Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Flókin óþörf skýring

Þeir sem kannast við hugtakið rakhnífur Occams muna sjálfsagt að hann gengur út á að halla sér að einföldustu skýringunni þegar fleiri en ein eru til reiðu. Þessi hugsunarháttur leggur grunninn að allri þeirri þekkingu sem mannkynið býr að í dag.

Sú þekking færir okkur þá vitneskju að maðurinn spratt ekki fram sem fullsköpuð vera í einni andrá. Nei það þurfti gommu af ólífrænum efnum og ákveðnar aðstæður til að skapa lífræn efnasambönd sem svo aftur leggja grunn að lífrænum keðjum sem geta afritað sig - RNA og DNA.

Það tók jörðina óratíma að geta af sér fyrstu byggingarblokkir lifandi vera. Og þegar það hafði gerst leið annar eins óratími þar til lífið var fengið fram, hvað þá maðurinn. Þannig vinnur einfaldlega náttúran. Þannig vinna eðlis- og efnafræðileg lögmál - hlutirnir geta farið fram í þeirri röð sem aðstæður leyfa.

Og lokaástandið er aldrei ákveðið fyrirfram heldur ræðst af áhrifum þeirra breytinga sem verða á aðstæðum.

Ef Guð skapaði manninn, eins og Biblían heldur fram, þá var sá guð háður náttúrulögmálunum í sköpun sinni en ekki yfir þau hafinn. Fyrir þessu höfum við beinharðar sannanir, því vísindin hafa rakið hið langa þróunarferli sem tilurð mannsins er. Almennilegur guð hefði auðvitað átt að geta svipt manninum fram á sjónarsviðið í einni hendingu, eða hugsanlega sex dögum. Þannig var það einfaldlega ekki.

Mikilvægast er þó að þann feril efnisins sem við þekkjum svo vel út frá rannsóknum okkar má alfarið skýra út frá náttúrulögmálunum og því er öllum fullyrðingum um tilhlutan yfirnáttúrlegra afla einfaldlega ofaukið í reiknisdæmið. Skaparahugmyndin er því ekki annað en óþarflega flókin skýring á því ástandi efnisins sem er til staðar á jörðinni á þessum tímapunkti.

Starf hans hlýtur því að hafa verið atvinnubótavinna, hugsanlega eins konar eftirlit með ferlinu eða annað óþarfa dund.

Birgir Baldursson 10.10.2003
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )