Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hver skapaði sýkla?

Í fréttablaðinu í dag er skemmtilegt viðtal við aktívistann Helga Hóseasson, eina manninn sem hefur haft þor og dug til að standa uppi í hárinu á útvörðum heimskunnar í íslensku þjóðfélagi.

Barátta Helga hefur staðið lengi án þess að hann hafi fengið sitt í gegn. Það eina sem hann fer fram á er að skírnar- og fermingarheit sín verði ógild gerð, enda hafi þessu verið klínt á hann þegar hann var óviti og örviti. En þar sem ekki hefur verið orðið við þessu hefur hann notað tækifærið og minnt á málstað sinn með (oftast) friðsamlegum en kímnum hætti fyrir utan kirkjur og opinberar stofnanir.

Í kjölfar hins fræga atviks með skyrið var þessi glaði baráttumaður hugsanafrelsis úrskurðaður geðbilaður og það oftar en einu sinni, ef ég man rétt. Ekki veit ég á hverju sá úrskurður var byggður, kannski aðeins af því að skoðanir Helga þykja fáheyrðar, jafnvel enn í dag, og athafnir hans teljast úr takti við allt sem normalt telst.

Fatta menn ekki að maðurinn er bara húmoristi af bestu gerð? Skyrið og skiltin bera því ljóst vitni að maðurinn er kátur hrekkjalómur sem ekki sér sérstaka ástæðu til að tipla á tánum kringum fólk sem valið hefur sér háheilagt hlutverk.

Það má miklu fremur efast um geðheilsu þeirra sem krossdressa hvern sunnudag og stíga á svið til að hafa yfir eldgömul galdraritúöl sem engum tilgangi þjóna. Hvað rekur þá menn áfram?

Nei, Helgi hefur með framtaki sínu það eitt að markmiði að benda á hve frámunalega úrelt og heimskulegt sumt í þjóðfélagi okkar er. Gagnrýni hans er óvægin, virðing fyrir yfirvaldi takmörkuð og kímnigáfan eins og best verður á kosið.

Og spurningar hans eru heiftarlega afhjúpandi fyrir aumingjans kjólaliðið sem ekki getur almennilega hrist hann af sér. "Hver skapaði sýkla, sýkla sem drepa milljónir manna á hverju ári," er góð og gild spurning þegar henni er beint að fullorðnu fólki sem í fúlustu alvöru heldur því fram að Guð hafi skapað allt.

Og það er yndislegt að sjá þetta fólk engjast. Áfram Helgi!

Birgir Baldursson 27.09.2003
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 04/09/04 17:36 #

Það mætti segja að hann Helgi væri nokkurnskonar Sókrates okkar tíma.


Lárus Páll Birgisson - 07/09/04 20:08 #

hann er nú soldið lasinn kallinn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/09/04 08:19 #

Ekki meira lasinn en sá sem heldur að ekki sé gerlegt að komast gegnum lífið öðruvisi en krjúpandi á hnjánum fyrir einhverju illa skilgreindu alvaldi, sem spillt og voldug elíta manna hefur gegnum aldirnar fullyrt að sé til, án nokkurs einasta rökstuðnings.


Lárus Páll Birgisson - 08/09/04 20:09 #

Já nákvæmlega. Þess vegna þarf að geta skilgreint guðinn sinn vel og fært góð rök fyrir því af hverju maður trúir á hann.


birgir@birgir.com (meðlimur í Vantrú) - 08/09/04 23:39 #

Nei, þú þarft að færa góð rök fyrir því að hann sé til. Annars verður þetta að flokkast undir hugaróra.


Lárus Páll Birgisson - 09/09/04 00:01 #

Já eða það.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.