Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hundalógík 2: Lykillinn að spádómum Biblíunnar

Bókin Vörðubrot eftir Jónas Guðmundsson hafnaði í höndum mínum þegar ég var ógagnrýninn og næmgeðja unglingur. Ég las hana þá af athygli og fannst hún mikil opinberun. En í tímans rás þroskast maður og viðhorfin breytast, nú þykir mér hún dæmalaust dellumix.

Höfundurinn, sem er undir geysilegum áhrifum Adam Rutherford pýramídafræðings, gefur sér endalaust hæpnar forsendur til að leiða út fjarstæðukenndar niðurstöður. Dæmi um þetta er þegar hann gefur sér að þessi klausa í Jesaja, 19. kafla, HLJÓTI að vera um Kheopspýramídann:

"Á þeim degi mun vera altari handa Jahve í miðju Egyptalandi og merkissteinn við landamærin. Það skal vera til merkis og vitnisburðar um Jahve hersveitanna í Egyptalandi."

Á grundvelli þessarar ályktunar er svo öll pýramídalógían reist. Með fleiri slíkum hlýtur-að-vera ályktunum er það fengið út að hluti pýramídans (gangur, sem hefst við "þrepið mikla" og svokallaður konungasalur) sé e.k. sögukort framtíðar og tákni tímabilið milli 1914 og 1953. Það eru svona atriði sem meðal annars skilja gervivísindi frá vísindum.

En Jónas lætur ekki staðar numið við pýramídapælinga Rutherfords, heldur dembir sér beint í Opinberun Jóhannesar. Hann fer í mörgum orðum út í þá sálma að spádómarnir séu á líkingamáli og vitnar til margra staða í Biblíunni máli sínu til stuðnings. Gott og vel. En þegar kemur að því að ráða í líkingarnar fær hann út niðurstöðu sem ekki fær staðist. Ég ætla ekki nánar út í þá sálma en bendi mönnum á að ná sér í bókina eða skoða vefsíður um Rutherford og píramídalógíuna.

Það sem mér gengur fremur til með þessum skrifum er að sýna í eitt skipti fyrir öll hvað svona ráðningar geta leitt jafnvel grandvörustu menn út á miklar villigötur. Ég ætla í stuttu máli að taka Opinberun Jóhannesar og snúa henni mér í hag, pýramídafræðingum og Biblíuhoppurum til háðungar en öðrum til gríns og gleði:

Fyrst nauðsynlegt er, samkvæmt túlkunarfræðum Jónasar, að líta á spádómana sem líkingamál, af hverju þá ekki að ganga alla leið og líta á alla Biblíuna sem slíkt. Þegar sagt er "Guð er lögmálið" væri þar með átt við lögmálið = lógík. Guð væri því ekki persóna með vitund, heldur hið röklega: náttúrulögmálin, hin lógíska hugsun, hin vísindalega afstaða. Reiði Guðs yrði því að túlka sem "hina ísköldu afstöðu rökhyggjunnar sem eyðir grillum og hindurvitnum trúarbragðanna. Prófið þið nú að lesa Biblíuna með þessum nýja skilningi, ég er viss um að hún verður mun lógískari fyrir bragðið. Sjáið t.d. bara sköpunarsöguna: Náttúrulögmálin skópu jörðina, kveiktu á sólinni, leiddu af sér líf sem þróast.

Opinberun Jóhannesar verður um leið sem opin bók.

Jónas gerir ráð fyrir að skækjan Babýlon tákni ríkjandi heimsskipulag og fall hennar merki uppstokkun og tilurð friðarríkisins. Þetta átti allt að gerast "á hinum síðustu dögum" þegar dýrið fær að ríkja "eina stund" ásamt "konungunum" (hornum sínum og höfðum).

Mikil áhersla liggur í Opinberunarbókinni á Babýlon, hinni miklu skækju. "Konungar jarðarinnar" leggjast með henni og "drýgja saurlifnað". Þeir hafa "orðið drukknir af saurlifnaðarvíni hennar".

Skækja situr á "skarlatrauðu dýri" alsettu "guðlöstunarnöfnum". Dýrið hefur "sjö höfuð og tíu horn". Skækjan er klædd dýrasta skarti og búin gulli og gimsteinum og hefur í hendi sér gullbikar "fullan viðurstyggðar, og var það óhreinleikur saurlifnaðar hennar". Á enni skækjunnar er ritað nafnið: "Leyndardómur: Babylon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar". Einnig er konan drukkin "af blóði hinna heilögu og af blóði Jesú votta".

Í ljósi hins nýja skilnings míns, og af þessum orðum hér að ofan, sting ég upp á því að Babýlon, skækjan mikla sé kristin kirkja. Það gengur upp í því sem á enni hennar er ritað. Þessi móðir hórkvenna hefur getið af sér alls kyns varíasjónir, kaþólsku, Lúterstrú, Calvínisma, Mormónstrú ofl. og allt þetta greinist svo niður í ótal afbrigði. Skækjan situr á "dýrinu" sem ég ákveð hér með að skilgreina sem trúna. Höfuð dýrsins er sjö og meginstefnur trúarinnar líka:Kristni, Islam, Búddismi, Hindúismi, Gyðingdómur, Bahái og Satanismi.

Samkvæmt Opinberuninni mun reiði Guðs fella skækjuna og dýrið af stalli og margir munu gráta fall hennar. Túlka: Vísindaleg aðferð mun koma kirkjunni og trúnni á kné og margir verða sjokkeraðir.

Ef við skoðum fleiri hugtök Biblíunnar: Sannleikurinn (sem gerir yður frjálsa) táknar bara nákvæmlega það sem hann stendur fyrir; leitið sannleikans með rannsóknaraðferðum vísindalegrar aðferðar og þið munið frjálsir verða frá trúargrillum og miðaldamyrkri. Þetta hefur nú þegar ræst (hehe).

Í samræmi við þessa tilgátu mætti halda því fram að Jesús sé kynntur til sögunnar sem fulltrúi lógíkurinnar, og látinn tala til heimsks samtímans í líkingum. Hann sagði "Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið. Hver sem kemur til mín mun lifa þótt hann deyi". Hvað átti hann við með þessu? Jú, við sem fylgjum lógíkinni að málum höfum kastað frá okkur ranghugmyndinni um eilíft líf, gerum ekki ráð fyrir vitund eftir dauðann. En það verðum við sem lifum gegnum hugverk okkar, því þau verða áfram sannleikur mannanna, meðan trúarrausinu verður á eld kastað (vá, mér sýnist ég vera nokkuð efnilegur grillufangari). Kemur heim og saman við þegar hann talar um að sá sem "fyrirgeri lífi sínu" fyrir sig (lógíkina/sannleikann) muni öðlast eilíft líf (í verkum sínum). Sjáðu bara Kópernikus, Einstein og Nietzsche.

Ef einhverjum finnst sú túlkunarleið sem kemur fram hér að ofan hljóma eins og óráðshjal þá hefur hann rétt fyrir sér. En það er einmitt svona óráðshjal sem öll trúarbrögð (þar á meðal pýramídalógía) byggja á.

Segjum sem svo að tilgátur spekinganna, um að ættkvíslir Ísraels hafi hafnað hér á norðurslóð og Íslendingar séu ættkvísl Benjamíns, sé rétt - Segjum sem svo að þessi kenning, um nýjan frelsara sem kemur fram á Íslandi sé rétt (Keops "bendir" á Reykjavík og Reykjanesskaga), nú þá ætti sá frelsari, í ljósi þess að frelsarinn skv. kenningu minni er ekki persóna heldur sannleikurinn, að vera þetta sem þú ert að lesa núna.

Svo ég bregði mér nú aðeins í skó fullyrðinga, rétt eins og dellumakarar trúarinnar: Biblían er gildra fyrir grillufangara. Hún er öll á líkingamáli og boðar sigur vísindalegrar hugsunar yfir ranghugmyndavaðli trúarinnar. Hver sem les hana með því hugarfari hlýtur að sjá það. Þetta mun renna upp fyrir mannkyni á "hinum síðustu dögum", þ.e. kringum árið 2000, sbr. haug af útreikningum "Devine plan of the ages" liðsins og sá sem allt þetta fattar er Íslendingur af Benjamínsættkvísl og hann mun gera þetta heyrinkunnugt á Vantrú.net þann 14. nóvember 2003.

Fjöllum aðeins um "syndina". Syndin er það að trúa. Þegar talað er um að Jesús hafi dáið fyrir syndir okkar þá táknar það nákvæmlega það: Sannleikurinn var lagður til hliðar (dó um tíma) vegna trúaráráttu okkar en reis svo upp til að ríkja yfir veröldinni. "Á þriðja degi" merkir hér "á þriðja árþúsundi". Nú eru semsagt tímar lógíkurinnar að renna upp.

Sjáið bara! Þessi alvörulausi bræðingur minn gengur alveg upp. Ég tefli honum hér með fram gegn öllu þessu "divine plan of the ages" bulli. Þetta hér er síst vitlausara. Reyndar dálítið sérkennilegt að nota aðferðir tiltekinna sérvitringa til að hrekja speki þeirra.

Ég segi því: Látið því af trú yðar. Þér eruð drukknir af ranghugmyndaveigum. Leggið frá ykkur bikarinn og tileinkið ykkur hinn hið sóbera hugarfar trúleysis og rökhyggju.

Að lokum. Ég vil að það komi skýrt fram að ég er að setja þessa túlkun hér fram að gamni mínu, ég þori ekki fyrir mitt litla líf að láta mér detta í hug að þetta sé réttur túlkunarmáti Biblíunnar (er sá máti til?). Svo þið þarna trúgjörnu - ekki falla fram á framlappirnar og líta svo á að ég eða þetta hér sé Kristur endurborinn (enda afskaplega ólógískt). Mín afstaða er enn sem áður þessi: Spádómar og vitranir þær sem lýst er í Biblíunni eru ekkert annað en óráðshjal og ofskynjanir heilaskemmdra karlhróa. En ekki verður því neitað að sumar hverjar eru ægifagrar og virka vel á mann sem fínasti súrrealsimi. Sjáið t.d. 6. kaflann í Opinberunarbókinni. Kúl stöff.


Þessi grein birtist áður á spjallþráðum Strik.is, en hefur hér verið örlítið breytt.

Birgir Baldursson 14.11.2003
Flokkað undir: ( Nýöld )