Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hundalógík 1: Guð=genin

Hin sjálfselsku gen okkar eru sá guð sem trúarbrögðin lýsa. Guð og trúarritin eru bara birtingarmynd af þeim skilaboðum sem þau senda okkur svo við vinnum að framgangi þeirra.

Eins og sést á ofansögðu má túlka trúarrit á borð við Biblíuna á hvaða hátt sem er, meira að segja Richard Dawkins í hag. Skoðum það betur:

Margfaldist og uppfyllið jörðina

Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð. Þetta táknar auðvitað að þegar genin verða til í árdaga skapa þau strax einfalda lífveru sem skynjar himinn og jörð, eða öllu heldur frumstæða vitneskju um að það sé umhverfi.

En jörðin var auð og myrkrið grúfði yfir vötnunum. Passar. Fyrstu lífverurnar höfðu engin skynfæri sem tóku mið af ljósgeislum. Þess vegna sögðu genin: Verði ljós. Þau gerðu lífveruna næma fyrir ljósi.

Svo sköpuðu genin dýr, jurtir og loks menn. Allt hefur það verið staðfest. Og skilaboðin til mannsins voru þessi: Margfaldist og uppfyllið jörðina. Allt fyrir framgang genanna.

Með æxlun hafa genin náð að skapa sér eilíft líf. Og þau fyrirheit sem manninum eru gefin gegnum trúarbrögðin eru að því leytinu sönn og rétt.

Erfðasyndin

Það er genum okkar ekki í hag að við séum mikið að spilla sæði okkar í jörð eða eyða því í aðrar dýrategundir, eða á sama kyn. Þess vegna er kynlíf sem ekki leiðir til getnaðar svona óvinsælt í trúarbrögðunum. Genin hafa mjög sterkar meiningar í þessum efnum.

En þetta útskýrir líka glötunina, því sá sem fremur slíka ERFÐA-synd að gamna sér án getnaðar á það á hættu að gen hans lifi ekki af - hann glatast.

Jesús og úrkynjunin

Það er ýmis hætta sem steðjar að viðgangi gena okkar, t.d. sú að þau blandist í of ríkum mæli innbyrðis meðal náskyldra. Til lengri tíma litið verður afrakstur slíks ófrjósemi og önnur vangefni, alger dauðadómur yfir genunum.

Á tímabili í mannkynssögunni var þetta orðið stórt vandamál, því stéttaskipting var svo rík að genin náðu ekki að blandast milli stétta og viðhalda fjölbreytileik sínum. Genin brugðu á það ráð að leysa þetta ástand upp með því að framleiða eingetinn einstakling sem var af öllum stéttum samtímis og gat komið þessari blöndun á upp á nýtt.

Já, Jesús var bæði trésmiður og kóngur, lávarður og auvirðilegur þjónn. Sem prestur og leiðtogi umgekkst hann rumpulýð og hyski og smitaði þeim skilaboðum frá genunum út í samfélagið að stéttaskiptingin væri hallærisfyrirbæri sem ekki bæri að taka alvarlega. Hann tók um leið á sig ERFÐA-synd fábreytileikans með því að vera eingetinn, klón af móður sinni en samt karlmaður (væntanlega með tvo x litninga). Ekkert er genum okkar ómögulegt.


Nóg komið

Svona má halda áfram út í óendanleikann að leika sér með efniviðinn i Biblíunni. Mórall þessarar greinar er einmitt sá að með túlkun megi fá út hvað sem er til stuðnings hverju sem er. Og hér hef ég bókstaflega sýnt fram á réttmæti kenninga Dawkins um sjálfselsku genin okkar með Biblíuna sjálfa að vopni.

Og þetta er ekki vitlausara en hvað annað sem borið er á borð fyrir mann. T.d. það að Biblían boði kærleika og réttlæti.

Birgir Baldursson 13.11.2003
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )