Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Krossleggjum hendur

Kæru trúleysingjar!

Hvernig líður ykkur yfirleitt þegar þið neyðist til að sitja guðsþjónustur? Það er alltaf verið að gifta, ferma og jarða og við þurfum í krafti þess oftar að mæta til messugjörða en við kærum okkur um.

Við slíkar athafnir verður hópþrýstingurinn jafnan of sterkur til að við getum gert nokkuð annað en fylgt með. Hve mörg ykkar sitja annars áfram þegar hjörðin rís á fætur? Ég hef farið inn í kirkju staðráðinn í því að taka ekki þátt í neinu svona og sitja sem fastast, en... Það er erfitt að ráða við þetta.

Og þegar allir lúta höfði í bæn. Verðið þið ekki dálítið niðurlút líka? Af hverju getum við ekki bara horft hnarreist fram þegar viljalaus söfnuðurinn iðkar hópefli sitt, óháð þessari þvælu allri?

Nú þegar jólahátíðin er að detta á má gera ráð fyrir að kirkjurnar fyllist af gersamlega trúlausu fólki sem mætir eingöngu fyrir stemninguna eða til að halda friðinn við aðra fjölskyldumeðlimi. Ég er með tillögu. Hvernig væri að sýna þessu fólki með afgerandi hætti að trúlausir séu á meðal þeirra við þessar athafnir? Hvað segiði um að lúta aldrei höfði, heldur krossleggja hendur á brjósti og einblína einarðlega á prestinn?

Það góða við slíka hegðun er að eftir því sem trúleysingjum fjölgar í samfélaginu, því færri verða til að hlýða forstöðlun messunnar. Og þegar svo er komið að varla nokkur maður rótar sér samkvæmt ritúalinu, þá er sjálfhætt og hægt að taka upp "hugþjónustur" í staðinn fyrir þetta forheimskandi drasl.

Hvað segiði? Er þetta díll? Hafið annars góð jól.

Birgir Baldursson 24.12.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 24/12/03 12:01 #

Lengi fór ég trúlaus í kirkju en ég er hættur því núna, eina undantekningin er þegar um jarðarför er að ræða og reyndar gerði ég undantekningu fyrir systur mína þegar hún giftist (það er ólíklegt að hin systir mín taki upp á því að giftast í kirkju og ég er þakklátur fyrir það).

Mér fannst ég alltaf vera svo hrikalegur hræsnari að mæta í kirkju, jafnvel tuldrandi með ruglinu. Síðan fór ég nokkrum sinnum í kaþólskar messur sem var afar undarlegt.

En hvað um það. Mér finnst að fólk geti ekki ætlast til að ég mæti í kirkju, ég get beðið fyrir utan að bara mætt í veisluna, mér finnst það alveg nóg og ef fólk skilur það ekki þá getur það bara átt sig.

Gleðileg Jól!


Solla - 24/12/03 12:15 #

ég get nú samt sagt ykkur það að það er enginn neiddur til að fara í kirkju og þið getið nú alveg setið heima hjá ykkur í staðinn ! :)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 24/12/03 17:04 #

Neyddur eða ekki neyddur, hópþrýstingur allavega. Ég hef lent í því að fólk skammar mig fyrir að fara ekki í kirkju og ég get ímyndað mér að það séu fjölmargir sem vilja ekki lenda í því enda er það ekki gaman þegar fólk vill ekki skilja hvað skiptir mann raunverulega máli.


Eggert Ármannsson - 25/12/03 00:16 #

Nei, hví ættum við að sýna kristnum svona óvirðingu og dónaskap ?

Þeir mega hafa sína trú, að sama skapi og við höfum ekki okkar. Mér finnst vanvirðing sumra trúleysingja við kirkjuna og trúaða vera farinn að nálgast ofstæki oft á tíðum og ansi langt í umburðarlyndið.

Menn mega hugsa sig aðeins um þegar umburðarlyndi þeirra og árásir á kirkjunna eru farnar að bera ansi mikinn keim af ofstækisfullum trúarnötturum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 25/12/03 01:50 #

Kommon, gagnrýnir okkur fyrir fyrir dónaskap og vanvirðingu en notar síðan sjálfur orðið trúarnöttari. Er það ekki dónalegt og lýsir það ekki vanvirðingu? Eru kannski "trúarnöttararnir" leyfilegt skotmörk en þjóðkirkjufólk ekki? Mega trúarnöttararnir ekki hafa sína trú í friði? Má fólk bara hafa trú ef hún fellur að þínum gildum? Ég aðhyllist sjálfur trúfrelsi en ég mun ekki halda kjafti og ég mun benda á ruglið sem trúnni fylgir.

Það vantar verulega að benda fólki á að staða Þjóðkirkjunnar er ekkert eðlileg, það er ekkert eðlilegt að ætlast til þess að allir gifti sig í kirkjum, að öll börn séu skírð og fermd þó enginn trú sé þar að baki.

Mér finnst raunar kurteisari leið að skera sig út í kirkju einsog Birgir talar um, þá ertu allavega trúr sjálfum þér og í raun þá sýnirðu trú annara meiri virðingu. Það er nefnilega þvílíkt virðingarleysi að þylja trúarjátninguna og faðirvorið án þess að meina nokkuð með því. Er hræsni kurteisi? Heiðarleiki er dyggð í mínum huga og það að merkja sig svona er heiðarlegt.


Sigurður Hólm Gunnarsson - 25/12/03 15:33 #

Ég reyndar skil ekki áhyggjurnar sem menn hafa af þessu. Það er ekkert að því að fara í kirkju, mosku, bænahús gyðinga eða hvað sem er til að taka þátt í sorg og gleði vina og vandamanna. Sjálfur bið ég ekki bænir eða syng sálma þegar ég fer í kirkju (t.d. vegna giftinga, ferminga eða jarðafara) og öllum finnst það eðlilegt enda vita allir að ég er trúlaus.

Hluti af því að búa í fjölmenningarlegu samfélagi er að viðhafa gagnkvæma virðingu. Trúaðir ástvinir mínir og ættingjar segja t.d. reglulega við mig "guð verið með þér" eða "guð hjálpi þér" sem mér finnst bæði sætt og fallegt þó að ég trúi ekki á guð. Af einhverjum ástæðum fer það í taugarnar á sumum trúleysingjum að svona sé sagt við þá og það skil ég satt að segja ekki!


Helgi Hrafn Gunnarsson - 25/12/03 16:44 #

Ég, þó ég sé trúleysingi, er mikill áhugamaður um trúarbrögð, og ber gríðarlega virðingu fyrir trú annarra.

Þess vegna vanhelga ég ekki musteri annarra með því að mæta með mín viðhorf inn. Ég mæti einvörðungu í jarðarfarir náinna ættingja, og þá beygi ég mig undir siði hússins, rétt eins og ég fer eftir húsreglum vina minna þegar ég er heima hjá þeim.

Sé ég félagslega neyddur (af fjölskyldumeðlimum, þið vitið hvað ég meina), þá sýni ég enga miskunn og helst reyni ég að leggja mig í kirkjunni. Virðing mín fyrir trú annarra er algerlega byggð á því að aðrir beri virðingu fyrir trúleysi mínu.


B - 26/12/03 17:06 #

Mig langar að deila með ykkur mínu viðhorfi sem trúlaus farandi í kirkjur. Að sjálfsögðu fer ég í jarðafarir en tek ekki þátt í neinu sem brýtur gegn skoðunum mínum þ.m.t. bænir og annað. Ég stend upp þegar það er gert og annað sem ekki útheimtir að ég segi eða geri eitthvað sem stangast á við trúleysi mitt.

Hinsvegar finnst mér afskaplega gaman að hlusta á tónlist undir slíkum athöfnum og er það sá hluti þjónustunnar sem heldur mér á floti. Út í aðra sálma og talandi um tónlist þá er það frekar íronískt að þegar ég, trúleysinginn, fer í jarðafarir eða á tónleika sem haldnir eru í kirkjum þá er maður talinn með til kirkjusóknar landsmanna!

Ríkiskirkjan er svo ótrúlega þurfandi við að koma því að hjá fjölmiðlum hvað kirkjusókn er mikil þá og þessa stundina en þá eru allir taldir með - einnig túristar sem óvart reka inn nefið! Skrítið!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/12/03 15:21 #

Ég get fallist á þau viðhorf Helga Hrafns að rétt sé að "beygja sig undir siði hússins" og standa og sitja eftir ritúali, þótt ekki sé nema til þess að valda ekki öðrum gestum óróleik með þaulsetum.

En sjálfur leysti ég þetta mál síðast þegar ég mætti til fermingar með því einfaldlega að taka myndir í gríð og erg. Ljósmyndarar virðast vera gersamlega undanþegnir hegðunarmynstrinu þarna inni og mæli ég eindregið með þeirri lausn :)


Þröskuldur - 29/12/03 10:04 #

Mér finnst þetta hið mesta bull og enginn fær mig til að fara í kirkju um jólin eða aðra daga nema þegar ég fer í jarðafarir, giftingar og skírnir. Þá fer ég til þess að votta öðrum virðingu með nærveru minni og mér finnst ekkert eðlilegra en að taka þátt í athöfnunni. Ef ég tek ekki þátt í messunni með því að standa upp og að minnsta kosti þykjast fara með bæn, ætti ég frekar að vera heima hjá mér en að valda öðrum pirringi með þessum yfirlýsingum mínum.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 29/12/03 10:38 #

Af hverju ætti maður að þykjast fara með bæn?

Aldrei hef ég séð ástæðu til þess í mínum fáu kirkjuferðum og engann stuðar maður í raun þar sem allir trúmennirnir eru með hendur greiptar og augun lokuð. Maður er því ekki að blekkja neinn nema sjálfan sig. Í staðin stend ég gáttaður og skoða þetta skrítna fólk sem gerir sér ekki grein fyrir því hversu furðulegt það er að tala við yfirnáttúruveru.


Guðjón Öfjörð - 30/12/03 18:04 #

Ég fer einungis í kirkju þegar ættingjar mínir gangast í þessar trúarlegu athafnir sínar eins og fermingu, giftingu og skírn. Svo líka þegar mér einhver kunnur og kristinn deyr.

En í kirkjunni syng ég ekki, bið ekki bænir né nokkuð slíkt. Læt mér aðeins nægja að sitja og standa eftir þörfum hópsins.

Annars þessi trú ætti að vera upprætt á íslandi. Henni var þröngvað á okkur :(

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.