Við könnumst öll við gömlu rottutilraunina hans B. F. Skinner. Hann sýndi með þessum skemmtilega hætti fram á tilvist virkrar skilyrðingar einhverntíma fyrir miðja síðustu öld.
Virk skilyrðing er ein leið lífvera til náms. Hún byggir á einum mjög sterkum þætti heilastarfseminnar sem lætur athafnir lífverunnar mótast af því hvernig henni sýnist umhverfið bregðast við hegðun sinni. Ef rotta er t.d. stödd í námunda við stöng og allt í einu birtist matur, þá prófar hún að fara aftur að stönginni til að sjá hvort ekki komi aftur matur.
Ef það gerist aftur og aftur fer rottan að tengja þetta tvennt saman. Og sé haldið aftur af umbuninni þar til rottan snertir stöngina endar með því að hún hamast á henni, því þannig nær maður sér í eitthvað að éta, ekki satt?
Þessi þáttur hegðunar tengist mjög svo því sem kallað er post hoc ergo propter hoc og er rökvilla. Og það er sláandi að velta fyrir sér hve rammt kveður að þessari skilyrðingu í hegðun mannsskepnunnar.
Við erum svo lítið merkilegri en rotturnar þegar upp er staðið.
Hugsið um fyrirbærið sem kallað er regndans. Allt frá því löngu fyrir þann tíma er einhver vitglóra, eins og við skilgreinum hana, fór að bærast í kolli tegundarinnar var hún byrjuð að draga þær ályktanir að með hegðun sinni gæti hún ef til vill stýrt veðrum og vindum. Og hvað ætli reki knattspyrnumann aftur og aftur í daunillu grænu sokkana sína, sem hann heldur að séu sérstakir happasokkar? Gæti verið að hann hafi myndað post hoc tengsl milli þess að hann klæddist þessum sokkum og þess að liðið hans vann þann sama dag sinn fyrsta leik á leiktíðinni? Er nokkuð annað en virk skilyrðing þarna í gangi?
Ætli það. Og þannig er hugmyndin um galdur og guði einnig tilkomin. Menn hafa í gegnum árþúsundin haldið að eitthvert afl handan skilnings manna léti hegðun og útlit manna sig einhverju varða og umbunaði/refsaði eftir því sem við átti. Og þessi hegðun og útlit sem beitt er á goðmögnin getur á stundum orðið vægast sagt afkáraleg.
Galdur felst í að taka hulin öfl í þjónustu sína og beina þeim til þeirra verka sem vinna á. Og ætli bænin sé ekki hin hliðin á þeim peningi, beðist er undan refsingu gegn loforðum um að sýna af sér tiltekna hegðun eftir á.
Öll þessi forneskja er enn í gangi, gott fólk. Trúmenn nútímans eru enn á ofurvaldi post hoc ergo propter hoc rökvillunnar. Eða í hverju felst annars altarisganga? Signingar kaþólskra? Að kyssa hringa og helga hluti? Allt eru þetta særingar og galdragjörðir, runnar undan virkri skilyrðingu og þessari ranghugmynd manna um hvernig heimurinn virkar.
Bænin er galdragjörð, hvernig sem á hana er litið. Og þótt kristnir menn neiti því staðfastlega að með henni séu þeir að reyna að hafa áhrif á gjörðir goðmagna er þó ekkert annað í gangi. Má bjóða ykkur að reyna þjónustu alíslensks galdrakölts? Krossinn býðst til að galdra fyrir ykkur.
Takk fyrir ábendinguna Hjalti, búið að leiðrétta þetta í greininni.
"Post hoc ergo propter hoc" þýðir bókstaflega "eftir þetta, þar af leiðandi vegna þessa" og er í raun og veru bara eftirá skýring. Sjá hér.
Annars er örugglega einhver hérna mér færari í latínu og þýðingu þessarar setningar, sem kann að færa hana til betri vegar.
post hoc ergo propter hoc rökvillan byggir á því að búa til ímyndað orsakasamhengi, sem ekki er fyrir hendi. Tilraunin með rottuna er etv. ekk gott dæmi um þessa rökvillu, því að þar kemur til stýring atburðarásar af hendi þess sem tilraunina gerir. Rannsakandinn hefur væntanlega látið mat birtast rottunni þegar hún nálgast stöngina, eða kemur við hana, og þannig komið henni í þann skilning að beint orsakasamhengi sé fyrir hendi. Rottan gerir sér enga grein fyrir því að það er ekki nálgun hennar við stöngina sem framkallar matinn, heldur sú staðreynd að fylgst er með henni og stýrt orsakasamhengi búið til af "æðra máttarvaldi" ( hér rannsakandanum). Sama er um Pavlov og hundana. Pavlov klingdi bjöllu þegar hann gaf hundunum að éta. Við endurtekningu þessa, fóru hundarnir að slefa þegar þeir heyrðu í bjöllunni, og að lokum var nóg að klingja bjöllunni til að hundarnir færu að slefa, þó að enginn kæmi maturinn. Rökvillan er vissulega fyrir hendi, því að ályktunin "Stöng = matur" eða "bjalla = matur" eru rangar fyrir okkur þó þær séu réttar fyrir rottunni og hundunum. Þetta segir okkur að "post hoc ergo propter hoc" getur verið rétt þó að tengingin sé ofar okkar skilningi. Með þessu er ég ekki að vísa til æðri máttarvalda, heldur einungis þess að ályktun rottunnar "stöng= matur" er rétt þó að hún hafi ekki hugmynd um af hverju.
Það gildir um flestar ef ekki allar rökvillur, að þótt rangt sé að A leiði til B þá geta engu að síður bæði A og B verið sannar.
Mig minnir að það hafi einnig verið Skinner, sem gerði tilraunir á dúfum, sem undirstrikuðu þessa hjátrúarskilyrðingu jafnvel betur en hjá rottum. Þær tóku upp á því að gera sömu óþarfa hreyfingarnar áður en þær gogguðu í hnappa og þær gerðu áður en þær hittu síðast á réttan hnapp. Þessi skilyrðing er afar áberandi hjá spilafíklum og mættu menn taka þá tali upp á grín og sjá hversu absúrd hugarheimur þeirra er í þessu tilliti.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 10/01/04 04:15 #
Smá stafsetningarvilla: propter en ekki proper.
Annars fín grein og frábær síða!