Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Á að virða skoðanir annarra?

Á mannamótum er því oft haldið fram að virða beri skoðanir annarra. Aldrei hef ég samt heyrt nokkurn mann færa rök fyrir þessum boðskap. Vafalaust þykir fólki það óþarft, augljóst sé hvað við er átt og engin þörf á að rökstyðja það: allir hljóti að samsinna þessu.

Ég treysti mér ekki til þess. Ég held að það sé ámælisvert að virða skoðanir annarra, ef maður veit að þær eru ekki réttar. Rök mín fyrir þessu eru ekki mjög flókin: skoðanir eru ekki einkamál þeirra sem þær hafa og þess vegna er manneskju ekki sýnd nein óvirðing þó að skoðanir hennar séu ekki virtar. Öðru nær, ein mikilvæg leið til að sýna fólki virðingu og tillitssemi í hinu daglega lífi er að gagnrýna hugmyndir þess og skoðanir, enda leitast vinir við að leiðbeina hver öðrum.

Er sú staðreynd að ótal margir virðast telja sjálfsagt að virða skoðanir annarra vísbending um það hvernig nútímafólk hugsar um siðferði? Þessi skoðun, sem að mínu viti er sannarlega og sannanlega röng, hefur verið talin bera vitni frjálslyndi og víðsýni hins upplýsta manns. Ég tel hana bera vitni afar barnalegri afstöðu til siðferðis, yfirborðsmennsku og jafnvel tvöfeldni. Barnaskapurinn er sá að trúa þessu rakalaust, yfirborðsmennskan lýsir sér í því að halda þessu á lofti sem tákni umburðarlyndis og tvöfeldnin er sú að í reynd fer enginn heilvita maður eftir þessu. Hver kysi til að mynda að virða þá skoðun nágrannans að hann hafi fullan rétt til að drepa ketti eða þjófa sem laumast inn í húsið hans? Eða þá skoðun að allir sem ekki trúa á Guð séu hættulegir villutrúarmenn? Eða þá skoðun að allar skoðanir séu jafn réttháar?

Páll Skúlason

Ritstjórn 19.09.2003
Flokkað undir: ( Fleyg orð )

Viðbrögð


Davíð - 23/09/03 14:40 #

Að virða er ekki það sama og vera sammála. Ég get borið virðingu fyrir skoðun þinni og framsetningu hennar, þó svo að mér finnist skoðunin sjálf bull. kv Davíð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/09/03 23:48 #

Hér liggur allt niðri vegna bilunar. Hvernig fórstu að því að pósta inn þessum skilaboðum?

Það sem þú talar um er að bera virðingu fyrir því að fólk hafi skoðanir. Myndir þú bera virðingu fyrir skoðun minni ef ég teldi rétt að drepa alla kristna menn?

Skoðanir eru ekki allar jafn virðingarverðar. En auðvitað ber okkur að virða fólkið sjálft, hverjar svo sem skoðanir þess eru.

Sjáum til hvort þetta póstast inn á vefinn.


Árni Svanur - 27/09/03 20:12 #

Er þetta pistill sem Páll setti saman fyrir ykkur á vantrú.net eða er þetta tekið upp úr einhverri grein/riti eftir hann? Ef svo er gætuð þið kannski vísað mér á þetta rit.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/09/03 00:07 #

Kæri Árni!

Þetta er brot úr innganginum að bókinni Siðfræði.


Ketill - 12/07/04 22:23 #

Birgir,

hvernig getur þú borið virðingu fyrir manni sem er með vægt til orða tekið mjög brenglaðar skoðanir ?

Er ekki atferli mannins það sem verður til þess að þú berir virðingu fyrir honum og eru ekki skoðanir hans partur af því ?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/07/04 02:37 #

Góð spurning. En svarið við henni er fyrir mér dagljóst: Sá sem hefur mjög brenglaðar skoðanir er fyrir mér í vanda staddur. Og þar sem ég ber af hjartagæsku minni virðingu fyrir samborgurunum tel ég það skyldu mína að benda mönnum á þegar skoðanir þeirra eru að mínu mati óheilbrigðar eða hættulegar.

Og sannleikurinn er sá að ég tel skoðanir meirihluta meðbræðra minna, þegar kemur að heimsmyndinni, vægast sagt brenglaðar. Því er ég gapandi hér öllum stundum.

Það rennur mér til rifja að í nútímasamfélagi þar sem búið er að fletta dulúðinni af svo ótalmörgum hlutum, skuli gagnrýninni hugsun ekki vera gert hærra undir höfði en nú er. Í stað þess að hlúa að henni, uppfræða í krafti hennar og hampa á allan hátt er fjármagninu stöðugt veitt í að viðhalda gömlum hindurvitnum og heilli stétt manna haldið úti til að reyna að réttlæta hégiljurnar fyrir okkur hinum með vafasömum túlkunaraðferðum.

Væri ekki nær að koma á stofnunum gagnrýninnar hugsunar, þar sem fólk hefði stöðugan aðgang að fyrirlestrum og umræðum um heimsmyndina og gæti kynnt sér nýjustu hugmyndir þar að lútandi í stað þess að út um borg og bý séu kjólaklæddir töfralæknar að hampa einhverjum öndum og ástunda hvítagaldur, eins og ef við værum stödd aftur í kolsvartri forneskju?

Úff, þetta var allt of langt svar, en það lýsir vel hvernig mér er innanbrjósts. Og stöðugt er maður minntur á þennan afkáraleika nú síðustu misserin, því fulltrúar þjóðkirkjunnar og annarra söfnuða eru gjammandi í öllum hornum. Það er ekki einu sinni hægt að halda úti mótmælum gegn aðgerðum ríkisstjórnarinnar án þess að þar sé kominn prestur að agitera fyrir galdrastofnuninni sinni.

Ömurlegt ástand, vægast sagt.


Magnús Viðar - 16/08/04 16:46 #

Þetta finnst mér fyndið. Ekki bera virðingu fyrir skoðunum annarra en hinsvegar eru vinsamlegast beðið um að sleppa ærumeiðingum. Hvað ef skoðun mín byggist t.d. einvörðungu á ærðumeiðingum? Ekki það að ég myndi telja slíkt vera skoðun.

Ég er kristinn. Ég er sammála þér með það að þetta "anything goes"-hugarfar er að gera samfélag okkar að einhverja óskilgreindu ferlíki sem fer vaxandi með hverjum degi.

Guð veri með þér í lífinu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/08/04 17:58 #

Hvað ef skoðun mín byggist t.d. einvörðungu á ærðumeiðingum?

Þú myndi ég ekki bera virðingu fyrir henni og gagnrýna hana. Hvert er vandamálið?

Guð veri með þér í lífinu.

Éttann sjálfur.


Lárus Páll Birgisson - 17/08/04 00:38 #

Skil ekki alveg hvernig skoðanir geta verið "brenglaðar" öðruvísi en út frá þeim gildum sem maður sjálfur hefur. Að sama skapi eru skoðanir mínar mjög brenglaðar í huga þeirra sem ekki hafa þær.

Ég held að jafnvel trúleysingjarnir séu sammála um það að það sé nokkuð brengluð hugmynd að drepa alla kristna menn. En ef sama hugmynd væri borinn upp í Tora Bora þætti hún eflaust hin tærasta snilld.

Annars eru alveg snilldar þættir á National Geographic sem heita Taboo þar sem fjallað er um menningarlegan mismun. Sá um daginn einhvern þjóðflokk í Afríku sem ristir flúr í andlit lítilla barna, eitthvað sem fólk yrði lokað inni fyrir hérna á Fróni. Þetta sama fólk skilur ekki illsku vesturlandabúa að skilja börnin sín eftir á leikskóla.

Ég trúi því að allar skoðanir, hugmyndir og aðgerðir séu rétt háar, nema ef vera skyldi til einhver æðri siðferðislegur sannleikur.... en þetta er nú bara mín skoðun.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 17/08/04 01:40 #

Ég trúi því að allar skoðanir, hugmyndir og aðgerðir séu rétt háar, nema ef vera skyldi til einhver æðri siðferðislegur sannleikur.... en þetta er nú bara mín skoðun.
Póstmódernismi í sinni verstu mynd leiðir til siðferðilegrar afstæðishyggju, siðferðileg afstæðishyggja gengur ekki upp.

Æðri siðferðislegur sannleikur þarf að sjálfsögðu ekkert að byggja á hindurvitnum, en það er svo allt önnur umræða.


Lárus Páll Birgisson - 17/08/04 12:26 #

Þarna sérðu! 2 mismunandi skoðanir og báðar eiga rétt á sér. Væri fínt að fá skilgreiningu á póstmódernisma og siðferðislegri afstæðishyggju, svo væri ágætt að fá rök fyrir því af hún gengu ekki upp.

Plís ekki nota flókin orð, ég er hálfgerður örviti í svona flottum orðum.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 17/08/04 12:44 #

Póstmódernismi: Kenning sem eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að skilgreina á réttan máta! Vísindavefurinn: Hvað er póstmódernismi Google er gagnlegt tól.

Siðferðileg afstæðishyggja: Ekkert er rétt og rangt í siðferðilegum málum heldur fer það eftir menningu hvers svæðis hvort gjörningur sé réttur eða rangur. Þannig er rétt að umskera stúlkubörn í Afríku vegna þess að það samrýmist þeirra menningu, aflífa þroskahefta í Bandaríkjunum og loka inni mótmælendur í Kína.

Þarf að færa sterk rök fyrir því hér af hverju siðferðisleg afstæðishyggja gengur ekki upp?


Lárus Páll Birgisson - 17/08/04 13:32 #

Hver ákveður þá hvað sé rétt og hvað sé rangt ef enginn æðri siðferðislegur sannleikur er til? Ég? þú? páfinn? Saddam?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 17/08/04 13:56 #

...ef enginn æðri siðferðislegur sannleikur er til
Hver fullyrti að svo væri ekki?

Ég sagði hér fyrir ofan

Æðri siðferðislegur sannleikur þarf að sjálfsögðu ekkert að byggja á hindurvitnum
Og þarna eru ekki einu sinni flókin orð.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/08/04 15:47 #

Og sökum framþróunar tegundarinnar erum við alltaf að nálgast þennan æðri sannleika meir og meir. Lög réttarríkisins, mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, barnasáttmáli sama apparats...

Þetta flokkast undir framfarir. Baul upp úr Biblíu á okkar tímum, þar sem boðorðin tíu eru talin æðsta gildi í siðferðislegum efnum, flokkast undir eitthvað allt annað.


Lárus Páll Birgisson - 18/08/04 12:55 #

Þannig að þið trúið því að til sé einhver æðri siðferðislegur sannleikur eða...?

Matti, á hverju byggir þú trú þína á æðri siðferðisgildum ef ekki fyrir hindurvitni? (ef það er á annað borð þín skoðun)

Birgir ég get ekki betur séð en að þú sért mikill trúmaður á eitthvað sem er æðra en við vanþróuðu menninrnir ef taka á mark á síðasta pistli þínum. Með yfirlýsingu þinni um að við nálgumst æðri sannleika með framþróun ertu að segja að til sé eitthvað æðra....og ef það kallast ekki trú , jah þá veit ég ekki hvað á að kalla það.

Ekki svo að skilja að ég sé endilega ósammála þér. Ég veit fullvel að aukinn þroski og skilningur á sköpunarverkinu getur leitt til aukins trúarlegs og siðferðislegs þroska.

Annar finnst mér dáldið skrítið að benda á lög og yfirlýsingar sameinuðuþjóðanna sem einhvert vitni um aukinn siðferðisþroska. Má þá ekki alveg eins líta á lög Ísraelsmanna sem hápunkt siðferðisþroska á þeim tíma sem þau eru skrifuð og nauðsynlegt skref í framþróun tegundarinnar? Þú skalt ekki stela Þú skalt ekki drepa Þú skalt ekki ljúga Þú skalt ekki girnast nokkuð það sem náungi þinn á Þú skalt heiðra föður þinn og móður Þú skalt elska náungan eins og sjálfan þig Þú skalt ekki ríða barninu þínu, mömmu þinni, eða systur þinni Þú skalt ekki nýðast á fötluðum Þú skalt ekki sýna útlendum manni ójöfnuð Þú skalt ekki éta neitt lagardýr nema það hafi sundugga og hreistur..... eða nei, það er annað!

En allvega, þrátt fyrir alla bilunina sem víða er að finna í Biblíunni og hreint og beint andstyggilega boðskap er einnig hægt að finna hluti sem þykja sjálfsagðir í dag. Sama má segja um lög nútímamannsins. Ég veit ekki til þess að nokkurt ríki í heiminum hafi fullkomin lög, þrátt fyrir alla þessa framþróun tegundarinnar og ég efast um að svo verði í nokkurtíman. Lög eru samin af mönnum en siðferðisþroski kemur einhverstaðar annarstaðar frá....það er mín skoðun.


Snær - 18/08/04 17:05 #

"Ég veit ekki til þess að nokkurt ríki í heiminum hafi fullkomin lög"

Þetta er að hluta til vegna þess að fullkomnun er afstætt orð, auk þess sem að slíkt finnst ekki á nokkrum stað öðrum en í ímyndunarafli mannskepnunar. Auk þess er það vegna þess að það er ekki (svo ég viti) til neinn lagabókstafur neinsstaðar sem samræmist algerlega hugmyndum einhvers eins um fullkomin lög, enda væri það óráð, eins og skoðanir fólks eru mismunandi.

"En allvega, þrátt fyrir alla bilunina sem víða er að finna í Biblíunni og hreint og beint andstyggilega boðskap er einnig hægt að finna hluti sem þykja sjálfsagðir í dag."

Það er að öllum líkindum vegna þess að hluta af boðskap biblíunnar (furðulega lítill hluti, ef út í það er farið) má rekja í almenn lögmál og siðareglur sem hafa í gegnum tíðina verið nauðsyn til þess að samfélög geti myndast og verið til í tiltölulegum friði, en eru einfölduð svo mikið að ekki er alltaf hægt að nýtast við þau.

En stærri hluti af boðskap biblíunnar lýsir hins vegar vel hugsunarhætti hirðingja, og endurspeglar ekki þarfir og siðferðisspurningar sem þarf að koma til móts við í samfélagi okkar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/08/04 17:56 #

Lalli, þessi "æðri siðferðislegi sannleikur" er auðvitað bara í hausnum á okkur sjálfum. Aukin ásókn í hann er til marks um framþróun tegundar okkar og aukinn félagsþroska. Þetta hefur ósköp lítið með eitthvað yfirnáttúrlegt lögmál að gera.

Annar finnst mér dáldið skrítið að benda á lög og yfirlýsingar sameinuðuþjóðanna sem einhvert vitni um aukinn siðferðisþroska. Má þá ekki alveg eins líta á lög Ísraelsmanna sem hápunkt siðferðisþroska á þeim tíma sem þau eru skrifuð og nauðsynlegt skref í framþróun tegundarinnar?

Absólútlí. Á þeim tíma er lykilhugtak hér. Hver sá sem heldur þessu á lofti í dag sem æðsta siðferðislega gildi er á skjön við siðferðisþroska þann sem samfélagið býr að nú, sbr. greinina sem ég vísaði í síðast, þessa hér.


Lárus Páll Birgisson - 18/08/04 18:20 #

Fínt, bara allir sáttir :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/08/04 21:45 #

Já, ef þú getur fallist á að það sem Immanuel Kant boðaði (s.s. skilyrðislausa skylduboðið) taki því sem Jesús kenndi (s.s. gullna reglan) fram í siðferðislegu tilliti.

Við ættum að kenna Kant, Sartre og Róbert Haraldsson í kirkjunum landsins, ekki alltaf þennan eilífa Jesú og allt hindurvitnabullið kringum fæðingu hans og dauða.


Lárus Páll Birgisson - 20/08/04 16:42 #

Alveg sammála. Ég var til dæmis að kenna Galileó Galilei á fermingarnámskeiði í gær, er að spá í að taka fyrir Darwin í kvöld. Anars er ekkert ALLTAF verið að kenna um fæðinguna og dauðann, það er bara á jólum og páskum, svo eru 10 aðrir mánuðir þar sem fjallað eru eitthvað allt allt annað..... þetta mundiru vita ef þú kíktir í kirkju.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.