Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hið kristilega tvísinni

Fræg er skáldsaga George Orwell 1984 og þá sérstaklega fyrir það þjóðfélag hugsanaánauðar sem hann dregur þar upp. Ein áhugaverðasta hliðin á þeirri ánauð er það sem hann kallar "doublethink" og þýða má með hvorugkynsorðinu tvísinni.

Skilgreining Orwell á tvísinni er nokkurn veginn þessi: Getan til að aðhyllast tvö ólík viðhorf í einu þótt þau séu í mótsögn hvort við annað. Þetta innifelur t.d. það að geta fallist á nýjan "sannleik" sem haldið er að mönnum, þrátt fyrir að þeirra eigið minni segi þeim annað. Ef ráðuneyti sannleikans gefur út þá yfirlýsingu að Eyjaálfa hafi alla tíð verið í stríði við Evrasíu þá er það sannleikur, þótt menn viti að undanfarið hafði ríkt friður þarna á milli.

Erum við öll haldin einhverju tvísinni? Flest erum við andsnúin þjóðernishyggju, enda afleiðingar hennar okkur ljósari en við kærum okkur um að vita. Samt sem áður er í fæstum okkar til neikvæð tilfinning í garð Fjölnismanna, Jóns Sigurðssonar og allra annarra nítjándualdarmanna sem stóðu fyrir þeirra tíma þjóðernisstefnu. Okkur finnst þetta bara einhvern veginn ekki sambærilegt.

Þó eru þarna sömu tilfinningar að baki, aðeins birtingarmyndin er ólík.

Tökum kristindóminn og leggjum undir þessa mælistiku. Þá sjáum við að fjölmargir samborgarar okkar telja sig geta ornað sér við fyrirheit um eilíft líf í ríki Guðs. Að þessu leytinu er heimsmynd þeirra deginum ljósari, við bara deyjum og förum til Guðs. Tja nema þeir vondu, þeir komast ekki þangað.

Þessi hyggja gengur þvert á vitneskju okkar um hver við erum, hvaðan við komum og í hvaða samhengi við þrífumst. Gefum Páli Skúlasyni orðið:

Kristur táknar og sýnir sigur lífsins yfir dauðanum; það er kjarni hinnar kristilegu lífssýnar. Hér snýst spurning ekki um gildar skoðanir og rök og ekki er lagt upp til umræðu um staðreyndir lífsins. Staðreyndir lífsins benda raunar allar til þess að lífið lúti í lægra haldi fyrir dauðanum, það eina sem við vitum með nokkurri vissu sé að við sleppum ekki lifandi frá lífinu. Þess vegna er hin kristilega lífssýn glapsýn eða missýn sé hún tekið bókstaflega sem skoðun á lífinu og dauðinn talinn vera hjóm og blekking. Dauðinn ásamt þjáningu, eymd og böli, sem honum fylgja er sannarlega ekki blekking, heldur blákaldur veruleiki, daglegt brauð okkar mannanna.

(Úr ræðu haldinni í Dómkirkjunni 1. desember 2002)

Það er augljóst að þessar tvær myndir, staðreyndin og hin huggandi fyrirheit, eiga enga samleið heldur eru í bullandi mótsögn hvor við aðra. Samt sem áður gengur fullt af fólki út frá því að kristnu fyrirheitin séu rétt, þótt það eigi að vita betur. Í huga þess hafa tveir sannleikar náð að skjóta rótum og lifa í bróðurþeli hvor við annars hlið.

Undarlegt.

Við vitum að annar sannleikurinn er lygi en sum okkar kjósa að trúa því að á einhvern undarlegan hátt sé hann þó samt sannleikur. Og hér förum við að nálgast flokksstefnuna í ríki Orwells þar sem stríð mátti sjá sem frið, fáfræði sem mátt og frelsið sem ánauð.

Kristna útgáfan af slíkum paradoxum er eitthvað á þessa leið:

Ánauð er frelsi
Fáfræði er þekking
Hatur er ást


Ánauð er frelsi: Þeir sem snúist hafa til Krists og kenninga Biblíunnar kalla sig gjarnan frelsaða. Frelsi þeirra felst þó ekki í neinu öðru en því að lúta í fullkominni þrælslund harðstjóra sem hótar útskúfun og eldsofnum sé hann ekki tilbeðinn og á hann trúað.

Fáfræði er þekking: Þeir sem frelsaðir eru í kristni telja sig varla þurfa að líta í aðrar bækur en Biblíuna, þar sé allan þann sannleik að finna sem veröldin bíður upp á. Þeir harðsvíruðustu afneita jafnvel þeirri þekkingu sem mannfélagið býr yfir í kjölfar rannsóknar á heiminum, því hún fer ekki saman við sumt af því sem stendur í Biblíunni. Semsagt: Ef eitthvað fer á skjön við Biblíuna þá er það alltaf Biblían sem hefur rétt fyrir sér. Slík er þekking sannkristinna á veröldinni.

Hatur er ást: Um víðan völl í Biblíunni er hatri Guðs lýst og hvernig hann útskúfar og drepur þá sem ekki eru honum þóknanlegir. Fyrirheit Jesú eru lítið fegurri:

Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

(Mt13:41)

Samt er okkur alltaf sagt að Guð og Jesús séu elskandi verur. Hatur Guðs á vantrúuðum og þeim "sem ranglæti fremja" er semsagt tákn um ást hans. Þessu halda hinir kristnu fram fullum fetum.

Er hægt að fá einhvern botn í svona rugl. Já, það er það reyndar. Lausnarorðið er tvísinni.

Birgir Baldursson 29.09.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 30/09/03 11:55 #

Djöfuls brillíansi er þessi grein þín Biggi. Húrra!

93


Gunnar Gunnar - 01/10/03 09:54 #

Mjög góðir hlutir í þessu.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 28/09/04 13:30 #

Hmm... nokkuð góð líking þarna á ferð, þar sem þú nefnir Jón Sigurðsson og Fjölnismenn. Líkingin er ekki síst góð, vegna þess að hún getur kannski hjálpað okkur að skikja hvað við er að etja. Fjölnismenn og jón Sigurðsson voru þjóðernissinnaðir, já. En voru þeir afturhaldssamir mannhatarar eins og þjóðernissinnar eru gjarnan nú á dögum? Nei. Í hverju liggur munurinn? Á 19. öld, á dögum Fjölnismanna og Jóns Sigurðssonar, var þjóðernishyggjan framsækin hugmyndafræði. Hún var hugmyndafræði borgarastéttarinnar, sem var að vaxa ásmegin, og var framsækið og nútímalegt frelsisafl, samanborði við einveldið og aðalinn sem áður ríktu. Samanborið við fjölþjóðastórveldi á borð við Austurríki-Ungverjaland, eða Frakkland fyrir byltinguna, var þjóðernishyggjan einmitt framsækið afl. Hún er það hins vegar ekki lengur. Upp er risin næsta stétt, sú síðasta í röðinni, og knýr dyra. Það er verkalýðsstéttin með sína hugmyndafræði, sósíalismann. Verkalýðsstéttin er að öllu leyti framsæknari, nútímalegri og frelsis-legri en borgarastéttin, svo borgarastéttin er orðin afturhaldssöm í samanburði - og hugmyndafræði hennar, þjóðernishyggjan, einnig.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.