Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Segðu þig úr Þjóðkirkjunni

Er ekki kominn tími til að segja sig úr Þjóðkirkjunni? Þú hefur hangið þarna inni "af því bara" alla þína ævi. Hvers vegna ertu í Þjóðkirkjunni? Þú þarft ekki einu sinni að klára að lesa þessa grein til að segja þig úr Þjóðkirkjunni, náðu bara í þetta eyðublað og sendu Þjóðskrá.

Hvers vegna ættirðu að segja þig úr Þjóðkirkjunni? Það er í raun röng spurning, í raun ætti að spyrja hvers vegna er ég í Þjóðkirkjunni? Þú ert að öllum líkindum í Þjóðkirkjunni af því foreldrar þínir eru í Þjóðkirkjunni, þeir eru þar af því foreldrum þeirra fannst það sjálfsagt. "Af því bara". Er vera þín í Þjóðkirkjunni einungis hefðarinnar vegna? Nennirðu ekki að skrá þig úr Þjóðkirkjunni? Það er ekki svo erfitt, fylltu út eitt eyðublað og sendu til Þjóðskrár.

Trúirðu raunverulega á kenningar Þjóðkirkjunnar? Veistu almennt hverjar þær eru? Manstu kannski bara eitthvað úr kristinfræði um að Jesús hafi verið góður?

Finnst þér núverandi biskup vera trúverðugur sem andlegur leiðtogi þinn? Fannst þér ekki bara fyndið þegar hann var að tala um illsku draugasetursins? Þetta er andlegur leiðtogi Þjóðkirkjunnar.

Fyrrverandi biskupar eru ekki skárri en sá núverandi. Ólafur Skúlason er kannski ekki biskup Íslands lengur en hann er ennþá biskup, hann er biskup í kirkjunni þinni.

Sigurbjörn Einarsson sagði á sínum tíma að sumt í gagnrýni andstæðinga Kristnihátíðar árið 2000 minnti sig á það versta sem koma fram í ræðu og riti nasista og kommúnista á sínum tíma. Að ímynda sér að Sigurbjörn skuli líkja gagnrýnisröddum í lýðræðisþjóðfélagi við það versta sem kom frá nasistum og kommúnistum. Þetta var á engan hátt eðlileg gagnrýni. Þessi maður er ennþá biskup Þjóðkirkjunnar.

Orð Sigurbjörns um nasista leiða hugann að manninum sem Þjóðkirkjan byggir kenningar sínar á. Hitler leit upp til þessa sama manns. Það er augljóslega þjóðarskömm að Þjóðkirkjan skuli vera byggð á kenningum þessa fyrirlitlega gyðingahatara.

Ein besta ástæðan sem þú hefur til að segja þig úr Þjóðkirkjunni er sú að þá ertu að styðja trúfrelsi. Stilltu þér í lið með þeim sem segja að biskup hafi rangt fyrir sér þegar hann segir að hans trú eigi að vera rétthærri en aðrar. Hver einn og einasti sem segir sig úr Þjóðkirkjunni, sérstaklega ef sá er skráður utan trúfélaga, gerir kröfuna um jafnrétti trúarskoðana meira áberandi.

Besta ástæðan sem þú hefur fyrir því að skrá þig úr Þjóðkirkjunni er að sjálfssögðu að þú átt ekkert heima þarna, þetta er ekki þín trú.

Náðu bara í þetta eyðublað og sendu til Þjóðskrár.

Óli Gneisti Sóleyjarson 11.11.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


biggi - 04/05/04 11:11 #

hmmm... var bara að spá hverjar eru afleiðingar þess að skrá sig úr þjóðkirkjunni? ég trúi ekki á guð. en þessir prestar og vitleysingar hljóta að hafa eitthvað "catch" ? þeir láta mann ekki sleppa svo auðveldlega, þið vitið meira um þetta en ég... afleiðingarnar?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 04/05/04 16:46 #

Engar afleiðingar, ég held meiraðsegja að þú fáir ennþá þjónustu í kirkjunni þó þú segir þig úr henni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.