að skýra kenninguna um slíkt mekanískum skýringum sem ganga upp lógískt. Og málið er dautt.

Eða ekki. Þau ólíkindi eru nefnilega gjarna á ráfi í kolli vítalistanna að mekanískar skýringar nægi ekki þegar kemur að því að útskýra lífið. Þessi fullyrðing þeirra á sér auðvitað forsendur í því fyrst og fremst að hugtakið líf hefur ekki ratað með réttum hætti í koll þeirra, þeir skilja það ekki til fullnustu. Í huga þeirra táknar hugtakið líf aðeins vitund og hana geta þeir ekki séð fyrir sér sem mekanískt efnafræðilegt ferli. Og fá rök virðast duga til að koma þeim ofan af þeirri skoðun að vítalísk vera hljóti að hafa blásið lífi í jarðneskar lífverur.

Það furðulegasta við þetta allt er sú staðreynd að á meðan öll vísindaleg rök heimsins duga ekki til að sannfæra þetta fólk um efniskenndar og mekanískar orsakir lífsins og meðvitundarinnar, að nota megi niðurstöður eðlisfræðinnar til að skýra efnafræðina, sem skýrir líffræðina, sem skýrir þróunarfræðin... þá er þetta fólk tilbúið að kaupa án nokkurra raka þá skýringu að einhver óefniskennd alvitund hafi orðið til af sjálfu sér, án nokkurrar undangenginnar þróunar og hana þurfi til að útskýra allt hið jarðneska vitundarlíf.

Svona glóruleysi nær auðvitað ekki nokkurri átt, en hugarstarf vítalisitans er nú einu sinni heillandi ráðgáta.

Skemmtilegast er þó að virða fyrir sér með vítal-mekanískum gleraugum hvað liggur að baki tilburðum biskups við að skilgreina trúleysi sem skort á trausti, ást og virðingu. Með þessu er hann að af-vítalísera hugtakið trú og skipta því út fyrir traustið. Þetta kemur í kjölfar þess að kirkjan er sökuð um að boða hindurvitni þau sem felast í að draga upp heimsmynd yfirnáttúrunnar. Mér sýnist sem það sé bara tímaspursmál hvenær yfirnáttúrufræðingar íslensku þjóðkirkjunnar hætta alveg að tala um Guð og heilagan anda, en fara að leggja alfarið áherslu á trúna í merkingunni traust, ást og virðing. Það er þeirra eina leið til að losna við hindurvitnastimpilinn.

---

Sjáiði hvað það gengur miklu betur að leggja upp málefnin með þessi tvö hugtök að vopni? Allt verður skyndilega skýrt og ótvírætt. Ég mæli með því að trúmenn jafnt sem trúleysingjar reyni að heyja baráttu sína með þessum tólum og gái hvort lendingin verði ekki önnur en venjulega.

Ég spái skarpari hugsun og skýrari niðurstöðu.

---

*) Þessi hugtök tek ég að láni frá líffræðingnum Paul B. Weisz. Hann notar þau í 1. kafla kennslubókarinnar Líffræði 1, sem Örnólfur Thorlacius þýddi. Þar er fjallað um heimspeki vísinda og mæli ég eindregið með þeirri lesningu.

---

Svipað: Uppgjöf þjóðkirkjumanna

Birgir Baldursson 12.01.2004
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Eggert - 13/01/04 00:42 #

Þetta eru líka einu lögmætu rökin fyrir því að hafa trú. Allt þetta tal um kraftaverk, neista lífsins og eingetinn son stenst nefnilega ekki naflaskoðun vísindanna.
Svo ég vitni í ritið 'Snow Crash' eftir Neil Stephenson (ég vona mér sé fyrirgefið að vitna ekki orðrétt), þá hefur orðið 'trú' afskaplega litla merkingu, þegar grunnur hennar hefur verið sannaður (raun)vísindalega. Þá er um vissu að ræða.
Trúin er þessi brú, yfir gjá rökhyggju og staðreynda, í heim syngjandi álfa, meyfæðinga og andalækninga.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/01/04 15:54 #

Hver laug því að okkur að það þyrfti þessa brú til að byrja með?


Eggert - 13/01/04 16:57 #

Við sjálf, hugsa ég. Nema þú viljir skýra tilvist guðs með því að þar eð trúin sé svo heimskuleg hljóti yfirnáttúrulegur kraftur að hafa búið hana til? :)


Gunnar - 13/01/04 22:22 #

Það er eitt sem ég hef aldrei skilið hjá fólki sem er vísindatrúar: (Ruglist ekki við Scientology viðbjóðinn heldur á ég hér við fólk sem trúir því að vísindalegar aðferðir séu einu aðferðirnar til að skilja heiminn)

Hvernig dettur ykkur í hug að það sé eðlilegra að nota mælikvarða vísindanna til að afsanna trú sumra (einhverskonar guð(ir)) heldur en það væri að nota mælikvarða trúarinnar til að afsanna vísindalegar staðreyndir sem vísindatrúarfólk trúir á?

Mér finnst sjálfum jafn fullkomlega eðlilegt að leyfa báðum þessum hópum að nota sitt kerfi til sinna þarfa og ekki nokkur minnsta ástæða til að reyna að skjóta annað kerfið í kaf með hinu.

Sé raunverulega bara tvær hugsanlegar ástæður fyrir þessum látum:

  1. Trúboð, á báða bóga. Hvor fylkingin um sig er að reyna að frelsa hina. Vonandi endar það ekki með blóði eins og flest trúboð sögunnar.

  2. Þið hafið einfaldlega gaman af að rífast.

  3. Innri efasemdir um að sannfæring ykkar sé sú eina rétta (sem eru mjög eðlilegar efasemdir þar sem flest skynsamt fólk gerir sér grein fyrir að endanleg sannindi eru annaðhvort ekki til eða utan okkar seilingar).

Ætli þetta sé ekki sambland af þessu öllu?

P.S: Ef ég hefði skrifað þetta fyrir hundrað árum síðan eða byggi í biblíubeltinu í BNA þá hefði ég hafið þessa grein á skilningsleysi mínu á þeim sem bókstafstrúa á Guð. Mér þykir það leitt en ég sé lítinn mun á ofsatrúarmönnun, í hvorum hópnum sem þeir eru.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/01/04 19:41 #

Til Gunnars: Ég er afar hallur undir hugmyndir Hegel um díalektík. Þar af leiðir að ég tel umræðu sem þessa vel til þess fallna að vekja upp og skila að lokum nýrri syntesu sem tekur fram viðteknu gildismati.

Það er löngu orðið tímabært að svona umræða fari almennilega fram. M.a.s. eru sumir fulltrúar gamla gildismatsins (t.d. Skúli Ólafsson) sama sinnis og fagna þessum málefnalegu átökum, þótt grimm og óvægin séu á köflum.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 16/01/04 01:24 #

Vá! Þessi skilgreining leysir bæði draugavandann og trúnna á upprisu sólarinnar-vandann. Frábært! Loksins veit ég hvað ég er: Mekanisti. (hljómar líka vel)

"Hvernig dettur ykkur í hug að það sé eðlilegra að nota mælikvarða vísindanna til að afsanna trú sumra (einhverskonar guð(ir))...."

Ef að trúin stangast á við sannreynanlegar staðreyndir efnislega heimsins, þá held ég að vísindin séu afskaplega góð til þess að benda á takmarkað sannleiksgildi þeirra trúa. Ss. trúin á guð sem að segi að gull sé léttara heldur en vatn. En ef að trúin byggist bara á fullyrðingum um andaheiminn (vítalískan?) heim þá geta vísindin engan veginn afsannað það. En ef að niðurstaðan er sú ekkert bendi til tilvistar þessa heims þá er það óskynsamlegt að gera að óþörfu ráð fyrir honum, og þess lags óskynsemi ber að gagnrýna. Eða er það ekki?

"Sé raunverulega bara tvær hugsanlegar ástæður fyrir þessum látum: "

Bíddu sástu ekki þrjár ástæður. Eða er það bara þín trú að þær séu tvær :)

"2. Þið hafið einfaldlega gaman af að rífast. "

Passar við mig :) þó að ég kalli það oftast að rökræða. En önnur hugsanleg útskýring er sú að trúleysistrúboðinn telji það rangt að halda einhverju fram án nægilegra raka eða sannana og að vítalismi sé þar af leiðandi leyfilegt skotmark.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 16/01/04 01:46 #

Ein spurning: Leiðir mekanismi óhjákvæmilega til löghyggju?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/01/04 16:12 #

lög·hyggja KVK heimspeki • sú skoðun að allir atburðir heimsins séu ákvarðaðir af lögmálum en atburðarásin samt háð því sem einstaklingurinn hefst að (determinismus) sbr. forlagahyggja, nauðhyggja

Ég hef aldrei velt hugtakinu fyrir mér og sýnist í fljótu bragði varla vera mikið vit í þessari hyggju. Fyrri helmingur skilgreiningarinnar nægir: Allir atburðir heimsins eru ákvarðaðir af lögmálum. Ég næ ekki þessu með innígrip einstaklingsins þarna, lyktar svolítið af því að maðurinn sé yfir náttúruna settur. Eða getur hugtakið einstaklingur þarna átt við um fiðrildi eða hlyntré?

Maðurinn er jafnháður lögmálum náttúrunnar og öll restin, enda fullkomlega afrakstur þeirra.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 21/01/04 01:45 #

Ég hef nú aldrei heyrt það að maðurinn væri einhver undantekning í löghyggju. Skiptir ekki máli, ég er sammála því að það væri asnalegt.


Jesús lifir - 17/11/04 17:42 #

Trúa mekkanistar að lögmál komi af sjálfu sér. Er það ekki mikil trú að trúa því að lög komi af sjálfu sér? Ja það finnst mér.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 17:45 #

Við trúum því ekki, a.m.k. ekki ég. Ég bara hreinlega veit það ekki :)


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/04 18:22 #

Nei Jesús, þér finnst það ekki. Þú étur bara upp eftir einhverri trúarfyllibyttu sem þú hefur heyrt segja að það þurfi meiri trú til að trúa ekki en til að trúa. Éttu ekki upp í hugsunarleysi; þótt það kunni að hljóma hnyttið getur það verið rangt og er það í þessu tilfelli. Þetta er orðið þreytt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.