Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hlýða eða hýða?

Biblían segir ýmislegt um barnauppbeldi, og sumt af því er alveg ágætt. Annað sem þar er að finna um það efni er hins vegar afar skaðlegt. Einkum að það sé eðlilegur og sjálfsagður hlutur að foreldrar beiti börn ofbeldi. Sumir hafa notað Biblíuna til að réttlæta ofbeldi gegn börnum, og er það engin furða. Ein vinsælasta bók Gamla testamenntisins meðal kristinna manna, Orðskviðirnir, segir t.d. eftirfarandi:

Sparaðu eigi aga við sveininn, því ekki deyr hann þótt þú sláir hann með vendinum. Þú slærð hann að sönnu með vendinum, en þú frelsar líf hans frá Helju.

Orðskviðirnir 23:13-14

Við getum lesið um það í Orðskviðunum 19:18, að menn eigi að aga syni sína, en þó passa sig á því að aga þá ekki of mikið. Þá deyja börnin. Augljóslega er ögunin sem hér er átt við einhverskonar líkamlegt ofbeldi. Of mikil ögun (ofbeldi) veldur dauða. Að vísu eru nokkur dæmi um það í Biblíunni að „ögun“ eigi beinlínis að vera banvæn. Sá sem bölvar föður eða móður skal líflátinn (3. Mós 20:9), og sá sem slær (lýstur í ‘81 þýðingunni) föður sinn eða móður skal líflátinn (2. Mós 21:15). Í 5. Mósebók 21:18-21 segir að eigi maður þrjóskan og óþekkan son sem hvorki hlýðir föður né móður, jafnvel þótt sonurinn sé „hirtur“, skuli faðir og móðir drengsins taka hann og færa fyrir öldunga borgarinnar og segja: „Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og hlýðir ekki áminningum okkar. Hann er ónytjungur og svallari.“ Að því búnu áttu allir karlmenn í borginni grýta drenginn til bana. Það var eins gott að hlýða mömmu og pabba þegar lög Biblíunnar giltu, annars var maður drepinn. Eða svo vitnað sé í fimmta boðorðið af boðorðunum tíu:

Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.

2. Mósebók 20:12/ 5. Mósebók 5:16

Sindri G. 20.09.2009
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Ásta Elínardóttir - 20/09/09 13:32 #

Mér finnst þessir ritningarstaðir einmitt svo hentugir í skírnar og fermingarkort sem ég gef frá mér er ég er boðin á þess háttar viðburði.


Baldur - 21/09/09 10:34 #

"Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér."

Þetta er hótun sem er soldið krúttlega sett fram, dálítið eins og að segja "Ef þú klárar matinn þinn þá lifirðu nógu lengi til að fá eftirrétt. :)"

Hljómar ágætlega fallega þangað til maður pælir hvað gerist ef maður hlýðir ekki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.