Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aparéttarhöldin

Darrow og BryanÁrið 1925 var hættuleg þróun í gangi í Bandaríkjunum, bókstafstrúarmenn voru að reyna að banna kennslu þróunarkenningu Darwins í skólum og voru nokkur ríki þegar búin að samþykkja slík lög. Meðal þessara ríkja var Tennessee. Bandarísku mannréttindasamtökin ACLU (American Civil Liberties Union) buðu hverjum þeim sem sóttur væri til saka á grundvelli þessara laga ókeypis málsvörn.

Í smábænum Dayton í Tennessee hafði maður að nafni John Scopes kennt þróunarkenninguna þrátt fyrir bannið. Nokkrir bæjarbúar sem höfðu áhuga á að vekja athygli á bænum spurðu Scopes hvort hann væri til í að láta kæra sig fyrir kennslu sína. Scopes samþykkti.

William Jennings Bryan var fyrrverandi ráðherra og forsetaframbjóðandi sem hafði barist hart fyrir því að umrædd lög yrðu sett. Bryan hafði líka boðið hverjum þeim sem undirritaði yfirlýsingu um að hann væri kominn af öpum 100 dollara. Bryan tók að sér hlutverk saksóknara í málinu. Verjendur John Scopes voru nokkrir en fremstur þeirra var Clarence Darrow. Darrow, sem er líklega frægasti lögfræðingur í sögu Bandaríkjanna, var þá nýbúinn að bjarga hinum ungu morðingjum Leopold og Loeb frá dauðarefsingu. Darrow tók að sér málið án þess að þiggja greiðslu fyrir í fyrsta skipti á ferli sínum, hann var frægur fyrir andúð sína á trúarbrögðum og hann vildi nota tækifærið til að afhjúpa Bryan.

Dayton varð að miðpunkti Bandaríkjanna í júlí 1925, fjölmiðlamenn alls staðar af komu þangað og það var hálfgerð sirkusstemning í bænum. Apar settu svip sinn á bæinn. Réttarhöldin hófust þann 10. júlí. Nærri þúsund manns voru viðstaddir og var í fyrsta skipti útvarpað beint frá réttarhöldum. Dómarinn var bókstafstrúarmaður sem heimtaði að hefja réttarhöldin á bæn þó Darrow mótmælti. Verjendurnir lögðu fram beiðni um að ákæran yrði felld niður vegna þess að lögin sem hún byggði á gengu gegn bæði stjórnarskrá Bandaríkjanna og Tennessee-ríkis, beiðninni var hafnað.

Áður en aðalmeðferð málsins hófst predikaði Bryan um málið í kirkju í bænum, í kirkjunni voru meðal annars dómarinn og fjölskylda hans.

Í upphafsávarpi sínu sagði Bryan að ef þróunarkenningin sigraði þá væri út um kristni. Darrow hóf mál sitt með að segja að lögin boðuðu afturhvarf til miðalda. Darrow sagði líka að lögin væru til þess að fallin að gera Biblíuna að mælistiku fyrir greind manna.

Málflutningur ákæruvaldsins var innihaldslítill enda var málið einfalt í þeirra augum, þeir sýndu fram á að Scopes hefði brotið lögin og að honum hefði verið ljóst hvað hann hefði verið að gera.Verjendur höfðu mun háleitari markmið í huga enda var þeirra markmið að leiða lögin sjálf fyrir rétt og jafnvel að nota réttarhöldin til að fræða Bandaríkjamenn um þróunarkenninguna. Fyrsta vitnið var sérfræðingur í dýrafræði sem útskýrði grundvöll þróunarkenningarinnar. Ákæruvaldið mótmælti vitnisburðinum fyrst og sagði að hann gæti ekki sýnt fram á sekt eða sakleysi Scopes og eftir vitnisburðinn hæddist Bryan að þróunarkenningunni. Háðsglósum Bryan var svarað með stuttri ræðu verjandans Dudley Malone. Í ræðunni sagði hann að fáfræðin sem ákæruvaldið byggði mál sitt á væri sama fáfræðin sem gerði kirkjunni kleyft að sækja Galíleó til saka. Svari Malone var ákaft fangað af áhorfendum sem voru þó flestir stuðningsmenn ákæruvaldsins. Dómarinn úrskurðaði að lokum að hunsa skyldi vitnisburð dýrafræðingsins.

Dómarinn hafði áhyggjur á að réttarsalurinn gæti ekki þolað allan þann áhorfendafjölda sem var kominn þarna og lét flytja réttarhaldið út úr húsinu. Þegar búið var að flytja réttarhaldið á lóðina bað Darrow um að stórt skilti sem á stóð "Lestu Biblíuna" sem var þá beint fyrir fram kviðdómendur yrði tekið niður ellegar yrði sett upp svipað stórt skilti sem á stæði "Lesið þróunarkenninguna", dómarinn lét taka skiltið niður.

Á sjöunda degi réttarhaldanna gerðist það sem átti eftir að innsigla frægð þeirra, Darrow kallaði saksóknarann Bryan í vitnisstúkuna sem sérfræðing um Biblíuna, Bryan varð við þeirra beiðni. Darrow byrjaði á að spyrja spurninga um ýmislegt í Biblíunni sem ekki stóðst vísindalega, um Jónas og hvalinn sem átti að hafa gleypt hann, um þegar Jósúa stöðvaði sólina á himni og fleira í þeim dúr. Bryan hélt fyrst staðfastlega fram að allt í Biblíunni mætti taka bókstaflega en játaði síðan að það ætti ekki við allt í Biblíunni.

Spurningar Darrow urðu ágengari og Bryan átti mjög erfitt með að svara. Meðal annars svaraði Bryan einni spurningu á þá leið að hann hugsaði ekki um það sem hann hugsaði ekki um, Darrow spurði hann þá hvort hann hugsaði yfirleitt um þá hluti sem hann hugsaði um. Bryan eyðilagði eigið orðspor með þessum vitnisburði sínum
Stuttu eftir vitnisburð Bryan bað Darrow kviðdóminn um að sakfella Scopes svo hægt væri að taka málið fyrir á æðra dómstigi, þar kom hann í veg fyrir að Bryan gæti komið með lokaræðu. Kviðdómurinn varð við beiðni Darrow og dómarinn sektaði Scopes um eitthundrað dali. Fimm dögum eftir réttarhaldið lést Bryan.

Þegar málið var tekið fyrir á æðra dómstigi var úrskurðinum hrundið vegna tæknilegs galla, samkvæmt lögum Tennessee hefði kviðdómurinn átt að skera úr um sektina en ekki dómarinn. Rétturinn kom síðan í veg fyrir að þetta "undarlega" mál yrði tekið aftur fyrir. Lögunum var ekki hrundið í ríkinu fyrir en nokkrum áratugum seinna. Málið hafði hins vegar áhrif, aðeins tvo ríki af þeim fimmtán sem höfðu undirbúið svipaðar lagasetningar staðfestu lögin.

Í Bandaríkjunum kalla margir Scopes réttarhöldin "réttarhöld aldarinnar" og ég er eiginlega sammála því. Í gegnum tíðina hafa trúarbrögð gert margar atlögur að vísindum í réttarsölum, yfirleitt hafa vísindin tapað fyrir réttinum en sannleikurinn sigrar samt ávallt að lokum. Sama fáfræði er í gangi enn í dag, sumir halda því jafnvel ennþá fram að þróunarkenningin sé vel útpælt prakkarastrik hjá guði.

Baráttan heldur áfram en við vitum að sannleikurinn sigrar þó það þurfi fyrst að yfirstíga fordóma og fáfræði.

Byggt á Famous Trials in Amerivan History: Tennessee vs. John Scopes: The "Monkey Trial"

Óli Gneisti Sóleyjarson 20.11.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )