Við áramót hefur tíðkast sá siður að spá fyrir um framhaldið. Völva Vikunnar hefur verið fastur liður og undrast margir hve nákvæm hún getur verið.
En er eitthvað yfirnáttúrlegt við slíka spádóma? Í ár spáir hún t.d. að Davíð dragi sig út úr forsætisráðuneytinu, en hann lýsti því einmitt yfir eftir síðustu kosningar að svo færi. Hér er því gert út á heimsku og gleymsku múgsins fremur en innblásið innsæi.
Það er í raun ekki mikill vandi að taka til langan lista yfir það sem líklega mun gerast á næsta ári. Þegar svo farið er yfir spána í lok ársins er gott að gleyma bara því sem ekki "rættist" en hampa hinu.
Völva vantrúar ætlar að gera einmitt þetta, sumt af því sem hún spáir gerist örugglega, annað er líklegt og sumt næstum víst að ekki rætist. Sjáum hvort hún standi Völvu Vikunnar á sporði:
Einhverjar deilur koma upp innan Samfylkingar og styrr mun standa um störf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Jafnvel getur farið svo að Össur gefi henni eftir formannsstólinn.
Þá er sennilegt að ósætti komi upp í herbúðum Vinstri grænna og tengist þetta Ögmundi eða Kolbrúnu á einhvern hátt. Ekki er loku fyrir það skotið að annað hvort þeirra segi sig úr flokknum.
Í landsmálunum verður flest með kyrrum kjörum, en athyglin mun þó beinast að Reykjanesbæ þegar nálgast vorið. Ekki er gott að segja á þessari stundu hvort sú athygli er jákvæð eða neikvæð, en þetta gæti tengst flóttamönnum á einhvern hátt.
Nokkur átök verða í Austurbyggð, en það leysist þó allt farsællega.
KB Banki mun eiga í nokkru stríði á árinu og þá aðallega við siðferðiskennd þjóðarinnar sem orðin er þreytt á að hækkandi þjónustugjöldum og alls kyns álögum til fyrirtækis sem skilar milljörðum í arð. Einhver mótmæli verða á árinu tengd þessu.
Hafró sendir frá sér góðar tölur sem skila sér í auknum veiðum. Mikil eftirspurn verður eftir mannskap á fiskiskipaflotann, sem fer stækkandi á árinu.
Veldi Björgólfs Thor Björgólfssonar mun halda áfram að vaxa á árinu og áður en það er liðið mun hann verða fyrsti Íslendingurinn til að eiga eignir sem eru metnar á meira en milljarð dollara.
Nokkur alvarleg bílslys á fyrri hluta ársins vekja umræðu um hertar refsingar fyrir umferðarlagabrot. Þá er ljóst að a.m.k. ein flugvél farist á árinu, sennilega á hálendinu.
Tvö manndráp af yfirlögðu ráði valda skelfingu á árinu, enda þykir þeim svipa mjög saman. Menn velta fyrir sér hvort kominn sé fram raðmorðingi í íslensku samfélagi, en svo reynist þó ekki vera.
Mikið verður um dóma fyrir fíkniefnanotkun og smygl og refsingar verða nokkuð hertar fyrir kynferðisglæpi, eftir mikinn þrýsting utan úr þjóðfélaginu.
A.m.k. tveir stórbrunar verða á höfuðborgarsvæðinu, sennilega seinni part ársins og nokkrir minni brunar um allt land. Einhverjar raddir munu heyrast um að brennuvargur sé á bak við einhverja þessara bruna.
Kjaramál verða í brennidepli í upphafi árs, margar langar samningarimmur verða háðar og verkföllum hótað en að lokum verða flestir sáttir með sín fimm prósent.
Hermann Hreiðarsson verður í sviðsljósinu næsta árið og það kannski með nokkuð óvenjulegum hætti. Búast má við nokkrum meiðslum meðal Íslendinganna sem starfa með erlendum liðum.
Mikið verður um að vera hjá knattspyrnumönnum í Evrópu og ljóst að athygli knattspyrnuunnenda mun beinast að Portúgal um mitt sumar. Enskar bullur munu valda usla bæði innan vallar og utan.
Ólga fer á ný vaxandi í Serbíu án þess þó að borgarastyrjöld brjótist út. Í Grikklandi verða atburðir sem heldur treysta stoðir undir spádóma Nostradamusar, a.m.k. að mati sumra.
Mikil öryggisgæsla verður á Ólympíuleikunum sökum hótana um hryðjuverk. Þetta hefur í för með sér ómælt angur fyrir bæði keppendur og áhorfendur, en allt fer þó vel og framkvæmdinni verður hrósað eftir á.
Bandaríkjamenn gerast þaulsætnir í Írak þrátt fyrir loforð um annað. Átök fara harðnandi fyrri hluta árs og heima fyrir eflast gagnrýnisraddir í kjölfar þess að æ fleiri dátar farast við skyldustörf sín, bæði í Írak og Afganistan.
Fyrirhuguð réttarhöld yfir Saddam Hussein munu vekja mikla athygli og ýmislegt óvænt kemur þar í ljós.
Ýmsir frægir listamenn munu bera víurnar í Björk, en hún verður vandlát á samstarfsmenn sem fyrr.
Augu heimsins munu enn á ný beinast að Kína, þar sem ómældar hörmungar dynja yfir. Einnig sjá menn þess merki að breytinga sé að vænta í stjórnarfari heima fyrir á þeim bænum.
Útlit er fyrir að þessir muni deyja eða veikjast alvarlega á árinu: Stephen William Hawking, George Bush eldri, Jóhannes Páll páfi II og Tony Blair.
En gleðilegt ár!
Nýlega bárust fregnir af því að Stephen Hawking sætti alvarlegu ofbeldi af hálfu eiginkonu sinnar og jafnvel væri óttast um líf hans og heilsu. Er það ekki næg ástæða til að segja sem svo að þessi þáttur spádómsins "hafi komið fram"?
"Þá er sennilegt að ósætti komi upp í herbúðum Vinstri grænna og tengist þetta Ögmundi eða Kolbrúnu á einhvern hátt. Ekki er loku fyrir það skotið að annað hvort þeirra segi sig úr flokknum."
Voru ekki gömlu radicalarnir að prótesta nýlega gegn "Svavarsvæðingu" flokksins, en Ögmundur mærði Svavar og stóð á móti þessari gagnrýni? Hér hefur forspá ræst :)
"Í landsmálunum verður flest með kyrrum kjörum, en athyglin mun þó beinast að Reykjanesbæ þegar nálgast vorið. Ekki er gott að segja á þessari stundu hvort sú athygli er jákvæð eða neikvæð, en þetta gæti tengst flóttamönnum á einhvern hátt."
Það er farið að nálgast vorið. Hefur ekki Hollívúddskiltavæðing Reykjanessbæjar einmitt verið að draga að sér athygli?
Var ekki Blair að veikjast nokkuð alvarlega núna nýlega? Rós í hnappagat völvunnar!
Þetta er óhugnalegt. Þetta getur einfaldlega ekki verið tilviljun!
;-)
"Í landsmálunum verður flest með kyrrum kjörum, en athyglin mun þó beinast að Reykjanesbæ þegar nálgast vorið. Ekki er gott að segja á þessari stundu hvort sú athygli er jákvæð eða neikvæð, en þetta gæti tengst flóttamönnum á einhvern hátt."
Í hádegisfréttum í dag kemur fram að tveir menn frá Hvíta-Rússlandi, sem komu með Norrænu fyrir viku, hafi óskað hælis hér á landi. Þeir voru sendir til Reykjanesbæjar, þar sem þeir hafa nú í hótunum við þá sem annast þá, heimta tóbak og annan viðurgerning en hóta líkamsmeiðingum ella.
Völva Vantrúar hittir enn beint í mark!
A.m.k. tveir stórbrunar verða á höfuðborgarsvæðinu, sennilega seinni part ársins og nokkrir minni brunar um allt land. Einhverjar raddir munu heyrast um að brennuvargur sé á bak við einhverja þessara bruna.
Jæja gott fólk. JL og dekkin í Sundahöfn ganga alveg upp í þessu. Svo brann fiskvinnsla í Ólafsvík í haust og fleira má tína til. Held að völvan okkar sé bara þrælskyggn :)
Stórt fyrirtæki, sem verið hefur burðarás í byggðarlagi sínu fer á hausinn á árinu.
Var ekki Kísiliðjan að fara á hausinn sem hefur mikil áhrif á Skútustaðahrepp?
Ja hérna, þið eruð nú svei mér skyggnir.
einkver reinir að drepa Georg Bush á árinu og tekst það kannski.bíðiði bara.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Guðjón Öfjörð - 01/01/04 18:58 #
Sniðugt!