Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hinn endanlegi sannleikur

Er til einn og endanlegur sannleikur? Boðberar trúarinnar halda því fram og segjast kunna á honum skil. Þeir búa við lokaða heimsmynd þar sem allt er á hreinu, hlutirnir eru bara svona og ekkert við því að gera.

Sjá menn ekki hve heimskulegt þetta er? Og vandræðalegt í þokkabót þegar kemur að því að þurfa að viðurkenna ný sannindi, sem ekki voru fyrir í heimsmyndinni? Hvað til dæmis með flötu jörðina sem einn góðan veðurdag sannaðist að væri hnöttótt? Geta menn haldið svona lokaðri heimsmynd til streitu þrátt fyrir allt sem fer á svig við hana?

Ó já, það geta þeir. Sumir ganga meira að segja svo hart fram í því að þeir nema vísindi í virtum háskólum en beita svo aðferðum gervivísinda til að trana trénaðri heimsmynd sinni fram. Ég er að tala um sköpunarsinnana sem hafa það að sínu eina og helsta markmiði að reyna að láta niðurstöður vísindanna hljóma illa í eyrum trúgjarns almenningsins. Til þess beita þeir aðallega rökleysum og -brellum og hamra látlaust á því að vel viðurkenndar vísindakenningar séu bara kenningar á blaði og þar af leiðandi rangar. Þær séu engu betri en trúarkenningar að því leytinu.

Úff, sjá þessi grey ekki hvað þeir gera lítið úr sjálfum sér með slíkum málflutningi? Og fara algerlega á mis við það sem mestu máli skiptir í umræðunni sem er að það er aðeins ein leið að hinum endanlega sannleik, sé hann til á annað borð. Hún er sú að kanna hið raunverulega ástand hlutanna, en ekki gefa sér fyrirfram hvert það ástand hljóti að vera.

Gussi sjúsk

Einn algildur sannleikur hlýtur að vera öll hugsanleg vitneskja um ástand allra hluta á öllum augnablikum eilífðarinnar, í það minnsta fram til þessarar stundar. Það segir sig sjálft að engin leið er fyrir okkur mennina að höndla þennan sannleik, heldur aðeins hægt að nálgast hann.

Og það gerum við ekki ef við förum leið trúarinnar. Sú leið hefur engu skilað okkur nema ranghugmyndum, fáfræði og djöfuldómi. Gussi gamli á himnum er orðinn vægast sagt afar sjúskaður og kominn tími til að gefa honum frí.

Birgir Baldursson 06.10.2003
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )