Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Óviðurkvæmilegir tilburðir

Ég held það sé nokkuð raunrétt lýsing á ástundun trúarbragðanna að kalla hana afkáralega hegðun í krafti óraunhæfra hugmynda. Allt þetta bænaþus með augun kreppt aftur af innri áreynslu, þykjustu mannátsveislur, lotning og knékrjúp og viljalaust "drottinn, heyr vora bæn", tákossar og jarðarkossar, að liggja með rassinn upp í loft í áttina að Mekka... Það þarf ekki annað en skoða þetta í mannfræðilegu ljósi til að sjá hve útúrgeggjað þetta allt er.

Þetta er allt saman svo augljóslega sprottið af virkri skilyrðingu aftan úr forneskju, þessari kerfisvillu mannshugans að halda að hann geti haft áhrif á náttúruöflin með hegðun sinni. Og þegar forsendur þessarar hegðunar eru ljósar og almennt kunnar er í raun alveg ótrúlegt að menn skuli enn vera að hafa þessi fíflalæti í frammi.

Maður skilur svo sem fólk í vanþróuðum löndum sem ekki hefur aðgang að þessari vitneskju, en prestar og safnaðarforingjar hér á vesturlöndum hafa ekkert sér til afsökunar þegar þeir birtast frammi fyrir fólki og segja "vér skulum biðja!"

Og í krafti þessarar vitneskju eigum við ekki að líta á trúboð í skólum, barnaheimilum og sumarbúðum sem sjálfsagðan hlut. Ef við ætlum að telja okkur viti borið, hugsandi og upplýst fólk eigum við að krefjast þess af fullum þunga að þessari fáránshegðun sé haldið til hlés og hún framkvæmd fyrir luktum dyrum.

Þessi apalæti trúarbragðanna geta nefnilega sært blygðunarkennd hinna vantrúuðu líkt og gróft klám ógnar hinum sanntrúðu. Þetta ættu framlínumenn trúarbragðanna að hugleiða næst þegar þeir gera sig líklega til að hafa í frammi trúarlega tilburði á almannafæri.

Birgir Baldursson 02.09.2003
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )