Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Biblían batnar ekkert við túlkun



Það er vinsæl röksemdafærsla hjá þeim sem aðhyllast það sem kalla má þjóðkirkjutrú að baráttu trúleysingja sé einatt beint að bókstafstrú, án þess að trúleysingjarnir átti sig á því. Sönn guðfræði túlki nefnilega Biblíuna út frá kærleiksboðskap Krists og þar með sé búið að varpa nýju ljósi á allan viðbjóðinn sem ritið býður upp á, ljósi sem trúlausir átti sig ekki á.

Bókstafstrúarmenn hanga í kennisetningum Biblíunnar eins og þær koma fyrir. Hin heilaga ritning, segja þeir, hefur þann boðskap að geyma að Kristur hafi komið til jarðarinnar að undirlagi Guðs almáttugs til að taka á sig syndir mannanna og fyrir trú á hann fáist eilífðarsæla í himnaríki, en þeir sem ekki hlusti á boðskapinn verði að gera sér að góðu eldglæringar til eilífðarnóns.

Guðfræðingar hafna þessu mati á ritinu og segja að það verði að lesa í "ljósi Krists", að sá kærleiksboðskapur sem Jesús setti fram frelsi menn undan oki því sem eldri rit Biblíunnar hafi um aldir lagt á menn.

"Ljós Krists" er í raun ljós Lúters. Sá átti í langvinnum vangaveltum um ok það sem Biblían og Guð leggja á menn og komst að þeirri niðurstöðu að þar sé ekki um ok að ræða heldur frelsi mannsins til að taka eða hafna Guði (ef ég skil þetta rétt). Þær einu kröfur sem Guð geri til mannana sé að trúa og þá muni kærleikur og réttlæti hjúpa hugsanir og verk þeirra, án þess að nokkuð sé verið að vinna sér inn prik.

Það hlægilega við þessa túlkun guðfræðinga á Biblíunni er að þetta breytir í engu þeim skilningi sem bókstafstrúarmenn leggja í hana, án túlkunar. Báðir skólarnir eru sámmála um að menn frelsist ekki fyrir gjörðir sínar heldur trú.

Og þar með er líka kærleiksboðskapurinn, sem túlkun lúterska guðfræðinga skilar, fallinn, því það er enginn kærleikur fólginn í því að heimta þennan átrúnað af mönnum, en hóta þeim útskúfun ella. "Ljós Krists" breytir klárlega ekki orðum Krists sjálfs:

Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða." - Markúsarguðspjall 16:15-17

Kristinn boðskapur er einfaldlega nöturlegur og óréttlátur hvernig sem á hann er litið. Og "ljós Krists" er í besta falli léleg átylla til að fría sig mesta ógeðinu sem lekur af síðum þeirrar svörtu bókar sem kristnin byggir á.

Birgir Baldursson 21.10.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Kallisti - 21/10/03 14:16 #

Nú gæti ég gengið lengra og gagnrýnt ykkur fyrir að barátta ykkar beinist alltaf að kristinni trú. Þó að við gefum okkur að engin leið sé rétt eða fullkomin sem menn hafa áður farið í trúmálum, breytir það ekki þeirri þörf sem meirihluti mannkyns virðist hafa fyrir tilvist fullkominnar frumorsakar sem við köllum Guð/Allah/YHVH/Brahma/Ch'i/o.s.frv. Form hugsunarinnar gerir ráð fyrir einhverri orsök tilvistar og lífs, og þess vegna er þörfin fyrir Guð raunveruleg í hugum flestra.

Þið getið ekki afsannað tilvist Guðs frekar en trúaðir geta sannað hana. En þið getið hins vegar fengið fólk til þess að líta kristnu kirkjuna gagnrýnum augum, sem er allt í lagi. En eftir að hafa skoðað þessa síðu nokkrum sinnum er ég farinn að velta fyrir mér hvers vegna þið eruð svona uppteknir af trúmálum ef þið eruð svona trúlausir. Bloggið þitt, Birgir, er t.d. nánast alveg helgað trúmálum. Þeir sem telja sig kristna og eru í Þjóðkirkjunni eru ekki að velta þessu svona mikið fyrir sér. Getur verið að það sæki að ykkur efi og óþægindi í nístandi tómhyggjunni og þið séuð þess vegna með þetta á heilanum?

Mér finnst ekkert mál að hunsa það sem mér líkar ekki í Biblíunni, sleppa því að mæta í kirkju, hunsa hindurvitni, miðla og allt yfirnáttúrulegt kjaftæði, en trúa samt á fullkominn Guð sem er frumorsök og allt í öllu alls staðar. Mér fannst allt í lagi einu sinni að vera án Guðs, og var þá sífellt með vísindaleg rök á lofti um að kraftaverk væru ómöguleg og sagnfræðileg rök um að margt slæmt hefði verið gert í kirkjunnar nafni, en nú finnst mér guðleysi e-n veginn "meika minni sense" en guðstrú, burtséð frá kristindómnum. Og ég veit að t.d. Einstein og Stephen Hawking eru sammála mér, sem og hollenski heimspekingurinn Spinoza. Sennilega er þetta ekki orþodox kristni hjá mér, heldur e.k. algyðistrú, en samt guðstrú. Hvernig er það annars, eruð þið guðleysingjar (e. atheist) eða efasemdamenn um tilvist Guðs (e. agnostic)? Sennilega er það misjafn eftir greinarhöfundum, en þú getur a.m.k. svarað fyrir þig. Það er nefnilega stór munur þarna á.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/10/03 14:27 #

Kæri Kallisti!

Það sem ég er að inna af hendi er einfalt hugsjónastarf. Ég lít svo á að mannlegu samfélagi stafi hætta af hindurvitnum og þau hafi um langan aldur verið eitt helsta böl mannkyns. Ég er einfaldlega baráttumaður gegn þeim og það vill bara svo til að kristnin er mest áberandi þeirra hindurvitna sem kringum mig eru.

Öll trúmálablogg mín að undanförnu standa í beinu sambandi við rökræður mínar við presta og guðfræðinga á Annáll.is. Það gerir reyndar þessi grein líka, hún er svar mitt við þeim fullyrðingum þessara manna um að Biblían verði eitthvað fallegri og meiki meiri sens ef hún er lesin í "ljósi Krists".

Þú segðir sennilega aldrei við eldheitan vinstri mann að barátta hans hlyti að standa í samhengi við efasemdir hans og duldar gælur við hægrimennsku. Af hverju telurðu þig geta afgreitt þessa hugsjónabaráttu mína með slíkum hætti, bara af því hún snýr að trúmálum?


Kallisti - 21/10/03 15:06 #

Ég ætla ekkert að afgreiða hugsjónabaráttu þína með þessu. En þú svaraðir ekki seinni spurningunni minni, atheist eða agnostic? Eruð þið fyrst og fremst að gagnrýna hinn persónulega kristna guð, eruð þið að lýsa yfir að Guð sé ekki til í neinni mynd, eða eruð þið að lýsa efasemdum um tilvist Guðs án þess að taka endanlega afstöðu um hana?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/10/03 15:19 #

Svar við seinni spurningu: Svo ég vitni nú í félaga Sigurð Hólm (sjá innlegg hans þann 16/10 kl. 17.48 og áfram hér) þá fer það alveg eftir skilgreiningunni á hugtakinu Guð. Skilgreindu fyrir mig hugtakið og ég skal segja þér hvað ég er.

Ég fullyrði ekkert um tilvist Guðs, en bendi mönnum eindregið á að það sé geðþóttaskýring (skýring sem ekki byggir á rökum eða vísbendingum) að hafa hann með í dæminu. Skýra má allan viðgang og þróun í heiminum, allt frá fyrstu sekúndum hans, með náttúrulegum skýringum eðlis- og efnafræðinnar. Guð er einfaldlega óþörf stærð sem gerir ekki annað en flækja málið, sé honum troðið þarna inn. Því sleppi ég honum út úr dæminu, þykir það skynsamlegra.


Karl - 21/10/03 16:24 #

Sigurður Hólm segir 16/10 17.48: "Almennt má segja guðleysingjar þurfa ekki endilega að vera efahyggjumenn en líklegast eru allir efahyggjumenn guðleysingjar þar sem engin sönnun er til fyrir tilvist guðs eða guða."

Þetta er röng ályktun. Guðleysingi er sá sem trúir að Guð sé ekki til, og er þar með að fullyrða um yfirskilvitlega hluti. Efasemdamaður trúir hvorki að hann sé til né að hann sé ekki til. Að öðru leyti sýnist mér þetta vera mjög góð greinargerð hjá honum. Ég skil þá svar þitt sem svo að þú sért agnostic.

Ef ég skilgreini Guð svona: "Allt sem er (til), er guð," myndirðu þá segja að Guð sé til. Það hlýtur að vera, því annars værirðu að neita því að eitthvað sé til.

"Guð býr í gaddavírnum, amma" (Megas)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/10/03 16:55 #

"Ef ég skilgreini Guð svona: "Allt sem er (til), er guð," myndirðu þá segja að Guð sé til."

Aha, ég færi auðvitað ekki að neita því. Guð er þá líka ég sjálfur. En ég myndi strax koma með þá athugasemd að ef allt er guð, þarf þá eitthvað að kalla það guð? Er það ekki bara til að skapa rugling, því svo margar útgáfur eru til af hugmyndinni (t.d. hinn Biblíulegi Guð)?

Held það sé vænlegra að kalla allt (sem er) bara "allt (sem er)".

Hvernig færðu það út að niðurstaða Sigurðuar sé röng? Ef skilgreiningin á efasemdarmanni er sú að það sé sá sem ekki fallist á neitt nema fyrir því séu nægar sannanir og rök, getur hann þá með nokkru móti gefið sér að Guð (í merkingunni algóð vera af yfirnáttúrukyni) sé til?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 21/10/03 17:21 #

Best að skilgreina fyrst hvar ég stend, ég er algerlega trúlaus, ég trúi ekki á Jesú, drauga, Jólasveininn eða álfa.

Af hverju beinist mín gagnrýni aðallega á kristni? Því svara ég í grein sem kallaðist "Hverjar eru kröfurnar?" sem þú finnur ef þú velur nafn mitt á forsíðunni. Einnig gætir þú kíkt þar á grein á sem ég skrifaði núna um helgina sem heitir "Trúboð í skólum" og síðan ætti að birtast grein á næstu dögum sem er hálfgerð framhaldsgrein af henni.

Það væri vel þegið að þú myndir svara þessum greinum ef þú hefur eitthvað að segja um þær en við höfum oft áður svarað spurningunni "hvers vegna eruð þið að þessu?" bæði hér og annars staðar þannig að mér finnst ekki spennandi að svara henni.


Karl - 21/10/03 18:37 #

"Ef skilgreiningin á efasemdarmanni er sú að það sé sá sem ekki fallist á neitt nema fyrir því séu nægar sannanir og rök, getur hann þá með nokkru móti gefið sér að Guð (í merkingunni algóð vera af yfirnáttúrukyni) sé til?"

Nei, en hann getur ekki heldur gefið sér að hann sé EKKI til. Efasemdamaðurinn tekur ekki afstöðu. Guðlausi maðurinn tekur afstöðu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/10/03 19:13 #

"Efasemdamaðurinn tekur ekki afstöðu. Guðlausi maðurinn tekur afstöðu."

Ójú. Skeptíkerinn tekur skeptíska afstöðu, nefnilega þá að fram verði að koma sannanir og rök til að hann geti fallist á það sem haldið er fram. Þannig verður skeptíkerinn guðlaus. Hann er vantrúaður. Ef hann er það ekki, er hann einfaldlega ekki skeptíker.


Júlía - 21/10/03 19:56 #

Hvernig getum við fullyrt að guð sé til þegar allar heilbrigðar manneskjur eru á móti svo mörgu sem hann á að hafa sagt gert og blessað í biblíunni. Einsog að konan eigi ávallt að vera undirgefin og hlýða manni sínum og soleis. Það hlustar enginn á það í dag. Og það að öfunda sé stór synd. Við erum ÖLL á leið til HELVÍTIS!!! Og hvar er helvíti annars.... hefur einhver spáð í því??? Og hvað með þetta með samkynhneigð?? Það er ein lítil setning í Mósebók sem "má túlka sem svo" að það sé slæmt að vera með einhverjum að sama kyni og þá bara flippar allt öfgatrúarpakk og fer að halda að þeir séu á ikkað hærra plani en þeir sem eru samkynhneigðir og fordæma þessar manneskjur því þau séu öll að syndga og "guð hafi yfirgefið þau"..... er þetta semsagt allt fólk sem hlýðir öllu í biblíunni.... öfundar ekki og er undirgefið mönnum sínum/skipar konu sinni fyrir verkum. Hvar er KÆRLEIKURINN fólk??? Ef þetta er það sem kristin trú er að gera heiminum þá er hún svo sannarlega ekki af því góða!!!!!


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 21/10/03 22:06 #

Það er reyndar meira en ein lítil setning um samkynhneigð. Konungur kærleikans, maðurinn sem formaði kristna kirkju, Páll postuli tók hana fyrir einu bréfi sínu.


Karl - 22/10/03 01:18 #

Þú skilur greinilega ekki muninn á ensku orðunum atheist og agnostic, sem eru svo óheppilega þýdd á íslensku sem trúleysingi/guðleysingi og efasemdamaður. Ég var ekki að tala um þá afstöðu að efast. Þetta er útúrsnúningur. Það er grundvallarmunur á því, að trúa ekki að Guð sé til, og að trúa að Guð sé ekki til. Þetta er smámunur á orðaröðinni en skiptir meginmáli. Aþeistinn fullyrðir "Guð er ekki til", agnostíkeinn fullyrðir ekkert nema "ég veit ekki hvort Guð er til eða ekki ( en það skiptir mig ekki máli þar sem ég get vitað ýmislegt annað sem rök og reynsla kennir mér)". Er svona erfitt að skilja þennan mun?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/10/03 11:37 #

Þú hefur rangt fyrir þér öðru sinni. Það sem þú ert að tala um er veikur aþeismi versus sterkur. Agnostík felst í því að segja bara "ég veit það ekki" og er í raun engin afstaða.

Ég TRÚI EKKI að Guð (sá sem kristindómurinn heldur á lofti) sé til, en auðvitað treysti ég mér ekkert til að fullyrða um það. Það væri í sjálfu sér jafnmikil rökleysa og þessi hjá trúuðum að halda tilvist guðs eða guða fram. Ég er þó sannfærður um að sá Guð sem Biblían heldur á loft sé ekki til og hef sterk rök því til stuðnings. Samt þori ég ekkert að fullyrða um það.

Ástæðurnar fyrir því að ég TRÚI EKKI á tilvist skapara og guða eru einnig fengnar eftir vandlega ígrundun, þar sem rökin fyrir tilvistarleysinu eru svo yfirþyrmandi að það væri afar óskynsamlegt að hallast að því gagnstæða.

Trúleysi er skortur á trú, en sterkt trúleysi (eins og í mínu tilviki þegar kemur að hinum Biblíulega Guði) er upplýst sannfæring í kjölfar rannsókna á fullyrðingum annarra um þetta fyrirbæri sem kallast Guð.


Karl - 22/10/03 16:06 #

Þú ætlar að bjarga þér fyrir horn með því að vísa til einhverrar stigskiptingar á aþeisma, sem er ekki til í almennri merkingu orðsins eins og allir fræðimenn (mér vitanlega) nota það. Hvað er svona merkilegt við það að taka afstöðu? Þér finnst greinilega mjög mikilvægt að skipa þér í e-ð lið sem er að berjast á móti e-u öðru liði. Ef þú vilt reyna að fá merkingu orðsins atheist breytt bendi ég þér á að eiga það við Encyclopedia Britannica, sem eru mitt kennivald í þessu máli.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 22/10/03 20:28 #

Karl, trúir sá sem er agnostic á Guð? Já eða nei.

Svarið er að sjálfsögðu nei. Sá sem er agnostic trúir ekki á Guð, er semsagt trúlaus.

Flóknara er málið ekki.


Júlía - 22/10/03 21:03 #

vááááá minntist Páll Postuli á þetta?? Gæti það verið aþþí hann er líka heilaþveginn og oftúlkaði þessa pínulitlu setningu svona rosalega.Og er það rétt að vegna þess að einhver einn karl sá eitthvað athugavert við þetta fyrir mörgum árum þá eigi stór hópur mannkyns bara að þurfa að þjást því þeir eru fyrirlitnir af þröngsýnu pakki sem getur ekki hamið sig í að rakka aðra niður til að setja sig á hærra plan!! :@ grrrr.....


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/10/03 22:13 #

Mér þykir þú ekki sérlega málefnalegur, Karl, en þeim mun duglegri að varpa fram einhverjum sleggjudómum. Umræðan um/skilgreiningarnar á veikum og sterkum aþeisma hafa verið við lýði um langt skeið. Sjáðu þetta, þetta og þetta til dæmis.

Svo eru þeir til sem telja veikan aþeisma goðsögn en það er ekki erfitt að hrekja þann málflutning:

Ég hef stundum sagt að ef trúleysi sé trú, þá sé líka það að spila ekki golf íþrótt. Ef við tökum þetta lengra má segja að munurinn á veiku og sterku trúleysi sé eins og að vera annarsvegar ekki áhugasamur um golf og hinsvegar að vera nöp við það af einhverjum ástæðum. Þótt annað þessara sé sterk sannfæring en hitt ekki (heldur kannski bara áhugaleysi) þá gerir það hvorugt að golfmennsku. Til þess þarf nefnilega að spila golf. Og í tilviki trúarinnar þarf að trúa á æðri máttarvöld til að geta talist trúaður.

Við gætum líka dregið fram goðsaganveruna tannálfinn og spurt þig hvort þú þorir að fullyrða eitthvað um að hann sé ekki til ef þú trúir ekki á hann. Ef þú segir "já, ég get fullyrt það, því þetta er augljós goðsögn og ævintýri" ertu sterkur aþeisti þegar kemur að tannálfinum. Ef þú hins vegar hefur bara kosið að gera ekki ráð fyrir tilvist hans, á þeim forsendum einum að þér þyki hún ólíkleg og þú þurfir ekki á því að halda að hann sé til, þá ertu veikur aþeisti þegar kemur að þessum tiltekna álfi.

Og þú ert veikur aþeisti í mörgum öðrum skilningi. hvað t.d. með Ísis, Ósíris, Ra, Seif, Adonis, Bakkus, Ganesh og alla þá félaga. Telur þú þig þess umkominn að fullyrða að þeir séu ekki til? Ekki það nei? En trúirðu þá á tilvist þeirra? Ekki heldur? Þá ertu veikur aþeisti þegar kemur að þessum guðum.

Og það er ég líka. En þegar kemur að hinum kristna, sem á að vera algóður, alvitur og almáttugur, þá gerist ég sterkur trúleysingi, því þversögn er fólgin í því að vera geti búið að öllum þessum eiginleikum í einu.

Og svo ég tali nú eins og trúmaður: Þótt eitthvað standi ekki í Ensæklópídíu Brittannikku þá er ekki þar með sagt að það sé ekki til ;)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/10/03 22:16 #

En svona þess utan, Karl: Þú ert að pósta inn athugasemdum um grein sem fjallar um Biblíuna og túlkun á henni, en hefur ekki í einu einasta skeyti komið inn á það málefni. Má ég spyrja hverju það sæti?


Karl - 23/10/03 00:33 #

Ég ætla að reyna að láta eins og ég hafi ekki séð það sem hin hrokafulla Júlía sagði (eru þeir farnir að kenna hroka sem sérstaka námsgrein í MR?), en við hana get ég sagt að mér er alveg sama hvað Páll postuli sagði. Ég er ekki heilaþveginn, satt að segja er ég ekkert séstaklega kristinn í venjulegri merkingu þess orðs. Hún hefði kannski séð það ef hún hefði reynt að lesa orðin sem hún sá með augunum, ef hún hefur þá séð þau.

Um mína persónulegu trú get ég sagt að ég hef enga sérstaklega samúð með Biblíunni og ennþá síður með því hvernig hún hefur verið túlkuð í gegnum aldirnar. Þess vegna nenni ég ekki að verja einhverjar Biblíutúlkanir. Ég held ég geti næstum örugglega kallað mig agnostic, en ég kýs að kalla allt, sem er, Guð, og ég trúi að það séu lögmál á bak við heiminn og að heimurinn stefni í átt að meiri fullkomnun (t.d. með þróun). Þetta eru skoðanir sem flestir vísindamenn geta með góðri samvisku verið sammála mér um. En mér finnst mikill merkingarmunur á því að segja "Ég er einn í tilgangslausum tilviljunarkenndum heimi", eða að segja "Allt er Guð. Ég er hluti af öllu. Ergó, ég er hluti af Guði." Mér finnst ekkert mál að samþykkja Ísis, Ósíris, Ra, Seif, Adonis, Bakkus, Ganesh, Óðinn, Shiva, Krishna, Búdda, kaftein Spock, Neo Anderson, Hómer simpson og alla þá félaga sem erkitýpur fyrir mismunandi birtingarmyndir guðdómsins í formi goðsagna.

Ástæðan fyrir því að ég er að hengja mig á orðalagið er að ég spurði einfaldrar spurningar, sem á kannski frekar við um alla síðuna en þessa grein (biðst afsökunar á því), en fékk ekki fullnægjandi svar að mínu mati. Og svo sýndist mér þið ekki hafa skilið fyllilega mismuninn á guðleysi og efahyggju (sumir(ar) skildu það alls ekki!). Takk fyrir tenglana, ég skal kynna mér betur þetta með veikt og sterkt guðleysi. Britannica er þó með skýran skilning á þessu og sömuleiðis Íslensk orðabók, og ég ætla að halda mig við þann almenna skilning í þessu svari.

Ég kýs að tala um guðleysi frekar en trúleysi. Þegar þú notar orðið trúleysi geturðu beitt þeirri rökbrellu að nota orðið í ólíkri merkingu á mismunandi stöðum. Auðvitað hljómar þversagnakennt að segja að trúleysi sé trú. En það er líka af því að trúleysi er villandi orð og röng þýðing á orðinu atheist. Það er hins vegar ekkert skrítið að segja að guðleysi sé trú, því þar ertu að fullyrða um hlut sem þú getur ekkert vitað um og verður því að stökkva yfir mörk skynseminnar og trúa því.

Matti Á, Nei, sá sem er agnostic trúir ekki á Guð (sammála því), en hann trúir ekki heldur á ekki-Guð (sem er tilvistarleysi Guðs). Mér sýnist að margir eigi erfitt með að ímynda sér hugsunarháttinn "hvorki...né" eða "bæði...og", af því að það er svo sterklega innprentað í okkur að hugsa alltaf "annaðhvort...eða" og velja okkur stöðu með eða á móti. Þegar um er að ræða guðstrú eða guðsleysi er um að ræða "annaðhvort...eða" val. Í efahyggju á afstaðan "hvorki...né" við um tilvist Guðs.


Karl - 23/10/03 00:52 #

Þ.e.a.s. í efahyggju á afstaðan "hvorki...né" við um tilvist og tilvistarleysi Guðs.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/10/03 01:30 #

Kæri Karl!

Ég veit ekki hvort þú áttar þig á því, en þú ert að gera okkur trúlausum upp skoðanir. Hér segist enginn vera einn í tilgangslausum og tilviljanakenndum heimi. Tilgangslausum jú, ef við erum að tala um æðri tilgang en afritun genanna í næstu kynslóð. En tilviljanakenndum, nei. Þar liggur rökleysa þín.

Trúleysi mitt felst síður en svo að hafna því að heimurinn lúti ýmsum lögmálum. Þvert á móti er enginn vandi að stroka Guð og æðri tilgang út úr dæminu einmitt vegna þessara lögmála. Þau hafa verið skilgreind og útskýrð og engin ástæða til að hafa Guð þarna inni, ekki frekar en að leggja trúnað á það að englar færi reikistjörnurnar á sporbaugum sínum. Lögmálin ein og sér nægja til að útskýra viðgang heimsins.

Þróun lífvera er ekki afrakstur tilviljunar nema að nokkru leyti (sköpunarsinnar eru duglegir að gera vísindahyggjuni það upp að segja manninn sprottinn fram fyrir tilviljun eina). Það sem ræður úrslitum hér er lögmál sem kallast náttúruval. Án þess væri lífheimurinn enn á algeru frumstigi flókinnna lífrænna efna, ef hann hefði þá náð svo langt. Hendingin nær í raun bara til þeirra stökkbreytinga sem verða í genamengi lífvera, stökkbreytinga sem skapa skilyrði til þróunar í samræmi við þær aðstæður sem ríkja (náttúruvalið). Þú hlýtur að sjá að þessi einfaldaða mynd þín um tilviljun og tilgangsleysi er röng (og jafnvel meiðandi).

Að lokum: Af hverju í ósköpunum þarftu að kalla þessi lögmál + allt sem er í heiminum Guð? Hvað er unnið með því? Svaraðu fyrst því áður en við höldum lengra með þetta.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 23/10/03 01:31 #

Ég veit ekki til þess að nokkur hérna hafi þýtt orðið atheist sem trúleysingi, ég er trúlaus því ég er laus við trú á nokkuð sem er yfirnáttúrulegt.

En þessi umræða er afar óáhugaverð af því hún snýst um hugtakanotkun sem ég held að hafi haft það markmið að sýna fram á að áhugi okkar á trúmálum sé einhvers konar daður við trú. Þó að hér sé mismunur á því hvernig hugtök séu notuð og þó að við notum einhver hugtök ekki samkvæmt orðabókaskilgreiningunni þá getur það aldrei orðið til þess að við séum afhjúpaðir sem einhverjir laumu-Guðsdýrkendur. Við erum það nefnilega ekki.

Ég vísaði á grein sem útskýrir nokkuð vel hvers vegna ég er að þessu brasi og ég get ímyndað mér að hún svari að einhverju leyti allavega fyrir okkur alla. Þú virðist ekki hafa haft mikinn áhuga á því að skoða þær ástæður þó hér sé komið svar við undirliggjandi spurningu þinni um hvers vegna við erum að þessu.


Júlía - 23/10/03 15:30 #

Hvað meinaru að ég sé hrokafull Karl? Og svo lengi sem þú sért Páll Postuli var ég ekki að kalla þig heilaþveginn. Og hvernig veistu að ég er í MR?


Karl - 23/10/03 16:05 #

Júlía,

Þér að segja, þá ætlaði ég að segja kjaftfor en breytti því í hrokafull, því ég vildi ekki vera kjaftfor sjálfur, og mér finnst þetta svar dæmigert fyrir vísindahroka unglinga í Lærða skólanum (trúðu mér, ég hef verið þar).

"Gæti það verið aþþí hann er líka heilaþveginn og oftúlkaði þessa pínulitlu setningu svona rosalega...fyrirlitnir af þröngsýnu pakki sem getur ekki hamið sig í að rakka aðra niður til að setja sig á hærra plan!"

Ég sé ekki betur en að þú segir "líka" og sért þá að tala um bæði mig og Pál postula, og svo seturðu mig í hóp með "þröngsýnu pakki" og gefur þér þá væntanlega eitthvað sem þú veist ekkert um, t.d. gerir mér upp skoðanir sem ég hef ekki.

Þú ert með tengil yfir á bloggsíðuna þína þar sem kemur fram að þú sért í MR. Ég nennti nú ekki að lesa mikið en þetta var það fyrsta sem ég tók eftir.


Júlía - 23/10/03 16:58 #

Vá hvað þú ert hörundsár! Þetta var engin persónuleg árás á þig sko! Ég var bara að tala um það fólk sem oftúlkar það sem sagt er í Biblíunni og notar það gegn fólki sem hefur þeim ekkert gert en lifir lífinu á einhvern hátt sem þessu "þröngsýna pakki" finnst ekki vera rétt. Það er til svona fólk og þú veist það vel. Svona Bókstafstrúarfólk og ég var nú bara að minnast hérna á hvað það er slæmt. Ég sagði hvergi að þú tilheyrðir þessu liði vinurinn og það er nú alveg óþarfi að vera með einhvern biturleika og fara í einhverja vörn.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 23/10/03 17:12 #

Það væri nú vel þegið að ef þið ætlið að spjalla meira um persónuleikagalla hvors annars eða ræða um gamla skólann ykkar þá gæti sú umræða farið fram á bloggsíðum ykkar, ég sé að þið hafið bæði athugasemdakerfi sem ætti að auðvelda það.

Ég, persónulega, er á þeirri skoðun að það ætti bara að eyða út þessum færslum hérna að ofan sem tengjast ekki á neinn hátt efni greinarinnar (eða vefritsins almennt). Ritstjórnin í heild hefur hins vegar ekki neina stefnu í þeim málum þannig að ég efast um að slíkt verði gert.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.