Þó ekkert sé hægt að fullyrða um tilvist guða og annarra yfirnáttúruvera er þó lítið mál að vera sannfærður um að algóður og alvitur Guð almáttugur, eins og kristnir menn lýsa honum, sé ekki til. Þessi hugtök eru einfaldlega í mótsögn hvert við annað.
Yfirnáttúrleg vera getur aðeins verið eitt af þessu í einu, kannski tvennt, en aldrei þrennt. Lítum betur á það:
Algóð og alvitur skepna getur aldrei líka verið almáttug, því það stangast á við vitneskjuna sem hún býr yfir. Alvitur vera hlýtur að vita hver framtíðin verður og er þar af leiðandi búin að lama hugsanlegt almætti sitt. Í almætti felst það að geta brugðist við aðstæðum á hvern þann hátt sem verða vill. Hafi yfirnáttúruveran vitneskju um hvernig hlutirnir munu fara er hún orðin bundin af þeirri vitneskju til að beita almætti sínu á einn, og aðeins einn, hátt.
Og algóð vera getur ekki verið nema hálf-máttug, því öll verk hennar þurfa að vera til góðs.
Hvers konar almætti væri það?
En þrátt fyrir þetta skulum við gefa okkur að Guð kristinna manna sé til, en búið sé að ljúga upp á hann aðeins of mörgum al-eiginleikum. Hvað ætli hann sé þá af þessu?
Almáttugur? Já, sennilega, hann skapaði þetta allt saman, ekki satt?
Alvitur? Varla, því Biblíusögurnar benda til annars. Hann varð t.d. mjög skúffaður þegar Eva beit í eplið, og svo yfir mannkyninu sem slíku þegar hann drekkti því. Svo þurfti hann að breyta sér í son sinn og láta negla sig á staur til að bjarga sköpun sinni frá syndaklúðrinu. Alvitur Guð hefði átt að sjá þetta fyrir og geta afstýrt því með almætti sínu.
Algóður? Útilokað, því ef svo væri myndum við horfa upp á öllu skárri heim en þann sem við búum við í dag. Ég læt Helga Hóseasson klára þessa röksemdafærslu fyrir mig:
Í heiminum eru tveir af hverjum þremur fyrir neðan hungurmörk. Mæður í Kóreu eru farnar að éta börn sín, slíkt er hungrið. Hvers vegna gerir Krosslafur ekkert í þessu? Hvers vegna sendir hann ekki manna niður til þeirra? Þetta á að vera svo helvíti gott í sér! Hvernig getur hann horft uppá þetta? Hann situr bara uppá himnum og hlær í skeggið."
Munið það trúmenn: Guðlegt siðferði er ekkert siðferði. Þessi ófreskja sem þið dýrkið er ekki góð, heldur ill. Og sé hún almáttug í þokkabót er það ekkert nema hræðslan við hana sem fær vesalingana til að trúa, tja nema ef vera skyldi að trúgirni manna fái þá til að kaupa þann fráleita pakka að guðinn sé í senn algóður, -máttugur og -vitur.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/04 22:35 #
[Ath: Þessi athugasemd Snæbjörns rataði á einhvern hátt inn í greinina og er því birt hér í svari mínu. Einnig virðast einhver andsvör hafa fallið nður sbr. svar mitt sem virðist enga tengingu hafa við innlegg Snæbjörns - BB]
Ef hann er ennþá að skapa heiminn getur hann varla verið almáttugur. Það eru liðin grilljón ár frá því að hann tók til starfa!