Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Veirusýkingar hugans

Það er athyglisvert að skoða hvaða augum einn helsti þróunarlíffræðingur heimsins lítur guðstrúna. Richard Dawkins starfar við Oxfordháskóla og situr þar á heiðursstóli almennrar vísindaþekkingar sem kenndur er við Charles Simonyi. Bækur Dawkins hafa allar hlotið mikla athygli, en með lífsstarfi sínu hefur hann sýnt fram á með hvaða hætti flókin lífsform þróast af einfaldari formum.

Dawkins hefur í ótal greinum og ræðum gert þá kröfu að vísindasamfélagið og annað röklega þenkjandi fólk hætti nú öllu þvaðri og sætti sig við að trúarlegar fullyrðingar skorti allar sannanir. Og þar með sé rétt að draga þá augljósu ályktun að enginn guð sé til og guðstrúin sé einungis lygavefur:


Ástæða þess hve guðshugmyndin er lífsseig er vegna þess hve sálfræðileg áhrif hennar eru. Hún leggur fram að einhverju leyti trúverðugt svar við þrungnum spurningum mannkyns um tilveruna. Hún gefur þá skýringu að þeir sem óréttlæti fremja á einum tíma muni þurfa að standa skil á gjörðum sínum síðar. Náðarfaðmurinn veitir öryggistilfinningu, rétt eins og lyfleysa sem verkar fyrir tilstuðlan ímyndunaraflsins. Þetta eru nokkrar ástæður þess að guðshugmyndin nær svo vel að greypa sig inn í heilabú seinni kynslóða. Guð á sér því tilvist í hugmyndakerfi sem þrífst harlavel í smitnæmu umhverfi menningarinnar."
- Úr "The Selfish Gene"

Hér fer á eftir hluti viðtals sem rithöfundurinn Michael Krasny átti við Dawkins. Viðtalið var tekið 17. mars 1997:

Þú ert þekktur fyrir trúleysi þitt og ummæli þess efnis að trúnni megi líkja við veirusjúkdóm. Ertu orðinn umburðarlyndari gagnvart trúnni í seinni tíð?

Nei. Sem líffræðingur er ég oft beðinn að skýra hvers vegna guðstrúin er svona lífseig. Kenning mín er þessi: Það eru gildar ástæður, sem leiða má út í samræmi við þróunarkenninguna, fyrir því að ungum börnum er það hollast að trúa öllu sem því er sagt. Ung börn þurfa að tileinka sér tungumál, hegðun og siðvenjur samfélags síns og því er nauðsynlegt að læra margs konar reglur - svo sem eins og "ekki stinga puttanum í eldinn" og "ekki taka snákinn upp" eða "ekki borða rauðu berin". Slíkar reglur eru góðar og gildar út frá sjónarmiði lífsafkomunnar.

Því er það skiljanlegt að náttúruvalið hafi í fyllingu tímans byggt inn í hugarstarf barna þumalputtaregluna "Vertu trúgjarn úr hömlu, trúðu öllu því sem þér er sagt af þeim sem eldri eru vitrari.

Þetta er fyrirtaksregla sem verkar vel. En regla sem kennir að trúa skuli öllu eins og nýju neti hlýtur að hafa í för með sér varnarleysi gegn "sníkjuverkun". Tölvur eru sem dæmi með þeim ósköpum gerðar að trúa öllu sem þeim er sagt og því viðkvæmar fyrir veirum. Ef þú, á gildu forritunarmáli, segir þeim að gera eitthvað framkvæma þær það hiklaust. Tölvuveirur verða til þegar forritari smíðar forrit sem segir við tölvuna "afritaðu mig og eyddu öllum gögnum af harða disknum í leiðinni."

Það sem ég á við er þeir þættir í sálarlífi barnsins sem gera því kleift að lifa af, með því að trúa öllu sem það heyrir, kalla yfir það þessa næmni fyrir veiruforritum á borð við "Þú átt að trúa því að hinn mikli Tjútjú búi á himninum," eða "Þá átt að krjúpa, snúa andlitinu í austur og hafa yfir bænir þrisvar á dag." Þessi fyrirmæli erfast svo kynslóða á milli því það er enginn augljós ástæða fyrir því hvers vegna menn ættu að hætta þessu.

Einn er sá þáttur í veirukenningunni sem segir að þær veirur sem hafa góða afkomumöguleika muni verða líklegri til að komast af. Því er það að ef sagt er "ef þú ekki trúir þessu endarðu í helvíti eftir dauðann," þá er sú hótun afar máttug, sérstaklega í eyrum barns. Eða ef sagt er "Þegar þú eldist muntu fyrirhitta fullt af fólki sem segir þér hið gagnstæða við þetta hér og hefur sterk rök máli sínu til stuðnings, jafnvel heilmikið af því sem það kallar sannanir fyrir máli sínu, og þú munt jafnvel næstum láta sannfærast. En því meira sem þú freistast til að aðhyllast þennan málflutning, því sterkari tökum er Satan að ná á þér." Þetta er að sjálfsögðu það sem fjölmargir sköpunarsinnar hafa fengið að heyra.

Þú hefur sagt að þegar þú uppgötvaðir þróunarkenninguna hafi loks heimsmynd þín gengið upp. Þú fékkst loks frið í hjarta. Hvernig náði þróunarkenningin að staðfesta trúleysi þitt?

Dawkins: Áður en ég uppgötvaði þróunarkenninguna var ég heillaður af því hve vel hannaðar lifandi verur litu út fyrir að vera. Ég var þá nægilega vel að mér í líffræði til að vita lifandi verur eru stórkostlega flóknar og fágaðar. Þær litu út rétt eins og þær hefðu verið hannaðar. Því var það að ég trúði á yfirnáttúrlegan skapar alls. Og vegna þess hve sannfærður ég var um þetta þegar ég kynntist þróunarkenningunni má líkja reynslu minni við útreið krossfaranna við Damaskus.

Ég álít að friðsældin eigi sér orsök í skilningnum, í því að vera fær um að leysa ráðgátu. Og því stærri sem ráðgátan er, því meiri heiðríkja. Þegar menn velta fyrir sér fjölbreytileik og fegurð lífsins, glæsileik þess og því hve skipulegt það virðist, verður ráðgátan svo óendanlega stór. Og lausnin, lausn Darwins, er svo stórkostlega einföld. Sátt mín á sér forsendur í þeirri fullnægju að geta komið auga á svo afar glæsta lausn, sem nær að útskýra svo mikið.

Fyrir þá sem vilja meira að heyra þá ritaði Dawkins t.d. grein í tímaritið "Free Inquiry" (2. tbl, 18 árgangs) þar sem hann ræðir þá fullyrðingu að vísindi og trú eigi ekki samleið. Hana má finna hér.

Birgir Baldursson 11.01.2004
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Már Örlygsson - 31/01/04 22:46 #

Það þarf vart að fræða höfunda síðunnar um að kenningum Dawkins um menningarminni (e. "memes", sjá einnig "memetics") má jafn auðveldlega beita á allar menningarafurðir, s.s. þjóðsögur, siðferði, heimspekikenningar, vísindakenningar, þekkingu, verkkunnáttu, verkfæri, og fleira. Útbreiðslu og menningarlegt hlutverk alls þessa má líkja við missmitandi og mislífsseiga vírusa (hugmyndavírusa), og mannlegu samfélagi hefur þannig verið líkt við risastórt Darwinískt vistkerfi hugmyndavírusa.

Ég læt þetta svar flakka hér, því mér finnst eðlilegt að lesendur greinarinnar séu líka upplýstir um þá staðreynd að myndlíkingin "veirusýkingar hugans" á ekki bara við um hefðbundin trúarbrögð - þó svo að meistari Dawkins virðist hafa takmarkað sig við að beita henni sem áróðursvopni gegn trúarbrögðum.

P.S. Ég er yfirlýstur trúleysingi.


Már Örlygsson - 31/01/04 22:57 #

Ég var að fatta að Google hefur verið spammaður af fyrirtækjum og einstaklingum sem ætla að græða fullt af peningum á leitarorðunum "memes" og "memetics" þannig að það getur verið dáldil leitun að góðum heimildum.

Principia Cybernetica Web hefur verið lengi við líði og er nokkuð vel skrifuð. Þar má m.a. finna: - Memes Introduction - Memetics - Memetic Selection Criteria - Meme Fitness

Einnig má finna drjúga umfjöllun á Wikipedia

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.