Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúlausir, trúaðir og dauðinn

Við biðjum ekki um að fæðast og við biðjum ekki um að deyja, en það gerist samt.

Sama hvað okkur langar mikið til að hafa ekki fæðst eða hvað okkur langar ekki til að deyja að þá gerist það samt. Málið er að hvorki fæðing eða dauði hefur nokkuð með langanir að gera. Hér er um náttúrulegt fyrirbæri að ræða sem er háð náttúrulögmálum sem ekki verða beygð undir langanir eins eða neins. Það verður svo til ótti þegar hin innbyggða sjálfsbjargarhvöt mannsins (sem hefur þann tilgang að viðhalda lífi sem lengst) rekst á þá staðreynd að dauðinn er óumflýjanlegur.

Maðurinn er einfaldlega óvenjugáfað spendýr. En dýr engu að síður. Dýrin hafa ekki nógu stóra og þróaða heila til djúprar hugsunar í líkingu við hugsun mannsins og lifa því samkvæmt hvötum sínum, hugsunarlaust (á autopilot!). Dýrin eru því ekki þrúguð af ótta við dauðann. Sjálfsbjargarhvötin heldur þeim gangandi til dauðadags. Dauðinn kemur snöggt og óvænt.

Án þess að þykjast vera sérfræðingur las ég eitt sinn að vegna stökkbreytingar eða þróunar hjá forfeðrum mannsins þróaðist mjaðmagrind kvendýrsins á þann hátt að hún varð teygjanleg og gat gefið eftir. Þar með opnaðist möguleiki á því að að kvendýrið gæti fætt afkvæmi með óeðlilega stóran heila. Það gerðist og afleiðingarnar eru augljósar. Maðurinn er einstakt náttúrufyrirbæri í raun eins konar "mistök" því náttúran hafði ekki gert ráð fyrir að neitt spendýr gæti gert sér grein fyrir óhjákvæmilegum dauða sínum með viðeigandi komplexum! Vonin um áframhaldandi "líf" eftir dauðann er því eiginlega angi af sjálfsbjargarhvötinni og því nokkuð eðlileg afstaða en bara svo dapurleg.

Enda hvað væri það sem ætti að lifa af dauðann? Vísindamenn í læknisfræði, geðlækningum og lífefnafræði hafa fyrir löngu sýnt fram á það með sannanlegum tilraunum að persónuleiki, minningar og meðvitund mannsins er algjörlega háð hinni líffræðilegu starfssemi mannsheilans. Þegar heilinn skemmist, verður fyrir lyfjaáhrifum eða áhrifum öldrunar verða mælanlegar breytingar sem sýna augljóslega að ekkert af persónuleika nokkurs manns gæti haldið áfram sjálfstæðri tilveru eftir að heilinn deyr. Enda þekkjum við mennirnir ekki neitt það sem kallast "persónuleiki" nema tengt efnislegum líkama. Það er því ljóst að dauðinn markar upphaf þess að allri tilveru viðkomandi manneskju er lokið burt séð frá öllum löngunum til hins gagnstæða.

Enda getum við ekki tjáð neitt af hugsunum okkar eða opinberað neitt af persónueinkennum okkar nema í gegnum efnisleg líffæri okkar. Ef líkaminn er tekinn burt hvað er þá eftir og hvernig myndi það tjá tilveru sína? Þetta órofa samband milli líkama og persónuleika sést einmitt best af því þegar trúarliðið þykist upplifa "sannanir" fyrir yfirnáttúrulegri tilvist "andavera" og "látinna sálna". Hafið þið tekið eftir hvernig lýsingar á slíkum fyrirbærum eru alltaf tengd einhvers konar LÍKAMA. Draugar, María mey, Jesú, englar og huldufólk allir með mannslíkama. Staðreyndin er sú að tengingin milli persónuleika og efnislegs líkama er svo endanleg og augljós að jafnvel þeir sem ljúga að sjálfum sér geta ekki rofið þessi tengsl.

Upphaf alls þessa má eflaust rekja til einhverra Neantherdalsmanna sem dreymdu látna vini og ættingja eftir dauða þeirra og héldu því að draumar og lifandi minningar væru vísbending um einhvers konar tvískiptingu mannsins. Enda var oftlega komið fyrir mat og vopnum í gröfum látinna sem virðist benda til þess að frá upphafi hafi maðurinn gælt við þá hugmynd að "eitthvað" lifi af dauðann.

Trúarliðið er því miður enn á Neantherdalsstiginu. Kristnir menn horfa fram á tvo möguleika. Himnaríki eða helvíti. Hinir kristnu Neantherdalsmenn eru skelfingu lostnir við tilhugsunina um dauðann því þeir hafa heilaþvegið sig til að trúa þvílíkri vitleysu um dauðann að það væri gargandi fyndið ef það væri ekki bara svona grátlega alvarlegt. Himnaríki og helvíti eru að sjálfsögðu aðeins hluti af hinum ógurlegu stjórntækjum guðstrúar. Kristin trú og prestar hennar setja sig í þá stöðu að vera eins konar milligöngumenn um að redda manni vist í himnaríki og án þeirra blasi helvíti eitt við. Óneitanlega sterk staða enda ekki spennandi dæmi að fara til helvítis:

"fara til helvítis, í hinn óslökkvanda eld. 9.44 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki."

"mun kvalinn verða í eldi og brennisteini"

"í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini."

"kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna"

Þessi brot af lýsingu helvítis fá mig alltaf til að velta vöngum yfir hugtakinu "algóður Guð"!

En hvaða skilyrði þarf hinn kristni Neantherdalsmaður að uppfylla til þess að öðlast inngöngu í himnaríkið hans Jehóva?

Samkvæmt hinu "hreina og óskeikula" "Guðs orði" Biblíunnar er það alls óljóst!
Jesú sjálfur segir:

Jóh.3.3 "Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.''

Jóh. 3.5 "Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda"

og svo líka:

Jóh.3.15 "svo að hver sem trúir hafi eilíft líf"

Jóh.3.16 "að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf"

og loks:

Jóh. 3.18 Sá sem trúir á hann, dæmist ekki. Sá sem trúir ekki, er þegar dæmdur" (ouch!)

Og Jóhannes tekur undir með meistara sínum:

Jóh. 3.36 Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum.''

Og Páll postuli leggur líka orð í sama belg:

Pos. 16.30. "Trú þú á Drottin Jesú, og þú munt verða hólpinn"

Ok, beint úr munni "guðs" og hans manna virðast því skilyrðin vera tvö: þau að maður sé skírður en umfram allt að maður trúi á Jesú. Það ætti að duga til að komast til "himna". Blind TRÚ er númer eitt.

Ok, þá er þetta á hreinu, rétt? Eh, nei, eiginlega ekki. Ha? Palli postuli segir nefnilega í fyrra bréfi sínu til Korintumanna (13.2):

"og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt"

(13.13) "En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur."

Æ,æ, nú er allt í einu kærleikur orðinn meira áríðandi en trú. Hmm, nú er vandi. Og enn meiri vandi því Kobbi segir í hinu almenna bréfi sínu:

2.14 "Hvað stoðar það, bræður mínir, þótt einhver segist hafa trú, en hefur eigi verk? Mun trúin geta frelsað hann?"

Kobbi hefur greinilega ekki mikla trú (pun intended) á orðum meistarans því hér gefur hann í skyn að trú sé ekki nóg heldur frelsist maður fyrir verk. Síðan áfram segir hann:

2.17 "Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin."

2.20 "Fávísi maður! Vilt þú láta þér skiljast, að trúin er ónýt án verkanna?"

2.24 "Þér sjáið, að maðurinn réttlætist af verkum og ekki af trú einni saman."

Ó boj. Nú eru trúaðir í vanda. Það virðist hver höndin uppi á móti annarri. Ýmist tryggir maður sér himnavist fyrir trú eða skírn (eða bæði), svo er allt í einu kærleikur orðinn meira áríðandi en trú og loks skiptir trú engu máli ef ekki koma til verk.

Jííísus reynið að gera upp hug ykkar! Það er því skiljanlegt að kristnir Neantherdalsmenn óttist dauðann því þeir vita ekki hvað á að gera til að forðast helvíti.

En skiptir þetta nokkru máli?

Til að gera málið enn flóknara segir í Opinberun Jóhannesar(21.27 ) að enginn komist inn í himnaríki "nema þeir einir, sem ritaðir eru í lífsins bók lambsins". Núúúú, þetta eru nýjar upplýsingar og afar skelfilegar fyrir trúaða því lífsins bók var nefnilega þegar tilbúin úr prentsmiðju við upphaf veraldar:

Op.13.8 Og allir þeir, sem á jörðunni búa, munu tilbiðja það, hver og einn sá er eigi á nafn sitt ritað frá grundvöllun veraldar í lífsins bók lambsins, sem slátrað var.

Jæja, gott fólk. Það var sem sagt fyrirfram ákveðið við upphaf veraldar hverjir myndu komast inn í himnaríki og hverjir ekki (sem reyndar er í samræmi við þá skilgreiningu að guð sé "alvitur" því þá veit hann strax í upphafi hver muni komast og hver ekki – þetta skilja Kalvínistar sem halda þessari kenningu á lofti). Þetta er allt plat. Allt fyrirfram fixað. Enginn frjáls vilji, sbr Jeremía (15.2):

"Svo segir Drottinn:

Til drepsóttar sá, sem drepsótt er ætlaður, til sverðs sá, sem sverði er ætlaður, til hungurs sá, sem hungri er ætlaður, til herleiðingar sá, sem til herleiðingar er ætlaður."


Trúlausir horfa á dauðann eins og hann er. Endir. Eins og við vorum ómeðvituð um fæðingu okkar verðum við ómeðvituð um dauða okkar. Ekkert að óttast.

Fyrir hinn trúaða er dauðinn hins vegar skelfilegur.

Við hin trúlausu leggjumst niður og sofnum eilífum svefni sem við munum aldrei vakna upp af. Við höfum ekkert að óttast. Við höfum lifað án hræsni, hrein og bein. Það sem tekur við er meðvitundarleysi.

Aiwaz 12.11.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )