Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Boðorðin tíu III: Boðorðin tíu eru bull

Þegar siðlausir Rómverjar réðust inní Ísrael og hernámu landið urðu þeir skelfingu lostnir yfir því hversu ill meðferð var á konum og börnum hjá heittrúuðum gyðingum, hversu skefjalaus refsigleði þeirra var og ofbeldið. Jú, þarna kynntust Rómverjar landinu sem stjórnað var af boðorðunum tíu og fyrirheitna guðinum Yahweh.

Það er alveg ljóst að kirkjulegu boðorðin eru margbrotin af Yahweh og Jesú í biblíusögunum. Grimmdarverk þeirra eru skráð þar af mikilli alúð. Þar er drepið, nauðgað, stolið og smánað, allt í nafni Guðs. Það er líka aumt þegar falskir trúmenn reyna að ljúga því að lögmál Yahweh sé grunnurinn að vestrænni löggjöf og þá umræðu má oft heyra. Staðreyndin er sú að lögmálið og athafnir guðsins eru hróplegri andstöðu við flest okkar lög fyrir utan þrjú boðorð sem eru mjög aftarlega í röðinni og voru síðar afnumin af Móse. Til að auka skilning á því hversu boðorðin tíu eru ofmetin og mikið bull, skulum við skoða þau nánar í samhengi við samfélag okkar.

1) Guð talaði öll þessi orð og sagði: "Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
Brot á stjórnarskrá Íslands 63 gr, 64 gr og 65 gr. Þetta boðorð stríðir gegn 9 gr. um mannréttindasáttmála Evrópu um Hugsana-, samvisku- og trúfrelsi. Boðorðið brýtur líka 1 gr. laga um skráð trúfélög. Brýtur í bága við mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þ.e.a.s. 2 gr., 16 gr., 18 gr, og 26 gr. Einnig hafa Íslendingar aldrei verið í þrælahúsum í Egyptalands þannig að þessi guð á varla erindi við Íslendinga.

2) Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.
Brot á stjórnarskrá Íslands 63 gr, 64 gr og 65 gr. Þetta boðorð stríðir gegn 9 gr. um mannréttindasáttmála Evrópu um Hugsana-, samvisku- og trúfrelsi. Boðorðið brýtur líka 1 gr. laga um skráð trúfélög. Brýtur í bága við mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þ.e.a.s. 2 gr., 16 gr., 18 gr, og 26 gr. Morð á börnum í allt að fjórða ættlið er brot á 211 gr. hegningalaga og auk þess koma til greina fleiri hegningarlög ef barnið er enn í móðurkviði. Þessi morð brjóta einnig í bága við 3 gr. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og réttinn til lífs 2 gr. Kafli I mannréttindasáttmála Evrópu.

3) Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.
Brot á stjórnarskrá Íslands um tjáningarfrelsi 73 gr. og 10 gr. um tjáningarfrelsi í mannréttindasáttmála Evrópu auk brots á 2 gr. og 19 gr. Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hefndarráðstafanir þessa guðs samkvæmt sögum biblíunnar brjóta nær alltaf gegn Genfarsáttmálanum og öðrum mannréttindasáttmálum.

4) Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.
Hér er guð samsekur um þrælahald sem brýtur í bága við 4 gr. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessi regla er óframkvæmanleg þar sem loka þyrfti sjúkrahúsum, löggæslu o.s.fr. Slíkt myndi brjóta í bága við réttindi og skyldur opinbera starfsmanna o.s.fr. Einnig er þetta brot á atvinnufrelsi og trúfrelsi.

5) Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
Þetta boðorð er brot á tjáningarfrelsi og sem betur fer er börnum frjálst að tjá sig. Í Biblíunni er því lýst hvernig foreldrar eiga að berja börn sín til óbóta svo að þau hlýði. Sem betur fer er þetta ógeðslega Biblíuuppeldi aflagt að mestu enda andstætt lögum að misþyrma börnum.

6) Þú skalt ekki morð fremja.
Þetta ákvæði var ekki fundið upp af guði eða Móses. Slíkar reglur má finna í langflestum samfélögum frá örófi alda. Allt væri þetta gott og blessað nema að Guð heldur ekki sín eigin boðorð:
Hós14:1 Samaría fær að gjalda þess, að hún hefir sett sig upp á móti Guði sínum. Fyrir sverði skulu þeir falla, ungbörnum þeirra skal slegið verða niður við og þungaðar konur þeirra ristar verða á kvið.
Mt14:41 Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

7) Þú skalt ekki drýgja hór.
Það þykir að sjálfsögðu ekki gott til afspurnar að halda framhjá en slíkt er alls ekki bannað samkvæmt lögum. Þessi hór sem er í boðorðunum er miklu víðtækari en margir halda. Samkvæmt því er bannað að hafa samfarir fyrir giftingu, bann við hjónaskilnuðum og konur mega ekki giftast aftur. Þetta boðorð á enga samleið með lögum landsins.

8) Þú skalt ekki stela.
Þetta er eitt af þessum sjálfsögðu hlutum sem Guð sjálfur getur ekki haldið:
4Mós31:23 Drottinn talaði við Móse og sagði: "Tel þú herfangið, bæði menn og skepnur, þú og Eleasar prestur og ætthöfðingjar safnaðarins, og skipt þú herfanginu til helminga milli þeirra, er vopnaviðskiptin áttu, þeirra er í leiðangurinn fóru, og alls safnaðarins"

9) Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
Þetta er svo sem ágætt en Guð karlinn hefur furðulega ást á lyginni: 2Þe2:12 Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni. Hins vegar á þetta ákvæði litla samleið með lögum.

10) Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.
Þetta hörmulega rugl er ekki í lögum landsins. Aftur verður guð meðsekur um þrælahald.

Frelsarinn 27.11.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )