Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Forréttindablinda Þjóðkirkjunnar

Merki ríkiskirkjunnar

Nýlega hafa þrjár greinar um Þjóðkirkjuna birst á íslenskum vefmiðlum. Allar líta fram hjá því grundvallaratriði í trúmálum á Íslandi að hér nýtur ríkiskirkjan forréttinda og stundar yfirgang.

Afneitun á forréttindum

Í grein presthjónanna Árna Svans og Kristínar Þórunnar afneita þau fjárhagslegum forréttindum kirkjunnar. Þau fullyrða að ríkið myndi ekki spara milljarða á aðskilnaði ríkis og kirkju og halda því um leið fram að greiðslur ríkisins til kirkjunnar "hvíli á samningi sjálfstæðra aðila".

Minnihluti fjárframlaga ríkisins til Þjóðkirkjunnar byggir á samningum. Stærsti hluti er framlög í formi sóknargjalda, greiðslur í kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna. Þessi framlög byggja ekki á samningum og þarna gætið ríkið sparað hátt í þrjá milljarða.

Afneitun á yfirgangi

Í grein Grétars Halldórssonar, starfsmanns Kjalarnesprófastsdæmis, veltir hann fyrir sér hvað orsaki pirring út í kirkju og kristni.

Niðurstaða hans er að andstæðingar Þjóðkirkjunnar séu haldnir trúarþörf sem þeir ná ekki að fullnægja. Kirkja og kristni minna þá á þessa óuppfylltu þörf og þess vegna ráðast þeir á kirkjuna. Þetta kallar Grétar “andlega brundstíflugremju".

Hann íhugar stuttlega hvort ástæða reiðinnar gæti annars vegar verið sú að ríkiskirkjan sé "einhver hræðilegasta stofnun sem algeimurinn hefur fætt af sér" eða þá hvort ástæðan sé að á Íslandi séu trúleysingjar skattlagðir sérstaklega í formi sóknargjalda.

Seinni tilgátan er afskrifuð með þeim rökum að sóknargjöld séu einungis tíu þúsund krónur á ári. Trúleysingjaskatturinn er ekki svo hár að hans mati að það útskýri andstöðuna við kirkjuna. Ef það væri tíu þúsund króna "konuskattur" á Íslandi myndu flestir skilja að konur væru "sótbrjálaðar" og kæmu ekki með langsóttar útskýringar um typpaöfund. Enn frekar ef að “Þjóðkarlafélagið" myndi opinberlega verja “konuskattinn" á sama hátt og ríkiskirkjan hefur barist gegn afnámi trúleysingjaskattsins.

Þó ríkiskirkjan sé að sjálfsögðu ekki einhver hræðilegasta stofnun sögunnar (enginn hefur haldið því fram), er nóg af ástæðum fyrir reiði í garð ríkiskirkjunnar sem Grétar mætti íhuga áður en hann fer út í vafasamar sálgreiningar. Hér eru þrjár:

  1. Ríkiskirkjan nýtur forréttinda í landslögum, þar með talið í stjórnarskrá og fær hlutfallslega meiri pening frá ríkinu en önnur trúfélög. Það er óverjandi ástand sem talsmenn ríkiskirkjunnar ýmist afneita eða reyna að réttlæta.

  2. Ríkiskirkjan hefur staðið í vegi fyrir framförum á sviði mannréttinda. Síðast voru það réttindi hinsegin fólks. Ríkiskirkjan tafði setningu einnar hjúskaparlaga um mörg ár. Núna láta talsmenn kirkjunnar eins og kirkjan hafi verið í fararbroddi.

  3. Ríkiskirkjan lætur börn annarra ekki í friði. Hún hefur markvisst reynt að troða sér í opinbera leik- og grunnskóla með trúboð sitt. Það er mitt mat að stór hluti þeirra sem ganga í Vantrú gera það einmitt eftir að hafa upplifað svona yfirgang.

Afleiðing afneitunarinnar

Óttar Guðmundsson kvartar undan "árásum" á Þjóðkirkjuna í grein sinni. Hann reynir “ekki að troða trú [sinni] upp á nokkurn mann” og vill fá að “hafa hana í friði fyrir öllum þessum besserwisserum sem vita hvað öllum er fyrir bestu".

Það sem Óttar virðist ekki skilja er að trúleysingjar fá ekki frið fyrir trú kirkjunnar hans og að henni er sannarlega troðið upp á þá sem ekki aðhyllast hana, eins og sést á upptalningu minni hér á undan. Á meðan yfirgangur og forréttindi ríkiskirkjunnar eru við lýði getur Óttar ekki búist við því að fólk “ráðist" ekki á kirkjuna.

Víðtækari vandi

Þessar þrjár greinar eru birtingarmynd á stærri vanda. Ríkiskirkjufólk er blint á eigin forréttindi og telur jafnvel að þau séu sjálfsögð. Þegar aðrir kvarta undan forréttindunum og þau jafnvel tekin af kirkjunni, þá bregðast þau ókvæða við og upplifa það sem “árásir”.


Birtist upphaflega á Kjarnanum.

Hjalti Rúnar Ómarsson 03.02.2016
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?