Björn Bjarnason er helsti bakhjarl íslensku Þjóðkirkjunnar. Í niðurlagi ávarps síns við upphaf kirkjuþings sagði Björn meðal annars:
Enn er það hlutverk alþingis og landsmanna að ákveða, hvort þjóðkirkjan lifi áfram - en okkar, sem hér erum, að efla hana og styrkja, á meðan hún er við lýði. Mín ósk er, að okkur farnist það vel úr hendi, þjóðinni og kirkju hennar til heilla. Björn er ekki í vafa um hlutverk sitt, það er að styðja Þjóðkirkjuna.
Þetta ávarp Björns er í raun stuðningsyfirlýsing hans við Þjóðkirkjuna. Í því heldur hann meðal annars fram að trúfrelsi sé við lýði á Íslandi. Nú er spurningin hvort Björn haldi að hugtakið trúfrelsi feli ekki í sér hugmynd um jafnræði trúarskoðana. Mínar hugmyndir um trúfrelsi snúast einmitt um jafnræði.
Mér er sama þó nágranni minn trúi á Jesú eða Satan (sömu trúarbrögðin með ólíkum áherslum?) á meðan hann er ekki að angra mig með því. Mér er sama svosem þó ég sé spurður hvort ég vilji vita eitthvað um Jesú því ég get alltaf sagt að ég viti allt um Jesú, að hann sé þjóðsagnapersóna. Mér er sama þó sjónvarpsstöðin Ómega sé til, ég bara horfi ekki á hana (ekki einu sinni upp á húmorinn). Mér finnst hins vegar óhæfa að RÚV sé að stunda trúboð fyrir hönd kristinnar kirkju, þar er farið yfir línuna. Grófasta dæmið um hvenær ríkið fer yfir línuna í að boða kristna trú er að finna í grunnskólunum.
Björn gerir mikið úr sögulegri hefð varðandi tengsl ríkis og kirkju og telur hefðina vera einhvers konar ástæðu til að viðhalda tengslunum. Við höfðum í árhundruð danska konunga en við rufum þá hefð. Rík hefð er fyrir því á Íslandi að Ríkið reki hinn og þessi fyrirtæki en það hefur ekki stöðvað Björn í að stuðla að einkavæðingu þeirra, hann hefði aldrei hlustað á rök um einhvers konar hefð í því sambandi. Hefðin í sjálfu sér kemur málinu ekkert við.
Björn segir að Með kristnitökuhátíðinni árið 2000 var áréttað gildi samheldni í Íslandssögunni undir merkjum kristinnar trúar. Ég er sammála að samheldni íslensku þjóðarinnar sást vel, hún mætti nefnilega ekki á þessa bruðlhátíð miklu. Kristnihátíðin sýndi hvers lags gjá er á milli ráðamanna þjóðarinnar og þjóðarinnar sjálfrar í þessu máli. Að ímynda sér að þeir sem stóðu að þessari hátíð hafi verið hissa á því hve fáir mættu! Íslendingum er sama um kristni, mörgum finnst fínt að grípa til hefðarinnar en trúin sjálf er óþörf.
Um skilning á trúarskoðunum annarra segir Björn að Allt frá því kristni var lögtekin á Íslandi hefur það verið þráður í trúariðkun okkar, að sýna þeim, sem aðhyllast annað sið skilning. Hugsanlega er hér að finna fyrirmyndina að hugmyndum Björns um trúfrelsi, fólk mátti blóta á laun. Það er semsagt allt í lagi að fólk hafi aðra trú ef það hefur hljótt um það og borgar samt sem áður til kirkjunnar.
Björn er gamaldags, hann heldur kannski að það sé hrós en það er það ekki því Björn er engin klassík. Björn sér ekki þörfina á umbótum enda tilheyrir hann þeim hluta þjóðarinnar sem núverandi kerfi þjónar.
Í upphafi 20. aldar var samþykkt þingsályktunartillaga um að aðskilja ríki og kirkju en því miður var ekkert gert úr því, nú er komið annað tækifæri sem má ekki fara út í sjóinn. Hugmyndir okkar um jafnrétti krefjast aðskilnað ríkis og kirkju og það sem ætti að ýta mest við ráðamönnum er að þetta er vilji þjóðarinnar.