Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Efahyggjan og nýöldin

Í bréfaskriftum sem ég á í á netinu segir viðmælandi minn, nýaldarsinni sem sannfærður er um að eitthvað æðra afl sameini mannkynið:

Vísindin eru ágætis leið til að útskýra hvernig hlutirnir virka, en þau mega aldrei verða til þess að við séum ekki opin fyrir nýjum sannleika.

Hér finnst mér gæta misskilnings sem virðist algengur meðal trúmanna. Þeir gera vísindunum það upp að þau hafi skellt heimsmyndinni í lás og neiti að líta til annarra möguleika en þeirra sem blasa við. Við slíkum fullyrðingum hef ég þetta að segja:

Vísindin ganga út á að leita að nýjum sannleika. Það er fyrir tilstilli þeirra að heimsmynd okkar er allt önnur í dag en hún var fyrir nokkrum öldum. Vísindaleg aðferð er afrakstur gagnrýninnar hugsunar - efahyggju.

Efahyggja er ekki eins neikvætt hugtak og ætla mætti. Heimsmynd efasemdamannsins er opin og breytileg, hann þarf aðeins rök og sannanir til að geta fallist á eitthvað sem sannindi. Í vísindalegri aðferð er þetta útfært með þeim hætti að afsönnunaratlögur eru gerðar að hverri kenningu og gildi kenningarinnar er svo ráðið af því hve vel hún stendur af sér þessar atlögur.

Það sem máli skiptir hér er að menn taki ekki gagnrýnislaust við nýjum hugmyndum, heldur ígrundi vel hvaðan þær eru sprottnar og hversu áreiðanlegar þær uppsprettur eru. Og ég lít svo á að nýaldarfólk deili opinni heimsmynd með okkur efahyggjumönnum, en það skorti nokkuð á gagnrýna hugsun þeirra. Þetta setti ég í nýlegu bloggi svona upp:

Nánar má lesa um hugtökin opin/lokuð heimsmynd hér.

Efahyggjan er okkar besta leið til að sníða hismið frá kjarnanum, ruglið frá sannindunum. Nýaldarsinnar mættu hugleiða gildi efans og hugsa sig um tvisvar áður en þeir stökkva glaðir á órökstuddar fullyrðingar um geimverur, hugræn fjarskipti, miðilshæfileika, spádóma og svipaða hluti, sem aldrei hefur tekist að sýna með nokkru móti fram á að séu staðreynd.

Þessar hugmyndir allar flokkast alfarið undir trú.

Birgir Baldursson 04.09.2003
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Nýaldarsinninn (eða ekki) - 05/09/03 11:30 #

Nokkur atriði til umhugsunar:

1) Mér leiðist að láta klína á mig stimplum eins og "nýaldarsinni". Kosturinn við að hafa opna heimsmynd og stunda gagnrýna hugsun er einmitt sú að maður er laus við að fletta svörunum við öllu í handbókum einhvers "-isma".

2) Það afl sem ég tel að sameini allt sem er er ekki æðra okkur vegna þess að við erum öll hluti af því.

3) Gallinn við vísindin er sá að þar er alltaf gert ráð fyrir einhvers konar aðferðafræði, t.d. gera heilbrigðisvísindin alltaf ráð fyrir klínískum rannsóknum. Það hefur t.d. ekki verið sannað með klínískum rannsóknum að nálastungumeðferð geri gagn, en þrátt fyrir það hafa þúsundir efahyggjumanna fengið bót meina sinna með slíkri meðferð.

4) Gagnrýnin hugsun er skilgreind sem það að trúa engu án þess að hafa fyrir því gilda ástæðu. Menn verða svo að gera upp við sig hvað er gild ástæða, hvort ekkert sé satt nema það sé vísindalega sannað, hvort reynslurannsókn sé nóg, eða hvort persónuleg reynsla og frásagnir ákveðins fjölda fólks séu gildar ástæður. Er t.d. nokkurn tíma hægt að sanna það vísindalega að kærleikurinn sé það afl sem sameinar allt líf? Líklega ekki, en nánast allir hugsuðir síðustu árþúsunda hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekkert skipti meira máli en kærleikur.

5) Þegar ég gagnrýni vísindalega efnishyggju þá er ég að tala um LOKAÐA heimsmynd þeirra sem trúa því að ekkert sé til handan hins veraldlega. Fólk sem trúir því að heimurinn afmarkist raunverulega af tíma og rúmi, skyggnigáfa sé plat og að tilvera okkar sé einskær tilviljun sem taki enda um leið og við deyjum. Þetta fólk hunsar fjölmargar vísbendingar, sameiginlegar skoðanir andlegra stórmenna og jafnvel augljós dæmi og sannanir um hið gagnstæða. Þetta er ekki efahyggja heldur trú sprottin upp af póstmódernískri bölsýni og tortryggni.


Nýaldarsinninn (eða ekki) - 05/09/03 15:01 #

Fyrirgefning, umburðarlyndi, þolinmæði, góðverk, huggun, gjafmildi, hjálpsemi, heiðarleiki, umhyggja, sátt, bros, faðmlag...

M.ö.o. allt sem við sækjumst raunverulega eftir.

Ágætis tilvitnun:

"Hvenær mun okkur endanlega skiljast að við erum öll skyld hvert öðru, að við erum öll hlutar sömu eindar? Þar til andi kærleikans til náungans, án tillits til kynþáttar, litar eða trúar, gagntekur veröldina, gefur lífi okkar og athöfnum gildi, og við myndum bræðralag, þar til hin mikla mergð fólks fyllist ábyrgðartilfinningu hvert til annars, mun félagslegu réttlæti aldrei verða náð."

  • Helen Keller

Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/09/03 15:22 #

"Fyrirgefning, umburðarlyndi, þolinmæði, góðverk, huggun, gjafmildi, hjálpsemi, heiðarleiki, umhyggja, sátt, bros, faðmlag..."

Allt eru þetta dæmi um hegðun. Í dýraríkinu eru til mörg dæmi um fórnfýsishegðun, hún nær einfaldlega að lifa með kynslóðunum ef hún er tegundinni til framdráttar í lífsbaráttunni.

Og það sem þú kallar kærleika er sennilega bragðið af þeim boðefnakokteil sem fer í gang í heila þínum þegar þessi hegðun er höfð í frammi.

Hvernig líst þér á þá skýringu?


n.a.s. - 05/09/03 15:42 #

Þetta með nálastungurnar var vissulega óábyrgt af mér, en stundum vil ég geta skipst á skoðunum án þess að vísa í heimildir og rannsóknir.

Ég nenni ekki að svara þessu með kærleikann. Allir sem meðtaka slíkan boðskap og koma honum við í daglegu lífi sínu vita hvað við er átt. Ég vona að þú eigir eftir að upplifa sem mest af slíkri hamingju.

Ég skil annars viðhorf þitt ágætlega. Þú trúir ekki á neitt ef það leikur minnsti vafi á tilvist þess. Þessi vefur sem þú bentir mér á er fínt yfirlit og ég er sammála mörgu sem kemur þar fram. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þessi stranga efahyggja sem þar er boðuð sé í raun frekar lokuð heimsmynd heldur en hitt, einfaldlega vegna þess að þarna er heimsmynd Vesturlanda nútímans, sú heimsmynd sem tilheyrir uppeldi okkar, kenningum vísindanna og félagslegri mótun, tekin sem algild sannindi og alltaf látin njóta vafans.

Mundu að þeir vísindamenn sem sýndu fram á að jörðin væri hnöttótt skoruðu á hólm viðtekna heimsmynd síns tíma.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/09/03 16:01 #

"...þessi stranga efahyggja sem þar er boðuð sé í raun frekar lokuð heimsmynd heldur en hitt..."

Þetta er algengur misskilningur, eins og ég benti á í sjálfri greininni. Það sést best á þessum orðum þínum hér:

"Mundu að þeir vísindamenn sem sýndu fram á að jörðin væri hnöttótt skoruðu á hólm viðtekna heimsmynd síns tíma."

Og það gerir efahyggjan í ríkum mæli. Það voru efasemdir þessara manna, auk vísbendinga um hvert hið sanna væri í málinu sem varð þess valdandi að þeir fóru á stúfana og rannsökuðu málið.

Efahyggjan dregur viðtekna heimsmynd ætíð í efa. Og hugleiddu að kannski er þín heimsmynd fremur sú viðtekna en mín, nóg er í það minnsta til af handanheimsáhugamönnum, UFO-sinnum, spákellíngum, miðlum, heilurum, prestum, árulesurum, árunuddurum, andalæknum og allra handa költleiðtogum hvers konar.

Allt þetta sem þú ert svo sannfærður um að sé málið hefur verið rannsakað og því miður hafa þær niðurstöður ekki verið heimsmynd þinni í hag. En það er oft eins og megi ekki minnast á það, þá er maður orðinn forpokaður vísindahyggjumaður og með lokaða heimsmynd og ég veit ekki hvað.

Nei það sem skilur á milli þín og mín er trúgirnin. Við erum báðir jafn áfjáðir í að komast að sannleikanum að baki raunveruleikanum, en ég hleyp bara ekki á órökstuddar tilgátur þótt þær hljómi vel.


n.a.s. - 05/09/03 17:02 #

"Allt þetta sem þú ert svo sannfærður um að sé málið hefur verið rannsakað og því miður hafa þær niðurstöður ekki verið heimsmynd þinni í hag."

Þetta er ansi merkileg alhæfing. Hvað er ég sannfærður um að sé málið? Allt sem allir sem kalla sig nýaldarsinna hafa boðað? Ég er á þeirri skoðun að það sé mikið um kjaftæði þar á bæ, t.d. trúi ég ekki á stjörnuspeki.

Þegar það sem ég held að sé staðreynd, þ.e. líf eftir dauðann, líf á öðrum hnöttum, eilífðin og máttur kærleikans, er rannsakað, hvaða aðferðum tekurðu þá mark á? Þú gerir þér vonandi grein fyrir því að fólk sem hefur mikinn áhuga á að rannsaka þetta og hafa tækin til þess (t.d. heilbrigðisstarfsfólk sem hefur kynnt sér reynslu fólks sem segist hafa "farið yfir móðuna") skiptast í fylkingar og yfirleitt er það bara trúin sem aðskilur menn. Það að allar okkar hugsanir og tilfinningar endurspeglast sem boðefnaskipti í líkamanum er engin sönnun þess að dauðinn sé endir alls. Við getum líklega aldrei komist að 100% vitsmunalegri niðurstöðu um hvort það sé líf eftir þetta líf og þess vegna verða menn einfaldlega að trúa því sem þeir telja að meiki mest sens. En það er samt trú. Þú getur ekki flokkað það að segja "ég trúi að dauðinn sé endir alls þangað til annað kemur í ljós" sem gagnrýna hugsun. Það er einfaldlega það sem þú trúir.

Ef við förum að skoða heildarmyndina og velta fyrir okkur spurningunni "af hverju?" frekar en "hvernig" eða "hvort" þá stendur vísindahyggjan ekkert sérstaklega vel. Einu svörin sem hún getur fært okkur eru "af því bara" (af hverju erum við hér?), "tilviljun" (af hverju er ég þessi en ekki hann?) o.s.frv.

Er ég trúgjarn ef ég segi að skv. innsæi mínu þá trúi ég því að innsta sannfæring allra sé sú sama? Eða er það etv. bara bölsýni í þér að trúa engu sem er ekki hægt að færa rök fyrir, byggð á veraldlegum forsendum - einhverju sem er hægt að sjá, heyra eða snerta?

Ég leyfi þeim fáu sem nenna að lesa þetta að gera það upp við sig. Ég ætla amk. ekki að ímynda mér það að ég hafi 100% rétt fyrir mér enda hefur mín sannleiksleit ekki staðið lengi!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/09/03 18:59 #

Hvað er svona merkilegt við þessa staðhæfingu? Þú segist fullum fetum hallur undir hugmyndir um framhaldslíf, tilvist kærleikans sem afls, áreiðanleika dauðareynslu og hvað eina. Kannski þú sért bara of upptekinn við að kynna þér aðra hlið málsins.

Þetta hér gæti verið gagnlegt innlegg. Einnig þetta og jafnvel þetta. Allar fela þessar niðurstöður í sér skýringar sem eru einfaldari en fyrri skýringar, auk þess að vera fengnar fram með rannsóknum, öfugt við fyrri fullyrðingar.

"Ef við förum að skoða heildarmyndina og velta fyrir okkur spurningunni "af hverju?" frekar en "hvernig" eða "hvort" þá stendur vísindahyggjan ekkert sérstaklega vel. Einu svörin sem hún getur fært okkur eru "af því bara"..."

Ágætis svar við spurningunni "af hverju" er "ég veit það ekki" þar til annað kemur í ljós. Hvað er svona óskaplega hræðilegt við það að mannskepnan viti ekki svörin við þessu? Er skárra að hún kokki upp einhver svör, líkt og hún gerði með alla hluti aftur í forneskju, fremur en játa bara þekkingarleysið og halda áfram að rannsaka?


n.a.s. - 08/09/03 10:33 #

Öll fyrirbæri eiga sér einhverja veraldlega, vísindalega útskýringu í okkar heimi. What else is new? Mér finnst frekar ótrúlegt að þessi náungi ætli sér að "afsanna kenningar um eilíft líf". Finnst þér þessi náungi víðsýnn?

Hér er ágætis FAQ um þetta ketamín-fyrirbæri. Er ekki annars sú staðreynd að fjöldinn allur af fólki, þ.m.t. tugir Íslendinga, hafa horft á sjálfa sig liggjandi ofan frá, ágætis vísbending um það að vísindin eru ekki endilega komin neitt sérstaklega langt í því að útskýra hvað sem er? Jafnvel vísbending um það að við ættum ekki að loka eyrunum strax fyrir hugmyndum um hugsanir sem orku, orkustöðvar o.s.frv. ?

Er efahyggja etv. einhvers konar ný trúarbrögð, svipað og efnahagsleg frjálshyggja?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/09/03 13:01 #

"Mér finnst frekar ótrúlegt að þessi náungi ætli sér að "afsanna kenningar um eilíft líf". Finnst þér þessi náungi víðsýnn?"

Já og raunsær í þokkabót. Hvað er að því að hann geri afsönnunaratlögur að eilífu lífi? Það liggur í eðli vísindanna að prófa kenningar með afsönnunaratlögum.

"Er efahyggja etv. einhvers konar ný trúarbrögð, svipað og efnahagsleg frjálshyggja?"

Rökstyddu.


n.a.s. - 08/09/03 14:34 #

Mér finnst þetta allt saman frekar hæpið. Það er e.t.v. hægt að færa heimspekileg rök með og á móti eilífu lífi en vísindaleg? Þetta er svipað og að segja að af því það sé búið að sýna fram á að allt efni sé samsett úr atómum þá sé búið að afsanna möguleikann á andlegu lífi. Reyndar hef ég lært stjörnufræði og þá var einmitt verið að tala um að einhverjir vísindamenn væru búnir að reikna það út að það lægi í eðli "big bang" að hann myndi ganga til baka. Hvað segir það okkur um "upphaf tímans" ? Getur það ekki bent til þess að allt líf eins og það leggur sig sé bara ein eilíf hringrás? Jörðin snýst um sólina, veröldin þenst út og dregst saman aftur. Við sofum til að hvíla okkur á vökunni, við deyjum til að hvíla okkur á jarðlífinu og komum svo endurnærð til baka. Hvernig er hægt að sanna eða afsanna svona kenningu? Hér eru engu að síður ágætis vísbendingar um að endurholdgun sé staðreynd.

Ef þú hefur einhvern tíma reynt að rökræða við frjálshyggjumann þá ættirðu að skilja hvað ég er að fara. Rétttrúnaðarmaðurinn vill bara heyra rök öðru megin frá og hunsar allar vísbendingar um að hans hugmyndafræði standist ekki nánari skoðun. Ef raunveruleikinn hegðar sér ekki í samræmi við hugmyndafræðina þá er það bara verst fyrir hann sjálfan og ekkert við því að segja!

Ég er ekki að segja að þinn málstaður sé slæmur, en um leið og menn eru farnir að tala um að þeir að aðhyllist einhvern -isma (sbr. skepticism) þá er kominn til sögunnar einhver rétttrúnaður sem byrgir mönnum sýn. Ég trúi öllu en efast um leið um allt. Ég er sérstaklega tortrygginn á fjölmiðla einfaldlega vegna þess að ég hef séð hvernig þeir hafa tekið á fyrirtækjum og stofnunum sem ég hef tengst. Ég hlusta frekar á niðurstöður rannsókna og persónulegar reynslusögur. Og ég er ekki tilbúinn að kaupa það að allir sem hafa náð tökum á hugleiðslu og segjast hafa "upplifað guðdóminn" séu geðveikir, eða að allir sem hafa upplifað draugagang séu ímyndunarveikir, eða að berdreymi sé tilviljun. Ég aðhyllist frekar það viðhorf að leita eins nærtækra skýringa og mögulegt er, og helst þannig að skýringar stangist ekki á. Síðan efast ég passlega mikið um allt saman. Þannig er nú mín efahyggja og ég fæ ekki séð að hún sé eitthvað verri en þín.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/09/03 16:46 #

"...en um leið og menn eru farnir að tala um að þeir að aðhyllist einhvern -isma (sbr. skepticism) þá er kominn til sögunnar einhver rétttrúnaður sem byrgir mönnum sýn."

Ég held að öfugt við marga útsýnisturna á heiminn sé efahyggjan ekki organíseruð fræði. Að kalla þetta skepisisma er bara skilgreiningaratriði, eða er hægt að vera skeptískur án þess að flokkast undir skeptíker?

Ég er efasemdamaður "frá náttúrunar hendi" og þarf alls ekkert að leita í einhverjar bækur til að komast að því hvernig það útkikk á lífið skuli vera. Það er mér einfaldlega eiginlegt.

Vantrú getur ekki verið trúarbrögð frekar en það að spila ekki golf er íþróttagrein.


n.a.s. - 08/09/03 17:43 #

Takk fyrir skemmtilegt spjall. Vonandi hef ég sýnt einhverjum fram á að það er hægt að trúa hlutum með fyrirvara og efast um annað, án þess að hafna öllu sem öll trúarbrögð hafa fram að færa.

Ég trúi því nefnilega að kjarni þeirra allra sé sá sami, en um leið tel ég að skipulögð trúarbrögð séu helsta böl mannkyns, rétt eins og þú.


hang - 09/09/03 23:59 #

Ég sé að þú ert að vitna til rannsókna Dr Blakes sem hafa sýnt sig við nánari skoðun að vera óvísindalegar og og gerðar til að fá ákveðna niðurstöðu. 1.Honum "tókst" aðeins í eitt skifti að kalla fram out of body experience eftir margra ára rannsóknir á fyrirbærinu. 2.Einstaklingurinn greindi frá því að hann sæi fætur sína í tvígang eftir að dr Blake hafði hvatt hann til að horfa á fætur sína.Viðkomandi sá ekki aðra líkamshluta sína sem er Óþekkt í frásögnum manna af OBE. 3.Frásögnin var óskýr og óraunveruleg sem er alls ekki einkenni þegar um venjulegt OBE er að ræða. Það er því ekkert sem bendir til þess að um sambærilega hluti sé að ræða.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/09/03 09:15 #

Fréttin sem ég held á lofti til er ársgömul og því hljóta þær upplýsingar sem þú býrð að að vera glænýjar. Ertu með vefslóðir eða einhverjar aðrar vísanir svo ég geti kynnt mér þetta betur?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.