Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er Nonni þarna?

Í mínum huga eru til tvær tegundir af miðlum, þeir sem eru viljandi að svindla á fólki og þeir sem þjást af einhverjum geðrænum kvillum. Ef einhver miðill telur sig geta sannað hæfileika sína þá veit ég um mann sem er tilbúinn að borga milljón dollara fyrir slíkt. Aðalástæðan fyrir því hve miðlum gengur vel er augljóslega sú að fólk vill trúa þessu, það vill fá staðfestingu á að það sé allt í lagi með Nonna frænda hinum megin við móðuna og miðlarnir selja þeim þessa "sálarró". Málið er náttúrulega að Nonni nær yfirleitt í gegn þegar miðlar eru að miðla en Zophanías gerir það aldrei.

Stundum hef ég heyrt að einkafundir miðla nái að koma fram með mun nákvæmari niðurstöður en þeir fundir sem almenningur fær að sjá. Ég efast ekki um það, ef að væntanlegt fórnarlamb hefur pantað tíma þá gefst tími til að skoða málið. Á Íslandi hefur til að mynda verið til forrit í um áratug sem gerir manni auðvelt að halda utan um mikið magn ættfræðiupplýsinga. Miðill sem þekkir ættfræðing getur á auðveldan hátt komist yfir lista yfir látna fjölskyldumeðlimi og einnig yfir fjölskyldugerð. Það eru að sjálfssögðu fjölmargar aðrar leiðir til að komast yfir ýmsar upplýsingar um væntanleg fórnarlömb, að eiga vini á réttum stöðum eða bara einfaldlega kunna að komast yfir upplýsingar.

Reyndar er helsta vopn miðla það að lesa fólk, ekki lesa áru eða neitt yfirnáttúrulegt, heldur einfaldlega að geta séð út hvað fólkið vill heyra. Nokkrar vel valdar setningar geta komið miðlum á sporið, svipbrigði fórnarlambsins er í raun það eina sem þarf til að hjálpa miðlinum. Málið er að margir miðlar eru ótrúlega snjallir í blekkingaleik sínum, þeir geta látið fólk segja sér eitthvað og síðan endurtekið það án þess að fórnarlambið skilji að það hafi verið leikið á það.
Miðlar eru líka svo heppnir að þeir hafa ótal undankomuleiðir. Sambandið við andaheima er slæmt í dag (svona einsog við missum internetsamband þegar sæstrengur slitnar) er einfalt og oft notað. "Það er vondur andi hérna og hann er að plata mig" er alveg óhrekjanleg skýring. "Andarnir vilja ekki segja þér neitt, þú verður að komast að þessu sjálfur" held ég að ég hafi heyrt einhvern tímann. Hvaða rugl skýring sem til er dugar því miðlarnir eru að sjálfsögðu æðsta yfirvald um málið.

Fólk sem vill trúa nær að sannfæra sig um mátt miðlanna þrátt fyrir að engar sannanir hafi nokkurn tíman fengist á því að hæfileikar miðla séu til staðar. Þetta er ekki af því að það hefur ekki verið reynt, fjöldi miðla hefur gengist undir rannsóknir og mistekist enda er ekkert á bak við kuklið. Miðlar eru ekki einu sinni frá djöflinum einsog Gunnar í Krossinum (og Biblían) heldur fram. Þeir eru bara ómerkilegir svindlarar sem eru að féflétta trúgjarnt fólk eða þá að þeir þurfa á aðstoð geðlæknis.

Er kannski allt í lagi að miðlar stundi sitt fals án athugasemda frá okkur vantrúarseggjunum? Er ekki í lagi að fólk fái staðfestingu á því að það sé allt í lagi með Nonna (en lifi í vafa um afdrif Zophaníasar)? Nei, að sjálfsögðu ekki. Ég má ekki selja fólki háskólaskírteini og segja fólki að það sé þar af leiðandi menntað, ég má ekki selja fólki Drakúlamola haldandi fram að þeir lækni krabbamein. Svindl og fals af þessu tagi er aldrei afsakanlegt og það á aldrei að fyrirgefa, það er verið að níðast á tilfinningum fólks í hagnaðarskyni.

Óli Gneisti Sóleyjarson 02.10.2003
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Mummi (meðlimur í Vantrú) - 02/10/03 19:33 #

Bragðið sem notað er í mjög mörgum "skyggnilýsingum" heitir á enskri tungu "cold reading". Einhver hugmynd hvernig það útleggst á okkar ástkæra ylhýra?

Ef þú vilt vita meira um þetta bragð, kíktu þá á http://www.randi.org/library/coldreading/


Helgi Briem - 03/10/03 08:58 #

Ég þykist nú vita að Birgir viti allt um kaldan lestur.

Í blogginu hans Randi í vikunni var frábær, nákvæm lýsing á skyggnilýsingu sem svínvirkaði á fórnarlambið, en etv síður á gagnrýninn lesanda Vantrúar punkts net.

http://randi.org/jr/092603.html

Mæli með James Randi og frábærum vikupistli hans um stríðið gegn hjátrú og hundurvitni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/10/03 13:10 #

Ég bendi á að þessi góða grein hér er eftir Óla Gneista og hann veit greinilega líka allt um "Cold Reading" :)


eva - 06/10/03 12:37 #

Hver er þessi Zophanías?


Helgi Briem - 06/10/03 13:58 #

Zophanías er draugur sem aldrei kemur fram á skyggnilýsingum vegna þess að enginn heilvita miðill mundi nota það nafn. Því algengara sem nafnið er, því líklegra er að einhver í áhorfendastúkunni kannist við það. Þess vegna heita draugar alltaf Jón, Einar og Guðrún.

Fyrirgefið Birgir og Óli, að ég ruglaði ykkur saman. Birgir hefur skrifað svo margar greinar hér að ég gleymi að líta á undirskriftina neðst.

Er það tilviljun að maður slær alltaf inn "clod reading" ("fábjánalestur") þegar maður leitar upplýsinga um svikamiðla?


jói - 01/03/04 02:34 #

æ ykkur er vorkunn. ég er ekki miðill en hef lent í undarlegri reynslu sem staðfestir að það er eitthvað þarna. NOTA BENE ég trúði alls ekki á miðla og hélt að þetta væri allt eintóm lygaþvæla!!!


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 01/03/04 02:57 #

Ú, þú sannfærðir mig.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.