Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ritstjórapistill: Áhugaverð vika

Í þetta sinn ætlar ritstjóri Vantrúar að líta yfir vikuna að stíl James Randi enda er ástæða til. Vikan hefur verið spennandi að mörgu leyti. Í tilvitnanabókum má oft finna kínverskt máltæki sem einnig er flokkað sem bölvun. Það er eitthvað á þessa leið: Megir þú lifa á áhugaverðum tímum.

Síðasta sunnudagsmorgun vaknaði ég örugglega um ellefuleytið. Engin ástæða til að vakna fyrr, ekki mín helgi í vinnunni og ekki var ég á leið í messu. Það sem beið mín voru skilaboð um að hlusta á þáttinn Lóðrétt eða lárétt sem hafði verið á dagskrá Rásar 1 fyrr um morguninn. Ég náði í þáttinn á netinu og hlustaði gáttaður á Pétur Pétursson guðfræðiprófessor nefna tölur um trúarskoðanir þjóðarinnar sem ekki pössuðu við þær upplýsingar sem finna má í nýbirtri rannsókn sem Pétur sjálfur stóð að.

Nú halda sumir að nú hafi trúleysinginn verið glaður að hafa eitthvað til að hanka guðfræðinginn á en það var ég raunar ekki. Ég var í raun frekar sorgmæddur. Áður en ég heyrði þennan útvarpsþátt hafði ég haft töluvert álit á Pétri sem fræðimanni en það hvarf við þessa hlustun. Það var hins vegar ljóst að við gátum ekki hunsað þennan málflutning Péturs og því fór sem fór. Þegar þetta mál er skoðað þá vaknar óneitanlega sú spurning hvernig fjölmiðlar hefðu brugðist við ef Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefði verið að tala um stjórnmálaskoðanir en ekki Pétur Pétursson að tala um trúarskoðanir. Það er ekki sama hvort það er Jón eða séra Jón.

Í vikunni hef ég birt úttektir mínar á þeim niðurstöðum sem þjóðkirkjan, Pétur og fjölmiðlar hafa ekki haft hátt um. Það hlýtur að teljast stórfrétt að að minnsta kosti fjórðungur þjóðarinnar sé guðlaus. Önnur stórfrétt er sú að einungis 53% meðlima þjóðkirkjunnar játi kristna trú. Þessi tala er að sjálfssögðu ákaflega mikilvæg þegar rætt er um aðskilnað ríkis og kirkju.

DNA-heilun er annað mál sem kom upp í vikunni. Það eru reyndar nokkrir mánuðir síðan að við á Vantrú bentum á þetta kjaftæði. Það sem gerði þetta mál sérstakt var að bæði Fréttablaðið og Kastljósið tóku sig til og fengu sérfræðinga til að svara skottulækninum. Eftir Kastljósþáttinn þá féllu ófáir brandarar um DNA-heilun. En því miður eru skottulækningar ekki bara aðhlátursefni. Þetta er raunverulegt vandamál. Vonandi hafa fjölmiðlar komist á það stig að greinar um skottulækna eru ekki þægilegt uppfyllingarefni heldur alvöru mál sem snúast um líf og dauða.

Ég get ekki spáð um hvert framhaldið verður í þessum málum en það er að minnsta kosti ljóst að við lifum á áhugaverðum tímum...

Óli Gneisti Sóleyjarson 13.11.2005
Flokkað undir: ( Leiðari )