Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Marklaus trúarjátning

Að einu leyti er ég glaður yfir því að hafa lært kristinfræði og fyrir það að hafa farið í fermingarfræðslu, þetta er nefnilega eiginlega ótæmandi vopnabúr í baráttu minni við Þjóðkirkjuna. Einnig fæ ég á tilfinninguna að í hvert sinn sem guðfræðingar og prestar tjá sig þá séu komin fleiri skotfæri, hugmyndirnar eru næstum of margar. Í dag er það trúarjátningin sem ég dreg fram.

Trúarjátningin sem ég lærði í fermingarfræðslunni er svohljóðandi (nema að þeir hafi breytt henni):

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. Ég trúi á heilagan anda, heilaga, almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu holdsins og eilíft líf. Amen.

Guð er karl, við sjáum það á því að hann er faðir, munið það kvenréttindakonur.

Næsta setning sem fjallar um Jesú er góð því hún segir beint út að María hafi verið hrein mey sem hafa verið frjóvguð af himnadraugnum (svo maður noti orðalag Helga hetju minnar). Þetta verður síðan mjög áhugavert þegar tekið er fram að Jesús hafi farið til helvítis (sem er þá augljóslega staður sem er til en ekki einhver myndlíking). Síðan er gert ljóst að sá sem fer með trúarjátninguna heldur raunverulega að líkið (hálfrotið væntanlega) af Jesú hafi lifnað við og farið og rölt um í eyðimörkinni með félögum sínum. Lokakaflinn um Jesú segir síðan hvernig hann mun dæma okkur á dómsdegi.

Í síðasta hlutanum er tekinn fyrir heilagur andi sem er heilagur sannleikur samkvæmt þessu þó en raunveruleikinn er að hann var búinn til svo hægt væri að lokka Grikki til lags við kristna kirkju. Nú er heilagur andi ekki meiri uppspuni en guð sjálfur og ekki mikið meiri uppspuni en Jesús (ef við gefum okkur það að maðurinn hafi verið til sem er alls ekkert víst).

Í blálokin kemur síðan fram sú undarlega trú kristinna manna að holdið sjálft muni rísa upp frá dauðum, hér er það ekki sálin eða andinn sem snýr aftur heldur holdið sjálft sem mun lifa að eilífu.

Trúarjátningin er samantekt úr Biblíunni, hún er búin til af kirkjunni til að segja nákvæmlega hverju kristnir menn trúa, hún rúmar ekki myndlíkingar. Ef þú ætlar að vera kristinn maður þá trúirðu öllu sem kemur fram í þessari trúarjátningu, ef þú gerir það ekki þá ertu ekki kristinn. Ég veit ekki til þess að nokkur maður sem ég hef rætt við um trúmál á Íslandi hafi sagt að hann tryði því sem kemur fram í þessari þulu og því giska að ég að það sé nær enginn kristinn maður innan Þjóðkirkjunnar.

Guðfræðingar sem ég hef rifist við um trúmál trúa ekki því sem kemur fram í trúarjátningunni enda er ekki hægt að ætlast til þess að háskólagengnir menn (þó að þeir hafi bara lært guðfræði) trúi svona steypu.

Hvers vegna er fermingarbörnum kennd þessi trúarjátning? Trúarjátningin er merkingarlaus, hún er marklaus. Af þessu leiði ég að fermingarfræðslan er marklaus og hefur það eina markmið af fjölga meðlimum Þjóðkirkjunnar. Kirkja sem setur fram trúarjátningu sem er ekki í neinu samræmi við trú presta hennar eða sóknarbarna hlýtur að falla um sjálfa sig. Þjóðkirkjan þorir ekki að gera upp við sig hverju hún trúir, hún þorir ekki að styggja neinn, hún þorir ekki að vera raunverulegt trúfélag. Þjóðkirkjan er algerlega marklaus í öllu sem hún gerir.

Óli Gneisti Sóleyjarson 28.10.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Ormurinn - 28/10/03 00:28 #

Davíð Þór Jónsson tók það einhverntímann fyrir hversu órökrétt það er, að óskírð börn sem vilji láta ferma sig, séu látin taka skírn rétt áður en þau láta ferma sig. Hann líkti þessu við það að framlengja yfirdráttarheimild án þess þó að yfirdráttarheimild væri til staðar til að byrja með. Því þyrfti maður að sækja um "bráðabirgða" yfirdráttarheimild til þess eins að framlengja henni nokkrum dögum síðar. Fyndið. : )


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 28/10/03 11:04 #

Mér datt annars í hug dálítið sem enskukennarinn minn úr Menntaskólanum á Akureyri sagði frá í tíma. Það er að þegar hann fermdist þá var þessi lína ennþá inn í trúarjátningunni:

"Ég trúi á heilagan anda, heilaga, kaþólska kirkju,"

Þetta var samt sem áður innan Þjóðkirkjunnar. Mig minnir að þetta hafi verið vegna þess að "kaþólska" þýðir einfaldlega "almenna".

Það er skondið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.