Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Strategískar ráðleggingar handa Þjóðkirkjunni II: Rætur vandans

Ímynd Þjóðkirkjunnar er í kaldakoli. Klúðrið í kring um Vinaleið er ekki einstakt, heldur hluti af heilu mynstri kerfisbundins klúðurs sem gengur yfir kirkjuna þvera og endilanga. Klúður þetta ber allt að sama brunni: Þjóðkirkjan er að upplifa það sem nátttröllin upplifðu fyrir nokkrum öldum síðan – hana er að daga uppi. Aukin menntun, bætt lífskjör og aðrar framfarir hafa valdið því að æ fleiri landsmenn komast á þá skoðun á guð sé ekki til. Þegar þeirri stoð er kippt undan kirkjunni hljóta menn að spyrja hvaða aðrar stoðir séu þá eftir. Hvaða aðra ástæðu hefur kirkjan til þess að vera yfir höfuð til?

Hvaða trúfélag sem er væri fullsæmt af því að hafa 10-20% landsmanna innanborðs, eins og ég hef áður sagt. Þjóðkirkjan reynir að þóknast öllum, en þóknast á endanum fáum, og fyrir vikið hrynur af henni fylgið. Afstaðan til samkynhneigðra er frábært dæmi um þessa gegnumgangandi ímyndarklípu. Hvað veldur því að kirkjan hefur ekki getað brugðist við verkefni sínu af skýrari stjórnlist en raunin er? Ýmislegt getur valdið – og auðvitað eru þættirnir margir og samverkandi – en spilling og græðgi koma ósjálfrátt upp í hugann. Ótrúlegt en satt, þá geta prestar bæði verið spilltir og gráðugir – hvort sem er upp á gamla mátann eða með óbeinni hætti, enda eru þeir bara mennskir.

Það er offramboð á prestum. Háskóli Íslands útskrifar fleiri guðfræðinga en þarf til að sinna eftirspurninni, svo að kirkjan grípur hverja smugu til að koma sínum mönnum einhvers staðar að. Þar sem kirkjusóknirnar eru þétt setnar fyrir, eru stofnuð embættisskrípi sendiráðsprests, Kanaríeyjaprests, Miðborgarprests og skóladjákna, og meira að segja hefur verið rætt um fyrirtækjapresta. Eftirspurn eftir prestum er auk þess haldið uppi með gerfiþörf sem mundi minnka til muna ef t.d. veraldleg (og fagleg) hjónabandsráðgjöf stæði til boða án endurgjalds. Það er alltaf erfitt fyrir stofnanir að skera niður innviðu sína, hver er reiðubúinn að samþykkja aðgerðir sem geta kostað hann sjálfan vinnuna?

Ég held að það sé ekki ofmælt að kalla það spillingu, þegar einstakir embættismenn óttast svo um sína eigin vinnu að þeir leggja stein í götu nauðsynlegra aðgerða til að bjarga stofnun þeirra frá falli. Og ég held að það sé ekki ofmælt heldur að kalla það græðgi, þegar stofnun þröngvar sér inn á svið sem aðrir gætu sinnt betur og smokri sínum mönnum að kötlunum, hvar sem ekki er harðlæst. Það hefur meðal annars sitt að segja um hvernig þeir sitja um að komast á laun hjá grunnskólunum. Það er ljóst að það má fækka prestum mikið án þess að neinn fari að taka eftir sérstökum skorti á þeim. Í leiðinni gætu þeir hleypt sérfræðimenntuðum hjónabandsráðgjöfum, skólasálfræðingum og siðfræðikennurum að. Stofnunin er treg til að sjá á bak starfsmönnum sínum og milljarða fjárframlögum – skiljanlegt, en það er hollara að sætta sig strax við hið óumflýjanlega og byrja að laga sig að því.

Þessi grein er framhald af greininni Opnið augun sem birtist í gær. Frekara framhald birtist á föstudaginn.

Vésteinn Valgarðsson 14.03.2007
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/03/07 08:11 #

Til eru prestar sem gera sér einmitt ljósa grein fyrir þessu. Einn af þeim er Óskar á Akureyri. Í framhaldi af slæmri útreið kirkjunnar í Kompásþætti sagði hann.

Vinaleiðin var í umræddum þætti nefnd sem dæmi um örvæntingafulla varnarbaráttu þjóðkirkjunnar. Hugmyndin um Vinaleið er góð, einkum ef hún er alfarið framkvæmd á forsendum skólanna en hitt er ljóst að þjóðkirkjan hefur orðið undir í umræðunni um Vinaleiðina og þar verður hún að hugsa sinn gang. Einnig hefur einkennileg framganga þjóðkirkjunnar í málefnum samkynhneigðra ekki beinlínis verið ímyndarbætandi fyrir hana.


Sindri Guðjónssno - 14/03/07 16:34 #

Vésteinn: "Ímynd Þjóðkirkjunnar er í kaldakoli"

Ég er ekki alveg viss um að ég geti tekið undir þetta. Ég hef ekki orðið var við mikla neikvæðni í hennar garð, nema hér á vantrú. Hefur ekki verið spurt um þjóðkirkjuna í einhverjum viðhorfskönnunum nýverið? Hvernig kom hún út?


Kristín Kristjánsdóttir - 14/03/07 17:36 #

Í könnun Capacent frá því í febrúar síðastliðnum þá ber einungis 52% þjóðarinnar traust til Þjóðkirkjunnar. Ef til vill er hægt að fullyrða það að 52% sé ákjósanleg útkoma þar sem 80% þjóðarinnar eru skráð í hana en ef kannanir eru skoðaðar aftur í tímann þá má glögglega sjá að traust til kirkjunnar virðist vera á hægri en öruggri niðurleið. Háskólinn, lögreglan, heilbrigðiskerfið og umboðsmaður alþingis kemur allt betur út heldur en þjóðkirkjan úr þessari könnun og hefur traust til bæði lögreglunnar og heilbrigðiskerfisins aukist undanfarin ár á meðan það hefur dalað hjá kirkjunni.

http://www.capacent.is/?PageID=762&NewsID=723


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 14/03/07 20:16 #

Góður punktur Kristín...


Berglind (meðlimur í engu) - 14/03/10 23:25 #

Svo deyr amma gamla og útförin fer fram í kirkjunni - presturinn jarðsyngur og allir sáttir. Svo er amma sett í kirkjugarðinn - líka allir hinir.

Harðkjarna trúleysingjar laumast til að láta biðja fyrir sér og sínum á ögurstundum.

Við þurfum ekkert að trúa þegar vel árar, fátækir og sjúkir liggja á bæn.

Ríkisreknir prestar finna hjá sér undarlega þörf til að heimsækja sóknarbörn þegar sorgaratburðir henda þau. Ríkisreknir aðrir bíða eftir að hjá þeim sé pantaður tími.

Það eru tvær (eða fleiri) hliðar á öllu, líka Vantrúuðum. Þeir, eins og aðrir láta prestinn jarða ömmu gömlu - laumast líka til að biðja til guðs þegar öll ráð eru úti og allt er vonlaust og koddinn orðinn tárvotur - hver kannast ekki við það? Það er bara mannlegt.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 14/03/10 23:50 #

Berglind,

Harðkjarna trúleysingjar laumast til að láta biðja fyrir sér og sínum á ögurstundum.

Ég veit ekki hvort ég er "harðkjarna trúleysingi", en ég laumast ekki til neins slíks og á ekki von á að ég muni gera það.

Horfðu á myndina Touching the void. Þar var maður sem hafði fulla ástæðu til að biðja um alla hjálp sem honum bauðst, og ekki bað hann til guðs, eða svo segir hann a.m.k.

En nei, ég held að þú sért að gefa þér rangar forsendur. Trúleysingjar eru ekki upp til hópa trúaðir í laumi, það hef ég allavega hvorki reynt né orðið var við.

Átt þú mjög erfitt með að ímynda þér að sumt fólk finni sér huggun og traust í öðrum hugmyndum en trúarlegum hugmyndum?


Berglind - 15/03/10 00:37 #

Sei sei, engar forsendur hér. Hef bara séð fólk í ákaflega margbrotnum kringumstæðum. Gef mér ekkert fyrirfram - er fyrst áhorfandi - spyr síðan spurninga. Set spurningamerki við allt.

Trú eða vantrú - hugarástand sem breytist með kringumstæðum. Ekkert heilagt í þeim efnum. Þetta kemur og fer hjá fólki, eins og vindurinn. Erfiðast er að ætla sér einhverja heljarinnar sannfæringu í hvora áttina sem er og þurfa svo að rembast við að sannfæra aðra :-)

Hef hingað til ekki séð neinn jarða ömmu sína nema skutla henni fyrst inn kirkjugólfið. Það er svo sem ekkert að spá í trúarbrögðin í þessu ritúali - þetta er meira bara svona vani.

Að leita sér huggunar í einhverju sem hver og einn trúir á að veit hana -er trú í sjálfu sér. Sama á hvað er trúað - getur verið einn Egils Gull þess vegna.

Best að vera bara slakur. Að taka þetta of hátíðlega snýst á endanum upp í andstæðu sína og sannfæringin verður að trúarbrögðum. Og þá er allt komið í hring. Vantrú er sosum ekkert að finna upp hjólið frekar en aðrir sannfærðir - og ekki sannfærðir.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 15/03/10 02:19 #

Æji, Berglind. En krúttlegt.

Þekkirðu marga trúaða einstaklinga sem hafa ferðast frá kristni í búdda þaðan í mormóna og aftur þaðan í eitthvert annað? Þekkirðu mikið af fólki sem bara segir frá degi til dags "Æji, þessi trú hentar mér ekkert, ég ætla að prófa eitthvað annað" einsog sumt fólk talar um megrunarkúra?

Finna upp hjólið? Það er búið að finna upp hjólið. Það eru samt sem áður til mismunandi lélegar útgáfur af hjólinu, en mér finnst hjól sem er kringlótt og fer í hringi oftast virka best.

Túlkaðu þetta einsog þú vilt Berglind.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 15/03/10 07:28 #

Hef hingað til ekki séð neinn jarða ömmu sína nema skutla henni fyrst inn kirkjugólfið.

Þangað til fyrir fyrir stuttu var einfaldlega ekkert annað í boði.

En nú getur fólk fengið slíka þjónustu frá hinum ýmsu trúfélögum, og nú undir hið síðasta jafnvel útfarir ótengdar trúarrögðum. sjá http://sidmennt.is/veraldlegar-athafnir/utfor/


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 15/03/10 08:29 #

Berglind,

Að leita sér huggunar í einhverju sem hver og einn trúir á að veit hana -er trú í sjálfu sér. Sama á hvað er trúað - getur verið einn Egils Gull þess vegna.

Það er enginn að berjast gegn því að fólk noti hugmyndina um guð sem hækju þegar mikið mæðir á. Slíkt er persónuleg trú og þarfnast ekki regluverks eða trúarrita, skólatrúboðs eða sunnudagaskóla.

Því einmitt eins og þú sgir getur fólk huggað sig við eitt og annað og kennt börnum sínum slíkar hugmyndir ef það vill - það er bara ekki eitthvað sem á að gerast í skólakerfinu.

En orðið trú í þínum meðförum, Berglind, hefur enga merkingu. Ef hvert það hugarastand sem fólk kemst í við sorg og áföll er trú, þá er allt trú og það hefur takmarkaðan tilgang að tala þannig um hlutina.

Tökum sjálfan mig sem dæmi. Mitt fyrsta barn fæddist með genagalla sem veldur því að strákurinn minn var blindur frá fæðingu. Það var mér dálítið áfall og ég gekk í gegnum heilmiklar tilfinningar: sektarkennd, sorg og fleira.

Seinna fæddi konan mín andvanda stúlku eftir rúnlega 20 vikna meðgöngu. Það þótti mér líka mjög sárt, sérstaklega þar sem það tók svo á konu mína.

Við erfiðar aðstæður verður mér alltaf hugsað til eymdarinnar sem fólk um allan heim hefur upplifað og hversu lítilfjörleg mín áföll eru í samanburði. Ég lít því svo á að ég geti varla leyft mér annað en að reyna að halda í jákvæðinina og gera gott úr hlutunum.

Þér kann að finnast þetta þunn heimspeki, en mér þykir þetta allavega lítið eiga skylt við trú á guð eða Egils Gull.

Ég er alls ekki að ætlast til að allir hugsi eins og ég, en mér þykir ljóst að fyrst ég þarf ekki þessar trúarhugmyndir, þá þurfa þær ekki allir - því svo merkilegur er ég ekki að ég sé einn um að geta hafnað þeim.

Í ljósi þess m.a. er ég á móti trúboði, því þar er verið að upphefja undarlegar hugmyndir sem sannleik, sem við þó vitum ekkert um hvort eru sannar.


Berglind - 15/03/10 17:25 #

Skrif í bloggheimum hafa svo ósköp takmarkaða vigt nema eingöngu sé verið að skiptast á beinhörðum upplýsingum - án túlkunar.

Las til að mynda heljarinnar rökræður á Vantrú um glærur í HÍ og þá var skrattanum skemmt - fyrir utanaðkomandi logaði þetta allt í misskilningi og ætluðum meiningum á báða bóga. Og sumir sárir. Augliti til auglitis hefði orðræðan án efa farið í aðra átt - áttir. Hver veit. En þið eruð brennandi í andanum, það leynir sér ekki :-)

Hið skrifaða orð án túlkunar, líkamstjáningar, raddblæs o.fl. hefur löngum orðið mönnum ljár í þúfu og líkt og ágætur pistill (man ekki nafnið) um skilning fólks á Biblíunni - er sama hvað ritað er. Við leitum að staðfestingu á því sem við viljum trúa. Sjáum það sem við viljum sjá. Þá er sama hvort biskupinn les biblíuna sína eða Vantrúarmenn vangaveltur Berglindar um lífið og tilveruna.

Af öllu hjarta votta ég þér, Kristinn, samúð mína. Það er talsvert lagt á herðarnar á litla manninum að fæðast blindur. Líka fyrir ungu konuna og þig að missa ófætt barn. Ekki þykir mér heimspeki þín þunn, þykir ekkert þunnt sem kemur beint frá hjartanu. Það er svo sannarlega öðru nær.

Held áfram að rölta um og efast um allt - sé nýjar hliðar á lífinu á hverjum degi, enda gömul ósvífin kerling í sveit þar sem líf og dauði tefla stöðuga skák, fæðing og förgun, gleði og sorg - trú, hjátrú og efasemdir partur af daglegu brauði og dásamleg flóra mannlífsins, allt frá hinni mestu eymd til mestu mannvirðinga gistir í rúmunum mínum og borðar af diskunum mínum.

Það sem fær mann helst til að hrökkva við og endurskoða afstöðu sína eru oftast tilviljanirnar í lífinu (sem sumir kalla auðvitað forlög) Maður er svoddan hélustrá.


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 15/03/10 23:17 #

Sæl Berglind,

Skrif í bloggheimum hafa svo ósköp takmarkaða vigt nema eingöngu sé verið að skiptast á beinhörðum upplýsingum - án túlkunar.

Ég met þetta sem svo að þú sért að ergja þig á að Egils Gull athugasemdin hafi ekki skilist sem glettni hjá þér.

Ég náði því þó alveg, en skildi jafnframt að þú vilt gera sem minnst úr muninum á forsendum og hvatningu fólks til að tala um hluti á trúarlegum nótum. Ég vil hinsvegar meina að sumar nótur séu einfaldlega ekki trúarlegar, og dálítið betri og sannari fyrir vikið - ég er tilbúinn að fallast á annað ef rökin eru góð.

Þakka þér fyrir samúðina, ég efast ekki um að hún er einlæg. Það var þó ekki ætlun mín með frásögn minni að fiska slíkar tilfinningar, heldur að benda á að áfallalaus ævi er ekki forsenda trúleysis, eins og fólk virðist oft halda - en ég viðurkenni að mín skakkaföll eru ekki stærri en annarra, eða öllu heldur að maður setur ekki mælieiningu á slíkt. Ég er a.m.k. alls ekki að reyna að gera mikið úr þeim.

Mér sýnist þú, af molunum sem þú lætur falla, vera nokkuð víðlesin á vefritinu Vantrú og sýnist þú jafnframt vera áhugaverð kona. Við megum þakka fyrir lesendur eins og þig, svo segðu okkur endilega sem oftast til syndanna.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 17/03/10 12:34 #

Fólk sem hefur menntun og mat og annað sem það þarf, það er upp til hópa sinnulaust um trúmál, ekki trúlaust. Ef það laumast til að biðja til gvuðsa þegar eitthvað bjátar á, þá er það því oftast ekki að stelast frá trúleysi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.