Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Engin ástæða til að efast?

Í Fréttablaðinu þann 24. desember var "Hinn eilífi Kristur" valinn maður vikunnar og í greininni sem fylgdi var reynt að sýna fram á að umræddur maður hafi í raun verið til.

Engin ástæða virðist hins vegar til að efast um að Kristur hafi verið til því um hann er getið í öðrum heimildum. Sagnaritarinn Flavíus Jósefus minnist til dæmis á Jesú í verki sínu, Antiquitates Judaicae. Þar kemur fram að Jesús hafi átt stuðningsmenn bæði meðal gyðinga og annarra, verið krossfestur af Pílatusi vegna hvatningar forystumanna gyðinga, en birst stuðningsmönnum sínum á þriðja degi eins og væri hann lífs.

Íslensk þýðing á umræddri málsgrein er á þessa leið:

Um þær mundir lifði Jesús, spakur maður, ef mann skal kalla. Því að hann framkvæmdi furðuleg kraftaverk og kenndi fólki sem fúslega meðtók sannleikann. Hann vann sér fylgi margra Gyðinga og Grikkja. Hann var Messías. Pílatus tók við kærum mikilsvirtustu manna okkar á hendur honum og lét dæma hann til krossfestingar. En þeir sem lært höfðu að elska hann, gáfu ekki upp elsku sína til hans. Á þriðja degi birtist hann þeim lifnaður við, því að spámenn Guðs höfðu sagt það fyrir og ótal aðra dýrðlega hluti, sem tengdust honum. Og flokkur kristinna, sem svo kallast eftir honum hefur haldist við til þessa dags.

Þar með er þetta sannað, við getum bara pakkað þessum vef ofan í tösku og farið að iðrast synda okkar. Ónei. Við kynnum til sögunnar Jósefus sagnaritara, hann var trúaður farísei og sat að skrifum um aldamótin 100. Jósefus var ekki kristinn en þessi setning er augljóslega skrifuð af kristnum manni og það leiðir okkur að þeirri einföldu niðurstöðu að Jósefus skrifaði ekki þessa setningu. Kristnir afritarar hafa breytt klausunni seinna meir eða jafnvel bætt henni við í heild sinni. Þessi málsgrein passar ekki við það sem á undan kom eða það sem kemur á eftir. Næsta málsgrein kemur einsog beint framhald af þeirri sem er á undan umfjölluninni um Jesú, hún kemur í raun einsog málsgreinin um Jesú hafi ekki verið til staðar þegar hún var skrifuð.

Þetta er semsagt fölsun og frekar augljós en samt er ennþá vitnað í þetta eins og um raunverulega heimild sé að ræða. Ég man að þegar ég var í kristinfræðikennslu þá minntist presturinn sem hana kenndi á þessa klausu einsog um hún væri sönnun. Hvers vegna þykir kristnum mönnum svona mikilvægt að reyna að sanna að Jesús hafi verið til þegar þeim finnst allt í lagi að trú þeirra séu ósannanleg með öllu? Gæti verið að þetta bendi til þess að kristnum mönnum langi til að geta sannað eitthvað smávegis af því sem þeir trúa á? Er kannski einhver nagandi efatilfinning þarna bak við sem þeir vilja losna við? Kristnir menn vilja geta sagt að við vitum að minnsta kosti að Jesús hafi verið til en það er ekki hægt, í besta falli er hægt að leiða líkum að því að Jesús hafi verið til en það er alltaf efi.

Heimildir: Veraldarsaga Fjölva, sjöunda bindi. Fjölvaútgáfan, Reykjavík 1982. Blaðsíður 114-115.

Óli Gneisti Sóleyjarson 29.12.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Guðjón - 30/12/03 17:33 #

Ég kannast við það úr (rök)ræðum mínum við kristið fólk að það viðurkennir að jólaguðspjallið og allar þessar sögur um sköpun heimsins, Adam og Evu og svoleiðis séu skáldskapur. En það heldur samt alltaf í það að Jesú hafi verið til og það dregur það óspart fram sem einhverskonar sönnun fyrir trú sinni.


frímannsson - 30/12/03 23:05 #

Ég ætla að varpa fram tæplega 400 ára gamalli pælingu Déscartes.

Flatarmálssannanir sanna á engann hátt tilveru þeirra hluta sem þær fjalla um.

Þar af leiðir, að sönnunin um tilvist Guðs sé amk. jafn óyggjandi og flatarmálssannanir.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 31/12/03 23:22 #

Alltaf hefur mér leiðst Descartes.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.