Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vísindi eru ekki trúarbrögð

Trúleysingjar fá örugglega flestir á sig spurningu á borð við þessa: "Trúir þú þá bara á vísindi?" Þessi spurning á eiginlega ekki rétt á sér því hún gefur í skyn að trúarbrögð og vísindi séu á einhvern hátt sambærileg fyrirbæri.

Vísindi, raunverulega vísindi ekki til dæmis hin svokölluðu sköpunarvísindi (creation science), byggja á raunveruleikanum. Það sem hægt er að mæla er mælt og hið ómælanlega er gert mælanlegt, ef guð væri til þá væru vísindin búin að mæla hann út. Trúaðir vísindamenn hafa reynt að finna guð með vísindalegum aðferðum en að sjálfsögðu hafa þeir ekki fundið hann, hvert framfaraskref vísindanna hefur fært okkur lengra frá guði.

Vísindi eru ekki trúarbrögð, engin trúarbrögð myndu krefjast sjálfstæðar hugsunar frá fylgjendum sínum, engin trúarbrögð myndu vilja að fylgjendur sínir væru kerfisbundið að reyna að hrekja þær kenningar sem væru talinn sannleikur, engin trúarbrögð verða sterkari við uppreisn slíka fylgismanna sinna.

Trúarbrögð krefjast hlýðni, vísindin krefjast uppreisnar. Trúarbrögð festast í sömu gerviskýringum á heiminum, sömu lygunum á meðan vísindin gera sífellda kröfu um að komast nær hinum raunverulega sannleik. Trúarbrögð eru afturhald, vísindi framför.

Vísindi koma ekki í staðinn fyrir trúarbrögð nema að því leyti að raunveruleikinn kemur í staðinn fyrir plat. Það þarf ekkert að koma í staðinn fyrir trúarbrögð af því að trúarbrögð eru óþörf og yfirleitt til ills.

Óli Gneisti Sóleyjarson 17.10.2003
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Hrafn Thorisson - 26/03/04 11:18 #

Vel orðað. Góð grein.


K. R. Þórisson - 02/07/04 10:51 #

Það eru nokkrir gullmolar þarna sem mér finnst mjög góðir. Flottur pistill.

En það eru líka nokkur komment sem mér finnst eyðileggja fyrir krafti þess sem haldið er fram og mætti laga:

  1. "Vísindi byggja á raunveruleikanum" -- þetta er náttúrulega bara hálfur sannleikurinn. Réttara væri að segja að vísindi byggja á einstaklega öflugu sambandi milli hugvits og raunveruleika sem ekki finnist í neinu öðru sem mannskepnan hefur tekið sér fyrir hendur. (Margir kristnir menn myndu t.d. segja að Biblían sé "raunveruleg" og þannig byggi trú líka á raunveruleikanum.)

  2. "ef guð væri til þá væru vísindin búin að mæla hann út". Þetta er fyndið, en ekki rétt. Guð, eins og hann er skilgreindur í mörgum trúarbrögðum, er ekki hægt að mæla út. Hann er "metaphsyical" eða yfir raunveruleikann hafinn. Það er ekki hægt að beyta vísindunum til að leiða líkur með eða á móti tilvist guðs (eða annarra alvitra eða hálf-vitra guða).

  3. "engin trúarbrögð myndu krefjast sjálfstæðar hugsunnar frá fylgjendum sínum". Flestir trúaðir (í hvaða trú sem er) myndu vera ósammála þessu eins og það er orðað hér. Hins vegar kemur oftast í ljós, þegar málin eru grandskoðuð, að í einhverju formi er þetta rétt fullyrðing. Hún er bara aðeins of almenn í þessu formi sem hún er sett fram hér (enda er þetta stuttur pistill).

  4. "trúarbrögð eru óþörf og yfirleitt til ills". Það er rétt að mörg stríð hafa verið háð í nafni trúar (einnar eða annarrar) og margir einstaklingar, hópar, og jafnvel hlutar af þjóðum drepnar í nafni guðs, guða, eða annara sögusagna tengdar trú. Hins vegar má leiða vissar líkur að því að stóran hluta slíkra glæpa megi rekja til græðgi. Oft réttlæta þeir sem fremja glæpi vegna græðgi sinnar verknaðinn með tilvísun í einhvern eða einhverja guði. Það má örugglega oft deila um það hvort þessir menn eru raunverulega trúaðir. Að trúarbrögðin séu "óþörf" er hins vegar erfitt að fullyrða, sérstaklega í ljósi þess hversu stór hluti mannkyns er trúaður. Einhver "þörf" er þarna á ferð. Hins vegar má vissulega fullyrða að trúarbrögð séu óþörf í t.d. stjórnun þjóða og landa, viðskiptum, vísindum, o.s.frv., kannski ekki á ósvipaðan hátt og að t.d. Bauhaus stefnan er óþörf í rekstri banka, fyrirtækja eða útgerðar.

Sjá einnig: http://www.dasboot.org/thorisson.htm


Snær - 02/07/04 19:31 #

Áhugaverðar athugasemdir, K.R. Þórison.

Persónulega þykir mér athugasemdir þínar sem eru merktar (1.) og (3.) vera lítið annað en óþarfa málalengingar, en hinar eru skynsamlegri.

Það er t.d. ekki hægt að afsanna tilvist guðs eins og hann kemur fram í Biblíunni, þar sem hann á að vera yfir raunveruleikann hafinn. Það held ég nefnilega að sé fullkomlega rétt hjá þér.

En hvað varðar athugasemdina sem merkt er (4.), þá þykir mér það ekki sannfærandi hvernig þú segir það ill-fullyrðanlegt að trúarbrögð séu óþörf. Hvað með eiturlyf? Hjá þeim sem háðir eru myndast þörf fyrir þessum eiturlyfjum, en flestum öðrum þykir þau samt ekki nauðsynleg. Þvert í móti teljast þau óholl, of ávanabindandi og skaðsöm gagnvart þjóðfélaginu í heild sinni.

Margir okkar trúleysingjanna erum á því áliti að eins sé farið með trú og eiturlyf: Hjá þeim sem stunda þau er þörf fyrir þau, en hún gerir í heildina séð ekki mörgum gott, jafnvel þó hægt sé að finna réttlætingar á tilvist þeirra, eins mismunandi góðar og þær kunna að vera.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.