Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Barátta við vindmyllur?


Sú hugmynd hefur oftar en ekki læðst að mér, og jafnvel verið lætt að mér, að allur þessi aktívismi gegn þjóðkirkjunni sé lítið annað en barátta við vindmyllur. Ég ætla að skoða það aðeins nánar.

Frá sjónarhóli kirkjunnar manna er þetta borðleggjandi. Kirkjan er í augum þeirra gagnleg og uppbyggileg, rétt eins og vindmylla sem vinnur samfélaginu gagn með nýtingu vindorkunnar. Að einhver komi síðan og berjist gegn slíkri stofnun hlýtur í augum þess er trúir að vera nákvæmlega jafn tilgangslaust hryðjuverk og að ráðast á og stöðva framleiðslutæki á borð við vindmyllu.

Ég get alveg séð hlutina í þessu samhengi. En það truflar mig þó ekki neitt í baráttu minni, því það er ekki rétt að líkja kirkjunni við vindmyllur. Þar er ólíku saman jafnað (False Analogy).

Fyrir það fyrsta þá vinnur kirkjan samfélaginu ekki gagn eins og vindmyllan. Ég hef áður bent á það hér hvernig trú (eins og sú sem kirkjan boðar) breytir mönnum í óttaslegna vesalinga, sem og hvernig hún eflir þrælslund og hneppir í hugsanaánauð.

Í öðru lagi: Kirkjan sogar fjármagn út úr samfélaginu, öfugt við vindmyllurnar sem skapa tekjur og auðga nánasta umhverfi.

Í þriðja lagi: Boðskap kirkjunnar er nánast troðið upp á fólk allt frá frumbernsku og það hálfpartinn neytt til þess að taka þátt í ófögnuðinum, þusa einhver bænaritúöl og éta kjötið af Krosslafi nokkrum sinnum um ævina. Það neyðir enginn korninu sem myllan malar ofan í nokkurn mann. Í nútímanum er rafmagninu sem þær framleiða ekki veitt til fólks gegn vilja þess.

Ef guðfræðingar og aðrir velunnarar þjóðkirkjunnar vilja halda fram þessari fullyrðingu um sjónumhryggð okkar trúlausra og baráttu við ímyndaða illsku þurfa þeir að gera trúarstofnun sína líkari vindmyllu:

  • Hvetja menn til sjálfstæðrar og gagnrýninnar hugsunar. Skapa þannig andlega auðlegð.

  • Hætta að soga til sín fjármagn úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

  • Gera kirkjuna í raun og veru að þeirri þjónustustofunum sem hún gefur sig út fyrir að vera, en er ekki: Hógværa og hlédræga, en til í að stíga fram á sviðið sé þess óskað.

Meðan kirkjan er frek og forheimskandi, og sogar um leið til sín þrjá milljarða á ári, er ekki hægt að halda því fram að barátta okkar sé "kíkótuð".

Birgir Baldursson 04.11.2003
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Davíð - 04/11/03 15:03 #

Kristið fólk á sem sagt að þegja nema þegar okkar er þörf athyglisvert, hvenær er þörfin mest það er spurninginn held að hún hafi nú aldrei verið eins stór og í dag svo við getum báðir verið sammála um að öflugt farsælt Kristið starf beri að vinna á Íslandi í dag. Guð blessi þig og veri með þér :)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 04/11/03 16:17 #

Taktu eftir að hér er verið að tala um kirkjuna en ekki "kristið fólk", ég skal hins vegar koma með svar sem gerir ráð fyrir því að þú hafir ætlað að svara þessu efnislega.

Kirkjunnar er náttúrulega aldrei þörf, hún er ónauðsynleg, en af hverjum ástæðum er til fólk sem vill fá þjónustu frá henni og það er fólkið sem kirkjan á að þjóna. Kirkjan á að hætta að angra fólk sem vill ekkert með hana hafa eða hefur ekkert beðið um að athygli hennar.

Mér finnst annars algerlega óþarfi af þessu trúaða fólki sem er að svara greinum hérna að koma með þetta leiðinda "guð blessi þig" í lokin, ég veit ekki um neinn nema kannski úr Hvítasunnukirkjum sem nota þetta í daglegu lífi. Þetta er greinilega ætlað til að pirra okkur og þá væntanlega að setja upp "en ég meinti þetta bara vel" svar ef við gagnrýnum þetta. Þetta er einfaldlega dónaskapur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/11/03 16:36 #

Já, Satan sé með þér Davíð!


Davíð - 04/11/03 18:34 #

Ég er Hvítasunnumaður og nota þetta í daglegu tali :) Er allveg ósammála þér að kirkjunnar sé ekki þörf, við hin Kristnu erum kirkjan er enginn greinamunur þar á. Er það sem sagt tilaga þín að t.d lögreglan ætti að hætta að bögga alla glæpamenn þeir vilja jú ekkert með hana hafa? Hér á Íslandi teljast um 90% landans til kristinnar kirkju þar af leiðndi ber áhrifa hennar víða í þjóðfélaginu. Guð blessi þig og það eru orð sem ég meina!


Jón Ómar - 04/11/03 18:55 #

Þetta er nú ekki fallegt af þér Birgir að óska Davíð illt. Davíð hefur aðeins óskað ykkur blessunar Guðs. Sem almennt er talin ósk um að þeim sem hana hlýtur gagni vel, þ.e. hljóti blessun Guðs. En það að óska Davíð þess að Satan ,sem í daglegu tali er holdgervingur hins illa, sé með honum má líkja við það að óska einhverjum alls hins versta.

Með kveðju Jón Ómar


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 04/11/03 19:44 #

Jón Ómar:Ef ég man rétt þá var Satan bara einhver guð sem var í samkeppni við Jehóvah fyrir árþúsundum síðan og hann hefur að ástæðulausu verið gerður að holdgervingi hins illa þannig að þetta er sama blessun bara annar guð.

Davíð:Það að líkja kristinni kirkju við lögregluna er bara rugl, ekki einu sinni biskupinn myndi láta svona útúr sér.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/11/03 20:05 #

Ég óska Davíð allrar Satans blessunar!


Jon Ómar - 04/11/03 23:03 #

Sæll,

Satan var í upphafi erkiengillinn Lúsifer sem vildi verða eins og eða meiri en Guð. Hann öfundaði Guð og er því fallinn engill. Satan kemur fram í Biblíunni sem freistar hann freistar Jesú. Jehovah er ekki rétt nafn á Guð heldur er það Jahve. Við þýðingar þá lásu menn hebreskuna vitlaust og fengu út Jehovah.

Með kveðju Jón Ómar


Sigurður Línberg - 16/01/04 13:51 #

sælir

gaman að sjá umræður um kristindóm og djöfulinn. Það fer um mig sæla þegar fólk þorir að nefna djöfulinn á nafn. Það er miskilningur að Satan sé persónugerð illska. Satan er andstæðingur kristindómsins og þar af leiðandi vilja kristnir menn kenna öllu illu upp á hann. En kristnir menn ættu að líta í eigin barm. Kristin herlið ganga fram með guðsblessun í morðum á saklausu fólki. þeir beina sprengjunum sínum á flóttamenn, íbúðarhverfi, og hafa tvisvar sinnum sprengt upp birgðageymslur rauða krossins til að hindra hjálparstarf til flóttamanna. og allt þetta er gert með blessun kirkjunnar. ég veit ekki til þess að nokkur skipulögð þjóðarmorð séu framin í nafni Satans.

Guð Kristinna manna er sá sem tvístrar og blindar augu fólks. Í kirkjum er yfirleitt að finna hangandi mann á krossi. það er skírt tekið fram í biblíunni að maður skuli ekki tigna skurðgoð eða búa til neinar myndir af því sem er á himnum eða á jörðu niðri. þar að auki kemur hvergi fram í biblíunni að kristur hafi dáið á krossi. svo er til eitthvað sem heitir heilög þrenning: faðir, sonur og heilagur andi og þessir þrír eru eitt. þetta býr kirkjan til líklega til þess að samræmast heiðnum siðum. Kirkjan og guð hennar er það sem tvístrar og spillir orði guðs. hvort sem við erum kristin eða ókristin þá eigum við að fordæma verk kirkjunnar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.