Í Norður-Úganda hefur í 18 ár herjað borgarastríð á milli stjórnvalda og kristilegs ofstækishóps sem kallast Andspyrnuher Drottins. Þessi hreyfing vill gera Úganda að sannkristnu bókstafstrúarlandi og meðal annars gera boðorðin tíu að lögum landsins. Nú er svo komið að sendifulltrúi Sameinu þjóðanna Jan Egeland telur ástandið í Úganda verra en í Írak og að hvergi sé ástandið verra en veki jafn litla athygli.
Þessir ofsatrúarmenn hafa rænt þúsundum barna til að berjast fyrir sig eða hneppa í kynlífsþrældóm. Svo er komið að börn þora ekki að yfirgefa þorp og bæi til að lenda ekki í klóm uppreisnarmanna. Þeir misþyrma fólki á svívirðilegan hátt. Algengt er að skorin eru af eyru, varir eða nef fórnarlambanna. Myndin fyrir ofan sýnir eitt af fórnarlömbum þessa ólýsanlega ofbeldis. Yfir milljón manna eru nú flóttamenn og þúsundir hafa verið drepnir.
Það virðist vera lenska á kristnum áhrifasvæðum að loka eyrunum fyrir því sem kristnir ofstækismenn gera. Við fáum umsvifalaust fréttir af voðaverkum annarra trúarbragða og hversu siðlaus þau eru. Bæði Þjóðkirkjan og einstaka stjórnmála menn hafa lýst opinberlega yfirburðum kristinnar trúar og siðferðis til að tryggja ríkistrúna í sessi. Siðferðið sem ofstækismennirnir auk Þjóðkirkjunnar kenna sig við er samt úr einni og sömu bókinni sem kallast Biblía.
Við þekkjum öll söguna þar sem kristnir drekktu einstæðum mæðrum og brenndu fólk fyrir galdra á Íslandi. Hundruð milljónir manna hafa verið drepnar í gegnum aldirnar við að koma á "réttri" kristni kirkjuyfirvalda víða um heiminn, þrátt fyrir að nánast eina bókmenntaverkið sem lesið var á þeim tíma heiti Biblía. Voðaverk kristilegra ofstækismanna í dag eru flestum hulin, enda mikið lagt á sig við að boða kristna trú. Ég mun á næstunni taka fyrir nokkur af þeim voðaverkum sem slíkir menn eða hópar hafa framkvæmt á okkar tímum. Þær ólýsanlegu skelfingar sem íbúar Úganda þurfa þola er eitt dæmið um slíkt.